laugardagur, nóvember 15, 2014

15. nóvember 2014 - Öskur!




Síðastliðið haust byrjaði einhver auglýsingaherferð á Rás 2 og kannski víðar með því að hópur einstaklinga hóf að öskra. Það var hræðilegt að heyra óhljóðin í vesalings fólkinu og því flýtti ég mér alltaf að lækka í útvarpinu um leið og öskrin byrjuðu. Loksins þögnuðu öskrin og mér skildist að þau hefðu verið fyrirboði einhverrar skelfilegrar kvikmyndahátíðar sem fór alveg framhjá mér enda vart mikils virði ef þarf að öskra til að vekja athygli á hörmunginni.

Nú er ný öskurherferð byrjuð aftur á Rás 2.  Núna er það ekki hópur sem öskrar, heldur einhver vitfirringur sem öskrar á náunga að nafni Gylfi Þór Sigurðsson sem mér skilst að sé í sérlega miklum metum hjá íþróttafréttamönnum. Ekki veit ég af hverju þessi vitfirringur er að öskra á Gylfa sinn enda flýti ég mér alltaf að lækka í útvarpinu í hvert sinn sem hann byrjar og mig langar ekkert til að vita það.  Það getur varla verið mikils virði úr því hann þarf að öskra svona.

Síðast í kvöld er ég hafði stillt á uppáhaldsþáttinn minn á Rás 2, Næturvakt Guðna Más Henningssonar til njóta gamallar og góðrar tónlistar sem hann spilar, gerði hann hlé fyrir auglýsingar og ég þurfti að flýta mér að lækka í viðtækinu til að losna við öskrandi vitfirringinn ákalla Gylfa sinn.

Svei mér þá, ég held ég vilji heldur hlusta á þáttinn hans Péturs á Útvarpi Sögu en þessi öskur á Rás 2! 

föstudagur, nóvember 14, 2014

14. nóvember 2014 - Ölkynning



Var boðið að vera með á bjórkynningu hjá Ölgerðinni á föstudagskvöldið með erlendum túrhestum og íslenskum leiðsögumönnum í boði íslenskrar vinkonu minnar sem einnig er leiðsögumaður og fréttamaður.  Það var ekki verra er ég kom í þetta hræðilega hús sem tók útsýnið til Sundahafnar af vélfræðingum Orkuveitunnar að fyrsti maðurinn sem ég mætti þegar komið var í húsnæði Ölgerðarinnar var sjálfur Stefán Pálsson sem var á hraðferð í burtu til að stjórna spurningaþætti hjá sjónvarpinu.

Ég átti samt ekki von á miklu þar sem ég átti von á leiðinlegum fyrirlestri á útlensku um gæði ölgerðarinnar en játa að ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Rammíslenskur barþjónn að nafni Sigríður Björk, þó ekki lögreglustjóri, sem var einnig fyrirlesari kunni sitt fag, virtist alvön enskum krám og beitti dæmigerðu ensku hegðunarmunstri við fyrirlesturinn.

Ég er í ölbanni þessa mánuðina þó með undantekningum á meðan ég er í Bjarnakúrnum, þ.e. ég má einungis neita matar og drykkjar að verðmæti 248 krónur að hámarki fram að jólum, þó að undanskilinni Framsóknarundantekningunni, þ.e. að drekka tæplega eina kippu af öli eða sem samsvarar „leiðréttingunni“  á mánuði. Með þessu hefur mér tekist að ná af mér tíu kílóum, en það er önnur saga.  Ég leyfði mér að gera undantekningu í kvöld, naut frábærs fyrirlestrar Sigríðar Bjarkar sem fór á kostum er hún lýsti íslenskri áfengissögu  yfir erlendum túrhestum sem einnig nutu fyrirlestursins að smökkun íslensks brennivíns frátöldu, en það virtist einasti galli kvöldsins, allavega hvað túrhestana snerti.

Ég hlakka til að komast sem fyrst eftir áramótin í bjórskóla Ölgerðarinnar. Það er allavega stutt að rölta að heiman í skólann, reyndar rétt eins og þegar ég var í Vélskólanum og bjó nánast mitt á milli Ríkisins, áfengisverslunarinnar við Snorrabraut og Vélskólans á áttunda áratug síðustu aldar og stysta leiðin fyrir félagana á heimavistinni var að fara í gegnum húsið heima á leið heim úr Ríkinu.

14. nóvember 2014 - Óskalög þjóðarinnar



Þessar vikurnar er í gangi samkeppni um besta óskalagið í gegnum árin í sjónvarpinu. Þarna er farið allt að sjötíu ár aftur í tímann, lögin að einhverju leyti skömmtuð ofan í okkur og svo fær maður að kjósa um besta lagið frá hverju tímabili og loks lag laganna.  Þættirnir eru prýðilega settir fram, frábærir þáttastjórnendur og vandað til söngvara til að syngja lögin og hljómsveitin skipuð færustu hljóðfæraleikurum.

