þriðjudagur, október 30, 2007

30. október 2007 - Allt á ensku!

Þegar ég bjó í Svíþjóð og kom til Íslands og reyndi að finna eitthvað sem minnti á upprunann og móðurjörðina gat ég valið úr miklu úrvali ýmissa hluta í ferðamannaverslunum. Þar voru bolir, merki ýmiskonar og kort sem báru með sér að þau ættu uppruna á Íslandi. Vandamálið var bara eitt. Allt þetta drasl var merkt á ensku.

Það fannst ekkert á sænsku eða þýsku eða frönsku eða japönsku, þó ekki væri nema bara á gamla góða ylhýra. Það var bara til á ensku. Allt var þetta merkt Æslandi (skrifað Iceland), ekkert var merkt Island, eða Islande, eða Ijsland. Að sjálfsögðu var ekkert merkt með heitinu Ísland.

Ég átti erindi í ferðavöruverslun í Reykjavík í sumar ásamt sænsku vinafólki mínu. Það var sama sagan og fyrrum. Allt sem merkt var Íslandi var á ensku. Ekkert á íslensku. Nú er mestöll tónlistin sem sögð er íslensk flutt á ensku. Svo ætlast sumir til að útlendingar sem búa á Íslandi læri íslensku.

Til hvers? Hvar er hvatningin til þess að læra íslensku? Ekki er hún í ferðavöruverslunum. Svo mikið er víst. Ekki heldur í tónlistinni.

mánudagur, október 29, 2007

29. október 2007 - Hálkuvandræðin á Keflavíkurflugvelli

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt talað um vandræði vegna hálku á Keflavíkurflugvelli áður. Í gær voru tvær flugvélar látnar lenda á Egilsstöðum auk einnar sem rann til í hálkunni. Ég skal þó ekki fullyrða að þetta hafi ekki oft skeð áður þótt ég minnist þess ekki.

Ég fer að velta því fyrir mér hvort þetta séu afleiðingar af brottför hersins? Það er ljóst að verulega var dregið úr allri þjónustu suðurfrá með fækkun hermanna. Sum þjónustan mátti alveg missa sín, en spurningin er hvort snjóruðningsdeildin sem var rekin í nánu samstarfi við flugvallarslökkviliðið hafi orðið að líða fyrir niðurskurðinn sem varð við brottför hersins?

Spyr ein sem ekki veit.

-----oOo-----

Svo fá elsku hjartans systkinin mín hamingjuóskir með daginn. Algjörir ellismellir, eitthvað annað en ég.

sunnudagur, október 28, 2007

28. október 2007 - Gáfaðar kisur


Eins og allir vita sem vilja vita, þá á ég mjög gáfaðar kisur, samanber færsluna á undan og er Hrafnhildur ofurkisa systur sinni fremri í mörgu. Hún er ekki bara svört og því góð í íþróttum eins og einhver ónefndur fyrrum ráðherra á að hafa sagt um þeldökkt fólk, heldur er hún einnig góð í fleiru.

Hrafnhildur kvartar þó sáran yfir einhæfum bókakostinum því henni finnst of mikið af ættfræði og of lítið af skáldsögum á heimilinu. Hún er þó farin að sætta sig við bókakostinn og tekur gjarnan með sér eina og eina ættfræðibók í rúmið þegar hún fer að sofa á kvöldin.

Myndin sýnir þar sem Hrafnhildur ofurkisa er að velja sér bók til að lesa fyrir svefninn og virðist heilluð af Vaðbrekkungum. Eins og sjá má af myndinni, var ég ekki búin að taka til í hillunum áður en ég smellti af myndinni.

-----oOo-----

Svo fær Eyjólfur frændi minn og dyggur lesandi bloggsins hamingjuóskir með 74 ára afmælið.

fimmtudagur, október 25, 2007

26. október 2007 - Hrafnhildur ofurkisa


Það munaði litlu að ég kæmi of seint til vinnu á fimmtudagsmorguninn. Ekki var það vegna mikillar umferðar né heldur vegna þess að ég hefði sofið yfir mig. Skýringin var Hrafnhildur ofurkisa.

Þegar ég fer á morgunvakt, fylgir Hrafnhildur mér venjulega niður stigana og fer út í garð, en ég fer út um framdyrnar og rölti þennan spotta í vinnuna. Á fimmtudagsmorguninn fylgdi Hrafnhildur mér niður að venju, en harðneitaði að fara út í garð en vildi labba með mér að framdyrum blokkarinnar. Slagviðrið stóð beint á dyrnar og köttinn svo hún sneri sér snarlega við og inn aftur. Við röltum að bakdyrunum sem snúa út í garð og þar var sama veðrið. Hrafnhildur fór út á tröppur og sannfærðist um að veðrið væri einnig vont þeim megin, hætti við að fara út og ætlaði að hreiðra um sig undir stiganum í stigaganginum. Það er ekki vinsæll staður fyrir ungar kisur að mati tvífættra íbúa blokkarinnar. Því þurfti ég að narra hana undan stiganum og fara með hana upp aftur og inn í íbúðina áður en ég hélt til vinnu.

