laugardagur, október 08, 2016

8. október 2016 - HandlangÉg var að horfa út um glugga heima hjá mér í morgun og sá hvar fólk var að bera búslóðina sína í flutningabíl fyrir utan eitt húsið nærri mér. Það er að sjálfsögðu alveg ótækt að fólk vilji yfirgefa mig og þægilega nærveru mína sem nágranna, en þar sem viðkomandi tilheyrðu öðru lóðarfélagi en mínu gat ég ekki annað en óskað þeim velfarnaðar á ókunnum slóðum í huganum.

Það var þó annað mér þótti ótækt. Fyrst sá ég mann bera kassa út í bíl og hljóp svo inn og svo kom annar maður með kassa í bílinn og hljóp svo inn og svo kom þriðji maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo kom fjórði maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo kom fyrsti maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo áfram koll af kolli. Skelfing eru þetta kjánaleg vinnubrögð hugsaði ég og hló í huganum að óþarfa erfiði mannanna,en rifjaði svo upp í huganum er ég flutti hingað og sömu vinnubrögð voru viðhöfð. Af gömlum vana ætlaði ég að notast við handlang en enginn tók mark á slíku og enginn tók við og ég þurfti að hlaupa með sérhvern kassa alla leið sem og þeir sem aðstoðuðu mig við flutninginn gerðu hið sama, hlupu með sérhvern kassa upp um tvær hæðir og síðan niður aftur eftir næsta kassa og báru upp tvær hæðir. Þegar allir kassarnir voru komnir ásamt öllum húsgögnum voru allir burðarmennirnir uppgefnir af þreytu. Þvílíkur kjánaskapur, en ég hafði að einu leyti afsökun, var illa haldin af flensu á flutningadeginum og því ekki hörð á skipulaginu og lét öðrum um að skipuleggja vinnuna

Hvenær lagðist handlang af á Íslandi? Í minningunni var ávallt notast við handlang þegar fleiri manns voru til staðar við flutninga, sá sem neðstur var rétti þeim sem var fyrir ofan kassann og svo koll af kolli uns kassinn var kominn á sinn stað og þá var næsti kassi kominn langleiðina upp og fólkið þurfti ekki að hlaupa fleiri hæðir í tilgangsleysi til að sækja kassa sem voru úti í bíl, heldur létu manninn fyrir neðan rétta sér kassann og komu honum áfram til mannsins sem beið fyrir ofan.

Er þetta kannski enn eitt dæmið um að Íslendingar eru hættir að kunna að vinna skipulega? Er nema von að illa er komið fyrir þessari þjóð þegar einfaldasta flutningatækni er orðin óþekkt fyrirbæri og kjánaskapur.

föstudagur, ágúst 12, 2016

12. ágúst 2016 - Um loftskeytamenn og sendisveinaÉg man þá tíð þegar ekkert fyriræki þóttist fyrirtæki með öðrum fyrirtækjum nema að sendisveinn á unglingsaldri á reiðhjóli sæi um ýmis léttari aðföng,  sá um að skreppa í bankann og jafnvel að sækja pantaða nælonsokka fyrir skrifstofustúlkurnar sem þurftu að vera huggulegar til fara í vinnunni en máttu ekki yfirgefa vinnustaðinn fyrir slíkan munað.

Ég man einnig þá tíð þegar ekkert skip þóttist skip með skipum nema að loftskeytamaður væri um borð. Hann hamaðist á morselyklinum daginn út og daginn inn og taka á móti skeytum og sinna nauðsynlegum símtölum áhafnarmeðlima við land sem og að gefa upp aflatölur til annarra togara eða skrá veðurlýsingar á Ameríkuskipum og senda í land.

