laugardagur, september 21, 2013

21. september 2013 - Hinn frændinn frá Lokastíg 28


Pétur Þorbjörn Kristjánsson

Foreldrar mínir hófu búskap að Lokastíg 28 í Reykjavík árið 1940. Það var komið stríð úti í Evrópu. Móðir mín var þriðja í röð níu barna Þorbjörns Péturssonar vélstjóra frá Grjóta í Garðahrepp og Arndísar Benediktsdóttur húsmóður frá Vallá á Kjalarnesi og faðir minn sem hafði alist upp munaðarlaus vestur í Breiðafirði var kokkur á línuskipi með Þorbirni er hann kynntist dóttur hans er honum var boðið í heimsókn til vélstjórans á bátnum og úr því varð hjónaband hans og einnar heimasætunnar. Foreldrar mínir hófu búskap sinn í foreldrahúsum hennar og þar fæddust fyrstu þrjú eða fjögur börnin í þeirri miklu húsnæðiseklu sem ríkti í Reykjavík á styrjaldarárunum um og eftir stríð.

Pétur var annar í röð barnanna fæddur 20. mars 1942 að Lokastíg 28 í Reykjavík. Hann sýndi sig snemma í því að vera drátthagur, listhneigður og ábyrgur. Myndirnar sem hann rissaði á blað báru listfengi hans gott vitni og hann kenndi yngstu systkinum sínum að lesa löngu áður en hefðbundin skólaganga þeirra hófst og enn minnist ég þeirra stunda er hann nýkominn heim úr skólanum, hóf að hjálpa mér við lesturinn þá sjálf vafalaust nýlega laus við bleyjuna.

Bernskuheimili mitt var dæmigert fyrir heimili þar sem Bakkus konungur réð ríkjum. Heimilið var í hverfi rúmlega 100 lítilla íbúða sem kallað var Höfðaborg og því miður réði áfengið meiru um daglegt líf en æskilegt var. Iðulega var það Pétur sem tók stjórnina þegar foreldrarnir voru einhversstaðar fjarverandi og stjórnaði heimilinu. Einhvernveginn hafðist þetta allt, en samt vorum við yngstu börnin send á barnaheimili þar sem við áttum yndislega æsku.

Þar sem við ólumst upp á barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellssveit var það Pétur sem heimsótti okkur oftast, fór með okkur til Reykjavíkur þegar eitthvað var umleikis og sá til þess úr fjarlægð að okkur leið vel þrátt fyrir fjarvistir frá foreldrum og öðrum ættingjum.

Sjálfur hneigðist Pétur til mennta, en það brást þegar hvatninguna og fjarmagnið vantaði og eftir stuttan tíma á sjó að afloknu landsprófi hóf hann störf við teppalagnir hjá Teppi hf. Síðar varð hann verslunarstjóri hjá verslun fyrirtækisins við Austurstræti í Reykjavík en um 1970 hóf hann störf sem verktaki við teppalagnir hjá Álafossi hf þar sem hann starfaði næstu áratugina á meðan teppalagnir voru enn í tísku á Íslandi.

Tvítugur stofnaði Pétur heimili ásamt unnustu sinni sem síðar varð eiginkona hans, Lailu Schetne og Guðrún, fyrsta barn þeirra fæddist tveimur dögum fyrir tvítugsafmæli Péturs. Heimili Péturs og Lailu var áfram afdrep okkar eftir að við komum aftur til Reykjavíkur og langt fram á fullorðinsaldur. Okkar stoð og stytta í lífinu var ekki hjá foreldrunum heldur hjá Pétri og Lailu þó svo að foreldrarnir okkar hafi séð að sér og náð sáttum við lífið og okkur.

