Um daginn fór mig að
gruna að áskriftin mín að Hvalfjarðargöngunum væri að verða uppurin og ég hafði
samband við Spöl og spurði um stöðu mína. Ég reyndist enn eiga inni nokkrar
ferðir frá því ég greiddi síðast fyrir kannski þremur eða fjórum árum, en sá
jafnframt fram á að heppilegast væri að endurnýja áskriftina sem fyrst.
„Hverskonar fífl ertu eiginlega sem nánast grátbiður um reikninginn fyrir
eitthvað sem á að vera ókeypis?“
Svona kann einhver að hugsa og ég skil vel þá Skagamenn sem aka daglega um
göngin og finna fyrir kostnaðinum. Það á bara ekki við um mig sem bý í
Reykjavík og nota göngin einungis innan við tuttugu sinnum á ári, en er reyndar
með áskrift fyrir tvo bíla þar sem ég og sonur minn erum með sameiginlega áskrift.
Ég rifja upp öll þau skipti sem ég var á ferðinni um Hvalfjörðinn í langri
bílalest þar sem meðalhraðinn var innan við þrjátíu. Ástandið var óþolandi og
það var full ástæða til að grípa til róttækra aðgerða og eftir allar
bollaleggingar um brú yfir Hvalfjörð datt einhverjum í hug að bora göng undir
fjörðinn. Það varð ofan á og hafist var handa við borun árið 1996.
Í nóvember 1996 var ég á ferð um landið. Fyrr um haustið hafði ég haldið austur
á Eskifjörð til afleysninga á nótaskipið Jón Kjartansson og var afleysningunni
lokið og kominn tími til heimferðar og nýrra starfa í Reykjavík. Suðurleiðin
til Reykjavíkur var lokuð vegna eldgoss í Vatnajökli og síðan flóða á
Skeiðarársandi nokkru áður og ekkert annað í stöðunni en að fara norður fyrir
land í hálkunni og þótt ég væri á fjórhjóladrifnum bíl var hann á sumardekkjum.
Ég lagði af stað frá Eskifirði um eftirmiðdaginn og ákvað að gefa mér allan
tíma í heiminum til ferðarinnar. Ferðin gekk vel þótt mér leiddist alveg
ömurlega þar sem ég var ein á ferð um Möðrudalsöræfin, hvergi bíll sjáanlegur
og ég var ein í heiminum í glampandi tunglskini, frosti og hálku. Í
Ljósavatnsskarðinu kom ég að flutningabíl frá Neskaupstað sem var á hliðinni,
en björgunarsveitarmenn unnu við að bjarga verðmætum úr honum yfir í annan bíl.
Þreytt kom ég til Akureyrar og borðaði heima hjá Jóhannesi vini mínum Pálssyni
sem nú er látinn fyrir nokkrum árum og eftir rúmlega klukkutíma hvíld hjá þeim
hjónum hélt ég áfram ferð minni.
Ég hélt áfram að aka eftir aðstæðum, óvön íslenskum fjallvegum og nýlega flutt
frá Svíþjóð. Aftur kom ég að flutningabíl á hliðinni og aftur naut ég þess að
íslenskir björgunarsveitarmenn voru hjálplegir bílstjóranum á flutningabílnum
og ég hélt áfram ferð minni án sérstakra tafa. Þreytan var farin að segja
verulega til sín og þegar komið var að Hreðavatnsskála stöðvaði ég bílinn þótt
um miðja nótt væri og fékk mér nokkurra mínútna göngu til að sofna ekki undir
stýri. Síðan hélt ég áfram ferð minni.
Þegar ég kom í Hvalfjörðinn sá ég handan fjarðarins hvar vinnuljósin sögðu að
eitthvað mikilfenglegt væri í gangi. Ég átti hinsvega enn langa ferð fyrir
Hvalfjörðinn og kom ekki að ljósunum fyrr en nærri klukkustund síðar, þá
örþreytt og enn ekki komin til Reykjavíkur. Það verður yndislegt þegar göngin
verða komin í gagnið og hægt verður að aka þessa leið án óþarfa tafa hugsaði ég
um leið og ég ók um Kjalarnesið og til Reykjavíkur þar sem ég komst loksins í
rúmið eftir fjórtán tíma ferð í snjó og hálku frá Austfjörðum.
Svo voru Hvalfjarðargöngin tekin í notkun einu og hálfu ári síðar, einhver best
heppnaða samgöngubót Íslandssögunnar. Ég borga glöð þessar fáu krónur sem það
kostar að spara mér Hvalfjörðinn og lengi verð ég minnug þessarar nætur þar sem
ég var að leka niður af þreytu og átti allan Hvalfjörðinn eftir. Síðan þá hefi
ég verið mikil áhugamanneskja jarðgangna á Íslandi.
föstudagur, apríl 27, 2012
27. apríl 2012 - Hvalfjarðargöngin
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:48
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli