þriðjudagur, október 25, 2011

25. október 2011 - Um Þræði valdsins

Ég eignaðist bókina Þræðir valdsins eftir Jóhann Hauksson í fyrradag og hefi nú lesið hana. Sumt í bókinni kom mér á óvart, t.d. stefna Sjálfstæðismanna til að einkavæða orkugeirann, en einnig sú afstaða Jóhannesar Zoëga til ráðningar sinnar sem hitaveitustjóra í Reykjavík árið 1961, en ég hefi ekki lesið sögu hans, hitti hann nokkrum sinnum eftir að ég hóf störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur árið 1996 og þar til hann lést nokkrum árum síðar. Ég held að engum hafi dulist sú staðreynd að þar fór hæfasti maður sem völ var á í starf hitaveitustjóra og því óþarfi fyrir hann að hafna auglýstri ráðningu þegar á hann var sótt.

Jóhannes Zoëga var helsti hvatamaður að byggingu Nesjavallavirkjunar og vildi fara mjög gætilega í allar framkvæmdir, óttaðist það mjög að með stórfelldri raforkuframleiðslu yrði gengið mjög á forðabúr Hengilssvæðisins, jafnvel svo að skortur yrði á skiljuvatni til heitavatnsframleiðslu í framtíðinni, atriði sem full ástæða er til að óttast í dag þegar raforkuframleiðslan á Hengilssvæðinu er orðin að aðalatriði og ellefu túrbínur sem framleiða samtals rúmlega 400 MW rafmagns soga í sig gufuaflið og senda mikið magn af skiljuvatni út í umhverfi sitt mörgum til ama.

Að sumu leyti varð ég fyrir vonbrigðum með bókina. Hún er of langdregin á köflum um leið og mér finnst stundum sem það vanti fleiri þætti spillingar í bókina. Við vitum ósköp vel að spillingin á Íslandi nægir til að setja Ísland mun neðar en í ellefta sætið meðal þjóða heimsins þegar spilling er annars vegar.  Um leið er hún prýðilegur inngangur að Rannsóknarskýrslunni frægu og auðveldar lestur hennar verulega.  

Takk Jóhann.

sunnudagur, október 23, 2011

23. október 2011 - Af landsfundi Samfylkingarinnar

Hvernig á ég að geta tjáð mig um landsfundinn? Ég var ekki einu sinni þar. Það er samt engin ástæða til að örvænta. Ég er ekkert hætt í Samfylkingunni og ekki á leið út.

Ástæða þess að ég skrópaði frá landsfundinum var sú að ég var á stöðugum fundum og námskeiðum á milli næturvakta á fimmtudag og föstudag og þegar síðasta námskeiðinu lauk um klukkan 17.00 á föstudag var landsfundur Samfylkingarinnar byrjaður. Mér fannst á þeim tíma sem að mæting á þeirri stundu yrði sem þátttaka í halelújasamkomu. Ég fór því heim og var skriðin upp í rúm löngu fyrir miðnætti og svaf í hálfan sólarhring. Þegar ég vaknaði aftur nennti ég ekki út fyrir dyr, ekki einu sinni á landsfund. Fyrirgefið félagar, eigin velferð varð að ganga fyrir velferð Samfylkingarinnar.

Ég hefi meiri áhyggjur af mætingarleysi annarra en minnar. Það vantaði margar þungaviktarmanneskjur á landsfundinn og ein þungaviktarmanneskja sem skrópaði lýsti því á eftirfarandi hátt í tölvupósti til mín í dag:
er eitthvað óskaplega pirruð út í minn flokk sem nýtir illa sérfræðiþekkingu hjá stórum hópi fólks, vanvirðir algerlega sína reynslubolta, og alltof margir ginnkeyptir fyrir valdinu í stað þess að nýta fólk  sem gæti komið málstað og góðum málum í farveg.  Bévítans kjördæmapot!“
Ég vildi ekki taka svo djúpt í árinni, en er enn ósátt við orð viðskiptaráðherra sem lýsti yfir stuðningi við opin prófkjör. Í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík eru um fimm þúsund skráðir meðlimir, en einungis þúsund sem greiða félagsgjöld. Hvar eru hinir fjögur þúsund félagarnir? Jú, sumir eru virkir meðlimir í Sjálfstæðisflokknum, aðrir í Framsóknarflokknum, enn aðrir eru óflokksbundnir að öðru leyti en létu skrá sig í Samfylkinguna til að taka þátt í prófkjöri til stuðnings einum ákveðnum frambjóðanda, en hafa enga samstöðu með jafnaðarmönnum að öðru leyti.

