föstudagur, apríl 27, 2012

27. apríl 2012 - Hvalfjarðargöngin

Um daginn fór mig að gruna að áskriftin mín að Hvalfjarðargöngunum væri að verða uppurin og ég hafði samband við Spöl og spurði um stöðu mína. Ég reyndist enn eiga inni nokkrar ferðir frá því ég greiddi síðast fyrir kannski þremur eða fjórum árum, en sá jafnframt fram á að heppilegast væri að endurnýja áskriftina sem fyrst.

„Hverskonar fífl ertu eiginlega sem nánast grátbiður um reikninginn fyrir eitthvað sem á að vera ókeypis?“
Svona kann einhver að hugsa og ég skil vel þá Skagamenn sem aka daglega um göngin og finna fyrir kostnaðinum. Það á bara ekki við um mig sem bý í Reykjavík og nota göngin einungis innan við tuttugu sinnum á ári, en er reyndar með áskrift fyrir tvo bíla þar sem ég og sonur minn erum með sameiginlega áskrift.

Ég rifja upp öll þau skipti sem ég var á ferðinni um Hvalfjörðinn í langri bílalest þar sem meðalhraðinn var innan við þrjátíu. Ástandið var óþolandi og það var full ástæða til að grípa til róttækra aðgerða og eftir allar bollaleggingar um brú yfir Hvalfjörð datt einhverjum í hug að bora göng undir fjörðinn. Það varð ofan á og hafist var handa við borun árið 1996.

Í nóvember 1996 var ég á ferð um landið. Fyrr um haustið hafði ég haldið austur á Eskifjörð til afleysninga á nótaskipið Jón Kjartansson og var afleysningunni lokið og kominn tími til heimferðar og nýrra starfa í Reykjavík. Suðurleiðin til Reykjavíkur var lokuð vegna eldgoss í Vatnajökli og síðan flóða á Skeiðarársandi nokkru áður og ekkert annað í stöðunni en að fara norður fyrir land í hálkunni og þótt ég væri á fjórhjóladrifnum bíl var hann á sumardekkjum. Ég lagði af stað frá Eskifirði um eftirmiðdaginn og ákvað að gefa mér allan tíma í heiminum til ferðarinnar. Ferðin gekk vel þótt mér leiddist alveg ömurlega þar sem ég var ein á ferð um Möðrudalsöræfin, hvergi bíll sjáanlegur og ég var ein í heiminum í glampandi tunglskini, frosti og hálku. Í Ljósavatnsskarðinu kom ég að flutningabíl frá Neskaupstað sem var á hliðinni, en björgunarsveitarmenn unnu við að bjarga verðmætum úr honum yfir í annan bíl. Þreytt kom ég til Akureyrar og borðaði heima hjá Jóhannesi vini mínum Pálssyni sem nú er látinn fyrir nokkrum árum og eftir rúmlega klukkutíma hvíld hjá þeim hjónum hélt ég áfram ferð minni.

Ég hélt áfram að aka eftir aðstæðum, óvön íslenskum fjallvegum og nýlega flutt frá Svíþjóð. Aftur kom ég að flutningabíl á hliðinni og aftur naut ég þess að íslenskir björgunarsveitarmenn voru hjálplegir bílstjóranum á flutningabílnum og ég hélt áfram ferð minni án sérstakra tafa. Þreytan var farin að segja verulega til sín og þegar komið var að Hreðavatnsskála stöðvaði ég bílinn þótt um miðja nótt væri og fékk mér nokkurra mínútna göngu til að sofna ekki undir stýri. Síðan hélt ég áfram ferð minni.

Þegar ég kom í Hvalfjörðinn sá ég handan fjarðarins hvar vinnuljósin sögðu að eitthvað mikilfenglegt væri í gangi. Ég átti hinsvega enn langa ferð fyrir Hvalfjörðinn og kom ekki að ljósunum fyrr en nærri klukkustund síðar, þá örþreytt og enn ekki komin til Reykjavíkur. Það verður yndislegt þegar göngin verða komin í gagnið og hægt verður að aka þessa leið án óþarfa tafa hugsaði ég um leið og ég ók um Kjalarnesið og til Reykjavíkur þar sem ég komst loksins í rúmið eftir fjórtán tíma ferð í snjó og hálku frá Austfjörðum.

