Það eru komin mánaðarmót, enn einn nýr greiðslumánuðurinn framundan með vandræðum og höfuðverk eða hvað? Ég fór að velta fyrir mér vandamálum mínum og þjóðarinnar.
90% vinnufærra Íslendinga eru með vinnu. Ég líka. Álíka margir Íslendingar eru með lánin sín í skilum eða þá skuldlausir. Ég er líka með lánin mín í skilum þótt ekki sé ég skuldlaus, með dýrt íbúðarlán, krítarkortaskuldir og yfirdrátt á bankareikningi. Samt hefi ég það ekkert verra en meðaljón og meðalgunna og stend kannski betur en í lok góðærisins alræmda.
-----oOo-----
Fyrir tveimur árum eignaðist ég bókina „Þú átt nóg af peningum“ eftir Ingólf H. Ingólfsson. Þótt ekki tryði ég öllu því sem þar stóð, áttaði ég mig á því við lestur bókarinnar að heimilisbókhald væri nauðsyn og að vextir væru of háir. Vandamál mitt var bara hvernig ég gæti náð niður vöxtunum vitandi að ég hefði engin áhrif á stýrivexti Seðlabankans og ég ýtti vandamálunum á undan mér og var alltaf blönk í lok kortatímabils og um mánaðarmót. Ég gerði mér þó grein fyrir því að ég gæti hugsanlega sparað 30-40 þúsund krónur á mánuði og hélt áfram að eyða umfram efni og greiða alltof mikið í vexti um hver mánaðarmót.
Ofan á öll önnur vandamál var stöðugur þrýstingur á mér í bílamálum. Gamli vinstrigræni eðalvagninn minn frá síðari hluta síðustu aldar þótti fremur þreytulegur og ekki laust við að hann væri farinn að skipta um lit á brettaköntunum að aftan, smárispur hér og þar auk tveggja smábeygla eftir árásir innkaupakerra. Kunningjahópurinn var aukinheldur duglegur að hvetja mig að fá mér nýrri bíl og ég var ekkert frábitin slíku þótt slíkt kostaði áframhaldandi blankheit í góðærinu. Þegar komið var fram á síðari hluta september í fyrra var ég farin að kíkja á bílasölur og meira að segja búin að finna rétta bílinn fyrir mig og ég sendi inn fyrirspurn um bílinn til sölumanns hjá bílasalanum.
Það liðu tvær vikur áður en sölumaðurinn svaraði mér með safaríku tilboði er hann kom úr ferð til útlanda. Í millitíðinni hafði skollið á kreppa, bankakerfið var hrunið og þjóðfélagið í algjöru uppnámi. Og ég þorði ekki að grípa tilboðið góða og ákvað að ná niður vöxtunum fyrst.
Síðan þetta var eru liðnir nærri átta mánuðir. Allt verðlag hefur farið upp úr öllu valdi, útborguð laun mín hafa lækkað vegna minnkaðrar yfirvinnu og hækkaðra skatta og vextirnir hafa verið í hæstu hæðum. Um síðustu áramót fór ég að flokka útgjöldin til að átta mig betur á bruðlinu, borga niður yfirdráttarlánin og hvíla veltukortin um sinn, á meðan ég væri að komast yfir það versta. En það sem mest er um vert er að ég frestaði öllum bílakaupum í minnst eitt ár.
-----oOo-----
Ég ek enn á gamla vinstrigræna eðalvagninum mínum frá síðari hluta síðustu aldar. Brúnu blettirnir á brettaköntunum að aftan hafa stækkað eitthvað, en hann slapp samt í gegnum skoðun án sérstakra ráðstafana í febrúar. Íbúðarlánin hafa vissulega hækkað og eru sennilega búin að ná íbúðarverðinu er þessi orð eru rituð, en það skiptir mig litlu máli því íbúðin var keypt til að búa í henni, en ekki til að selja hana aftur. Kisurnar mínar dafna vel og vextirnir af yfirdráttarlánunum og krítarkortaskuldunum eru á hraðri niðurleið. Í dag hefi ég það betra en í lok góðærisins svokallaða, farin að leika mér að áætlunum um næstu utanlandsferð og sé fram á bjarta daga framundan.