Sjálf hefi ég ávallt talið mig vera langt til vinstri í pólitík. Ég er friðarsinni, er andvíg vopnaburði og  hernaðarbandalögum þar á meðal NATÓ. Ég er virk í baráttunni gegn dauðarefsingum með þátttöku minni í Amnesty International, en um leið hefi ég kynnst því hve Evrópusambandið hefur stuðlað að réttindum minnihlutahópa, fjölskylduvænni vinnumarkaðslöggjöf og eðlilegum fjármálamarkaði. Því get ég ekki stutt flokka sem berjast gegn Evrópusamvinnu eins og VG og hefi því sagt skilið við stuðning minn við Vinstri hreyfinguna grænt framboð þótt ég hafi aldrei verið flokksbundin þar, en verið virk í Samfylkingunni síðustu fimm ár. Um leið sé ég ýmsar blikur á lofti innan Samfylkingarinnar. Við sem héldum að Samfylkingin væri laus við allt sem heitir spilling verðum að fara í naflaskoðun og ég veit að slík naflaskoðun hefur farið fram og tekið á málum innan Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Þessi naflaskoðun þarf bara að ná miklu víðar innan flokksins.

Nóg er af þrasi og tími til kominn að lesa úr niðurstöðum landsfundarins í þeirri von að Samfylkingin geti orðið það afl sem segir skilið við spillingu, kunningjaræði og einkavinavæðingu á öllum sviðum.

þriðjudagur, október 18, 2011

18. október 2011 - Gjafabréf og annað skúffudót

Ég var að taka til í skúffum hjá mér um daginn og mætti gera meira af slíku, því meðal þess sem ég fann í skúffunum voru tvö útrunnin gjafabréf á veitingastaði í Reykjavík, annað frá 2007 og hitt frá 2008. Bæði gjafabréfin giltu til eins árs og því löngu runnin úr gildi og safaríkar nautasteikurnar á Lækjarbrekku og Karúsó sennilega löngu komnar í maga einhvers sem hefur kunnað að meta þær, en ég gat sjálfri mér um kennt með tóman maga í kreppunni.

Senn líður að því að farið verði að huga að jólum og síðan stórafmæli. Algengt er að fólki sem þykist eiga allt fái gjafabréf í afmælisgjöf, en slíkar gjafir yrðu vart til annars en að fylla skúffur af pappír í mínu tilfelli sem myndi vafalaust henda gjafabréfinu í næstu skúffu þar sem það gleymdist næstu árin.

Þetta minnir mig á árið sem ég fékk slæman brjóstsviða og fór í apótekið og fékk mér tvo pakka af brjóstsviðatöflum, enda þóttist ég vita af reynslu annarra að brjóstsviðatöflur lina verkina ef maður fær brjóstsviða. Þegar ég kom heim með brjóstsviðatöflurnar var verkurinn horfinn og ég setti töflurnar í lyfjakassann minn til nota síðar ef brjóstsviðinn kæmi aftur. Svo liðu árin og mörgum árum síðar var ég að taka til í lyfjakassanum og fann þá brjóstsviðatöflurnar í óopnuðum umbúðunum sínum. Þá voru liðin þrjú ár frá síðasta notkunardegi og ekkert annað að gera en að skila þeim til Sorpu.

Ég þarf sennilega að taka oftar til heima hjá mér!

mánudagur, október 17, 2011

17. október 2011 - Ekkifrétt dagsins!