Svo voru Hvalfjarðargöngin tekin í notkun einu og hálfu ári síðar, einhver best heppnaða samgöngubót Íslandssögunnar. Ég borga glöð þessar fáu krónur sem það kostar að spara mér Hvalfjörðinn og lengi verð ég minnug þessarar nætur þar sem ég var að leka niður af þreytu og átti allan Hvalfjörðinn eftir. Síðan þá hefi ég verið mikil áhugamanneskja jarðgangna á Íslandi.

sunnudagur, apríl 22, 2012

22. apríl 2012 - Svik við íslenska myndlistamenn?


22. apríl 2012 - Svik við íslenska myndlistamenn?

Í útvarpinu á sunnudegi kvartaði Einar Garibaldi Eiríksson sáran undan mannvonsku Alþingis að leita ekki til íslenskra myndlistamanna við málun á mynd af Sólveigu Pétursdóttur eða eins og haft er eftir honum „að þeir sem hafi beðið um þessa mynd hafi ekki mikinn áhuga eða skilning á því sem sé að gerast í íslenskri samtímalist.“

Ég get ekki séð að það sé mikil list fólgin í að mála Sólveigu Pétursdóttur hvort heldur er með hana sjálfa sem fyrirmynd eða mála hana eftir ljósmynd. Slíkt flokkast fremur sem iðnaður enda er ekki verið að krefjast neinnar listrænnar framúrstefnu. Þá má vel vera að Alþingi hafi kannað þann þátt mála en ef þeir hafa kynnt sér íslenska samtímalist eins og tröllskessuna á Stakkagerðistúni í Vestmannaeyjum sem á að tákna konuna, tilfinningaveruna og móðurina Guðríði Símonardóttur sem rænt var af Alsírmönnum árið 1627, þá hafa þeir snarlega hætt við að leita til íslenskra samtímalistamanna. Slík mynd af Sólveigu Pétursdóttur hefði orðið skelfileg.

Kannski hefði einhverjum dottið í hug að mála andlitið á Sólveigu inni í gylltum ramma ímyndaðrar salernissetu í minningu gullklósettsins sem var altalað í ráðherratíð Sólveigar eða sem pappalöggu. Því var iðnaðarmálverk af því tagi sem gert var hið eina rétta í stöðunni.

laugardagur, apríl 14, 2012

14. apríl 2012 - Auglýsing frá Flugfélagi Íslands?

Það var eitthvað rólegt hjá mér á vaktinni á laugardegi og ég sat og fletti blöðunum, þar á meðal Fréttablaðinu og rak augun í auglýsingu frá Flugfélagi Íslands innan á baksíðunni um óvenju hagstæð kjör á ferð til Akureyrar eða samtals krónur 6.640 krónur fyrir aðra leiðina, en til samanburðar reikna þeir með að bílferðin aðra leiðina fyrir manninn kosti 15.209 krónur Enginn smámunur og ótrúlega lágt verð á miðanum norður. Kannski ætti ég bara að skella mér.

Ég hefi oft séð miklar sjónvarpsauglýsingar frá Flugfélagi Íslands þar sem þeir sýna ökumann bílsins koma til Hótel KEA, útkeyrður af þreytu eftir mikla svaðilför á leiðinni norður í land á meðan farþeginn í flugvélinni kemst á milli á áhyggjulausan hátt. Þessar auglýsingar hafa af einhverjum ástæðum aldrei náð að sannfæra mig, en tölurnar blasa við í blaðinu svo það er kannski ástæða til að skoða auglýsinguna betur.