Það er komin kreppa.
sunnudagur, maí 31, 2009
31. maí 2009 - Kreppa?
föstudagur, maí 29, 2009
30. maí 2009 - Ónæm fyrir skjálfta?
Það var víst jarðskjálfti nærri Grindavík á föstudagskvöldið og ég fann ekki neitt. Kannski var ekki mikið að missa af.
Fyrir réttu ári var ég á vaktinni þegar síðasti Suðurlandsskjálftinn reið yfir og fann ágætlega fyrir honum. Ég fann sömuleiðis mjög vel fyrir skjálftunum árið 2000, enda bjó ég þá uppi á sjöttu hæð í Hólahverfinu.
Ég held samt að ég sé ekki orðin ónæm fyrir jarðskjálftum þótt ekki hafi ég fundið þennan. En það er kannski ekki við miklu að búast þegar verið er að busla í baði og smáskjálfti suður með sjó breytir ekki miklu þar um.
29. maí 2009 - Í þá gömlu góðu daga ...
Fyrir síðustu helgi fór aðeins um mig þegar sýndar voru myndir frá hvítasunnugleðinni 1969 austur á Þingvöllum og það sagt vera frá hvítasunnugleðinni 1968 í trailer sem fylgdi kynningu Fréttaaukans. Því auðvitað var ég á Þingvöllum í rigningunni, drullunni og viðbjóðnum sem einkenndi hvítasunnuhelgina 1969.
Það voru fleiri þar en ég. Þar voru 2500 unglingar að drekka sig fulla í fyrsta sinn eða annað eða þriðja. Öfugt við marga var ég edrú, enda nýlega komin með bílpróf og harðneitaði að keyra bíl fyrir einhvern sem var orðinn of fullur til að rúnta um svæðið sjálfur. Að lokum fór hann í bíltúr ásamt einhverjum félögum sínum og festi bílinn svo rækilega í drullunni að bíllinn náðist ekki upp fyrr en gleðinni var lokið og runnið af gæjanum.
Þetta var líka einasta útihátíðin þar sem helsti forvígismaður þjóðarinnar gekk um á milli dauðadrukkinna unglinga til að kynna sér málin með eigin augum og var þetta jafnframt einasta skiptið sem ég hitti Bjarna heitinn Benediktsson. En svona var lífið í þá daga.
Þrátt fyrir allt er margt svipað því sem var fyrir 40 árum. Það er kreppa eins og þá. Það eru gjaldeyrishöft eins og þá og helstu ráð ríkisstjórnarinnar til að afla tekna fyrir ríkissjóð eru hækkanir á áfengi og tóbaki, bensíni og olíum, rétt eins og gerðist iðulega fyrir 40 árum. Og Íslendingar flúðu þúsundum saman til útlanda í atvinnuleit fyrir 40 árum, rétt eins og nú.
Drottinn minn, er hugmyndaflug íslenskra ráðamanna enn háð sömu takmörkunum og fyrir 40 árum? Allavega er ég farin að finna fyrir fiðring undir sólunum.
fimmtudagur, maí 28, 2009
28. maí 2009 - Um einkavæðingu
Ég sat stjörf fyrir framan gamla sjónvarpstækið mitt á miðvikudagskvöldið og fylgdist með þegar sýnt var hvernig stöku ríki höfðu einkavætt, rafmagn, neysluvatn, heilbrigðisþjónustu og lestarsamgöngur með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúana. Ég efa ekki að tekin voru slæm dæmi um einkavæðingu og fór að velta þessum hlutum fyrir mér hér á Íslandi.
Einkavæðingin er komið að hluta til í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Tannlæknakostnaður er alfarið einkavæddur, vinkona mín fór í aðgerð til leiðréttingar á kyni og var frá vinnu í sex vikur. Hún fékk ekki greidd veikindalaun á meðan á veikindunum stóð af því að hjá einkafyrirtækinu sem hún vinnur, eru ekki greidd veikindalaun þegar fólk fer í aðgerð til leiðréttingar á kyni.
