þriðjudagur, janúar 16, 2018

16. janúar 2018 - Sorgardagur?
Sextándi janúar er vissulega sorgardagur. Á þessum degi árið 1995 fórust 14 manns í snjóflóði í Súðavík og á þessum sama degi árið 2018 var sonur Gurríar vinkonu minnar borinn til grafar eftir að hafa farist í bílslysi tæpum tveimur vikum fyrr.

Ég man að þegar sagt var frá snjóflóðunum í Súðavík í fréttum var ég á vaktinni í Hässelbyverket, orkuveri í úthverfi Stokkhólms og einhvernveginn fannst mér það svo fjarlægt eftir nokkurra ára búsetu í Svíþjóð, en þegar nöfn fólksins sem fórst voru birt, rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði átt nokkur samtöl við eitt fórnarlambið áður en ég flutti, en ég hafði verið málkunnug Bellu Vestfjörð áður en ég flutti til Svíþjóðar 1989 sem um leið gaf hörmungum andlit, en Bella var eitt fjórtán fórnarlamba snjóflóðsins í Súðavík. Snjóflóðið á Flateyri innan við ári síðar var öllu nálægara enda náðu sænskir fjölmiðlar strax sambandi við Hildi vinkonu mína sem var nýlega flutt til Flateyrar frá Stokkhólmi.  

23 árum síðar var ég við útför ungs manns sem hafði farist í umferðarslysi tæpum tveimur vikum fyrr, en Einar Þór Einarsson var sonur Guðríðar Haraldsdóttur sem skráði sögu mína síðastliðið ár. Sama dag var tilkynnt um tvær viðurkenningar sem mér hlotnuðust, annars vegar sem persónu ársins 2017 á veftímaritinu GayIceland.is, en síðar sama dag fékk ég einnig 2. verðlaun í ljósmyndasamkeppni sjómanna, mynd sem ég hafði vissulega tekið en mávur stal fókusnum er ég ætlaði að mynda Goðafoss á leið til hafnar í Reykjavík frá Grundartanga. Já, vissulega er ég hætt til sjós, en má halda titlinum sem fyrrverandi sjómaður og sem vélstjóri á björgunarskipi í frítímanum.

Því má segja að 16. janúar sé dagur góðs og ills, bæði dagur sorgar og dagur fagnaðar rétt eins og aðrir dagar ársins, en samt dagur sem vert er að minnast.     

mánudagur, janúar 08, 2018

8. janúar 2018 - Um herinn á Miðnesheiði

Ég er friðarsinni. Ég er mjög andvíg öllum hernaðarátökum og tel að slíkar deilur eigi að leysa við samningaborðið en aldrei með hernaði. Sem friðarsinni er ég einnig óvirkur meðlimur í Samtökum hernaðarandstæðinga sem ég styð þó í hjarta mínu þótt virknin felist einvörðungu í að greiða ársgjaldið og mæta við kertafleytinguna 6. eða 9. ágúst ár hvert og svo við friðargönguna á Þorláksmessu. Ég neyðist þó til að skrópa fyrir næstu jól þar sem ég verð á vakt þegar friðargangan verður farin.

Tvennt er þó til að rækta efa í hjarta mínu. Annað er þyrlubjörgunarsveit herstöðvar bandaríska sjóhersins sem lengi var starfrækt hjá herliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þyrlubjörgunarsveitin vann mörg frábær afrek þegar hún var með aðsetur hér á landi og hún var stolt herstöðvarinnar. Nokkrum árum áður en herinn hélt á brott með allt sitt hafurtask auðnaðist mér að heimsækja þyrlubjörgunarsveitina og mér til undrunar fékk ég að valsa um að vild með góðri leiðsögn hermanna sveitarinnar sem vildu allt fyrir okkur gera og voru ósparir á að sýna okkur nýjustu og flottustu tæknina í björgunarstörfum í sínum fimm þyrlum sem staðsettar voru á Keflavíkurflugvelli, en ég var þarna sem meðlimur í öryggisnefnd Orkuveitu Reykjavíkur.

Hitt dæmið um jákvæð áhrif hersins á Keflavíkurflugvelli er mun eldra og kannski viðkvæmara. Sem barn að aldri á barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellssveit komu hermenn frá Keflavíkurherstöðinni í heimsókn á hverju hausti nokkru fyrir jólin, færðu heimilinu gjafir og börnin fengu sömuleiðis persónulegar gjafir frá hernum og það voru gjafir af dýrari gerðinni, reiðhjól, snjósleðar, járnbrautarlest á teinum, skip knúin áfram af rafhlöðum og fleira sem margt er mér gleymt í dag. Í einn dag léku ungir hermenn við okkur börnin, sögðu okkur frá uppvaxtarstöðvum sínum vestur í Ameríkuhreppi og færðu okkur sælgæti og gjafir. Mig minnir þó að þessum heimsóknum hafi verið hætt fljótlega eftir 1960. Allavega man ég ekki eftir þeim á síðari hluta þess tíma sem ég dvaldi á barnaheimilinu, en góðar voru heimsóknirnar.

