miðvikudagur, september 30, 2009

30. september 2009 - Vandræði með bifreiðar!

Eins og öllum sem þekkja mig er kunnugt, er ég helst þekkt fyrir að fara ótroðnar slóðir í lífinu og stundum gegn því sem talið er sjálfsagt og gott. Þegar kreppan var að komast í hámark, ellefu mánuðum eftir hrunið, keypti ég mér bíl. Það er auðvitað allt gott og blessað að kaupa sér Grand Cherokee með stórri vél þegar haft er í huga að ég held áfram að ganga í vinnuna og ek aðeins 5000 km á ári, en samt, það er kreppa í landinu.

Um daginn var ég að keyra Lyngdalsheiðina og í öllum hristingnum fór framljósapera og ég sem þoli ekki að vera á eineygðum bíl. Þegar ég komst að ljósaleysinu, renndi ég við á bensínstöð til að kaupa nýja framljósperu, en starfsfólkið þar hristi bara hausinn, vissi ekkert hverskonar pera ætti að vera í svona bíl. Ég ákvað þá að skoða peruna, en við athugun á bílnum virtist það ekkert áhlaupaverk að skipta um peruna, rafgeymirinn fyrir aftan og mikill bálkur fyrir ofan ljósastæðið. Mér fellust hendur og sá að peruskiptin yrðu meiriháttar mál, greinilega verri en á Toyotu þar sem rífa þarf rafgeymirinn í burtu þegar skipt er um peru, og sló peruskiptunum á frest.

Ég spurði tvo vinnufélaga mína sem eiga svipaða bíla, hvernig ætti að skipta um peruna, en hvorugur vissi. Ekki var mikið gagn að bæklingnum sem fylgdi bílnum, því hann var á frönsku og ég bölvaði mér í sand og ösku fyrir að hafa ekki keypt bílinn þegar Kristín vinkona mín „Parísardama“ var á landinu í sumar.

Allt í einu datt mér eitt þjóðráð í hug. Jóel æskuvinur minn hlýtur að vita af svona bækling, enda búinn að vinna við bílavarahluti í fjölda ára og er nú hjá Bíljöfri eftir að Ræsir lagði upp laupana. Ég sendi honum skeyti og spurði um slíka gersemi sem bæklingur fyrir svona bíl er á tungumáli sem ég skil. Ekki stóð á svörum og hann kvaðst eiga einn slíkan í vinnunni sem ég mætti fá.

Í dag renndi ég við hjá Bíljöfri, hitti Jóel og fékk bæklinginn, notaði tækifærið um leið og spurði hvernig ætti að skipta um framljósaperu á svona bíl.
„Ekkert mál, komdu bara inn með bílinn“.
Ég renndi inn með bílinn og einn starfsmaðurinn náði í topplykil og losaði eina langa skrúfu sem lá í gegnum allt ljósastæðið. Þar með losnaði ljósastæðið og eftir það gekk fljótt og vel að skipta um peruna og ég ók í burtu með öll ljós í lagi fyrir sárafáar krónur og þakklæti í huga.

Stundum borgar sig að spyrja ráða fremur en að rífa bílinn í sundur fyrir lítið verk.

þriðjudagur, september 29, 2009

29. september 2009 - Greiðsluverkfall?

Þegar ég var á leiðinni út áðan tók ég eftir því að búið var að troða bunka af miðum í póstkassann hjá mér. Ég fór að athuga miðana og reyndust þeir allir eins, þ.e. áskorun frá Hagsmunasamtökum heimilanna um greiðsluverkfall. Ég hirti einn miðanna til athugunar, en henti hinum.

Mig vantar meira kjöt á beinin frá þessum furðusamtökum. Af hverju á ég að taka þátt í uppreisn gegn kerfinu án neinna hugsjóna? Það má auðvitað fara í uppreisn til að krefjast niðurfellingar skulda minna, en það er ekki hugsjón heldur útópía og dagdraumar. Það dettur engri heilvita manneskju til hugar að fá heilu húsin og bílana frítt. Hitt atriðið sem kemur fram í áskorun þessara hagsmunasamtaka er óskin um uppsögn greiðsluþjónustu og á greiðslukortum bankanna. Til hvers? Er þetta til að koma óskipulagi á fjármál mín? Ég er mjög sátt við greiðsluþjónustu bankans míns sem og kortin mín og sé enga ástæðu til að breyta neinu þar þótt ég geti vel hugsað mér einhverja vaxtalækkun á skuldirnar mínar.