Neysluvatnskerfi eru sem betur fer í eigu sveitarfélaga. Aðeins er þó farið að örla á einkavæðingu í rafmagni og heitu vatni með stofnun Geysis Green Energy sem er jú að hluta til í einkaeigu. Og engar eru lestir á Íslandi, því miður, en strætisvagnasamgöngur í eigu sveitarfélaga. Við erum semsagt enn í góðum málum hvað varðar birtu, yl og samgöngur, en þau mál eru hinsvegar ákaflega brothætt.
En ég fór að velta öðru máli fyrir mér. Það voru bara talin upp fjögur atriði í sjónvarpsmyndinni. Það vantaði hið fimmta, auðlindirnar. Þar stendur Ísland ekkert sérstaklega vel með óveiddan fiskinn í sjónum í eigu örfárra kvótagreifa sem eru búnir að veðsetja hann upp í topp í mörg ár framtíðar að hætti Enron, hins gjaldþrota bandaríska orkufyrirtækis.
Við erum kannski þrátt fyrir allt í sömu aðstöðu og þróunarþjóðirnar sem tekin voru mið af í sjónvarpsmynd miðvikudagskvöldsins.
laugardagur, maí 16, 2009
17. maí 2009 - Um mótorhjólaslys
Ég var á ferð um Sæbrautina á föstudag og tók þá eftir mótorhjóli sem nálgaðist mig óðfluga. Ég fylltist valkvíða því ökumaður hjólhestsins virtist fara framúr bílum eins og væri hann í stórsvigi. Mér tókst þó að halda mér á hægri akrein um leið og hjólið skaust framúr mér og hélt áfram stórsviginu austur eftir Sæbrautinni. Á sama tíma veitti ég athygli öðru mótorhjóli sem kom á móti og virtist halda uppi samskonar leikfimi vestur eftir Sæbrautinni.
Í gegnum huga mér fór auglýsingin frá Umferðarstofu sem margsinnis hefur verið sýnd í sjónvarpi síðustu dagana, fremur óhugnanleg auglýsing, en því miður sönn.
Fyrir fáeinum árum voru miðaldra hjón að fara á bifreið sinni út frá verslunarmiðstöð í Upplands-Bro norðan Stokkhólms þegar mótorhjól kom og klippti bíl þeirra næstum í sundur. Svo ljót var aðkoman að lögreglan treysti sér ekki til að fullyrða hvort líkin í brakinu væru þrjú eða fjögur fyrr en eftir klukkutíma. Þau reyndust vera þrjú, hjónanna og ökumanns mótorhjólsins. Síðar reiknaði einhver umferðarsérfræðingur það út að miðað við þyngd hjólsins og styrkleika bílsins, hefði hjólið þurft að vera á minnst 175 km hraða til að klippa bílinn svona í sundur, sennilega þó á miklu meiri hraða.
Ef myndirnar eru skoðaðar vel sést hvar mótorhjólið situr fast inni í bílnum. Fyrir áhugafólk um bíla skal þess getið að bíllinn er af gerðinni Volkswagen Golf, en að auki fann einhver það út að hjólið væri af gerðinni Yamaha 750 cc, semsagt ekkert rosalega öflugt hjól.
Það væri ágætt að skoða þessar myndir aftur næst þegar auglýsingin birtist í sjónvarpi.
16. maí 2009 - Friðlýsingin á skjön....
....við Natóaðild, segir í forsíðufyrirsögn í Fréttablaðinu í dag. Þar er haft eftir Bjarna Má Magnússyni að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um friðlýsingu Íslands gegn kjarnorkuvopnum sé í bága við skuldbindingar Íslands við Atlantshafsbandalagið.