Það má svo deila um það hvort þessar heimsóknir á barnaheimilið hafi verið hluti af heilaþvotti, en fyrir börnin voru þær til gleði og þeim var fagnað.

Baráttan fyrir friði er ekki barátta gegn hermönnunum sem slíkum enda eru þeir einungis verkfæri yfirmanna sinna og pólitískra stjórnenda og sem persónur hafa þeir margir gengið langt í að bjarga mannslífum, stundum mun lengra en krafist er af þeim.

Þessi hugleiðing kom upp í hugann þegar ég sá fyrsta hlutann af þættinum um herstöðina á Miðnesheiði sem var í sjónvarpinu á sunnudagskvöldið.föstudagur, janúar 05, 2018

5. janúar 2018 - Umferðarslys


Ég var einu sinni á ferð norður í land. Þegar ég ók framhjá Hreðavatnsskála var smáhlykkur á veginum og skyndilega var ég komin á rangan vegarhelming, en það kom enginn vörubíll á móti og mér tókst með lagni að sveigja inn á réttan vegarhelming og halda för minni áfram. Eitt örlítið augnablik sem hefði getað kostað lífið hefði bíll komið á móti mér.

Ég fékk viðvörun og allt fór vel. Það hefur ekki alltaf farið svona vel. Ungur piltur lést eftir að bílstjórinn sem kom á móti sá piltinn gera eitthvað annað en að horfa fram á veginn, stilla útvarpið eða eitthvað álíka. (Hann var ekki að tala í símann).

Um daginn lést vinur minn í umferðarslysi á Kjalarnesi. Hann var á fertugsaldri og enginn glanni í umferðinni. Ég veit ekki hvað gerðist annað en samkvæmt fyrstu fréttum fór hann yfir á rangan vegarhelming og það varð hans síðasta augnablik í lífinu. Eftir situr móðir hans og syrgir einkason sinn.

Það er ávallt erfitt að tjá sig um dauðsföll í nálægðinni, en um leið er nauðsyn að vekja athygli á augnablikunum sem valda dauða, símtölum eða svefni undir stýri. Einum vinnufélaga mínum tókst með naumindum að forðast stórslys er maður sem hafði sofnað undir stýri fór utan í hliðina á hans bíl og vaknaði við brak og bresti og náði að stöðva bíl sinn áður en illa fór. Sjálf var ég einu sinni akandi á eftir bíl þar sem bílstjórinn var að tala í síma og missti stjórn á bílnum sem lenti utan í bílnum við hliðina.

Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í málinu?

laugardagur, febrúar 11, 2017

11. febrúar 2017 - Forseti Íslands
Ég hefi aldrei gengið með þá þrá í hjarta að fá að henda forseta Íslands í sjóinn. Vissulega hefi ég verið ósátt við einstöku embættisfærslur forsetans, þá helst þess sem sat á Bessastöðum á undan núverandi forseta, en aldrei svo að ég óskaði honum dauða og djöfuls, þvert á móti.

Þegar kom að neyðarkallsdeginum 2017, þ.e. 112 deginum þurfti ég að vera með sem vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni og verkefnið var aðallega eitt, að henda forseta Íslands í sjóinn undir öruggum formerkjum. Þar sem við lágum utan á varðskipinu Þór og biðum forsetans læddust að mér illar grunsemdir um þá áhættu sem forseta getur beðið við slíkar aðstæður, en svo kom hann til okkar í viðurkenndum flotgalla og tilbúinn í hvað sem er.

Allt gekk eins og í sögu. Þegar kom að því að forseta yrði hent í sjóinn varð ég dálítið smeyk. Myndi Maggi átta sig á að skipið þyrfti að vera stopp áður en fólki yrði hent í sjóinn? Hann áttaði sig á slíku, stoppaði skipið og beið þess sem verða vildi. Fyrstur út var sigmaður frá Landhelgisgæslunni og síðan lét forseti Íslands vaða, stökk út á eftir sigmanninum með tilþrifum. Enn einu sinni staðfesti Guðni Th. Jóhannesson með verkum sínum af hverju ég kaus hann til forseta Íslands.