Pétur og Laila keyptu sína fyrstu íbúð að Gnoðavogi 40 en síðar fluttu þau að Borgarholtsbraut 66 í Kópavogi þar sem þau bjuggu eftir það og ólu upp þrjú börn sín, Guðrúnu, Þorbjörn og Hörpu. Hann var vinamargur og hann var með bíladellu, átti flottustu bílana í bænum, Chevrolet 1955, Mercury 1956 og Ford Fairlaine 1959 og þá má ekki gleyma Thunderbird 1968 sem hann keypti eftir tjón og gerði upp, en gaf síðar Þorbirni syni sínum. Hann var græjukarl, átti flottustu hljómtækin og síðar sjónvörpin og hefði vafalaust orðið tölvuiséní ef hann hefði fengið hvatningu til slíks.

Síðustu árin voru erfið. Vinnan við teppalagnir hafði eyðilagt hnén og hann dundaði sér um nokkurra ára skeið við útleigu á myndböndum til skipa, en vann síðustu árin sem næturvaktmaður. Skömmu eftir sjötugsafmælið vorið 2012 fékk Pétur heilablóðfall og náði sér aldrei að fullu eftir það. Hann fékk aftur heilablóðfall á afmælisdegi sonar míns 17. september 2013 og lést þá um kvöldið.

Pétur er sá fjölskyldu minnar sem ég á mest að þakka í gegnum lífið. Hann var kletturinn í hafinu og jafnframt sá sem ávallt var hægt að treysta á. Það  var ekki foreldrum mínum að þakka að ég er sú manneskja sem ég tel mig vera, heldur Pétri bróður. Jafnvel þegar ég gekk í gegnum mestu erfiðleika lífs míns stóð hann mér við hlið og studdi mig af alefli.


Á skömmum tíma hafa tveir af nánustu ættingjunum sem hafa reynst mér best fallið frá.  Eyjólfur móðurbróðir minn féll í sumar og nú Pétur bróðir minn. Minningin um þessa tvo verður mér kær kveðja allt til æviloka.

miðvikudagur, september 18, 2013

18. september 2013 - Tveir frændur frá Lokastíg 28

Eyjólfur Þorbjörnsson
Árið 1922 fluttu afi minn og amma í nýbyggt hús sitt að Lokastíg 28 í Reykjavík. Þá þegar var fyrsta barn þeirra hjóna fætt, Jakobína Steinunn sem hét í höfuðið á systur ömmu minnar og eiginmanni hennar. Eftir að þau hjón fluttu í litla húsið sitt eignuðust þau átta börn til viðbótar en móðir mín var þriðja barn þeirra, fædd 1924 og lést 2003. Uppáhaldsfrændinn var þó að öllum öðrum ólöstuðum, sjöunda barnið af níu börnum afa míns og ömmu, Eyjólfur Guðni Þorbjörnsson veðurfræðingur fæddur 28. október 1933 í húsi foreldra sinna.

Afi minn og amma voru dæmigerð fátæk verkamannafjölskylda, amma mín var heimavinnandi en Þorbjörn afi minn sjómaður sem settist á skólabekk á fimmtugsaldri og lærði vélstjórn og hélt síðan áfram störfum á sjó allt til æviloka og lést á frívaktinni um borð í Heklunni árið 1965, en kona hans lést árið 1949 úr fjölskyldusjúkdómnum heilablóðfalli einungis 48 ára að aldri. Eyjólfur var einasta barn Þorbjörns og Arndísar sem gekk menntaveginn, þó ekki fyrr en eftir einhver ár úti á vinnumarkaðnum þar sem hann starfaði sem aðstoðarmaður á Veðurstofunni. Hann fékk áhuga fyrir náttúruvísindum og eftir stúdentspróf hélt hann til Noregs þar sem hann lærði veðurfræði, en starfaði alla tíð á veðurstofunni eftir að námi lauk, ýmist á Keflavíkurflugvelli eða í Reykjavík.


Margt var það sem gerði Eyjólf einstakan í hópi systkina sinna. Hann var lengi einhleypur áður en hann eignaðist fjölskyldu og gaf sér því meiri tíma til að sinna ættingjum sínum nær og fjær en gengur og gerist. Hann var ekki háður áfengi eins og margir ættingja hans og það sem okkur börnunum þótt mest um vert var að hann hafði sex fingur á annarri hendinni og sá húmoristi sem hann var var hann ávallt reiðubúinn til að lofa okkur að dást að þessu undurverki sem okkur fannst. Síðar lét hann fjarlægja aukafingurinn sem gleymdist flestum.