Og hvað með það? Til þessa hefur Ísland verið sem þægur rakki í bandi stjórnvalda í Washington í kjarnorkumálum og löngu kominn tími til að breyta því. Það er kannski í lagi að bíða eftir að einhverjir ofbeldisfuglar í Nató fari að segja Íslandi fyrir verkum í þessum efnum, en sjálfsagt að því verði svarað með tafarlausri úrsögn úr Nató um leið og sparaðar verði talsverðar fjárhæðir með því að leggja nýstofnaða Varnarmálastofnun niður.
fimmtudagur, maí 14, 2009
15. maí 2009 - Júrótrash
Þegar ég kom í vinnuna á fimmtudagskvöldið var ömurleg sjónvarpsdagskrá í gangi, samansafn af vondum lögum víða að úr Evrópu og duldist þá engum að Júróvisjón var byrjað aftur þótt ætla mætti að keppninni hefði lokið í febrúar, allavega hvað Íslendinga snertir.
Þar sem ég sinnti verkefnum kvöldsins heyrði ég einhver léleg lög leikin og auglýsingar á milli, en gaf mér þó ekki tíma til að hlusta að ráði. Það var því ekki fyrr en hápunktar laganna voru leiknir í belg og biðu sem ég reyndi að hlusta og niðurstaðan var einföld. Ekkert laganna hlaut náð fyrir mínum eyrum, reyndar ekki frekar en hið útlenska framlag Íslands. Það verður kannski að segja framlagi Íslands til hróss að það sómir sér vel í hópi lélegra laga, enda er það einasta von þess um að ná langt á alþjóðlegum vettvangi.
Framlag Íslands er vissulega skárra en verstu lögin sem Ísland hefur sent í keppnina. Þó veitti ég því enga athygli lengi framan af þegar það var spilað, en þegar búið að var að spila það nógu oft til að það mætti verða áheyrilegt var ég búin að fá leið á því.
Loks legg ég til að Ríkisútvarpið spari sér kostnaðinn við Júrótrash keppnina í framtíðinni.
þriðjudagur, maí 12, 2009
12. maí 2009 – Um kynvillinga, kynskiptinga og aðra fáráðlinga
Á unglingsárum mínum var samkynhneigt fólk kallað öllum illum nöfnum, stundum öfuguggar eða sagt að fólkið væri sódómískt, hvaðan svo sem það orð er komið. Þá voru orð eins og hommar og lesbíur ágætlega þekkt, en ef þau orð komu fyrir í opinberri umræðu, var snarlega strikað yfir þau af málfarsráðunautum og orðið kynvillingar sett í staðinn. Þegar Samtökin 78 voru stofnuð árið 1978 vildu einhverjir háðfuglar í hópi samkynhneigðra nota undirtitilinn Félag íslenskra kynvillinga, en sem betur varð ekkert af slíku og hommar og lesbíur þráuðust í gegnum múra og yfir þröskulda málfarsráðunautanna uns orðin hommar og lesbíur fengu viðurkenningu samtímis því sem samkynhneigð kom inn sem samheiti fyrir þessa hópa í þjóðfélaginu.
Um helgina var unnið hörðum höndum við gerð nýs stjórnarsáttmála Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og þar kom í mannréttindahlutanum að setja inn í stjórnarsáttmálann ákvæði um bætta réttarstöðu transgender fólks á Íslandi. Fólkið sem vann að stjórnarsáttmálanum setti inn orðin: Hugað verði að réttarbótum í málefnum trans-gender fólks í samræmi við ábendingar Umboðsmanns Alþingis.
Þetta fór heldur betur fyrir brjóstið á málfarsráðunautunum. Rétt eins og fyrir þrjátíu árum er þeir strikuðu yfir homma og lesbíur og settu kynvillinga í staðinn eins og til að niðurlægja þessa þjóðfélagshópa, strikuðu þeir nú yfir trans-gender fólk og settu kynskiptinga í staðinn. Þeir hefðu alveg eins getað sagt kynvillinga enda orðin svipuð að upplagi og bæði ætluð til að niðurlægja viðkomandi einstaklinga. Þetta tókst sem betur fer ekki, því með dyggum stuðningi Dags B. Eggertssonar og síðar einnig Önnu Pálu Sverrisdóttur og fleiri aðila, tókst að henda kynskiptingunum út úr stjórnarsáttmálanum og setja transgender fólkið aftur inn í sáttmálann.