Ég ákvað að skella mér norður í huganum með morgunfluginu í fyrramálið. En þá kostar farið með flugvélinni ekki lengur 6.640 krónur heldur 15.860 krónur. Ef ég flýg til baka með kvöldfluginu daginn eftir kostar sú ferð 13.200 krónur að auki. En það er ekki nóg að komast á milli flugvalla. Þar sem ég fer á eigin bíl frá Árbæjarhverfi til Vatnsmýrarflugvallar sem er næsti flugvöllur við heimili mitt þarf ég að kosta 400 krónum í rekstur bifreiðar þessa leið sem bætast við fargjaldið. Einnig þarf ég að greiða fyrir leigubíl frá flugvellinum á Akureyri í Glerárþorpið (eins gott að ég á ekki erindi til Húsavíkur eða Skagafjarðar) og kostar hann varla undir 2000 krónum. Á meðan ég bíð eftir að mér verði hleypt út í vélina á Vatnsmýrarflugvelli fæ ég mér eina kók og hún kostar 240 krónur. Kostnaður minn við að fara norður á Akureyri endar því á 18.500 krónum miðað við almennt ferðasæti enda ekkert spartilboð í boði á morgun.

Flugfélagið ætlar mér 40 mínútur til ferðarinnar. Þrátt fyrir það er flugtíminn 45 mínútur samkvæmt bókunarvél Flugfélags Íslands. Ég þarf að komast úr Árbæjarhverfinu og þar sem þetta er snemma á sunnudagsmorgni nægir að ætla mér hálftíma til að komast á flugvöllinn. Miðinn er tilbúinn og ég þarf því aðeins að bíða í hálftíma eftir að flugvélin fari í loftið. Eftir að lent er á Akureyri þarf ég að bíða eftir töskunum og síðan eftir leigubíl, samtals líða 45 mínútur frá því lent er uns ég er komin í hús í Glerárhverfi. Heildartíminn er því ekki 40 mínútur heldur 150 mínútur eða tveir og hálfur tími.

-----

Nú fer ég á bílnum norður til Akureyrar, enda á ég ekkert erindi þessa dagana til Skagafjarðar eða til Húsavíkur. Ég tek tölurnar sem eru gefnar upp í auglýsingunni um rekstrarkostnaðinn hátíðlega því þótt ég sé á þægilegum eðalvagni, þá er hann amerískrar gerðar og er álíka eyðslufrekur og bíllinn í auglýsingunni. Ég þarf ekki að tefja mig við Hvalfjarðargöngin þar sem ég er með áskrift sem kostar 283 krónur fyrir hverja ferð í gegnum göngin og ég kaupi mér eina kók í Borgarnesi á leiðinni á 240 krónur. Þegar ég fer á milli á ég það til að koma við í Varmahlíð eða Blönduósi og pissa, annars er óþarfi að stoppa þegar ég er ein á ferð. Ég sleppi því öllum pulsunum og ísnum í auglýsingunni. Hinsvegar gæti ég þess að aka ekki yfir hámarkshraða til þess að spara bensínið og er því rétt rúma fjóra tíma á leiðinni. Kostnaður 12.491 króna. Þetta miðast við að fara úr Árbæjarhverfi til Glerárþorps á Akureyri. Svo má velta fyrir sér sparnaðinum ef við erum tvö á ferðinni í bílnum í samanburði við að ferðast tvö saman í flugvélinni.

Ég er hætt við að taka flugið til Akureyrar. Það er of dýrt.

fimmtudagur, apríl 12, 2012

13. apríl 2012 - Að flytja út rafmagn

Oft hefi ég verið sammála Landsvirkjun. Sumum virkjana þeirra hefi ég fagnað og talið af hinu góða auk þess sem þeir hafa lagt sig fram um að bæta fyrir umhverfisspjöllin sem frekast er kostur og má víða sjá þess merki á hálendinu. Nú ætla þeir að vinna að útflutningi á rafmagni með neðansjávarstrengjum, væntanlega til Færeyja, Shetlandseyja, Orkneyja og Skotlands og komast þannig inn á Evrópumarkaðinn. Hugmyndin lítur vel út í Excel skjali, stórgróði fyrir Landsvirkjun og hægt að virkja hverja einustu smásprænu á landinu sem hefur virkjanaleyfi. Þannig er hægt að selja hvert einasta megavatt sem ekki nýtist hér heima háu verði til rafmagnsþyrstra Evrópubúa. Aukinheldur jafnar tenging við Evrópu út sveiflurnar hér heima og hættan á raðútslætti minnkar ef til dæmis álver eða virkjun slær skyndilega út. Á sama hátt má búast við að ef raðútsláttur verður eins og átti sér stað á Íslandi 10. janúar s.l. muni taka mun skemmri tíma að koma kerfinu í eðlilegt horf að nýju.