Hvað eiga þessar tvær stéttir sameiginlegt? Jú svarið er einfalt, það er nánast búið að útrýma þeim. Síðasti loftskeytamaðurinn sem ég var með til sjós var hann Andrés sem kom um borð í hann Álafoss eftir að skipið var lengt árið 1985 og fór þar með yfir þau stærðarmörk þar sem ekki var krafist loftskeytamanns. Það má svo deila um það af hverju mestur hluti af lestarrými skipsins var skráður sem opið rými til að minnka brúttórúmlestatölu skipsins. Síðar var svo loftskeytamaðurinn endanlega afskráður og þekkist vart lengur á öðrum skipum en stærstu skemmtiferðaskipum.

Sendisveinninn fékk álíka útreið. Þegar ég byrjaði hjá Hitaveitunni fyrir tveimur áratugum var Elli sendill. Öfugt við sendla fyrri tíma var hann á bíl og að nálgast eftirlaunaaldur og hann sá um aðföng og bankaerindi og ýmislegt annað sem sendlum er uppálagt að gera. Um svipað leyti og Orkuveitan flutti á Bæjarhálsinn komst Ellert á aldur og enginn ráðinn í hans stað. Tölvutæknin hafði gert hann óþarfan að mestu.

Ég rifja upp tímann þegar ég var sendill hjá Ræsi hf frá tólf ára og til fjórtán ára aldurs þegar öll almennileg fyrirtæki voru með sendla á reiðhjóli, hálfan daginn á veturna, allan daginn á sumrin og í skólaleyfum. Einhverntímann ca 1965 taldist mér til að ég væri með tvær milljónir króna í reiðufé í hliðartöskunni minni, einkennistösku sendisveinsins og það voru nokkur bílverð þess tíma geymd í töskunni góðu, kannski verð 15-20 Volkswagen bifreiða sem þá kostuðu rúmlega 100 þúsund krónur stykkið. Það þurfti að tæma pósthólfið á pósthúsinu daglega, fara með bréf í póst og afgreiða póstkröfur og aðrar póstsendingar og allt gert af reiðhjóli. Ég sé í anda fólk senda tólf til þrettán  ára barn í bankann með margar milljónir í töskunni í dag. Gleymdu því! Eða þegar setið var fyrir bankastjóranum fyrir hönd forstjórans. Þetta var samt góður tími og ég sakna hans að vissu leyti.

Öll þessi ævintýri æskunnar rifjuðust upp fyrir mér þegar ég var á vaktinni og þurfti nauðsynlega að skreppa út í bæ með nauðsynleg skjöl vegna bílasölu og enginn til að leysa mig af þar sem ég má ekki yfirgefa vinnustaðinn á vaktinni. Sem betur fer bjargaði deildarstjórinn mér með því að hann þurfti að fá sér göngutúr í hádeginu og tók skjölin með sér til Frumherja og lét skrá þau. Ég er honum þakklát fyrir greiðann en samt saknaði ég sendisveinsins góða sem var í öllum stærri fyrirtækjum á árum áður.

Heimur versnandi fer, eða hvað?
Eru fleiri stéttir sem fólk man að búið er að útrýma?

mánudagur, ágúst 01, 2016

1. ágúst 2016 - Takk Ólafur Ragnar Grímsson


Já, takk Ólafur Ragnar Grímsson fyrir þín tuttugu ár á forsetastól. Við hittumst einungis einu sinni, þá við jarðarför náins frænda þíns Ólafs Þórðar Friðrikssonar Hjartar bókasafnsfræðings og góðs vinar míns. Við vorum sjaldnast sammála þótt við værum lengi í sama flokki. Þegar þú varst kosinn formaður Alþýðubandalagsins kaus ég að draga mig í hlé og hætti störfum fyrir þann ágæta flokk.

Síðar flutti ég til Svíþjóðar og sinnti ekki borgaralegum skyldum mínum við Ísland í nokkur ár, en þegar ég kom til baka varstu í framboði til forseta Íslands. Þú fékkst ekki mitt atkvæði en vannst samt. Ég varð að sætta mig við úrslitin og reyndi að sættast við þig eftir það. Það var ekki alltaf auðvelt, en andstaða sameiginlegs andstæðings okkar sem sat á stól forsætisráðherra á þeim tíma hjálpaði mér til að sætta mig við þig á þessum mikilvæga forsetastól. Það var samt ekki auðvelt að sjá Framsóknarmann undir fölsku flaggi á forsetastól.