Þegar Eyjólfur var nálægt fimmtugu kvæntist hann Guðrúnu Lárusdóttur sem áður hafði verið gift frænda okkar, syni Steinunnar og Jakobs og gekk börnum hennar í föðurstað. Hann hélt samt áfram að vera uppáhaldsfrændinn sem ávallt var hægt að leita til og vildi öllum vel. Rithöndin var gullfalleg og hann var óvenju listrænn þótt ekki fengi hann að njóta sín á listabrautinni. Hann var bókaormur og ættfræðigrúskari og mörg kvöldin ræddum við ættfræði og reyndum að gera betur vitandi að seint verður fullkomnun náð í sannleiksgildi ættfræðinnar.


Þegar starfslok Eyjólfs nálguðust ákváðu hann og Dúna kona hans að flytja búferlum til Málmhauga í Svíþjóð þar sem dóttir Dúnu var búsett. Á þeim árum bjó ég sjálf í Svíþjóð, kannski einmana og hálfgildings einangruð frá fjölskyldu minni þar sem ég bjó í Stokkhólmi. Það varð mér því fagnaðarfundur er þau hjónin höfðu samband við mig þar sem ég bjó 600 kílómetra í burtu og ættarböndin voru hnýtt sem aldrei fyrr og aftur reyndust þau mér yndislega er þau studdu mig í baráttu minni við heilbrigðisyfirvöld sem vildu hvorki sjá mig né heyra í baráttu minni fyrir réttu kynferði.


Eftir að ég hafði unnið sigur í baráttu minni í Svíþjóð hélt ég heim. Eftir það fækkaði þeim skiptum sem ég heimsótti Eyfa og Dúnu ekki síst eftir að þau fluttu frá Málmhaugum til smábæjar nærri Oscarshamn, kom síðast til þeirra haustið 2009.  Við héldum þó ávallt tölvusambandi.


Dúna lést úr krabbameini 27. febrúar 2013. Eftir andlát hennar hvatti ég Eyfa til að pakka saman og flytja heim. Hann var einmana og fjarri öllum fjölskyldumeðlimum, en hundarnir hans voru honum of dýrmætir til að hann yfirgæfi þá án þess að tryggja framtíð þeirra. Eftir að hann veiktist sjálfur í sumar og ljóst var hvert stefndi fór fjölskyldan af stað og reyndi að tryggja sem ánægjulegasta ævikvöldið. Það gekk ekki sem skyldi, en er læknar gáfu heimild til að flytja Eyfa heim til Íslands var drifið í heimflutningi, hann sendur heim með flugi frá Stokkhólmi, en eftir heimkomu var ekið með hann rakleitt á Borgarspítalann þar sem hann fékk inni á herbergi með útsýni upp á Veðurstofu. Þar lést hann um eftirmiðdaginn 19. júlí einungis sólarhring eftir heimkomu sína frá Svíþjóð og var jarðsunginn 30. júlí frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og fékk legstað við hlið eiginkonu sinnar í Hafnarfjarðarkirkjugarði.

Þegar Eyjólfur lést lauk þar með sögu einnar kynslóðar því öll systkini hans voru látin er hann lést.


Þessi dagur, 30. júlí 2013 var um leið síðasti dagurinn sem ég hitti bróður minn Pétur Þorbjörn Kristjánsson sem einnig var fæddur að Lokastíg 28 í Reykjavík 20. mars 1942. Minningin um hann er síst minni en Eyjólfs enda áttu þeir frændur og félagar svo margt sameiginlegt sem ekki er hægt að slíta í sundur. Fjallað verður um Pétur næstu dagana.  



laugardagur, september 14, 2013

14. september 2013 - Slæmar flugstöðvar?