Einhver ónefndur rithöfundur  (man ekki hvort það var Guðmundur Andri Thorsson) benti á í pistli sínum að ekki væri hægt að kjósa um slíkt af einhverju viti.  Ég er alveg sammála honum.  Hvernig er hægt að kjósa á milli Bubba Mortens og Öddu Örnólfsdóttur? Hvort um sig var mjög vinsælt á sínum tíma og því er samanburðurinn bæði villandi og rangur.

Annað atriði er val á söngvurum.  Páll Óskar söng lag í einum þættinum og auðvitað vann hann. Það var ekki spurning um gæði lagsins heldur um vinsældir söngvarans sem býr yfir miklum persónutöfrum og hrífur fólk léttilega með sér. Í lokaþættinum mun hann vinna keppnina. Það skiptir nefnilega engu máli hvort lag sem hann syngur er gott eða vont. Hann vinnur samt. Einasta samkeppnin sem hann gæti fengið væri ef Bubbi eða Bó kemur sjálfur fram og syngur eða þá Pollapönkarar.

Persónulega hefi ég aðeins heyrt eitt lag sem mér fannst betra í endurflutningi en í upprunalegu útgáfunni, en það lag átti ekki möguleika gegn Páli Óskari auk þess sem söngvarinn er tiltölulega óþekktur. 

Fyrir bragðið verður þátturinn Óskalög þjóðarinnar aldrei annað en skemmtiþáttur án raunverulegrar samkeppni um gæði laga.



sunnudagur, nóvember 09, 2014

9. nóvember 2014 - Megrun!


Þegar fólk kvartar yfir því að það sé orðið of feitt hlæjum við flest. Hvaða rugl er nú hlaupið hana Önnu eða Matthildi. Sérhver manneskja á að vera eins og henni líður best og mér leið best eins og ég var.  Það gekk reyndar ýmislegt á, pilsið sem ég var í á sextugsafmælinu mínu var löngu orðið of lítið og ég átti erfitt með að reima skóna sökum yfirþyngdar en reyndi að hugga mig við að þetta væri allt eðlilegt með tilliti til aldurs og fyrri starfa.

Svo prófaði ég að panta föt frá Kína. Ég fékk pils sent með pósti og þrátt fyrir að stærðin væri merkt sem XXL komst það engan veginn utan um mig og sömu sögu var að segja um kjól sem ég pantaði á sama tíma. Ég fór að lesa stærðarlýsingarnar og þær stóðust mælingar mínar, en hvað var þá að?

Ég var einfaldlega orðin of feit.

Nokkrir góðir félagar mínir höfðu nýlega farið í gegnum stranga megrunaráætlun þar sem þeir tóku út hörðu kolvetnin og allir orðnir grindhoraðir, arkítektinn, vélfræðingurinn og bílaskoðunarmaðurinn.  Úr því þeir gátu þetta gat ég þetta líka og ég hóf megrun, tók út brauðið sem samkvæmt gömlum ráðum átti að eta af sex til átta brauðsneiðar á dag, kartöflur, hrísgrjón og öl. 

Ha öl, nei kemur ekki til mála!

Jæja, ég sló odd af oflæti mínu og fór í ölbindindi auk þess sem ég hætti í samsölubrauðinu, kartöflunum og hrísgrjónunum.  Nokkrum dögum síðar hitti ég góða vinkonu mína sem ég hafði ekki hitt lengi og hún gerði athugasemdir við vaxtarlag mitt, ég yrði að læra að draga inn magann.

Heyrðu góða mín, ég er búin að vera í megrun í heila viku!

Í dag eru komnar tíu vikur frá því ég hóf megrunarkúrinn. Árangurinn er frábær. Það eru farin tíu kíló. Ég kemst í pilsið sem ég pantaði frá Kína og beltið á buxunum þar sem ég var komin í gat númer 2 er nú komið í gat númer 6 af 7 mögulegum og ég sé bara fram á betri daga.

Ég viðurkenni að megrun mín er ekki án fórna. Um daginn var boðið upp á vöfflur með rjóma eftir deildarfund og ég slefaði af löngun, en lét vöfflurnar ekki eftir mér. Fljótlega verður boðið uppá jólahlaðborð og miðað við græðgi mína undanfarin ár hefi ég tekið þá ákvörðun að hvíla mig frá jólahlaðborði þetta árið. Ég ætla mér að vera búin að taka af mér fleiri kíló áður en jólin verða hringd inn.

Pilsið sem ég var í á sextugsafmælinu er að verða of vítt á mig.  Ég held að ég komist í kjólinn um jólin.
 
Næsta sumar verð ég 75 kíló.