Ég sperrti eyrun þegar fréttamaður byrjaði að lesa ágrip af hádegisfréttum klukkan 12 á hádegi því á eftir frétt af skartgriparáni í Reykjavík kom eftirfarandi frétt:

Jón Ásgeir Jóhannesson, Tryggvi Jónsson og Kristín Jóhannesdóttir segjast öll vera saklaus af öllum ákæruliðum skattahluta Baugsmálsins sem nú er til aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Þegar ég hafði heyrt alla fréttina varð ég fyrir vonbrigðum því fréttin var engin, einungis marklaust hjal. Því hvað er svona merkilegt við að einhver sem er ákærður fyrir glæpi neiti sök? Ég efast til dæmis ekkert um að þegar skartgriparæningjarnir nást sem verður vonandi mjög fljótlega, muni þeir harðneita sök þegar þeir verða dregnir fyrir dómarann. Þetta gera langflestir frammi fyrir dómaranum hvort sem þeir eru sekir eða saklausir, einnig þeir sem eru gripnir við verknaðinn, enda vita þeir sem er að það er ávallt möguleiki á sýknu eða mildari dómi. Með því að neita sök eru þeir um leið að krefjast ítarlegrar dómsrannsóknar þar sem dregin eru fram öll atriði málsins, einnig þau sem teljast sakborningnum til mildunar dóms.


Það er því engin frétt að Jón Ásgeir og hyski hans neiti sök þótt ætlað brot þeirra sé talsvert dýrara en skartgripirnir sem ræningjarnir náðu í skartgripaverslun í morgun. Með þessu er ég ekkert að kveða upp úr um skoðun mína, hvort ég telji Jón Ásgeir sekan eða saklausan, en vona bara að dómararnir dæmi að lögum og komist að réttri niðurstöðu í ákærunni gegn honum og öðrum sem þátt eiga að máli.


Hinsvegar má fréttastofa Ríkisútvarpsins, afsakið Rúffsins bæta aðeins fréttaflutning sinn.



sunnudagur, október 16, 2011

16. október 2011 - Hús með sál

Það varð talsvert tjón á húsi Heilsugæslunnar að Drápuhlíð 14 í morgun. Talsvert heitt vatn rann inn í húsið og eyðilagði allt sem fyrir varð. Þrátt fyrir tjónið má benda á að ein skýring þessa tjóns kann að vera að gamlir hitaveitustokkar liggja neðanjarðar að húsinu og því greiður aðgangur vatnsins að húsinu og þá frekar að þessu húsi en öðrum húsum í hverfinu. Ég stóð reyndar í þeirri trú að stokkarnir að húsinu hefðu verið fjarlægðir fyrir löngu, en komst að öðru við að hlusta á fréttirnar í útvarpinu.

Hvað skyldu hitaveitustokkar gera að þessu húsi inni í miðju íbúðahverfi ef marka má fréttirnar og viðtal við upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar? Svarið er einfalt. Þetta hús á sér sögu og sál, en þarna voru aðalstöðvar Hitaveitu Reykjavíkur frá 1959-1984 og dælustöð í kjallaranum. Hitaveitan flutti síðan úr Drápuhlíðinni inn á Grensásveg og heilsugæslan fékk húsið til sinna umráða í framhaldinu.

Enn í dag má heyra gamla hitaveitustarfsmenn tala um Drápuhlíðina með söknuði þótt þeir séu fáir eftir ofar moldu sem störfuðu hjá Hitaveitunni á þessum stað. Það er því grátlegra að tjónið skuli hafa verið af völdum heita vatnsins og hugsanlega vegna hitaveitubilunar í hverfinu.

laugardagur, október 15, 2011

15. október 2011 - Um Bankasýslu ríkisins

Þá er víst búið að ráða vanhæfan forstjóra til Bankasýslu ríkisins. Í útvarpsfréttum var haft eftir  fjármálaráðherranum að hann gæti ekkert frekar gert í málinu. Ég man ekki nákvæmlega orðalagið, en þótti það skrýtið þegar haft er í huga hve einstöku ráðherrar virðast stundum hafa mikil völd, hvað þá þegar vanhæfur maður er ráðinn í mikilvægt starf á vegum stjórnsýslunnar.