Einhver tjáði sig um Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli fyrir skömmu síðan og taldi hann meðal lélegri flugvalla. Ekki man ég frá orði til orðs hver sagði hvað í þessu samhengi en samkvæmt ummælunum var Leifsstöð ekki í miklum metum hjá viðkomandi.

Sjálf hefi ég óskaplega lítið út á Leifsstöð sem slíka að setja. Það má vissulega gagnrýna af hverju verslanir þar inni eru ekki allar opnar allan sólarhringinn enda hefur umferðin um Keflavíkurflugvöll aukist svo mikið að Leifsstöð er að sprengja allt utan af sér. Þannig voru fjölmargar verslanir lokaðar þegar ég átti leið um miðnætturbil á útleið fyrir skömmu. Á móti kom einstaklega ljúf framkoma allra er ég kom til baka nokkrum dögum síðar á háannatíma, jafnt framkoma afgreiðslufólks í komufríhöfn sem tollvarða og öryggisvarða. Reyndar hefi ég mjög sjaldan þurft að kvarta yfir þjónustunni í Leifsstöð allt frá því ég fór fyrst þar um skömmu eftir opnun hennar og fram á þennan dag, þá helst of hárri gjaldtöku á bílastæðum en alls ekki framkomu starfsfólks.

Svona góð framkoma er ekki hjá öllum á öllum flugvöllum. Ég átti leið um Kastrup flugvöll á á leið minni heim frá Danmörku. Er ég kom að öryggishliðunum stillti ég mér upp við hlið fimm en sá fljótlega eftir þeirri ákvörðun minni því öryggisvörður þar hamaðist við að gefa fyrirskipanir til væntanlegra flugfarþega eins og SS foringi að reka gyðinga í gasklefa. Hann öskraði á allt og alla og virtist alls ekki ráða við hlutverk sitt og farþegar sáu sumir ástæðu til að setja ofan í við hann en aðrir snéru sér annað. Hann hlustaði ekki og hélt áfram tilraunum sínum til að reka fólk í dilka eins og sláturfé.


Þetta var á háannatíma á Kastrup, en ég átti erindi í verslanir á flugvellinum og ég kom við í einni slíkri. Þar sem ég beið þolinmóð eftir afgreiðslu og afgreiðslustúlkan virtist niðursokkin í tölvuna fór ég að kíkja eftir hvað hún væri að gera svona merkilegt í tölvunni að hún hefði ekki tíma fyrir viðskiptavinina og það reyndist mjög tímafrekur tölvuleikur. Þá missti ég áhugann fyrir vörunum í þeirri verslun. Ég ákvað að fá mér léttan snæðing og pantaði léttan málsverð. Það gekk hratt og vel fyrir sig en þegar kom að því að borga var löng biðröð af því að afgreiðslustúlkan var að gera upp annan kassann áður en hún komst sjálf í mat og á meðan var einungis einn kassi í notkun.


Yfirmenn á Kastrup flugvelli hafa oft gefið út yfirlýsingar þess efnis að nú sé stefnt að því að gera Kastrup að besta flugvelli í heimi. Því miður virðast þeir hafa gleymt að segja starfsfólkinu frá þessu því góð flugstöð verður aldrei betri en starfsfólkið sem vinnur þar.


miðvikudagur, september 04, 2013

4. september 2013 - Seawise Giant



Seawise Giant var stærsti farkostur sem smíðaður hefur verið, hér sem Jahre Viking undir norskum fána


Eftir að ég skrifaði pistilinn um nýju risagámaskipin hjá Mærsk var ég spurð um hver hefði verið stærstu skip sem smíðuð hafa verið. Málið er einfalt. Það var Seawise Giant.