Af einhverjum ástæðum fæ ég það á tilfinninguna að Hagsmunasamtök heimilanna séu að reyna að skapa enn meiri upplausn í þjóðfélaginu en orðið er sem leiðir af sér tækifæri fyrir hrunflokkana að taka yfir, eða þá grundvöll fyrir öfgahópa á sama hátt og átti sér stað í Þýskalandi á þriðja áratug síðustu aldar.

Nei takk, ekki ég!

mánudagur, september 28, 2009

28. september 2009 - Estonia



Það eru liðin fimmtán ár og ég man það eins og það hefði gerst í gær. Ég var á næturvakt í orkuverinu þar sem ég vann í Stokkhólmi og rétt nýkomin frá ferð til Eystrasaltslandanna Eistlands og Lettlands, en þangað hafði ég farið ásamt góðum vinum.

Einhverntímann um miðja nótt, þegar ég hafði rétt lokið við pannrundan, þ.e. eftirlitsferð með þeim kötlum sem voru í gangi, fór ég upp í setustofu. Menn sátu þar og enginn sagði neitt. Sjónvarpið var í gangi og textinn sem rann yfir skjáinn minnti helst á eftirtexta eftir einhverja kvikmynd.

Eitthvað spennandi, spurði ég, en enginn svaraði. Ég fór að horfa á sjónvarpsskjáinn og sá að textinn var enginn eftirtexti kvikmyndar, heldur rammasta alvara. Ég settist með hinum og sagði ekki orð frekar. Það var verið að segja nýjustu fréttir af þessu hræðilega slysi þar sem 852 manneskjur fórust, versta slys í sögu Norðurlandanna.

Það er of langt mál að ætla sér að rekja þennan hræðilega atburð og minnast þess fólks sem fórst með skipinu. Þó get ég ekki látið hjá líða að rifja upp eitt smáatvik. Þegar listinn birtist með nöfnum þeirra sem fórust með Estonia, kannaðist ég lítillega við eina konu af finnskum ættum sem fórst með skipinu. Hún starfaði á lögreglustöðinni í Jakobsberg og hafði verið mér innanhandar í tveimur tilfellum þar sem ég þurfti að tilkynna innbrot í bíl og síðar stolinn bíl. Nokkrum vikum áður hafði ég hitt hana er ég þurfti að endurnýja vegabréfið mitt vegna ferðar minnar til Riga og Tallinn. Þá sagði hún mér frá ætlaðri fundarferð sem starfsfólk lögregluembættanna væri að fara með Estonia. Það reyndist vera hennar síðasta ferð í lífinu.

Ég er löngu búin að gleyma nafni nágrannakonu minnar, en minnist hennar þess í stað iðulega þegar ég heyri ferjuna Estonia nefnda.

sunnudagur, september 27, 2009

27. september 2009 - Ríkidæmi?

Árið 1993 voru ríkustu 1% Íslendingarnir með um 4% hlutdeild í ráðstöfunartekjum íslensku þjóðarinnar. Fjórtán árum síðar var þessi tala komin upp í 20%. Á þeim tíma voru ríkustu 10% þjóðarinnar með 40% af ráðstöfunartekjum þjóðarinnar sem aftur þýðir að hin 90% þjóðarinnar voru aðeins með 60% af ráðstöfunartekjunum. Þetta er afleiðingin af stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ríktu mestallan þennan tíma.

Er nema von að viljum breytingar?

föstudagur, september 25, 2009

25. september 2009 - Höfði

Mér þótti skelfilegt að heyra að Höfði væri byrjaður að brenna í dag, en jafnframt mikill léttir að heyra að slökkvistarfið tókst giftusamlega.

Öfugt við margbreytt Hótel Valhöll sem var orðið að hálfgerðum bastarð eftir flutning og breytingar austur á Þingvöllum, þá naut Höfði sín vel og viðgerðir sem framkvæmdar voru á húsinu á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar heppnuðust fullkomlega. Þá hefur húsinu verð sýnd tilhlýðileg virðing á undanförnum áratugum og er það vel.

Sjálf átti ég litlar sem engar minningar tengdar þessu húsi. Ég fæddist að vísu 150 metra frá Höfða og eyddi þar fyrstu árum ævinnar, en fæðingarstaðurinn er löngu horfinn án nokkurs saknaðar og búið að byggja banka á lóðinni. Það er kannski helsta óprýðin við Höfða, að sjá allar þessar Mammonshallir og Skýjaborgir í næsta nágrenni við þetta glæsilega hús sem á sér meiri sögu en öll önnur hús á Íslandi.