Það er vitað að aðstoðarmenn ráðherra hafa oft greiðan aðgang að stjórnsýslunni jafnvel þótt þeirra ráðherra sé löngu hættur og farinn að stunda önnur gruggug mið. Þessi ráðning til Bankasýslu ríkisins er dæmigerð ráðning af þessum toga, kunningjaráðning, klíkuskapur, spilling! Um leið er stjórn Bankasýslu ríkisins búin að lýsa yfir vanhæfi sínu til að ráða fólk og á að segja af sér hið bráðasta. Fjármálaráðherra getur einnig hjálpað stjórn Bankasýslu ríkisins til að segja af sér, til dæmis með því að lýsa vantrausti á störf hennar ef hún segir ekki af sér án tafar. Stjórn valdamikillar stofnunar sem fær svo skýr skilaboð frá ráðherranum hlýtur að skilja hvað átt er við.

Ef ráðherrann getur ekki rekið vanhæfa stjórn þessarar stofnunar eða ef hún neitar að segja af sér er næsta ráð að breyta lögum á Alþingi svo hægt verði að reka vanhæfar stjórnir fyrirtækja.

Í búsáhaldabyltingunni forðum daga tókst að fella þáverandi ríkisstjórn vegna kröfunnar um betri stjórnarhætti. Vonir stóðu til þess að hægt yrði að bæta stjórnkerfið, gera það skilvirkara og mun lausara við spillingu en hafði verið um mörg undanfarin ár. Því miður sannar þessi ráðning að við eigum enn langt í land að koma á Nýju Íslandi í anda búsáhaldabyltingarinnar.

Ég hefi talið mig vera stuðningsmanneskju ríkisstjórnarinnar. Ég greiddi Samfylkingunni atkvæði mitt í síðustu kosningum og fagnaði nýrri ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs árið 2009. Ég er orðin efins um þetta ríkisstjórnarsamstarf, ekki vegna starfa ráðherra Samfylkingar, en verulega vegna starfa sjávarútvegs og landbúnaðarráðherrans sem mér virðist á köflum eiga meira erindi við Framsóknarflokkinn en VG og íslensku þjóðina. Nú hefur fjármálaráðherrann einnig brugðist vonum mínum og veigrar sér við að grípa inn í þegar klíkuráðning á sér stað og þingflokkur VG er hlaupinn út og suður

Ef mínir kettir væru jafn óþægir og þingflokkur VG væri ég löngu búin að senda þá í svæfingu!

föstudagur, október 14, 2011

14. október 2011 - app?

Hvernig myndir þú þýða þetta orð app? spurði vinnufélagi minn í dag.
Ég hváði við, hafði heyrt það nokkrum sinnum í auglýsingum Ríkisútvarpsins sem nú má ekki lengur heita Ríkisútvarp heldur Rúff, svaraði síðan einfaldlega að mér líkaði alls ekki við þetta orð. Nú á maður að appa tónlistarviðburði á hátíð þeirri sem kennd er við loftbylgjur (airwaves) auk þess sem hægt er að appa bensínáfyllingu á símann sinn hjá olíufyrirtækinu Neinum.

Af þessu má ætla að með appinu sé átt við að tengja útfrá orðinu apply og tenging (application), en þetta er að sjálfsögðu ágiskun því ég á farsíma sem ég get hringt úr og tekið á móti símtölum og smáskilaboðum, en get hvorki appað né tengt við tónlistarviðburði eða bensínstöðvar.

Ríkisútvarpið, afsakið Rúffið, gekk lengi vel framfyrir skjöldu í málhreinsun meðal íslensku þjóðarinnar. Öfugmæli og niðurlægingarorð eins og kynvillingur og kynskiptingur voru hátt skrifuð meðal málfarsráðunauta stofnunarinnar og vafalaust hafa orð sem niðurlægja þroskaskerta einstaklinga verið í hávegum höfð hjá umræddri stofnun, allt undir merkjum málfarshreinsunar, en um leið var margt gott gert í málrækt íslenskrar tungu.

