laugardagur, desember 31, 2011

31. desember 2011 - Eftir sextugsafmælið

Einhverjum ánægjulegasta afmælisdegi ævinnar er lokið. Veislan sem haldin var heima hjá mér var fjölmenn, fólk frá bernsku til eftirlaunaaldurs mættu, fjölskyldumeðlimir, vinir sem ég hefi kynnst í gegnum árin, nágrannar, skólafélagar, göngufélagar, æskufélagar, vinnufélagar, skipsfélagar. Á tímabili földu kisurnar mínar sig undir rúmi furðu losnar yfir öllum hamaganginum. Þá er ljóst að ég hefi nóg að lesa á næstunni enda bættist talsvert við af nýjum bókum í safnið sem og blóm og aðrar gjafir. Þótt rauðvín og hvítvín kláruðust var talsvert eftir af veitingum er síðasti gesturinn kvaddi löngu eftir miðnætti, nóg til af öli og ísskápurinn enn hálffullur af öðrum veisluföngum.

Framanaf degi var aðallega um að ræða kaffiveitingar, kaffi og pönnukökur auk annarra léttra veitinga, en eftir því sem leið á eftirmiðdaginn bættust hvítvín, rósavín og rauðvín við veitingarnar, en síðar um kvöldið hvarf kaffið fyrir öli  eða sterku sem merkilegt nokk var ósnert að lokum. Greinilegt að sterkt áfengi gengur ekki lengur í Íslendinga.

Af skepnuskap mínum setti ég áminningu á göngugrind nágrannanna og stillti henni upp innan við anddyrið í húsinu og reyndi þannig að skapa létta stemmningu fyrir teitinu. Að öðru leyti var teitið mjög rólegt, enginn hávaði frá glymskratta eða útvarpi, einungis gott spjall fólks af ólíkum uppruna sem skemmti sér saman.

Einni manneskju verð ég að þakka sérstaklega fyrir  hve afmælið gekk vel fyrir sig. Ég kynntist Birnu Björgvinsdóttur í Svíþjóð árið 1991. Hún var þá búsett í Järna í Södertälje kommun ásamt ungum einkasyni sínum sem lést fyrir fáeinum árum. Við urðum góðir vinir, en árið 1994 urðu vinslit af mínum völdum. Vináttan var ekki endurnýjuð fyrr en við vorum báðar fluttar til Íslands en hún flutti heim árið 2002. Á síðustu árum hefi ég ávallt getað leitað til hennar þegar ég hefi þurft á aðstoð að halda og nú stóð hún sig eins og hetja, lagaði viðbit og pinnamat, hreindýrakæfu og osta, en gaf sig í veg þegar veislan stóð sem hæst.

Ég sé fram á skemmtilegan áratug framundan uns ég mun ná eftirlaunaaldri, ekki síst með öllu því góða samferðafólki í lífinu sem kom og heilsaði upp á mig í sextugsafmælinu.  

föstudagur, desember 30, 2011

30. desember 2011 - Tímamót

Að ná sextugu hefur alls ekki verið öllum gefið. Flest formæðra minna og forfeðra náðu aldrei þessum aldri, sum náðu ekki einu sinni fertugu. Tvær langömmur mínar gerðu þó betur, langamma mín í beinan kvenlegg varð mörgum kerlingum eldri, lifði þrjú af fjórum börnum sínum og varð 96 ára gömul og bjó í yfir 70 ár að Vallá á Kjalarnesi. Hún skilur eftir sig stóran ættboga sem í dag skiptir hundruðum niðja því þótt öll börnin og flest barnabörnin séu löngu látin þá hefur frjósemin haldist meðal niðjanna sem enn dunda sér við að uppfylla jörðina. Önnur langamman varð 84 ára gömul sem þykir kraftaverk því hún var aldrei sú eðalmanneskja í augum samtíðarmanna sinna sem Gunnhildur á Vallá varð. Sesselja Jónsdóttir fæddist í fátækt, ólst upp meðal vandalausra, lesblind og talin misheppnuð af samtíðarmönnum, þvældist á milli bæja sem vinnukona en varð ólétt af ekkjumanni sem hafði hætt búskap og eftir það var ekki komist hjá ábyrgðinni. Fimm árum eftir að einkadóttirin lést ung að aldri lést þessi langamma mín og virtist þá flestum gleymd. Þrjú þessara barna sem dóttirin ól reyndust þó öllu frjósamari en amman og má segja að með þeim sé minning um bláfátæka vinnukonuna orðin raunveruleg þótt komin séu 84 ár frá andláti hennar.