25. september 2009 - Morgunblaðið

Ég man þá tíð er Morgunblaðið var málgagn Sjálfstæðisflokksins og studdi flokksbundna Sjálfstæðismenn framar öllu öðru nema ef vera skyldi stjórnvöld í Bandaríkjum Norður Ameríku. Morgunblaðið tók iðulega afstöðu gegn jafnaðarmennsku og sósíalisma og skipti þá engu hvað átti að réttlæta, Adolf Hitler eða Roosevelt, kjarnorkusprengjur eða napalm því allt var leyfilegt í baráttunni gegn hinum vondu kommúnistum og sósíalistum. Þannig má nefna afstöðu Morgunblaðsins gegn Þórbergi Þórðarsyni er hann hélt því fram að Adolf Hitler væri byrjaður að ofsækja og myrða þýska vinstrimenn árið 1933 og Moggi virtist fagna notkun kjarnorkusprengjunnar er henni var kastað á Hiroshima og napalmi í Vietnam.

Með falli flokksblaða á vinstri vængnum fór Morgunblaðið að færa sig meira inn að miðju og um það leyti sem Þjóðviljinn lagði upp laupanna var Mogginn orðinn að hófstilltu málgagni frjálslyndra skoðana, en ekkert endilega hörðu málgagni íhaldsins þótt vissulega færi ekkert á milli málanna að flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum væri talið kostur fyrir starfsfólk og stefnu blaðsins.

Sjálf var ég áskrifandi að Þjóðviljanum á yngri árum og til að kynna mér skoðanir á hægri vængnum, lét ég mér nægja Dagblaðið á síðari hluta áttunda áratugarins. Eitthvað var samt farið að hrikta í hollustunni við flokksmálgagnið á árunum eftir 1980 og var ég steinhætt að lesa Þjóðviljann löngu áður en ég flutti til Svíþjóðar árið 1989.

Er ég flutti heim aftur árið 1996 var Morgunblaðið orðið hófstillt og íhaldssamt morgunblað sem var frekar íhaldssöm stofnun en baráttuglatt málgagn hægrimanna og þannig kunni ég best við blaðið og gerðist áskrifandi fljótlega eftir að ég flutti heim aftur. Það gekk meira að segja svo langt að þegar allt hrundi, tók ég þátt í skráningu í hóp fólks sem vildi bjarga Morgunblaðinu með stofnun almenningshlutafélags sem yrði frjálst og óháð stjórnmálaflokkunum. Í stað þess að samþykkja breiðan eigendahóp að blaðinu, kaus bankinn frekar að færa hann örfáum aðilum sem vildu færa blaðið aftur í hendur gömlu flokksklíku Sjálfstæðisflokksins. Ég hélt samt áfram að greiða blaðið uns ritstjórinn var rekinn og harðir nýfrjálshyggjusinnar settir í ritstjórastólana. Þá sá ég ekki lengur ástæðu til að styðja blaðið frekar og sagði því upp.

Ákvörðun mín er ekkert endanleg. Hún gildir einungis uns núverandi ritstjórar verða látnir taka pokann sinn og hin nýja ritstjórnarstefna blaðsins verður lögð til hliðar.

fimmtudagur, september 24, 2009

24. september 2009 - Bréf til Morgunblaðsins

Til áskriftardeildar Morgunblaðsins.

Hér með tilkynni ég uppsögn á áskrift minni að Morgunblaðinu sem ég óska að taki gildi þegar í stað eða eins fljótt og unnt er.

Ég var aldrei sátt við þá ritstjórnarstefnu sem var við lýði hjá Morgunblaðinu á kaldastríðstímanum, en með mildun á stefnu blaðsins frá lokum kalda stríðsins, ákvað ég að gerast áskrifandi eftir miðjan síðasta áratug síðustu aldar. Með ritstjóraskiptum og væntanlegri harðri nýfrjálshyggju sem nýjum ritstjórum fylgja og sem þegar hefur valdið hruni í íslensku fjármálalífi, er engin ástæða til að styðja við blaðið frekar en orðið er með þriggja milljarða styrk sem ég og aðrir skattgreiðendur greiddum með blaðinu í byrjun þessa árs og ég hefi þegar greitt með áskrift minni til þessa dags.

Með þessu óska ég brottreknu starfsfólki Morgunblaðsins velfarnar í framtíðinni og kveð Morgunblaðið með söknuði.