Allt lítur þetta vel út og eigum við ekki að byrja að fagna stórhuga hugmyndum?

Kannski ekki.

Hverjir eru ókostirnir við að tengjast Evrópu með streng? Eitt má telja öruggt. Daginn sem kapallinn til Skotlands verður tekinn í notkun mun raforkuverðið á Íslandi hækka upp í það sem er í Skotlandi, kannski enn hærra. Viljum við borga hærra raforkuverð en við borgum í dag? Ég held ekki. Í dag er til meira umframrafmagn á Íslandi en við höfum þörf fyrir. Samt er verðið tiltölulega hátt miðað við það sem það gæti verið miðað við að heildsölurafmagn sé selt á markaðsverði innanlands. Samt á að halda áfram að byggja fleiri virkjanir án þess að búið sé að selja raforkuna til einhvers stórnotanda og leggja rafmagnssnúru til Skotlands svo Skotarnir og síðan einnig Evrópa fái notið þessara fáu megavatta sem við eigum umfram notkun.

Ef kapallinn verður að veruleika mun engin frekari stóriðja verða byggð á Íslandi. Íslendingar munu einungis fá vinnu við að byggja nýjar virkjanir en sárafáa menn þarf til að reka virkjanir og það mun því ekki skila sér í fjölbreyttara atvinnulífi. Sú stóriðja sem þegar er til í landinu mun smám saman flytjast burtu og íbúunum mun fækka.

Þetta mun vafalaust bæta fjárhaginn hjá Landsvirkjun og Orkuveitunni, en ekki mörgum öðrum og alls ekki venjulegum íbúum þessa lands

fimmtudagur, apríl 05, 2012

5. apríl 2012 - Um leiki og vinnu barna

Ég komst í bráðskemmtilega grein á netinu um leiki barna á Bíldudal á árunum 1970 – 1980 og vafasöm nostalgían fór í gang.

http://www.arnfirdingur.is/index.php/menning-og-saga/adhsent-efni/1079-leikir-og-daegradvoel-barna-a-bildudal-um-1970-1980

Það er kannski ekki alveg mitt að tjá mig mikið um leiki barna á Bíldudal á þessum árum, enda alin upp fyrir sunnan og kom ekki til Bíldudals í fyrsta sinn fyrr en ég fór á vertíð í janúar 1968, þá nýlega orðin sextán ára á Pétur Thorsteinsson BA-12. Þar kynntist ég því hvernig börn „léku sér“ fyrir 1970.

Þar sem við vorum að búa bátinn til veiða átti ég erindi upp í saltfiskverkun og sá þá hvar lítill strákur stóð í saltmokstri. Hann var í gúmmístígvélum eins og títt var og er um litla drengi, en einhver fullorðinn hafði límt á þau upphækkun svo þau nýttust sem klofstígvél og drengurinn virtist alsæll með vinnuna. Ég undraðist þetta og spurði drenginn af hverju hann væri ekki í skólanum eins og hinir krakkarnir og það stóð ekki á svörum:
„Ég er ekki nógu gamall.“
„Ha, ekki nógu gamall til að fara í skóla en samt að vinna? Hvað ertu gamall?“
„Ég er sex ára.“

Var nokkur að tala um vinnuþrælkun barna í Asíu?


(Þess má geta að skólaskyldan hófst við sjö ára aldur á þessum árum. Myndin af Pétri Thorsteinssyni er fengin af síðu Emils Páls http://www.epj.is/ )

miðvikudagur, apríl 04, 2012

4. apríl 2012 - Grænn apríl???

Ég heyrði í útvarpinu í dag að runninn væri upp grænn apríl. Margt sem þar kom fram er reyndar vel þekkt, en venjulega gleymast orðin um leið og þau hafa verið sögð. Margt að því sem sagt var í Síðdegisútvarpinu er þó stundað í blokkinni þar sem ég bý, t.d. flokkun á sorpi, en betur má ef duga skal. Klukkutíma áður hafði ég orðið vör við ranga umhverfisstefnu:

Ég skrapp í apótekið í dag og náði í lyfin mín. Jú mikil ósköp, ég þarf á lyfjum að halda enda væri ég annars með of háan blóðþrýsting. Þetta hefi ég gert oft áður og er hið besta mál.