Er ekki kominn tími til að auglýsingadeildin flauti af orðið app og noti hið ágæta orð tengja eða annað álíka gott og gilt íslenskt orð í staðinn? Öfugt við fyrri tilraunir Ríkisútvarpsins til að niðurlægja með neikvæðum orðum, held ég að engum sárni þótt nýyrðið app verði snarlega lagt af.

Að endingu styð ég orðið Snjáldurskinna sem Páll Valsson kom fram með fyrir fáeinum árum í stað Fasbókar sem nýlega hefur heyrst á öldum ljósvakans yfir fyrirbærið Facebook.   

þriðjudagur, október 11, 2011

11. október 2011 - Inspired by Iceland eða hvað?

Ég hefi löngum boðið fólki heim í mín fátæklegu híbýli. Þetta hefur verið allskyns fólk sem ég hefi kynnst á ferðum mínum um landið eða erlendis, við einstöku tækifæri eða þá að ég hefi boðið erlendum vinum á Facebook að koma í heimsókn ef þeir hafa átt erindi til Íslands. Þetta hefur verið fólk af ýmsum þjóðernum auk Íslendinga, Svíar, Lettar, Hollendingar, Bretar og Bandaríkjamenn auk þess sem ég á síðar von á heimsóknum fólks frá Ítalíu og Þýskalandi. Ég hefi eldað mat fyrir fólkið og bakað pönnukökur, hvorutveggja án þess að búa við löglega gæðavottun, farið með þau til Þingvalla, Nesjavalla, Vífilsfellið eða Selvogsgötuna og ávallt hafnað öllu endurgjaldi í formi peninga.

Stundum hefi ég boðið fólki að gista. Ef tveir eða þrír gestir eru á ferðinni geng ég gjarnan úr rúmi og sef þá í litla herberginu með köttunum eða þá í sófa í stofunni. Allt er þetta gert á eigin kostnað og hið einasta sem ég hefi út úr þessu er ánægjan af að kynnast góðu fólki og kannski í von um að fólkið svari í sömu mynt ef ég er á ferðinni heima hjá þeim.

Hópur sá sem reynir að kynna Ísland undir orðunum Inspired by Iceland hefur nú farið af stað með hvatningarátak til Íslendinga um að bjóða erlendum ferðamönnum heim og sýna á þann hátt af sér íslenska gestrisni. Ýmsir opinberir aðilar hafa tekið þátt í átakinu og sagst myndu bjóða fólki heim eða í opinber salarkynni. Borgarstjórinn býður fólki að koma í Höfða, iðnaðarráðherrann vill fá fólk með sér í fótabað og forsetinn ætlar að baka pönnukökur.

Þetta er auðvitað hið besta mál, þótt forsetinn muni vafalaust senda reikninginn fyrir kostnaðinum við pönnukökurnar á Bessastöðum til skattgreiðenda, þ.e. til mín. En er þá ekki eðlilegt að ég svari í sömu mynt og sendi reikninginn fyrir minn kostnað við móttöku erlendra ferðamanna til forsetans?

mánudagur, október 10, 2011

10. október 2011 - Séra Baldur

Séra Baldur Kristjánsson sóknarprestur í Ölfusi og hinn ágætasti maður segir meðal annars eftirfarandi á bloggi sínu í morgun eftir að hafa hlýtt á sjónvarpsviðtal við Guðrúnu Ebbu, dóttur Ólafs Skúlasonar biskups:

Sennilega get ég þakkað Davíð Oddssyni það að ég varð aldrei mikill ráðgjafi Ólafs ( fyrir utan það að vera af annarri kynslóð og með afleitar hugmyndir). Vigfús Þór Árnason prestur hafði eftir Davíð svo að margir hlýddu á eftir að ég var ráðinn: ,,Ég skil ekkert í Ólafi að vera að raða í kringum sig þessum kommúnistum.“

Ólafur varð svo ráðvilltur að hann vissi ekkert hvað átti að gera við mig næstu mánuði.  Dómur Davíðs gat verið dauðadómur.