Virðingarfyllst
Anna K. Kristjánsdóttir kt. 301251-2979
Hraunbæ 56
110 Reykjavík.
netfang annakk@simnet.is


P.s. Með þessari uppsögn hefur bloggsvæði mínu á Moggabloggi verið eytt.

miðvikudagur, september 23, 2009

23. september 2009 - Sagði maðurinn ósatt?

Ég man fyrir ári síðan, eða þegar bankarnir voru að hrynja, að ég þurfti að ná mér í reiðufé í bankann. Þetta var að kvöldi til og ég byrjaði í hraðbankanum í bankanum sem er næstur vinnu minni og heimili, Hann var tómur. Ég fór í næsta banka rétt hjá og hann var líka tómur. Ég fór í þrjá aðra hraðbanka og þeir voru allir tómir. Daginn eftir sá ég að ekki þýddi að fara í opinn banka sökum örtraðar, enda voru þeir bankar sem ég fór framhjá þéttsetnir af ellilífeyrisþegum sem voru að taka út peningana sína. Á þriðja degi fann ég loksins banka þar sem hægt var að taka út aura úr hraðbanka og málunum var bjargað að sinni.

José Manuel Barroso, framkvæmdastjóri Evrópusambandinu kom inn á þessa fjárþurrð á reiðufé í íslenskum bönkum fyrir ári í ræðu sem hann hélt á Írlandi og þá fara bloggheimar, ríkisútvarpið og fleiri hamförum og mótmæla hástöfum. Merkilegt hve fólk er fljótt að gleyma hruninu. Allavega er ég ekki búin að gleyma þessum dögum og veit að maðurinn sagði satt.

Nú stefnir hraðbyri í að útrásarþjófarnir verði teknir í sátt að nýju og hæstvirtir kjósendur kalla yfir sig íhaldið að nýju. Meira að segja forseti Íslands er þegar búinn að gleyma þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem átti sér stað í starfsemi útrásarþjófana og farinn að kenna Evrópusambandinu um glæpinn.

Er nema von að íslensk þjóð sé í sálarkreppu og sé vart viðbjargandi?

þriðjudagur, september 15, 2009

15. september 2009 - Kisur

Eins og ég hefi stundum montað mig af, á ég ákaflega indæla nágranna, fyrir ofan mig, til hliðar við mig og fyrir neðan mig. Eru þar fáir ef nokkrir undanskildir. Meðal nágranna minna eru sómakær heiðurshjón á eftirlaunaaldri sem sjaldan bregða skapi og geislar yfirleitt af þeim lífsgleðin, .... nema.....

Í íbúðinni á móti eldri hjónunum búa hjón með börn og tvo unga fressketti. Annar kötturinn er oft úti að leika sér, en hinn er heimakær og heldur sig á heimavígstöðvunum og á það til að skreppa í heimsókn til hjónanna á móti. Þeim finnast þessar heimsóknir fremur hvimleiðar og hafa reynt ýmislegt til að fæla kettina í burtu án mikils árangurs, hótað þeim með kústi, byggt mikinn plexíglervegg á milli svalanna og nú síðast bætt víggirðingu ofan á plexíglerið og virtist það duga til að halda kisa í burtu.

Um daginn skruppu hjónin í búð sem oftar og skildu svaladyrnar eftir opnar á meðan þau fóru frá stutta stund. Venjulega er það í góðu lagi, enda er nágrannavarslan með ágætum þegar um utanaðkomandi aðila er að ræða. En er þau komu heim aftur sáu þau merki þess að óboðinn gestur hafði komið inn á meðan og skilið eftir merki um komu sína. Kisi hafði einfaldlega hoppað yfir, skitið á mitt stofugólfið og farið heim til sín aftur.

mánudagur, september 14, 2009

14. september 2009 - Hlaupadagar

Eftir að ég hætti að reykja fyrir níu árum byrjaði ég að fitna svo um munaði og á tveimur árum þyngdist ég um 26 kg. Ég mátti alveg bæta við mig nokkrum af þessum 26 kílóumen það var algjör óþarfi að fara yfir 90 kg og ég ákvað að gera eitthvað í málinu.

Nærri þremur árum eftir að ég hætti að reykja, hætti ég líka að vinna, kannski ekki vinna beint, en síðan árið 2003 hefur aðalstarfið falist í þægilegri innivinnu þar sem öllu er stýrt í gegnum tölvur og ég bætti enn meira við þyngdina. Síðan hefi ég barist við aukakílóin án mikils árangurs.