Ég var samt ekki alltaf ósammála þér. Ég neyddist til að greiða þér atkvæði mitt árið 2004, skömmu eftir að þú neitaðir fjölmiðlalögunum staðfestingar, ekki vegna þess að ég væri hrifin af frumkvæði þínu, heldur því að þú varst að berjast við óhæfa mótframbjóðendur og þar sem ég sat í kjörstjórn átti ég erfitt með hægrisinnuðu kjósendurna sem hötuðu þig eins og pestina, en urðu síðar þinn besti stuðningur.

Síðar gerðir þú þér dælt við útrásarræningja, ekki aðeins rússneska oligarka heldur og íslenska glæpamenn sem sumir hafa fengið sína dóma en alls ekki allir sem settu Ísland á hausinn.

Svo kom hrunið og Icesave og allur sá pakki. Þú samþykktir fyrstu Icesave lögin. Það var ekki mikil skynsemi í því, en Bretar og Hollendingar höfnuðu samkomulaginu og því komst sá samningur aldrei í framkvæmd. Svo komu Icesave 2 og Icesave 3 sem þú hafnaðir hvorutveggja. Var það vel? Það lítur vel út á pappírunum en hvernig kemur það út fyrir okkur vesalingana sem skuldum lán í bönkum.  Við erum enn að borga himinháa grunnvexti af húsnæðislánunum okkar auk verðtryggingarinnar. Er það kannski afleiðing af því að þú neitaðir að undirrita lögin sem þjóðin síðan hafnaði í atkvæðagreiðslu? Ég veit ekki en það veit ég að ég er að greiða himinháa vexti af húsnæðisláninu mínu auk verðtryggingar. Hið einasta sem ég get þakkað fyrir er að ég gætti þess að reisa mér ekki hurðarás um öxl á sínum tíma og því komst ég yfir þetta. En ég spyr, eiga okurvextirnir sem ég greiði af húsnæðisláninu mínu orsök í höfnun á þriðja og síðasta Icesave saminingnum?

Nú ert þú búinn að kveðja okkur með drottningarviðtali þar sem þú hældir sjálfum þér út í eitt. Um leið og þú ferð á eftirlaun mun Guðni Thorlacius Jóhannesson taka við keflinu. Ég fagna honum í embætti forseta Íslands um leið og ég kveð þig af forsetastóli.

Ég er kannski ekki alveg laus við þig. Mér þykir pínulítið vænt um þig eftir öll þessi ár og ekki er síðra að vita að það eru einungis 60 metrar frá borholu MG-6 að húsinu þínu í Mosfellsbæ og því möguleiki á því að við munum eiga samskipti í framtíðinni í gegnum vinnuna mína.

Takk Ólafur Ragnar Grímsson fyrir störf þín á forsetastóli í tvo áratugi, góð og kannski slæm, um leið og ég fagna nýjum forseta Íslands, Guðna Thorlacius Jóhannessyni.