Í æviágripi séra Baldurs í Guðfræðingatali er ekki getið eins né neins um pólitísk trúnaðarstörf hans ef frá eru talin ritstörf hans um sögu verkalýðsbaráttunnar. Þar eru hinsvegar tíunduð störf hans að íþróttum, æskulýðsstarfi og mannréttindamálum. Sjálf man ég ekki eftir honum á þeim árum er ég tók virkan þátt í róttæku starfi á áttunda áratug síðustu aldar þótt ég vilji ekki útiloka að hann hafi verið starfandi á vinstri vængnum. Það skiptir að sjálfsögðu engu máli, því fólk á að njóta hæfileika sinna án tillits til pólitískra skoðana, en ekki vegna þeirra.

Orð Davíðs um séra Baldur við þáverandi biskup segja hinsvegar þann nöturlega sannleika að á Íslandi ríkti hálfgerður McCarthyismi þegar ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar voru hér við völd.

Er ekki kominn tími til að kalla fram sannleiksnefnd svo hægt verði að svipta hulunni af þeirri spillingu sem réði hér á landi á þessum árum?

10. október 2011 - Um biskupa


Ég er ekki mikil manneskja á sviði sifjaspjalla. Sifjaspell og kynferðislegt ofbeldi gagnvart er eitthvað sem mér finnast svo fráleit og óhugsandi að ég á erfitt með að horfast í augu við slíkt, ekki síst eftir að ég fékk að heyra að slíkt hefði hugsanlega viðgengist á barnaheimilinu þar sem ég ólst upp, þvert á æskuminningar mínar. Vegna þess hefi ég verið fremur vantrúuð á slíkt.

Um mánaðarmótin nóvember og desember árið 1994 var heill Kastljósþáttur Ríkissjónvarpsins helgaður baráttu minni fyrir að fá að leiðrétta kyn mitt. Þar birtist ítarlegt viðtal við mig sem og við þáverandi biskup Íslands, herra Ólaf Skúlason sem lýsti yfir undrun og skelfingu sinni yfir því að einhver manneskja vildi skipta um kyn. Ég fékk þennan Kastljósþátt sendan til mín til Svíþjóðar á myndbandi, enda blessunarlega fjarverandi er hann var sýndur og síðan hefi ég ekki verið óspjölluð mey sem opinber persóna.

Er ég skoðaði myndbandið fylltist ég gremju í garð biskups og eftir að Sigurður Þór Guðjónsson (síðar vinur minn) skrifaði grein í Morgunblaðið um orð biskups, ákvað ég að skrifa bréf til biskups þar sem ég útskýrði málstað þess fólks sem þjáist af kynáttunarvanda. Mér til undrunar fékk ég svar frá Ólafi Skúlasyni biskup þar sem hann bað mig afsökunar á orðum sínum og lýsti yfir skilningi á stöðu okkar í samfélaginu. Ekki man ég lengur nákvæmlega hvernig hann orðaði bréfið sem er vandlega geymt niðri í kjallara, en það varð til þess að ég fyrirgaf honum orð sín um fólk í minni aðstöðu. Ég hafði kynnst Ólafi Skúlasyni lítillega á sjöunda áratugnum er hann var sóknarprestur í Bústaðakirkju og kom oft til Axels L. Sveins sem var formaður sóknarnefndar og sem ég hefi ávallt litið á sem velgjörðarmann minn, en Axel var barnabarn Hallgríms Sveinssonar biskups (1889-1908) og lést vorið 1969.

Þegar Guðrún Ebba Ólafsdóttir kom fram opinberlega með ásakanir á hendur föður sínum voru þær slíkar að ekki var hægt annað en að trúa þeim og viðurkenna að ég hafði haft rangt fyrir mér er ég talaði vel um Ólaf Skúlason biskup. Hann átti þó sínar góðu hliðar sem ekki er hægt að horfa framhjá. Ég var því efins er ég heyrði um fyrri ásakanir á hendur honum, en þarna kom ískaldur sannleikurinn í ljós með orðum Guðrúnar Ebbu dóttur hans.
       