Ég fór að ganga og ég fór að ganga á fjöll, en þolið var orðið afleitt og lítið gekk að bæta þolið. Ef ég fór á Esjuna taldist ég góð ef ég komst upp fyrir hamrabeltið á Þverfellshorni á tveimur og hálfum klukkutíma og Selvogsgatan var gengin á minnst tíu tímum, gjarnan meira.

Að undanförnu hefi ég breytt um aðferð við að ná upp þolinu. Í stað þess að ganga langar og erfiðar göngur, kannski einu sinni í viku eða sjaldnar, geng ég nú stuttar vegalengdir og eitthvað á hverjum degi, ekkert endilega á mínum hraða, en reyni að fylgja eftir öðru fólki sem gengur hraðar jafnvel svo að ég neyðist til að hlaupa með til að geta fylgt fólkinu eftir. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Um helgina komst ég í fyrsta sinn stóra Elliðaárdalshringinn á innan við 100 mínútum og finn að ég get farið þennan hring á 90 mínútum eftir nokkrar æfingar í viðbót með því að hlaupa hluta hringsins.

Nú gengur allt út á að keyra mig meira og meira áfram uns ég næ vart andanum eins og lekur fýsibelgur og ég finn hve árangurinn eykst með hverjum deginum sem líður. Kannski næ ég því að bræða aukakílóin af mér með hlaupunum, en þolið er allt að koma og ég finn hve heilsan er miklu betri en hefur verið um margra ára skeið.

laugardagur, september 12, 2009

12. september 2009 - Safaríkur kjúklingur!

Kunningi kvartaði sáran á blogginu sínu um daginn yfir vatnssósa kjúklingi sem hann hafði keypt sér ásamt hæfilegri kvörtun yfir brotnu Ritz-kexi sem hann fann í pakka sem hann hafði keypt. Æ, þetta er bara hann Þórður sem er of góðu vanur úr vinnunni sinni, hugsaði ég og skeytti ekki meira um þessa kvörtun kunningjans.

Um daginn keypti ég niðurbrytjaðan kjúkling á bakka sem ég ákvað að steikja mér í dag. Ég tók kjúklinginn úr pakkanum og kom honum fyrir á steikingabakka. Þessi hlýtur að duga mér alla helgina og eitthvað frameftir vikunni hugsaði ég með mér þegar ég sá magnið sem ég setti í ofninn. Þegar steikingartíminn var liðinn slökkti ég á ofninum og varð þá fyrir nokkrum vonbrigðum.

Vatnið sem eftir var í steikingarbakkanum þegar ég hafði tekið kjúklinginn upp úr, reyndist vera nærri 20 cl, nóg til að sjóða kjúklinginn í stað þess að steikja hann. Bragðið var líka af soðnum kjúklingi, en ekki steiktum og rýrnunin orðin slík að kjúklingurinn nægði einvörðungu í máltíð fyrir eina manneskju, en þá varð líka að hafa mikið af kartöflum með.

Ég hefði betur hlustað á Þórð, en það er ljóst að ég hugsa mig tvisvar um áður en ég kaupi aftur kjúkling frá Íslenskum matvælum hf.

föstudagur, september 11, 2009

11. september – Saga Caster Semeneya er ekkert einsdæmi

ÆÆ, hér sit ég og finn ekki prentuð gögn mín um forvera Caster Semeneya. Því verður fólk að sætta sig sig við orð mín eins og hverja aðra gróusögu þar til ég finn gögnin og studd með nöfnum hlutaðeigandi aðila.

Til að byrja með, þá er Caster Semeneya suðurafríska stúlkan sem var grunuð um að vera karl í heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í síðasta mánuði. Nú hefur einhver rannsókn leitt í ljós að hún er kona á ytra borði, en með karlkyns líffæri hið innra. Einhverntímann heyrði ég þetta fyrirbæri kallað „dold hermafrodit“ upp á ástkæra ylhýra sænskuna eða „falin tvíkynja“.

Það var fyrir vetrarólympíuleikana í Grenoble í Frakklandi árið 1968. Vegna grunsemda um breytingar á líkömum austur-evrópskra íþróttakvenna, var ákveðið að framkvæma litningapróf á keppendum til að úrskurða um kyn þeirra. Ein fyrsta manneskjan sem féll á prófinu og send heim með hraði fyrir leikana var austurrísk skíðadrottning (sem mig vantar nafnið á að sinni). Hún var sannanlega með kvenkyns kynfæri, en litningaprófið gaf henni einkunnina karlkyns (sennilega YXX).