Hífingin í þyrluna gekk vel og við gátum haldið heim á leið ánægð í skapi eftir vel heppnaðan 112 dag.


sunnudagur, janúar 01, 2017

1. janúar 2017 - Flakk um heima og geymaÞað er erfitt að halda því fram að ég hafi víða farið. Fimmtán ára gömul komst ég í fyrsta sinn til útlanda, var á gömlum togara sem sigldi með aflann til Bremerhaven í Þýskalandi. Síðar sama vor náði ég því að koma til annarra fiskibæja erlendis, Cuxhaven, Grimsby og Hull. Um sumarið kom ég í fyrsta sinn á ævinni til Akureyrar er mér var boðið með í ferð norður á gömlum Landrover jeppa og gist á tjaldsvæðinu ofan við miðbæinn á Akureyri.

Svo liðu árin og ég bætti við mig höfnum bæði á Íslandi og erlendis. Sumarið 1983 ók ég í fyrsta sinn í gegnum Vík í Mýrdal. Áður hafði ég náð því að koma til hafna í Norður-Afríku, Miðausturlöndum og Norður-Ameríku auk flestra hafna á Íslandi og margra hafna í Evrópu beggja megin gamla járntjaldsins.

Það hafa ekki mörg ríki bæst við eftir að ég hætti til sjós, en nokkur, Írland, Sviss, Austurríki, Slóvakía, samanlagt kannski 40 ríki. Árin sem ég hefi lifað eru líka orðin 65.

Ég á sex barnabörn. Yngsta barnabarnið verður sex ára gömul á þrettándanum. Þegar ég var á hennar aldri hafði ég aldrei komist út fyrir suðvesturland, hafði vissulega komið austur í Biskupstungur og út á Kjalarnes, en ekki mikið meira en það. Sonardóttir mín hefur ferðast víða um Ísland, komið til Kanaríeyja, býr í Skotlandi ásamt foreldrum sínum þar sem hún gengur í skóla, talar tvö tungumál fyrirhafnarlaust.

Hvernig á ég að geta verið henni og níu ára bróður hennar fyrirmynd þegar ég veit að þau eru löngu orðin heimsborgarar? Lífsreynsla þeirra er orðin allnokkur. Þau eru að ná því að verða fyrirmynd fyrir mig sem kom til útlanda í fyrsta sinn á gömlum togara þegar ég var fimmtán ára gömul. Þau eru öfundsverð af hlutskipti sínu, en um leið hefi ég kannski ýmislegt annað að gefa þeim, reynslu af fátækt, af unglingaþrældóm, af misskiptingu, en ekki síst af þjóðfélagi sem enn var í fjötrum hafta og þvingana um árabil. Af heimsmenningunni geta þau kennt mér, ekki öfugt.

föstudagur, desember 23, 2016

23. desember 2016 - JólatréÉg fór að velta fyrir mér af hverju svo margt fólk setur upp jólatréð á Þorláksmessu. Þegar ég var að alast upp var jólatréð skreytt á Þorláksmessu. Þetta var fyrir daga skötuhlaðborða og það var einungis ein útvarpsstöð sem sendi út kveðjur til fólks í landi á Þorláksmessukvöld, en sjómenn fengu sínar kveðjur eftir hádegi á aðfangadag jóla og kveðjur frá Íslendingum erlendis voru fluttar í útvarpi á annan dag jóla. Svo datt pabbi í það eftir að hafa skreytt jólatréð og þar með lauk jólagleðinni, stundum, þó ekki alltaf.

Sjálf var ég ekki með jólatré í mörg ár eftir að ég skildi við þáverandi maka fyrir meira en þremur áratugum. Er ég flutti í núverandi íbúð fyrir tólf árum síðan kom ég við í Garðheimum og keypti stórt og mikið gervitré og setti upp og skreytti snemma á aðventunni. Það fékk að vera uppi fram í miðjan janúar, eða framyfir sænsku jólalokahátíðina Tjugondedag Knut, þ.e. 13. Janúar. Síðan þá hefi ég haldið þessum sið, að skreyta jólatréð í byrjun aðventu og framyfir miðjan janúar. Sama saga gildir um önnur jólaljós, svalalýsingar og þess háttar. Byrja að fækka þeim um miðjan janúar.

Af hverju ekki?

Hér á ég alla jólaóróana frá Georg Jensen. Af hverju má ekki láta þá njóta sín tvo mánuði ársins í stað þrettán daga? Sömu sögu er að segja um neyðarjólasveinana, þ.e. neyðarkalla björgunarsveitanna sem fá að hanga á heimilinu jafnlengi.

Í svartasta skammdeginu er jólalýsingin nauðsynleg. Af hverju ekki að reyna að njóta hennar eins og kostur er?