Af foreldrum foreldranna náði aðeins einn fimmtugu, móðurafi minn sem dó um borð í Heklunni 73 ára gamall árið 1965, en foreldrar föður míns dóu bæði ung, hann 37 ára og hún 34 ára.

Ég veit ekki hvað átti að verða af mér sem barni. Þrátt fyrir ást foreldra minna á börnum sínum varð alkóhólisminn ástinni yfirsterkari og því ekki við miklu að búast. Kannski má segja að tugirnir í ævi einnar manneskju endurómi ævi hennar.

Ég fæddist í fátækt að Höfðaborg 65 í Reykjavík, nokkurnveginn þar sem Sparisjóður vélstjóra var síðar, hið yngsta af sjö fæddum börnum foreldra minna.
Tíu ára afmælinu eyddi ég á barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellsdal, fjarri foreldrum mínum en í góðri umsjá starfsfólksins á barnaheimilinu sem og alúð nágranna okkar í Mosfellsdalnum.
Tvítugsafmælinu var eytt á sjó, höfðum lestað síld í tunnum í höfnum á Nýfundnalandi og vorum á leið með farminn til Finnlands og Sovétríkjanna (Ventspils í Lettlandi).
Haldið var uppá þrítugsafmælið í faðmi fjölskyldunnar og eiginkonan ólétt af þriðja barninu og ekki var stóri vinningurinn í getraunum til að spilla gleðinni.
Fertugsafmælinu var varið í ókunnu landi, vinafá og einmana í Jakobsberg nærri Stokkhólmi. Kveðjurnar voru fáar og afmælisgjafirnar enn færri ef ég man rétt, einungis ein sem var frá vinnufélögum mínum við Hässelbyverket í Stokkhólmi.
Fimmtug var ég löngu komin til Íslands, enn fyrirlitin af mörgum og af sumum talin með illum öflum á Íslandi, búsett í  lítilli íbúðarkytru í efra Breiðholti. Er ég fór á kráarrölt um kvöldið fann einhver kráargestur þörf til þess að tjá sig um líf mitt með því að hella yfir mig úr fullu glasi af öli þar sem ég sat í makindum við borð og talaði við fólk. Það var reyndar hvorki í fyrsta sinn né síðasta sem einhver fann ástæðu til að sýna mér fyrirlitningu sína á þann eða svipaðan hátt.
Nú er komið að sextugsafmælinu. Ég held að ég sé vel liðin af flestum, alls ekki öllum. Enn er til fólk sem hatar mig og fyrirlítur, en meirihlutinn hefur tekið mig í sátt. Börnin eru löngu orðin fullorðin og ég bý ein í lítilli íbúð ásamt tveimur kisum í Árbæjarhverfi. En samt, ég fæ á tilfinninguna að ég hafi sigrað, ef ekki almenningsálitið, þá sjálfa mig og þröngsýni mína.

Það verður fróðlegt að vita hvernig staðan verður við starfslok sem verða ekki seinna en daginn eftir sjötugsafmælið, kannski miklu fyrr. 

föstudagur, desember 23, 2011

23. desember 2011 - Enn um kæsta skötu

Þegar ég var til sjós í gamla daga ákvað ónefndur Vestfirðingur og skipsfélagi minn að verka sína eigin skötu eitt haustið. Hann verkaði hana og setti ofan í fiskikassa og fylgdist svo reglulega með hvort allt væri ekki í samræmi við hefðirnar. Þegar hann var á frívakt og örugglega í koju áttu aðrir skipsfélagar hans það til að skreppa út í horn þar sem kassinn var geymdur og míga í kassann með skötunni.  Þegar kom að jólum tók pilturinn skötuna, pakkaði henni og tók með sér vestur á Ísafjörð og át ásamt fjölskyldu sinni á Þorláksmessu. Þegar hann kom um borð eftir áramótin hafði hann á orði að betri skötu hefði hann aldrei smakkað.

Annar vinnufélagi minn er Vestfirðingur og étur ekki kæsta skötu. Sagt er að hann hafi verið gerður útlægur frá Vestfjörðum vegna þessa þótt ekki vilji ég fullyrða neitt í því sambandi. Ljóst er þó að hann er fluttur suður á mölina og lætur sér fátt um finnast berist fnykurinn af skötunni að vitum hans.