Eftir þessi miklu vonbrigði fór hún í rannsókn í Vínarborg og þar reyndust hin ytri kynfæri vera fölsk, þ.e. það var engin tenging í innri kvenkynfæri, en innra með henni voru fullvirk karlkyns kynfæri. Það var því fátt annað eftir en að framkvæma á henni kynleiðréttingu, koma henni í gegnum nauðsynlegt ferli og sleppa út sprellanum. Þetta tókst með afbrigðum vel. Skíðadrottningin fyrrverandi tók upp nýtt nafn í samræmi við kynferðið, kvæntist stúlku og átti tvö börn samkvæmt þeirri grein sem ég las um hann fyrir mörgum árum og starfaði hann þá sem skíðakennari í austurrísku Ölpunum.

Sagan af austurrísku skíðadrottningunni endaði vel fyrir alla aðila. Nú er bara að vona að sagan af Caster Semeneya endi líka vel fyrir hana sjálfa og að hún láti ekki bugast gagnvart almenningsálitinu.

fimmtudagur, september 10, 2009

10. september 2009 - Um hraðamyndavélar í Hvalfjarðargöngunum

Um daginn heyrði ég af umferðarslysi í Hvalfjarðargöngunum þar sem bíll ók yfir á rangan vegarhelming og lenti framan á bíl sem kom á móti, en sem betur fór án alvarlegra meiðsla. Þetta var samt þriggja bíla árekstur þar sem einn bíllinn var nánast ónýtur eftir áreksturinn, en tveir aðrir bílar minna skemmdir.

Síðar heyrði ég sögusagnir þess efnis að sá sem ók yfir á öfugan vegarhelming hefði lent í blossa af hraðamyndavél í göngunum og hefði það hugsanlega valdið því að maðurinn blindaðist augnablik, nóg til að missa sjónar á miðlínunni og fór yfir á rangan vegarhelming.

Ég bar þetta undir fulltrúa hjá Vegagerðinni sem taldi þetta af og frá því þeirra myndavélar væru með innrauðu ljósi sem gefa ekki svona skæran blossa frá sér. Því er einvörðungu um að ræða hraðamyndavélar Spalar sem geta orsakað slíka augnabliksblindu.

Vinkona mín gleymdi sér eitt augnablik um daginn og álpaðist upp í 76 km hraða á röngum stað og var mynduð, nákvæmlega á þann hátt sem lýst er, með skærum blossa sem blindar eitt augnablik. Þar sem hún ók á þægilegum hraða, hélt hún ró sinni, hægði á sér sem nam þessum sex kílómetrum sem hún hafði farið umfram 70 km, en allt kom fyrir ekki. Nokkrum dögum síðar fékk hún sektarboð þar sem henni var gert að greiða 5000 krónur í sekt, en með möguleikum á afslætti ef hún greiddi strax.

Vinkona mín varð öskrandi reið og veit ekki í hvorn fótinn hún skal stíga, hvort hún eigi að greiða þessa sekt eða sitja hana af sér, enda atvinnulaus og með nægan tíma til að kynna sér fangelsismál innan frá, enda með háskólagráðu í mannlegum samskiptum.

Ég vil hinsvegar fá að vita, til hvers þarf tvöfalt hraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngunum, bæði myndavélar frá Speli og Vegagerðinni? Þó eru Hvalfjarðargöngin sá staður á öllu Íslandi þar sem minnst er um hraðaakstur. Má ekki sleppa gömlu myndavélunum eða auka lýsinguna til að minnka hættuna á slysum eins og átti sér stað á dögunum?

Að lokum vil ég taka fram að ég hafi ávallt átt mjög góð samskipti við starfsfólk Spalar og kann þeim bestu þökk fyrir þjónustu þeirra, en þetta er bara allt annar hlutur sem skrifast á ábyrgð yfirstjórnenda Hvalfjarðarganganna ef satt er.

10. september 2009 - Orkumál í grænu hagkerfi



Á miðvikudagskvöldið var haldinn fundur um orkumál hjá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík þar sem fram komu Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Skúli helgason formaður iðnaðarnefndar Alþingis og Sigrún Elsa Smáradóttir borgarfulltrúi og stjórnarmaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Fundarstjóri var Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi.