Ég ætla ekki að hafa eftir eldri rammíslensk og viðurkennd orð sem notuð voru um fólk sem þjáist af þroskahömlun eða geðsjúkdómum ýmiskonar. Kannski mættu málfarsráðunautarnir taka einhver þeirra orða til sín sem starfsheiti, t.d. eitthvert þeirra sem eru á lausu í fyrirsögninni.
Ég vil loks þakka Degi B., Önnu Pálu og öðrum sem tóku til máls á fundinum um transgenderákvæðið í stjórnarsáttmálanum á sunnudaginn fyrir skelegg orð og stuðning okkur til handa.
fimmtudagur, maí 07, 2009
7. maí 2009 – Er íslensk þjóð að vitkast?
Stundum þegar ég heyri minnst á skoðanakannanir, fæ ég nettan aumingjahroll af tilhugsun um vesalings fólkið sem tók þátt í skoðanakönnuninni og svaraði út í hött af því að það hélt að könnunin fjallaði um allt annað en það sem raunverulega var spurt um. Frægasta dæmi um slíkt er sennilega þegar guðfræðideildin var látin framkvæma skoðanakönnun um trúhneigð og hamingju Íslendinga og auðvitað reyndust Íslendingar vera trúgjarnastir og hamingjusamastir allra þjóða.
Að undanförnu hefi ég furðað mig á stjórnmálaöflum sem vilja banna Íslendingum að kanna hvað sé hægt að fá í skiptum fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið. Þessari afneitun Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er að sjálfsögðu stýrt af flokkseigendafélögum þeirra í LÍÚ og þeim Hörleifi og Ragnari. Sjálf hefi ég aldrei getað skilið hvað er svona slæmt við að upplýsa íslenska þjóð hvað fæst í skiptum fyrir aðild að Evrópusambandinu enda sjálf löngu orðin Evrópusinni og meðlimur í Evrópusambandinu með tvöfalt ríkisfang.
Nýjasta skoðanakönnun Gallup sýnir okkur augljóslega að íslensk þjóð vill kynna sér hvað er í boði í Evrópumálunum og ég sé enga ástæðu til annars en að virða þessa skoðun íslensku þjóðarinnar, enda er ég sannfærð um að hægt verður að fá ýmislegt út úr slíkum samningaviðræðum, umfram allt virðinguna sem glataðist með útrásinni og síðar efnahagshruninu.
þriðjudagur, maí 05, 2009
6. maí 2009 - Slysabætur
Ég hefi einu sinni slasast lítillega við vinnu. Það var ekkert stórt vandamál, enda borgaði útgerðin undir mig far heim með næstu flugvél eftir að komið var í land erlendis. Eftir nokkrar vikur í veikindaleyfi, fór ég svo að vinna hálfan daginn á viðhaldsdeild útgerðarinnar og síðan allan daginn eftir því sem heilsan batnaði.
Í dag fæ ég á tilfinninguna að allt sé komið upp í loft. Ekki vegna þess að íslensk fyrirtæki séu hætt að gera vel við það starfsfólk sitt sem slasast við vinnu, fremur vegna fjölda auglýsinga um slysabætur sem fjöldi lögheimtufyrirtækja bjóðast nú til að innheimta fyrir hugsanlega skjólstæðinga sína, svo mikinn fjölda að ætla mætti að um miklar fjárhæðir væri hér um að tefla.
Þessar auglýsingar blasa við allsstaðar, á facebook, dagblöðum, flettiskiltum og svei mér þá ef þær eru ekki líka komnar í sjónvarp. Græðgisvæðingin hélt vissulega innreið sína inn í íslenskt þjóðfélag fyrir fáeinum árum, en ekki átti ég von á því að hún væri orðin svona hræðilega amerísk.