Ég fæ lyfin afhent í bréfpoka. Annað lyfið heitir Amló og er afgreitt í plasthylkjum með 100 töflum. Þettu eru þægilegar umbúðir og auðvelt að skipta lyfjunum niður í skammtabox til að tryggja að munað sé eftir töflunni. Síðan tek ég upp pappaöskju sem merkt er Valpress Comp úr pokanum og opna hana. Þá blasa við mér 12 plastpjöld með sérpökkuðum töflum, samtals 14 töflum á hverju spjaldi og lokuðum með álspjaldi. Eins og gefur að skilja eru einungis 98 töflur í stóra kassanum og til að auðvelda mér notkunina á blóðþrýstingslyfjunum fæ ég mér gamalt og tómt plasthylki undan Amló sem ég hefi merkt Valpress, tíni allar pillurnar úr spjöldunum og set í plasthylkið. Þá er ég loksins komin með þægilegar umbúðir. Pappírsumbúðunum hendi ég svo ásamt ál/plastspjöldunum sem nýtast hvorki sem plastumbúðir vegna álsins né sem málmur vegna plastsins sem límt er við. Síðan á ég nóg til af blóðþrýstingslyfjum næstu 98 dagana, en þegar Valpress þrýtur á ég samt tvær töflur eftir af Amló. Er ekki eitthvað hér sem ekki stenst?

Þetta eru tvö lyf sem eiga að vinna saman og því tek ég eina töflu af hvoru lyfi á dag. Bæði eru þessi lyf framleidd af lyfjaverksmiðju suður í Hafnarfirði og ekki ætla ég að ætla Hafnfirðingum það að kunna ekki að reikna enda hið ágætasta fólk. Af hverju er ekki samræmi á milli hinna ýmsu lyfjategunda svo að það skipti ekki máli hvaða tegund notuð er af lyfjum og hvað með allar umbúðirnar sem ekki nýtast neinum?

Því miður er þetta enn eitt dæmið um óþarfa umbúðabruðl sem fyllir allar tunnur fyrir heimilissorp. Nóg er samt af slíku. Þessar lyfjaumbúðir skipta kannski ekki miklu máli fyrir hvert heimili en þegar allar hinar umbúðirnar sem bornar eru heim eru komnar til viðbótar er þær fljótar að fylla heilu sorptunnurnar flestum eða öllum til ama og leiðinda.

Hvað á ég svo að gera við þessar tvær töflur af Amló sem eftir eru?

þriðjudagur, apríl 03, 2012

3. apríl 2012 - Sambandsleysi við netheima og hina líka


Stundum getur borgað sig að kvarta af fyllstu kurteisi Ég gerði það á þriðjudagsmorguninn og sendi meðfylgjandi tölvupóst til Símans:

Kæri Sími.

Það er leitt að þú skulir yfirgefa mig eftir öll þessi ár sem við höfum verið saman. Við hófum sambúðina á netinu í október 1998 en áður höfðum við verið í símasambandi um tíma. Sambúðin gekk vel fyrstu árin. Þú leystir hratt og vel úr málum sem áður stóðu í Margmiðlun og ég var ánægð. Þau fáu vandamál sem komu upp voru leyst hratt og vel og ég hrósaði þér á hvert reipi fyrir fljóta, góða og ódýra þjónustu. Vissulega komu upp erfiðleikar eins og í öllum góðum samböndum en við stóðum saman í gegnum gamaldags símasamband, ISDN og síðar ADSL, bæði beintengt og í gegnum router og netkort.

Haustið 2009 hringdi fulltrúi þinn og bauð mér að tengjast Sjónvarpi Símans. Eftir nokkurra mánaða umhugsun samþykkti ég boðið, boraði fyrir kapli í gegnum allar innréttingar og lagði streng frá routernum í gegnum borðstofu og eldhús, inn í stofu og að sjónvarpinu. Ég þóttist hafa himinn höndum tekið þegar ég fékk afruglara og gat séð sænskt sjónvarp án þess að flytja aftur til Svíþjóðar og ekki kvörtuðu kettirnir á heimilinu að geta séð góðar teiknimyndir.