Þar var rætt á breiðum grundvelli um eignarhald á íslenskum orkuauðlindum, sölu á hlut OR í HS-Orku til Magma Energy og um lög og stefnumál meirihluta Alþingis í grænu hagkerfi framtíðar. Margt athyglisvert kom í ljós á þessum fundi, meðal annars sú staðreynd að verulegt og að hluta til ófyrirsjáanlegt tap verður af sölu OR á hlut sínum í HS-Orku til Magma Energy, tap sem ætti að nægja til að hætta þegar í stað við söluna á meðan leitað er annarra leiða til að losa hlut OR í fyrirtækinu.

Einnig kom skýrt fram á fundinum á hvern hátt salan á hlutnum er ólögleg, sé litið til anda laganna frá 1991. Sjálf beið ég af mestum áhuga eftir orðum Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, en hann ræddi orkumál í víðu samhengi og benti meðal annars á þá einföldu staðreynd að það er ekki til neitt sem er fullkomlega endurnýjanleg orkuauðlind og sem hann rökstuddi faglega.

Margt kom fram á fundinum sem of langt er upp að telja, en það var gaman að fylgjast með rökræðum Guðna og Ómars Ragnarssonar eftir fundinn og hvernig þeir náðu saman í umræðum sín á milli.

Einhvernveginn var ég vonbetri um orkuframtíð Íslands eftir fundinn en áður, þrátt fyrir skugga einkavæðingar Magma á HS-Orku sem hvíldi yfir fundinum.

P.s. Á myndinn eru frá vinstri, Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, félagi Sigurður Ásbjörnsson og Ómar Ragnarsson baráttumaður.

þriðjudagur, september 08, 2009

9. september 2009 - Skýrslan um vistheimili

Á þriðjudagsmorguninn var loksins gerð opinber áfangaskýrsla um vistheimili, að vísu ekki um þau vistheimili sem ég hafði kynni af, heldur frá Kumbaravogi, Bjargi og Heyrnleysingjaskólanum. Ég get að sjálfsögðu ekki metið þessar skýrslur, það verða þeir aðilar að gera sem standa að þeim og þekkja málin.

Eitt þykir mér þó aðfinnsluvert við birtingu áfangaskýrslunnar. Í fréttum af áfangaskýrslunni var ávallt talað um Kumbaravog eins og að þar hefði einvörðungu verið rekið eitt barnaheimili í gegnum tíðina. Það er að sjálfsögðu ekki rétt. Það var rekið barnaheimili á vegum Reykjavíkurborgar (Reykjavíkurbæjar) í Kumbaravogi frá því á fimmta áratugnum og til ársins 1957 er það flutti í Mosfellsdalinn, fyrst til bráðabirgða að Hlaðgerðarkoti og síðan í Reykjahlíð. Forstöðukona á Kumbaravogi á þessum tíma var Guðbjörg Árnadóttir hjúkrunarkona frá Narfakoti í Njarðvík, en meðal starfsfólks var ráðsmaðurinn Magnús Sigurðsson og starfsstúlkan Jóna Haraldsdóttir, bæði frá Stokkseyri. Guðbjörg fór á eftirlaun haustið 1961 og Magnús hætti 1962 og flutti til unnustu sinnar og sonar austur að Grafarbakka í Hrunamannahreppi þar sem hann gerðist garðyrkjubóndi, en Jóna starfaði áfram í Reykjahlíð til ársins 1970 er hún flutti norður á Akureyri ásamt yngri syni sínum, en eldri sonur hennar bjó þá þegar á Akureyri.

Með því að gera ekki greinarmun á þessum tveimur barnaheimilum á sama stað á sinnhvorum tímanum, er auðvelt að rugla saman þessum tveimur heimilum þótt vissulega hafi komið fram í fréttum að heimilið hafi verið rekið af einkaaðilum er ofbeldi gagnvart börnum átti sér stað á Kumbaravogi. Það ber og að geta þess að þau þrjú sem ég nefni hér og öll látin fyrir löngu, voru öll hið besta fólk og til mikillar fyrirmyndar í umgengni sinni við börn og unglinga.

Ég bíð í ofvæni eftir næstu áfangaskýrslu þar sem fjallað verður um barnaheimilið í Reykjahlíð, en þarf víst að bíða fram á mitt næsta ár eftir þeirri skýrslu.

8. september 2009 - Málverkauppboð

Ég álpaðist á málverkauppboð á mánudagskvöldið. Það var ekki eins og að ég hefði verið dregin þangað, því ég hafði beðið eftir næsta uppboði síðan í vor og búin að kaupa list hjá Fold í millitíðinni.