Svona menn eins og sá síðarnefndi eru að mínu skapi. Þeir þora að fara út fyrir rammann og bjóða viðbjóðslegum hefðum byrginn, rétt eins og íbúar sumra Miðausturlanda sem hafna áti á heilasúpum eða sænskir vinir mínir sem býður við lútfisk eða surströmming og færeyskir sem vilja ekki skerpikjöt. Sjálf komst ég ekki hjá fnyknum öll þessi ár sem ég var til sjós og saltfiskur og skata voru á borðum hvern einasta laugardag.

Félagi minn sem hafnaði skötunni er þess meiri í augum mínum að hann þorði að bjóða afturhaldssömu samfélagi byrginn. Þetta er þess mikilvægara sem sífellt fleiri meðvirkir Íslendingar þvinga sjálfa sig til að éta þennan viðbjóð helst svo sterkan að svíður í augun og tennur losna þegar hans er neytt. Þess má geta að meðvirkir Íslendingar fögnuðu afrekum útrásarræningjanna allt þar til þeir voru búnir að keyra íslenska þjóð í þrot.

Ég er viss um að þessir sömu meðvirku Íslendingar séu líka einangrunarsinnar eins og Norður-Kóreumenn og andvígir Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að elta skoðanir þeirra eða matarvenjur.

þriðjudagur, desember 20, 2011

20. desember 2011 – Hvers eiga Mosfellingar að gjalda?

Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri DV er lítt hrifinn af skötu, ekki frekar en ég. Hann hefur nú lagt til að tjaldað verði yfir einhverja sandgryfju í Mosfellssveit og skatan verði elduð þar til að losa viðkvæm nef við fýluna sem fylgir skötunni. Ég er hrifin af hugmyndinni, en ekki staðsetningunni. Mosfellingar eiga lítið land að sjó og stunda ekki sjávarútveg frá heimabyggð og bera því sem slíkir enga ábyrgð á viðbjóði þeim sem kallast kæst skata. Því finnst mér óþarfi að leggja þessa refsingu á þá alsaklausa af skötunni.

Ef Jónas vill vera samkvæmur sjálfum sér, er nær fyrir kappann að senda skötuna suður með sjó. Þar blæs mikið og úr öllum áttum og miklar líkur á því að fnykinn leggi á haf út. Þar sitja og útgerðarmenn með vafasaman kvóta og bera viðbjóðinn í okkur með hjálp vestfirskra eiturbyrlara sem telja skötuna af hinu góða. Hvernig væri að tjalda yfir grunninn á álverinu í Helguvík og elda skötuna þar? Það mætti jafnvel koma fyrir langtjaldi svo þeir sem vilja leggja sér þennan viðbjóð til munns geti étið hann á staðnum án þess að kvelja okkur hin með fnyknum sem af þessu hlýst.

mánudagur, desember 19, 2011

19. desember 2011 - Jólalögin

Það var örugglega fyrsta eða annað sumarið mitt í Svíþjóð. Ég var einhversstaðar á göngu nærri heimili mínu og það var midsommarafton eða midsommardagen (man ekki hvort) og í nágrenninu var fólk að dansa í kringum majstången (midsommarstången) og lagið sem fólk dansaði við var danska þjóðlagið „Göngum við í kringum einiberjarunn“. Ég komst samstundis í íslenskt jólaskap þótt á miðju sumri sé, en hefi ekki þolað þegar ég hefi heyrt þetta sumarlag á jólum eftir það.

Nú er hávertíð jólalaganna enda veit ég sem er að eftir jóladag munu mörg þessi fallegu lög þagna og ekki heyrast aftur fyrr en í nóvember á næsta ári. Sum þessara laga mega vissulega alveg missa sín, lög eins og Jól alla daga. Það er skelfileg tilhugsun ef það verða jól alla daga því þá þarf að finna einhverja aðra hátíð til breyta hversdagslífinu. Því á ég þá frómu ósk að þessi ósk söngvarans og höfundar textans verði aldrei að veruleika.