Ég veit ekki hvað skal segja. Skyndilega eru slys og óhöpp orðin að féþúfu og ég óttast að græðgisvæðingin sé komin inn í hina ýmsu anga þjóðlífsins. Þar á ég ekki aðeins við slysabæturnar, heldur og kröfur þeirra sem geta vel greitt skuldir sínar sem þeir hafa sjálfir stofnað til, um niðurfellingar þessara sömu skulda á kostnað okkar hinna og nánast gjaldþrota ríkissjóðs, en fara í greiðsluverkfall ella.
mánudagur, maí 04, 2009
4. maí 2009 - Slóðaskapur við stjórnarmyndun?
Það er kvartað og kveinað yfir þeim tíma sem það tekur að mynda nýja ríkisstjórn. Ég skil það ekki. Það er verið að kvarta yfir ríkisstjórnarmyndun þótt sama ríkisstjórn sitji við völd og kemur hugsanlega til með að sitja í þeirri næstu. Þó hafa stjórnarmyndunarviðræður tekið styttri tíma en oftast áður.
Það var slegið met í viðræðunum 1991 þegar Davíð og Jón Baldvin féllust í faðma úti í Viðey. Þær viðræður stóðu aðeins í tíu daga. Nú eru einungis liðnir átta dagar frá þeim tíma þegar ljóst var hvaða flokkar gætu myndað saman ríkisstjórn. Meðaltalstími stjórnarmyndana frá 1987 er 13 dagar. Af hverju á þessi stjórnarmyndun tveggja mjög ólíkra flokka að taka skemmri tíma?
Er fólk búið að gleyma ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen sem tók 67 daga að mynda, eða þá seinni ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978 sem tók 66 daga, hvorutveggja þegar þjóðin var að sigla sig í kaf í óðaverðbólgu upp á allt að 80%.
Nei, þótt vika sé langur tími í pólitík, er hún fljót að líða í stjórnarmyndunarviðræðum.
föstudagur, maí 01, 2009
1. maí 2009 - Hornið á Austurstræti og Lækjargötu
Það eru held ég liðin tvö ár frá því húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu brunnu, nánast til ösku. Síðan hefur fátt verið gert á lóðinni annað en að moka óbrunna spýtnabrakinu í burtu og girða rústasvæðið af. Það hafa komið upp allskyns hugmyndir um að endurbyggja húsin í því sem kallað er upprunaleg mynd, þ.e. í einhverri mynd sem enginn þekkir, enda var annað húsið byggt löngu fyrir daga ljósmyndatækninnar og hitt litlu yngra, en enginn núverandi Reykvíkingur man húsin eins og þau litu út í upphafi.
Á dögunum kom fram ný og kannski stórkostleg hugmynd um nýtingu lóðanna fremur en að láta þær standa þarna á bak við girðingu. Ég viðurkenni alveg að ég á ekki hugmyndina, heldur barst mér hún frá Gísla Hrafni Atlasyni (syni Atla alþingismanns). Hún gengur einfaldlega út á að breyta þessum lóðum í vinnusvæði fyrir langyngstu verktakana, þ.e. börnin.
Þegar ég átti leið um miðborgina í kröfugöngu dagsins, staðnæmdist ég við girðinguna og sá fyrir mér þetta flotta leiksvæði innan girðingar. Þar mætti koma fyrir bekkjum og borðum, flottum leikkastala, rólum og öðru því sem börn hafa gaman af á meðan foreldrarnir hvíla sig eftir gönguferð dagsins. Þetta yrði opinn leikvöllur þar sem börn og fullorðnir gætu komið saman og þar sem atvinnulaust fólk fengi vinnu við viðhald og eftirlit. Kostnaðurinn við leiksvæðið yrði hvort eð er álíka mikill og af því að girða svæðið sem er margfalt lægra en af eftirlíkingu húsa sem enginn vill kaupa.
Þar sem ég stóð við girðinguna átti séra Örn Bárður leið framhjá með reiðhjólið sitt og náði ég að planta þessari hugmynd inn hjá honum. Mér fannst hann taka vel í þessa tillögu.
Nú þarf bara að selja skipulagsyfirvöldum þessa hugmynd, en reka þau ella.