Í þetta sinn tókst mér að fá Birnu með mér á uppboðið og komum við okkur fyrir aftarlega, á svipuðum slóðum og ég hefi reynt að sitja á fyrri uppboðum, hæfilega mikið til hlés, en samt nógu áberandi til að eftir mér yrði tekið frá uppboðspúltinu.

Uppboðið gekk hratt fyrir sig. Mynd sem ég hafði ekki fest áhuga við virtist ekki ætla að seljast og ég bauð í hana og fékk fyrir brotabrot af áætluðu matsverði. Risastór mynd sem ég hafði sömuleiðis ekki leitt hugann að, meðal annars vegna of hás matsverðs, lenti í eigu minni fyrir örlítið brot af matsverðinu og sömuleiðis gamalt og fallegt landslagsmálverk. Þegar hér var komið sögu, var útséð með eigulegasta gripinn á uppboðinu, en ég bauð samt en fékk ekki rissmynd eftir Kjarval, sennilega af einhverjum sveitunga hans austur á Borgarfirði eystra.

Nú sit ég hér heima með þrjú stór listaverk sem ég kem ekki fyrir með góðu móti í litlu íbúðinni minni nema með verulegum breytingum á skipulagi hennar.

En það tekst nú samt fyrr en síðar.

sunnudagur, september 06, 2009

6. september 2009 - Hér með tilkynnist mínum kæru lesöndum að ég er komin úr bloggleyfi.

Í vor var ég orðin svo leið á neikvæðum athugasemdum við bloggfærslur mínar að ég ákvað að taka mér góða hvíld frá bloggi og þar til rynni af fólki mesta reiðin vegna mála sem íslenska þjóðin ræður ekki við að breyta í verulegum atriðum. Ég fann að ef ég ætlaði ekki að missa mig í hamagangi við að mótmæla öllu ruglinu, væri skynsamlegast að þegja um sinn og láta fólk missa sig á öðrum sviðum.

Síðan þetta var hefi ég ítrekað verið beðin um að byrja aftur að blogga. Ekki fylgir alltaf hugur máli eins og hjá einum sem fór að hrósa mér fyrir bloggið mitt á Moggabloggi og reyndist ekki hafa lesið bloggið mitt í heilt ár. Aðrir hvöttu mig áfram af einlægni og þeirra vegna og sjálfrar mín vegna byrja ég aftur að blogga, þó einvörðungu á blogspot fyrst um sinn.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að fólk sem bloggar getur ekki borið endalausa ábyrgð á athugasemdum sem settar eru fram við bloggfærslurnar. Það er því nauðsynlegt að bloggarinn hafi fullt vald til að eyða þeim athugasemdum sem settar eru fram, oft nafnlausar eða undir dulnefnum, í þeim tilgangi að rægja bloggara eða þá aðila sem fjallað er um í blogginu. Nýjasta dæmið um rógsherferð er skýrt dæmi um hve langt er hægt að ganga í þeim tilgangi að eyðileggja mannorð einhvers. Þar er mikill munur á hvort fólk hefur neikvæðar skoðanir á athöfnum viðkomandi eða þegar ráðist er beint að persónunni á þann hátt að flokkist undir meiðyrði. Ég get haft neikvæðar skoðanir á athöfnum manna á borð við Björgólf Guðmundsson og fleiri kappa, eða þá Björgvin Guðmundsson alþingismann sem hefur það eitt til saka unnið, að hafa verið í vitlausu embætti á vitlausum tíma, en vei mér ef ég fer að ráðast að persónu þessara manna sem ég met mikils fyrir mörg verka sinna. Svo er um fleiri í svipaðri aðstöðu þótt ég geti látið eitt og annað falla í hita leiksins í persónulegum samtölum.

Ýmislegt hefur á daga mína drifið síðustu mánuðina sem liðnir eru síðan ég tók mér frí frá bloggi, skrapp á sjóinn í nokkrar vikur og skipti vinstrigræna eðalvagninum út fyrir Willysjeppa. Þá eignaðist ég enn einn erfingjann í morgun svo nú eru barnabörnin orðin fimm.

Ég vil loks ítreka að ég mun áskilja mér allan rétt til að eyða öllum þeim athugasemdum sem ekki eru mér að skapi og hvet þá sem hafa slíkar neikvæðar skoðanir á mér og mínum skoðunum að gera sínar eigin bloggsíður og láta mínar bloggfærslur vera ólesnar. Þetta gildir þó ekki um heiðarleg skoðanaskipti þar sem kunnugt er um persónu þess sem gerir athugasemdirnar.