Önnur jólalög og jólasálmar eru mörg hver í góðu lagi. Þó er ég ósátt við hvernig markvisst er reynt að þurrka út jólasálm allra jólasálma hvar sem hann kemur fyrir. Árið 1984 eignaðist ég kassettu með þeim Dolly Parton og Kenny Rogers þar sem „Heims um ból“ eða „Silent night“ var á lagalistanum. Mörgum árum síðar eignaðist ég hljómdisk með sömu söngvurum og sama nafni, en þá var Heimsumból horfið af listanum og eitthvert allt annað lag komið í staðinn þótt diskurinn væri að öðru leyti hvað innihald snertir og kassettan góða forðum. Nu hefi ég heyrt að víðar sé reynt að láta Heims um ból hverfa úr minningunni í tilraunum heiðingja til að afkristna jólin og færa til fornra hefða. Sjálf hefi ég engan áhuga fyrir slíku.

Jólalögin eru svo samofin minningunum að erfitt er að ímynda sér aðventuna án gömlu jólalganna hvort sem þau eru jólalög að uppruna eður ei. Diskurinn sæli með Dolly og Ken á þar geymslupláss í hjartanu þar sem ég keypti kassettuna vestur í Bandaríkjunum í desember 1984 áður en haldið var til hafs á ný og enn einna jóla á sjó. Kassettan var því hið einasta sem við náðum af jólatónlist það árið þar sem við vorum fjarri ströndum á leið okkar frá Ameríku til Íslands.

Nær allur fiskiskipaflotinn er nú í höfn um jólin eins og hefur verið til siðs í nokkur undanfarin ár og er það vel. Með hinu nýja fyrirkomulagi eru aðstæður flestra sjómanna orðnar gjörbreyttar, en þeim er kannski best lýst með laginu sem samið er af sjómönnunum sjálfum, þ.e hljómsveitinni Roðlaus t og beinlaust sem skipað er áhöfnarmeðlimum á Kleifarberginu undir forsöng Björns Vals Gíslasonar skipstjóra og nú alþingismanns.

Fátt lýsir betur lífi fiskimannsins í dag en einmitt þetta ágæta lag sem heitir „Í friði og ró“ Því miður finn ég það ekki á You tube og verður því að leita þess á öðrum slóðum.        

þriðjudagur, desember 13, 2011

13. desember 2011 - Klara Klængsdóttir

Þegar ég var send í sveit veturinn 1958-1959 lenti ég í sjö ára bekk í Brúarlandsskóla og þar tók á móti mér Klara Klængsdóttir sem kennt hafði yngstu nemendunum við skólann allt frá því er hún hóf kennslu við skólann nýorðin 19 ára gömul haustið 1939. Hún kenndi mér einnig í átta ára bekk, en síðan tók Birgir Sveinsson við því erfiða verkefni að koma mér til manns sem og öðrum nemendum við Brúarlandsskólann í Mosfellssveit.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um Klöru. Hún var ein þeirra sem umluktu sig hógværð í lífinu, var aldrei áberandi en sinnti nemendum sínum af kostgæfni hverjum árganginum á fætur öðrum í marga áratugi, bæði almennri kennslu og leikfimi. Hún var íþróttamanneskja, vígði Varmárlaug er hún var formlega vígð 1964 og einnig vígði hún Lágafellslaug um fjórum áratugum síðar þá orðin háöldruð.

Sjálf átti ég lítil samskipti við Klöru eftir að ég fór til Reykjavíkur og í aðra skóla. Þó hitti ég hana haustið 2000 er við bekkjarsystkinin komum saman í tilefni af því að liðin voru 40 ár frá því Birgir Sveinsson hóf að kenna okkur þá nýkominn frá kennaranámi og hluti af fagnaði okkar var að heimsækja Klöru á elliheimilið. Næst hitti ég hana er við bekkjarsystkinin héldum upp á það að liðin var hálf öld frá því við byrjuðum í skóla haustið 2008. Að sjálfsögðu tók Klara þátt í fagnaðinum með okkur og fannst mér hún þá öllu hressari en átta árum áður.

Nú er Klara öll 91 árs að aldri og verður hún jarðsungin frá Lágafellskirkju í dag. Öll eigum við fyrrum nemendur hennar í marga áratugi í Brúarlandsskóla og síðar í Varmárskóla henni mikið að þakka  og kveðjum yndislega manneskju. 