En svo bregðast krosstré sem önnur tré. Í ársbyrjun 2012 veitti ég því athygli að þú varst farinn að verða mér afhuga. Ég kom heim eftir erfiðan vinnudag og það var ekkert sjónvarp nema gamla gufan og ekkert internet svo ég gæti spjallað við vinina á Facebook og ég þurfti að nota gamla símatækið til að tala við fólk. Næstu dagana var sambandið að koma og fara og ég kvartaði og kvartaði. Í byrjun febrúar var sambandið úti í fleiri daga og ég kvartaði. Ég er heppin að vera enn með pung frá þér þótt minn gamli sé löngu farinn öllum til guðsblessunar. Það komu tveir menn frá þér, G. og annar til og mældu og prófuðu og kváðu síðan uppúr með að bilunin væri hjá ætluðu viðhaldi þínu, Mílu. Eftir nokkurra daga sambandsleysi komstu aftur til mín seint að kvöldi mánudags og varst inni um tíma. Þegar leið að lokum febrúar fórstu að verða mér afhuga að nýju og fórst að vera úti heilu næturnar og aftur kvartaði ég með hjálp pungsins góða.

Aftur kom G. og mældi og fann ekkert. Sambandið hélt áfram að vera slitrótt eða oftast ekkert og enn kom G. og skipti um router. Það dugði í sólarhring og þá fór allt á sömu leið og ég hélt áfram að vera sambandslaus við umheiminn og löngu hætt að gera tilraunir til að horfa á Sjónvarp Símans. Ég hélt áfram að kvarta yfir áhugaleysi þínu gagnvart mér því ekki komst sambandið á. Mér var bent á að skipta um router og ég fór niður í Ármúla og fékk þriðja routerinn og setti hann í samband. Síðan þá hefi ég verið símasambandslaus auk þess að vera án internets eða Sjónvarps Símans. Enn kvartaði ég í síðustu viku og þá var mér bent á að ég þyrfti að fá mér ljósnet. Ég sagði já ef það kæmi með hraði og síðan hefur ekkert skeð. Þú ert enn ekki kominn til mín.
Ég fer að halda að þú  sért kominn með nýja kærustu. Heitir hún nokkuð Míla?

Ég ætla að gera þér tilboð. Þú kemur heim í dag og tengist mér að nýju og ég mun hætta að kvarta nema þá helst yfir reikningunum enda er ég ekkert sátt við að borga mörg þúsund krónur á mánuði fyrir Sjónvarp Símans og internet án þess að njóta þess og þurfa samtímis að greiða háar upphæðir fyrir notkun á pung.

Það var ekki liðinn klukkutími frá því ég sendi bréfið þegar G. kom í heimsókn og hóf að leita að bilunum í kerfinu hjá mér og fann þá fljótlega og kom öllum tengingum í lag. Starfsfólk Símans eða Mílu hafði þá skipt yfir á ljósnetið sama dag og ég hafði beðið um slíkt, en óvart víxlað tengingum og því var ég gjörsamlega sambandslaus í þessa daga til viðbótar. Eftir að G. hafði lokið að breyta tengingunum hafði fulltrúi Símans samband við mig og felldi niður nokkurra mánaða áskriftargjöld.

Nú er sambandið betra en nokkru sinni áður og ég er ánægð og vonandi Sími líka.

mánudagur, apríl 02, 2012

2. apríl 2012 – Ísland árið 2012, ofbeldi gagnvart transfólki

Ég man það eins og að það hefði gerst í gær. Ég hafði farið á fund hjá sænskum transhópi sem haldinn var á Södermalm í Stokkhólmi haustið 1989, en er ég fór þaðan og kom á brautarpall neðanjarðarlestarinnar kom ég þar að sem nokkrir pörupiltar voru að berja á einni transkonunni sem var þarna í sínu fínasta pússi að bíða eftir lestinni. Sem betur fer kom lögreglan að í sömu mund og ég svo ég slapp við að hjálpa vinkonu minni. Á næstu árum kynntist ég fjölmörgum tilvikum þar sem transfólk varð fyrir ofbeldi og sjálf varð ég formaður samtakanna Benjamin í Svíþjóð eftir að hafa mótmælt aðgerðarleysi stjórnar félagsins eftir skipulagt ofbeldi í garð transfólks í Svíþjóð árin 1992-1993.