föstudagur, júlí 29, 2016

29. júlí 2016 - Um skipanöfn og hjátrú.
Þessa dagana er í Reykjavíkurhöfn bandaríska rannsóknarskipið Neil Armstrong sem heitir eftir geimfaranum og fyrsta manninum sem sté fæti sínum á tunglið, Neil Alden Armstrong. Neil A. Armstrong var fæddur 1930 og lést árið 2012, 82 ára að aldri.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að gefa skipum nöfn eftir hetjum sem brotið hafa blað í sögu mannkyns, vísindamanna, landkönnuða og annarra sem fyrstir voru í sinni röð og sem fólk minnist öldum eftir jarðvist þeirra. Þannig heita stærstu skip skipafélagsins CMA CGM eftir slíkum hetjum þótt Neil Armstrong hafi enn ekki lent á kinnungi og skut einhvers risaskipa félagsins, en þess verður vafalaust ekki langt að bíða. Þá er ekki langt síðan miklar deilur uppstóðu um nafn á bresku hafrannsóknarskipi sem hefur verið í smíðum og fékk furðunafnið Boaty McBoatface í skoðanakönnun. Nafnið þótti þó ekki viðeigandi og það endaði með því að skipið hlaut nafn í höfuðið á þáttagerðarsnillingnum og náttúruverndarsinnanum David Attenborough og er það vel að hann skuli heiðraður á þennan mikilvæga hátt.

Þegar ég sá rannsóknarskipið Neil Armstrong í Reykjavíkurhöfn fór ég að leita að millinafninu Alden eða skammstöfuninni  A en sá hvergi. Mér þótti það miður. Kannski sérviska í mér en samt ekki ef grannt er skoðað.

Á unglingsárunum var ég háseti á bát vestur á Bíldudal sem bar nafnið Pétur Thorsteinsson eftir manninum sem fremstur stóð að uppbyggingu þorpsins á Bíldudal á seinnihluta nítjándu aldar. Þetta var gott skip, einn hinna svokölluðu tappatogara sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Stralsund í Austur-Þýskalandi á árunum 1958-1960, en einhverra hluta vegna fiskaðist ekki mjög vel á bátinn öfugt við flest önnur skip sömu gerðar. Ekki var hægt að kenna skipstjóranum um því fleiri aflaskipstjórar höfðu verið með bátinn og gert það gott á öðrum skipum, menn á borð við Pétur Valgarð Jóhannsson  og Þorstein Auðunsson, en Pétur Thorst. var hinsvegar aldrei sérstakt aflaskip. Af hverju?

Á Bíldudal þóttu sumir hafa skýringu á aflaleysi skipsins. Nafn skipsins var rangt! Maðurinn sem báturinn hét eftir hét nefnilega Pétur Jens Thorsteinsson og því hefði báturinn átt að bera fullt nafn mannsins eða að minnsta kosti joðið í millinafninu. Hver væri til dæmis Þorsteinn J. Vilhjálmsson ef ekki væri Joðið í nafninu?

Það er orðið of seint að gráta örlög bátsins Péturs Thorsteinssonar BA-12. Hann lenti undir hamri sýslumanns í upphafi áttunda áratugarins og seldur nauðungarsölu vestur á Patreksfjörð þar sem hann hlaut nafnið Gylfi og var hann lengi vel í rekstri Patreksfirðinga og gekk vel, en lenti í pottinum alræmda fyrir fáeinum árum eftir dygga þjónustu við íslensku þjóðina í hálfa öld og undir ýmsum nöfnum.

Kristinn Pálsson skipstjóri og útgerðarmaður skipa á borð við Berg og Vestmannaey hóf næstum aldrei vertíð á miðvikudegi, því miðvikudagur er til moldar. Þó var ein undantekning á reglunni er hann hóf vertíð á Berg á miðvikudegi. Þá vertíðina fórst skipið en sem betur fer varð mannbjörg. Eitt sinn vorum við á Vestmannaey að hefja vertíð snemma viku er bilun kom upp í spilbúnaði. Það tókst að gera við spilið skömmu eftir miðnætti aðfararnótt miðvikudags og síðan biðum við í sólarhring að kröfu útgarðarmannsins eftir fimmtudeginum áður en hægt var að halda úr höfn. Þetta var góð vertíð. Við skulum aldrei misvirða það sem stundum er kallað hjátrú.