P.s. Myndin var tekin haustið 2008  í kjallara Brúarlandsskóla
er við hittumst ásamt fyrstu kennurum okkar

miðvikudagur, nóvember 30, 2011

30. nóvember 2011 - Embætti sérstaks saksóknara

Enn einu sinni hefur sérstakur saksóknari slegið til gegn útrásarvíkingum sem svo hafa verið kallaðir, framkvæmt húsleit hjá einhverjum og haldlagt gögn auk sem sem einhverjir hafa verið handteknir og teknir til yfirheyrslu.

Það eru komin full þrjú ár frá hruninu og embætti sérstaks saksóknara hefur verið til næstum allan þennan tíma, var sett á laggirnar í forsætisráðherratíð Geirs Haarde og Ólafur Þór Hauksson skipaður í embætti sérstaks saksóknara fyrir lok þeirra ríkisstjórnar. Síðan þá hefur ekkert skeð af viti, enginn þeirra sem rændu þjóðarauðnum hafa verið ákærðir né dæmdir, ENGINN! Til þess að friða almenning tekur hann einn og tvo, stingur þeim inn í tvo til þrjá daga og sleppir síðan lausum og svo skeður ekkert meira fyrr en almenningur fer að ókyrrast að nýju og þá er einn eða tveir teknir í yfirheyrslur og jafnvel látnir sofa í varðhaldi eina eða tvær nætur og síðan sleppt. Svo skeður ekkert meir.

Mál þeirra ræningja sem rændu þjóðina eru að fyrnast, engin ákæra hefur verið gefin út og enginn hefur verið dæmdur. Meðan á öllu þessu stendur minnkar traust mitt til sérstaks saksóknara. Það þýðir ekki lengur að kalla einn og einn til yfirheyrslu og láta sofa í fangaklefa yfir nótt. Það þarf aðgerðir og það þarf réttarhöld gegn gerendum hrunsins. Vonandi er hann ekki að svæfa málin með aðgerðarleysi sínu.

Því miður þarf sérstakur saksóknari að taka til hendinni og ljúka málum, ekki bara einu eða tveimur, áður en ég öðlast traust til hans á ný.

sunnudagur, nóvember 27, 2011

28. nóvember 2011 - Eru Íslendingar aumingjar?

Er nema von að ég spyrji.  Nú er ekkert lengur hægt að gera nema til komi erlent fjármagn frá einhverjum vafasömum pappírum til að halda uppi atvinnu í landinu. Um daginn fór Ögmundur Jónasson eftir lögum og hafnaði boði einhvers Kínverja um að kaupa 2-3% af Íslandi og það varð allt vitlaust. Ég held að það sé þá í lófa lagið fyrir Alþingi að breyta lögunum ef viljinn er raunverulega fyrir hendi að selja landið í pörtum til erlendra fjárfesta. Það má ljóst vera að meirihluti Alþingis er fyrir landsölunni þrátt fyrir viðvörunarorð Halldórs Laxness í Atómstöðinni. Meirihluti Samfylkingar vill selja, sennilega einnig Sjálfstæðisflokkurinn og örugglega Framsóknarflokkurinn. Ekki þarf að óttast að forsetaræfillinn fari gegn vilja Alþingis eftir að hann hefur margsinnis lýst yfir áhuga sínum á kínversku fjármagni, enda er um að ræða fjárfesti af því tagi sem hann mærði svo mjög áður en Ísland hafnaði á ruslahaug fjármálakerfisins eftir ævintýralegar fjárfestingar innlendra fjárfesta, svonefndra útrásarvíkinga.

En af hverju grunar mig að Íslendingar séu aumingjar? Á árum áður þurftu Íslendingar ekki mikið á erlendu fjármagni að halda. Þeir unnu sig frá því að vera fátækasta þjóð Evrópu til þess að verða ein sú ríkasta. Þeir byggðu eigin stóriðju sem var Hitaveita Reykjavíkur af eigin verðleikum og án utanaðkomandi fjármagns. Þeir byggðu upp tæknivæddan fiskiskipaflota og þegar raunverulegir erfiðleikar blöstu við þjóðinni var málinu reddað! Vissulega fengu Íslendingar góða hjálp frá nágrannaþjóðunum eftir gosið í Vestmannaeyjum 1973, en uppbyggingin var alfarið í höndum Íslendinga sjálfra og þá helst Eyjamanna. Það mátti vissulega greina ákveðinn aumingjadóm í Íslendingum er þeir fengu Marshall-aðstoð eftir seinni heimsstyrjöld þrátt fyrir stórfelldan stríðsgróða þar sem Ísland auðgaðist mjög á fiskútflutningi til Englands í stríðinu auk vinnu fyrir bresku og bandarísku setuliðin á Íslandi.