Ég varð stöku sinnum fyrir ofbeldi á þessum árum, einungis einu sinni líkamlegu ofbeldi en nokkrum sinnum andlegu ofbeldi. En svo flutti ég til Íslands árið 1996 eftir að hafa gengist í gegnum leiðréttingu á kyni árinu fyrr. Fyrstu árin á Íslandi varð ég oft fyrir ofbeldi, þó ávallt vægu. Fólk átti það til að missa úr ölglasinu sínu yfir mig ef ég snéri mér undan og nokkrum sinnum varð ég fyrir hrindingum auk þess sem ég varð oft fyrir háði og spotti af hálfu ókunnugs fólks sem þekkti mig úr fjölmiðlum og ekki má gleyma ítrekuðu símaati þessi ár. Ég fann þó hvernig smám saman dró úr ofbeldinu gagnvart mér eftir aldamótin 2000 og í dag tel ég að ég geti gengið nokkuð óhult um götur Reykjavíkur.

Um árið 2006 frétti ég af grófu líkamlegu ofbeldi gagnvart transkonu á Íslandi þar sem árásarmanninum var hampað sem hálfgerðri hetju í ónefndu tímariti. Kvartað var til siðanefndar Blaðamannafélagsins vegna þessa en viðbrögðin urðu engin né heldur viðbrögð lögreglu. Eftir þetta fréttist ekki af neinu ofbeldi í garð transfólks og ég var farin að halda að transfólk á Íslandi væri orðið óhult eftir nokkur ár af frjálslyndi í garð hinsegin fólks. Vissulega varð ég vör við einstaklinga sem töldu sig yfir transmanneskjur hafna, en einhverjir þeirra áttu það sameiginlegt að vera í skápnum eða þá með mjög ofbeldisfullar skoðanir sem þykja ekki við hæfi í nútíma lýðræði.

Árið 2012, nánar til tekið í byrjun apríl þurfti transstrákur á Íslandi að fara á salernið á skemmtistað og var laminn í klessu. Þetta var þá allt frjálsræðið!

http://kalldoro.wordpress.com/2012/04/01/ofbeldi-i-gard-transfolks-a-islandi/

Það tókst ekki að koma inn ákvæði vegna kynvitundar í nýja stjórnarskrá Íslands. Við sem höfum starfað í nefnd um réttarstöðu transfólks höfum lagt til að réttarstaða transfólks verði einnig tryggð í hegningarlögunum nr 19/1940, en hveru lengi þurfum við að bíða uns við fáum mannréttindi á borð við annað fólk á Íslandi. Við höfum það ekki í dag! Þessi staða transfólks er Íslandi til skammar.

Ég frétti af þessu grófa ofbeldi einungis klukkustundum eftir að ég hafði hælt mér og Íslendingum almennt fyrir frjálslyndi í garð transfólks við fólk erlendis. Því miður neyðist ég til að draga orð mín til baka.   

sunnudagur, apríl 01, 2012

1. apríl 2012 - Um embættismenn og lagafrumvörp

Ég hefi stundum verið að velta fyrir mér vandamálinu sem felst í því að vandamálin safnast upp og verða oft illviðráðanleg. Gott dæmi um slíkt eru flóttamenn sem bíða afgreiðslu sinna mála í einhverjum hjalli suður í Njarðvíkum í marga mánuði og jafnvel svo árum skiptir. Þetta vandamál er mér óskiljanlegt, af hverju má ekki vinna í málinu hratt og vel og ljúka því ?

Ég er vön því að ef eitthvað fer úrskeiðis fer maður í samfestinginn og kastar sér í verkið og klárar það. Það eru vissulega til verkefni sem eru þess eðlis að gott er að láta tímann líða og gefa sér næði til að finna réttu lausnina, en oftast á það alls ekki við. Ef ég er úti á sjó og við erum að taka upp ljósavél þá ljúkum við verkinu ef það er hægt á skikkanlegum tíma. Ef verkinu er nánast lokið að loknum vinnudegi fer maður frekar í að ljúka verkinu að kvöldi en að geyma það til næsta dags því það gæti eitthvað skeð um nóttina sem veldur því að vélin þarf að komast í gang sem fyrst.