Ég hefi ávallt heyrt talað um tunglfarann góðkunna sem Neil A. Armstrong ef ekki með fullu nafni Neil Alden Armstrong.  Af hverju mátti rannsóknarskipið ekki bera nafn hans með millinafni eða millistaf? Af reynslunni af góðu skipi vestur á Bíldudal þykir mér það miður, en vona þó að hjátrúin hafi ekki áhrif á gengi skips og áhafnar rannsóknarskipsins Neil Armstrong.

föstudagur, júlí 22, 2016

22. júlí 2016 - Gunnar og dýrin hans


Áður en ég flutti í Árbæjarhverfið leigði ég á sjöttu hæð í Krummahólum í Reykjavík. Einhverju sinni sofnaði ég í þægindastólnum framan við sjónvarpið þar sem ég var í rólegheitum heima með opið út á svalir og vaknaði skyndilega við það að eitthvert loðið straukst við hendina á mér. Mér dauðbrá en uppgötvaði þá að lítil og falleg kisa var komin inn í íbúðina hjá mér. Nágrannar mínir sem höfðu nýlega flutt í húsið höfðu fengið þessa fallegu kisu fyrir sig og dætur sínar.

Litla kisa bræddi öll hjörtu og brátt var hún orðið jafnmikið hjá mér og eigendum sínum og smám saman myndaðist ágætt vináttusamband milli mín og eigenda kisunnar auk kisu sjálfrar. Þarna var um að ræða hjónin Gunnar Árnmarsson af Stuðlaætt á Reyðarfirði og Guðbjörgu Friðriksdóttur frá Keflavík, en þau höfðu búið áratugina á undan á Tálknafirði þar sem hann var lengstum stýrimaður og skipstjóri á togaranum Tálknfirðing, en síðast með eigin smábátaútgerð sem hann flutti með sér til Reykjavíkur.

Betri nágranna var vart hægt að hugsa sér. Bæði voru hjónin gestrisin mjög og ekki vantaði frásagnargleðina í Gunnar. Eitt háði þeim verulega en það var að Gunnar hafði nokkrum sinnum fengið alvarleg hjartaáföll og því ljóst að hann þurfti að fara mjög varlega að allri erfiðisvinnu. Því seldi hann útgerðina og réði sig sem skipstjóra á hvalaskoðunarbátinn Hafsúluna og starfaði þar á meðan heilsan leyfði, en hjartað leyfði ekki langan starfsferil og hann neyddist til að fara á eftirlaun. Nágrannakærleikurinn hélt samt áfram og ef þau hjónin skruppu út á land fékk kisa að gista hjá mér á meðan og fór vel á með okkur.

Svo kom að því að ég yfirgaf nágranna mína, keypti mér íbúð í Árbæjarhverfi og leið ekki á löngu uns ég var komin með tvær nýjar kisur. Kisan okkar Gunnars sem tefldi oft á tæpasta vað á göngu um þak stórs fjölbýlishúss varð ekki langlíf, en sem betur fer fékk Gunnar hundinn Tinna í staðinn og oft rakst ég á þá félaga á göngu um brekkurnar neðan við efra Breiðholtið auk þess sem ég átti það til að reka inn nefið hjá þeim hjónum Gunnari og Beggu og ávallt var rausnarlega veitt með kaffinu og nokkrar góðar sögur sagðar af sjónum og heimilisdýrunum.

Ég viðurkenni alveg að ég var löt við heimsóknir til Gunnars og Beggu síðustu tvö árin, en hlýjan frá þeim mun ylja hjarta mínu það sem eftir lifir. Á kveðjudegi Gunnars í gömlu Garðakirkju í Garðabæ, hinni sömu þar sem móðurafi minn var skírður á síðasta áratug nítjándu aldar og fermdur þar í upphafi tuttugustu aldarinnar fóru hlýjar tilfinningar um mig í minningu um góðan mann sem svo sannarlega hefði mátt lifa miklu lengur, dýravinur og mannvinur og góður félagi.

Með þessu vil ég votta Beggu og börnum þeirra Gunnars þakklæti mitt fyrir góð viðkynni og yndislega vináttu.