Eftir hrun og fjármagnsflótta útrásarræningjanna haustið 2008 var eins og allur vindur væri úr þjóðinni. Ekkert var hægt að gera lengur nema með hjálp utanaðkomandi fjármagns. Þó var staðan langt í frá jafnslæm og var 1967-1969 og meirihluti fólksins í landinu hafði það betra en á árunum eftir 1990 þó vissulega séu þar undantekningar á.

Er ekki kominn tími til að hætta þessu væli um að allt sé að fara til fjandans? Eftir hörmungarnar 1783 -1784 var vissulega ástæða til að væla þegar fólk hrundi niður úr hungri og kulda, en sú staða er ekki lengur fyrir hendi. Ef Íslendingar hætta ekki þessu væli fá þeir fljótlega þann stimpil á sig að þeir séu aumingjar. Viljum við það?

laugardagur, nóvember 26, 2011

26. nóvember 2011 – Endurgerð gamalla húsa

Fyrir nokkru kom sú hugmynd fram hjá blaðafulltrúa Icelandair að byggja repliku af gamalli dómkirkju í Skálholti, væntanlega þeirri sem var í Skálholti á undan þeirri sem Brynjólfur biskup lét reisa árið 1650. Þegar er risin að nokkru Þorláksbúð sem Árni Johnsen og félagar standa fyrir við hlið núverandi Skálholtskirkju. Ef allir sem vilja reisa replikur af gömlum kofum sem voru í Skálholti í gegnum aldirnar mun brátt hætta að sjást í núverandi kirkju fyrir öllum eftirlíkingunum af gömlum kofum umhverfis hana. Þá má ekki gleyma að Baggalútsmenn vilja eitt stykki miðaldaflugvöll að Skálholti, en það strandar á því að þegar er einn miðaldaflugvöllur í miðborg Reykjavíkur sem menn reyna að ríghalda í þótt hann sé best geymdur annars staðar.

Í Reykjavík eru annars nokkur góð dæmi um eftirlíkingar gamalla húsa sem stóðu þar sem nýju húsin eru, hornið á Austurstræti og Lækjargötu og hluti Aðalstrætis. Einhverjir vildu kannski bæta húsunum við Laugaveg 4-6 á þennan lista, en þau hús eru sennilega dýrustu hús Reykjavíkur miðað við stærð og gagnið sem af þeim er.

Þetta er kannski framtíðin, bygging nýgamalla húsa. Ég sé í anda hús Eðvarðs Sigurðssonar formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar sem stóð við Suðurgötu og fjöldi torfbæja sem má gjarnan reisa í Reykjavík í stað steinkumbaldanna. Það væri nú ekki amalegt að hafa eins og einn torfbæ tómthúsmanns við Laugaveginn svo túrhestarnir geti virt fyrir sér húsfreyju af gamla skólanum tæma næturgagnið á hauginn á bakvið hús, kynnst reykmettuðu hlóðareldhúsinu og að sjálfsögðu yrðu ein eða tvær beljur látnar hita upp baðstofuna með nærveru sinni í stað nútíma hitaveitu. Að sjálfsögðu er hægt að gera meira, reisa eins og eitt braggahverfi í Reykjavík í virðingarskyni við minningarnar.

Húsið þar sem ég fæddist í Reykjavík var rifið í kringum 1970 og síðar byggður banki á lóðinni. Nú eru fleiri bankar komnir á lóðina meira og minna gjaldþrota. Er ekki kominn tími til að rífa eitthvað af þessum bönkum og byggja repliku af fæðingarstaðnum mínum í staðinn? Einnig get ég vel hugsað mér að ættaróðalið á Arnarhóli verði endurreist í stað styttunnar af einhverjum Ingólfi sem sagður var hafa verið fyrsti landnámsmaðurinn (Ég er víst af Arnarhólsætt ef skoðaðar eru gamlar Reykjavíkurættir).

Eða eigum við ekki bara að hætta að byggja eftirlíkingar af löngu horfnum húsum sem flest hver voru best geymd í minningunni og sum dæmi um ömurlega fátækt íslensku þjóðarinnar?

Þetta voru svona vangaveltur á laugardagskvöldi!