Á síðasta ári var ég beðin um að sitja í nefnd á vegum hins opinbera. Ég samþykkti erindið með ánægju og lengi vel gengu nefndarstörfin vel. Við áttum að ljúka störfum okkar í desember, en þegar fór að nálgast jól fór ég að ókyrrast, sá einfaldlega fram á að verkum okkar lyki ekki fyrir áramót. Ég vildi vinna hlutina hraðar, en embættismennirnir í nefndinni tóku slíkt ekki í mál. Þetta yrði að gerast í dagvinnutíma og þegar allir nefndarmenn gætu unnið verkið. Þetta skipti mig minna máli þar sem ég vann stærstan hluta minnar vinnu utan vinnutíma og ráðuneytið greiddi mér ekki neitt fyrir störf mín.

Áramótin liðu og nýtt ár rann í garð. Vinnunni var alls ekki lokið og allur janúar leið án þess að mikið bættist við störf okkar. Að einhverju leyti var það jákvætt því við breyttum álitsgerðum og frumvarpsdrögum í samræmi við nýjar upplýsingar í janúar 2012, en það var sama, við vorum að renna út á tíma því öll frumvörp vetrarins þurftu að vera komin inn fyrir 31. mars 2012. Ég kvartaði við nefndarformanninn sem sá ekkert að málinu og benti á að málið þyrfti ekki að komast inn á Alþingi fyrr en í lok marsmánaðar. Í febrúar fór mikill tími í að laga og fínpússa álitsgerðina og frumvarp því fylgjandi og loks snemma í mars gátum við lokið verkinu og skilað af okkur til ráðherra og ríkisstjórnar.

Það voru erfiðir tímar á Alþingi síðari hluta marsmánaðar. Í lok mars fóru dagar í að ræða stjórnarskrármál sem vissulega var mikilvægt, en mér var farið að líða virkilega illa. Kemst málið mitt inn? Það var samþykkt í ríkisstjórn en ekkert bólaði á því á Alþingi. Er ég leit inn á Alþingisvefinn að morgni laugardagsins 31. mars varð mér allri lokið. Frumvarpið ekki enn komið inn og búið að tilkynna frestun á fundum Alþingis þar til eftir páska. Fyrir mér var sem málið væri fallið og ekkert hægt að gera næsta hálfa árið og að ég yrði að sitja uppi með skömmina. Í huganum fór ég að semja varnarræður þar sem ég væri alsaklaus en embættismennirnir hinir seku, þeir sem fóru heim klukkan fjögur með hálfklárað verk sem mátti bíða til næsta vinnudags. Um leið vissi ég sök mína, ég hafði ekki verið nógu ákveðin að krefjast þess að vinnan gengi mun hraðar fyrir sig.

Um eftirmiðdaginn 31. mars fréttist að lögð hefðu verið fram nokkur lagafrumvörp á Alþingi, þar á meðal frumvarpið mitt. Mér létti stórlega, en samtímis var ég ekki sátt. Af hverju þurfti að draga mig og mína umbjóðendur á asnaeyrunum allan þennan tíma? Ég treysti ráðherranum og þingflokknum til að ljúka málinu með sóma fyrir sumarið, en ég er ósátt við að þurfa að klúðra geðheilsunni vegna þess að embættismennirnir vinna bara á milli klukkan átta og fjögur. Af hverju mega þeir ekki vinna eins og sjómenn og ljúka verkefninu hratt og vel og hvíla sig svo vel á eftir?

Mér verður hugsað til flóttamannanna sem hírast í kytrum suður í Njarðvíkum. Þeir bíða og bíða í örvæntingu á meðan embættismennirnir fara í sumarleyfi og helgarleyfi og guð má vita hvað því þeir sinna ekki manneskjum nema á milli átta og fjögur á virkum dögum.

Flóttamennirnir verða samt áfram manneskjur sem þurfa jákvæðni og góða vinnu embættismannanna.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=140&mnr=736