Nú koma fram ásakanir á hendur Karli Sigurbjörnssyni biskup vegna aðgerðarleysis hans gagnvart Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og fjöldi fólks krefst afsagnar hans. Ég lendi aftur í klemmu því ég á honum örlítið verk að þakka. Hann var nefnilega sá sem leysti mig frá hjónabandi vorið 1984 er ég og fyrrum maki (eiginkona) skildum að borði og sæng frammi fyrir Karli Sigurbjörnssyni þáverandi sóknarpresti í Hallgrímssókn í Reykjavík. Séra Karl vann sitt verk fljótt og vel og leysti okkur báðar undan skyldum sem ég gat ekki staðið við og voru óumflýjanlegar.

Ég tek ekki afstöðu til afsagnar Karls Sigurbjörnssonar biskups.   

sunnudagur, október 02, 2011

2. október 2011 - Stjórnlagaráð

Við þingsetningu Alþingis 1. október reyndi forseti Íslands að eigna sér störf Stjórnlagaráðs og þóttist fullviss þess að hann fengi meiri völd eftir lögleiðingu nýrrar stjórnarskrár en áður. Þessu var þegar mótmælt af fleiri fulltrúum sem setið höfðu í stjórnlagaráði sem einungis töldu að um væri að ræða minniháttar breytingar á starfi forseta Íslands.

Ég fór að velta fyrir mér hvort ekki væri verið að búa til nýja stjórnarskrá sem væri svo lík hinni gömlu að hægt væri að rífast um einstakar greinar hennar til eilífðar rétt eins og hinnar gömlu. Það er enn verið að rífast um hina gömlu, hvernig skal fara með völd kóngsins, afsakið forsetans í stjórnarskrá Íslands og ég vonaðist til að þessu myndi linna með nýrri stjórnarskrá.

Fyrir ári síðan bauð ég mig fram til stjórnlagaþings sem þá hét svo ásamt rúmlega 520 öðrum einstaklingum. Ég hlaut ekki nægan stuðning til setu á stjórnlagaþingi, lenti í 43 sæti og því talsvert langt frá öruggu sæti. Í framhaldinu og eftir kærumál og síðan skipan stjórnlagaráðs ákvað ég gefa stjórnlagaráði vinnufrið til að vinna af heilindum að nýrri stjórnarskrá. Ég viðurkenni þó að mig langaði til að grípa fram fyrir hendurnar á stjórnlagaráði þegar kosið var um eitt orð í mannréttindakaflanum, en það var orðið kynvitund (gender identity), en um leið var ég víðsfjarri þegar atkvæði voru greidd. Þetta orð var fellt út úr uppkastinu að nýrri stjórnarskrá með atkvæðagreiðslu með eins atkvæðis minnihluta þar sem einn fulltrúinn viðurkenndi eftir á að hafa óvart kosið vitlaust og annar farinn í barneignaleyfi. Fyrir bragðið varð ég að senda þau boð út til félaga minna sem eru transfólk um allan heim að okkur hefði mistekist að fá kynvitund (gender identity) inn í stjórnarskrá Íslands. Um leið vil ég þakka Silju Báru og Illuga og öðrum stuðningsaðilum þessa eina orðs í stjórnarskrá Íslands fyrir einlægan stuðning þeirra við þetta orð í uppkasti að nýrri stjórnarskrá Íslands.

Það var fleira en þetta eina orð sem sitja aðeins í mér eftir að hafa lesið yfir stjórnarskráruppkastið. Það vantar allt sem ég hafði lagt áherslu á um friðarmálefni og kjarnorkuvopnalaust Ísland. Þá vantaði ákvæðið sem hefði orðið hinni evangelísk-lúthersku kirkju á Íslandi til framdráttar sem er algjört trúfrelsi á Íslandi, en einnig hugsanlegt ofurvald eins manns sem er forseti Íslands. Ég tók ekki afstöðu til valds forseta Íslands í kosningabaráttunni, en hefði örugglega hvatt til þess að forseti Íslands yrði einungis táknrænt sameiningartákn fyrir þjóðina fremur en að vera það sundrungarafl sem núverandi forseti hefur valdið með störfum sínum.

Því miður virðist forsetinn halda áfram að verða sundrungarafl í nýja stjórnarskráruppkastinu. Það finnst mér miður og hann staðfesti það með orðum sínum á Alþingi laugardaginn 1. október 2011.