Árið 1967 þegar ljóst var að Suezskurðurinn yrði ekki opnaður aftur á næstu árum eftir sex daga stríðið hófst mikill uppgangur í smíði risastórra tankskipa sem gætu flutt sem mestan farm í hverri ferð til Evrópu. Tankskipin urðu stærri og stærri og þegar komið var fram á áttunda áratug aldarinnar og Yom Kippur stríðið hafði aukið enn á ófriðarbálið við botn Miðjarðarhafs voru pöntuð nokkur risastór tankskip sem fluttu um og yfir hálfa milljón tonna olíu í hverri ferð. Við þessar aðstæður pantaði grískur skipaeigandi 418.000 tonna tankskip frá Sumitomo Heavy Industries í Japan. Skipið var lengi í smíðum og varð þekkt undir smíðanúmerinu 1016, en við reynslusiglingu skipsins árið 1979 reyndist það ekki uppfylla kröfur hins gríska kaupanda og var samningnum því rift. Það fékkst nýr kaupandi frá Hong Kong að nafni C.Y. Jong en er hann kom inn í kaupin voru frönsku risatankskipin af Batillus gerð komin í rekstur og voru stærstu skip í heimi. Yong vildi hafa sitt skip enn stærra og lét lengja skipið svo það yrði enn stærra en frönsku skipin. Að sögn var það lengt um  80 metra.  Með þessu móti varð það lengsta skip sem smíðað hefur verið eða 458 metrar en bar örlítið meira en Batillus skipin, var 564.000 dwt á móti 554.000 til 555.000 dwt hjá fjórburunum.

Þessi  risaskip, Seawise Giant, frönsku skipin Batillus, Bellamya, Pierre Guillaumat og Prairal og loks Líberíuskipin Esso Atlantic og Esso Pacific voru öll yfir hálfri milljón tonna að stærð og yfir fjögur hundruð metrar á lengd. Með samningi um opnun Suezskurðarins og síðan stækkun hans 1980 urðu öll þessi skip óhentug. Þau komust ekki í gegnum Suezskurðinn og þau komust ekki í gegnum Ermarsundið sökum mikillar djúpristu. Þrjú frönsku skipanna voru rifin fljótlega eftir opnun Suez, en hið fjórða selt og rifið 2003, en Esso skipin voru í rekstri áfram til ársins 2002 er þau voru rifin


Hinn franski Batillus eftir að lokið var smíði hans. Til samanburðar er litli báturinn við hlið hans álíka stór og Hamrafellið, eitt af stærstu skipum sem hafa verið í eigu Íslendinga.


En snúum okkur aftur að Seawise Giant.  Skipið sem bæði var hið lengsta og breiðasta sem flotið hafði á heimshöfunum var áfram í rekstri í eign C.Y Jong til ársins 1988. Þá geisaði stríð á milli Írak og Íran og 14. maí 1988 er skipið var á siglingu um Hormuz sund fulllestað olíu frá Íran varð það fyrir írösku tundurskeyti og sökk. Síðar sama ár lauk stríðinu og var skipinu þá komið á flot, fékk þá nafnið Happy Giant og gert við það í Singapore. Árið 1991 keypti Norðmaðurinn Jörgen Jahre skipið og fékk það þá nafnið Jahre Viking og sett undir norskan fána. Hann rak skipið til ársins 2004 er First Olsen Tankers keyptu skipið, gáfu því nafnið Knock Nevis og notuðu það eftir það sem fljótandi birgðastöð í Dubai en það var áfram undir norskum fána til árisins 2009 er skipið var tekið úr rekstri og selt í brotajárn undir heitinu Mont.  Síðan var því siglt til Indlands þar sem það var rifið á árinu 2010.

Með niðurrifi skipsins lauk löngu tímabili þar sem tankskip voru lengstu skipin á höfunum, en þau verða áfram hin burðarmestu, enda allnokkur skip í rekstri sem bera um 400.000 tonn þótt þau séu mun auðveldari í rekstri en gömlu risaskipin. Burðargeta stærstu gámaskipanna er hinsvegar aðeins um 200.000 tonn svo þau eiga langt eftir í að ná hinum tröllvöxnu tankskipum.     

Hér sést ágætlega munurinn á stærstu skipagerðum heims Hér er Seawise Giant sýnt sem Knock Nevis.