Ég var með bullandi samvisku á vaktinni, vitandi af Hrafnhildi ofurkisu innilokaðri heima ásamt Tárhildi litlu systur sinni. Mitt fyrsta verk er ég kom heim, var því að sleppa báðum kisunum út í garð.

Skjannahvítur fress úr efra Breiðholti að nafni Tómas er nýlega fluttur inn í íbúðina á jarðhæð. Algjör Breiðhyltingur. (Láttu mig þekkja það. Ég flutti í Árbæinn úr efra Breiðholti þaðan sem búið að banna allar kisur) Tómas þykir mjög árásargjarn og er duglegur við að hrella hana Hrafnhildi mína hvenær sem hann sér færi á slíku, en hún er algjör andstæða við hvíta fressið, fínleg, hógvær, svört eins og nóttin og vægir að hætti þess sem vitið hefur.

Áður en ég fór að hátta og skrifa þennan litla pistil fyrir svefninn fór ég út í garð í húsvarðarleik, þ.e. ég rölti út í garð og hristi Halifaxhrepps-lyklakippuna mína af ákafa, en það er merki til Hrafnhildar að nú eigi hún að koma inn að sofa. Það leið ekki á löngu uns hún kom mjálmandi að hlið mér til að fylgja mér heim. Áður en við komumst alla leið að útidyrunum stökk hvítt óhræsi út úr runna og beint á hana Hrafnhildi mína. Hún forðaði sér undan og hófst þessi líka eltingarleikur um allan garðinn uns hvíta ófétið kom til baka til mín blýsperrtur af ánægju yfir afrekum sínum að hafa hrakið Hrafnhildi á flótta. Hófst þá nýr eltingarleikur þar sem ég hljóp hvæsandi á eftir kettinum Tómasi rétt eins og Akab skipstjóri á eftir Moby Dick. Loksins slapp hann á bakvið grindverk og ég hélt heim og Hrafnhildur ofurkisa á eftir mér með rófuna beint upp í loftið.

Er það nema von að nágrannarnir haldi sitthvað misjafnt um mig?

miðvikudagur, október 24, 2007

25. október 2007 - Hver var hraðinn?


Góður vinur minn átti leið um Kringlumýrarbrautina á þriðjudagskvöldið og kom þar að því sem virtist vera mjög alvarlegt umferðarslys. Hann lýsti fyrir mér aðstæðum á slysstað í gegnum síma þannig að hann tryði því ekki að sá sem virtist vera bílstjórinn væri vappandi í kringum bílflakið.

Þar sem ég sat heima og var að hlusta á útvarpið hafði útsending verið rofin nokkru áður til að segja að Kringlumýrarbrautin væri lokuð vegna umferðarslyss. Þegar fréttin af slysinu náði Morgunblaðsvefnum setti ég stutta athugasemd inn á fréttabloggið þar sem ég gat mér þess til að um hugsanlegan kappakstur hefði verið að ræða þótt ég óskaði þess um leið að fólk slasaðist ekki alvarlega í þvílíku slysi. Svo fór ég að sofa.

Þegar ég vaknaði á miðvikudagsmorguninn mættu mér mjög neikvæðar athugasemdir á Moggabloggi, athugasemdir sem höfðu verið settar inn um nóttina, að dirfast að tala svona um fólk sem hugsanlega væri dáið eða stórslasað. Ég fékk nóg. Þótt ég hefði betri heimildir sem og fréttir í útvarpinu um miðnættið, viðurkenndi ég fyrir sjálfri mér að ég hefði brotið á mínum eigin siðareglum varðandi fréttablogg og þurrkaði út færsluna ásamt hinum mjög svo neikvæðu athugasemdum.

Það þarf svo ekkert að taka fram að grunsemdir mínar um vítaverðan ofsaakstur voru svo staðfestar í fréttum, bæði Morgunblaðsins sem og útvarpsins. Þær reyndust ekki bara staðfestar, heldur mun verri en ég hafði búist við eftir það sem ég hafði heyrt af slysinu. Eftir situr sært stolt vegna ljótra athugasemda sem ég varð fyrir á Moggabloggi.

Þótt ég sé löngu orðin háð Moggabloggi, er kominn tími til að hvíla sig og nota hvíldartímann í önnur og skemmtilegri ritstörf.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1298661


Þessi var pistillinn sem ég eyddi:


24. október 2007 – Hver var hraðinn?

Hver sá sem ekur norður Kringlumýrarbrautina verður að vanda sig sérstaklega mikið til að ná því að velta bílnum sínum yfir á akreinarnar sem liggja til suðurs. Á þessum stað eru þrjár akreinar í hvora átt og þarf býsna mikla lagni til að ná slíku. Í útvarpsfréttum er sagt frá því að bíllinn hafi lent á ljósastaur og kastast þaðan yfir á vitlausan hluta brautarinnar og oltið. Hvernig er það hægt? Hver var hraði bílsins?

Ég ætla ekki að halda því fram að bílstjórinn hafi verið í kappakstri þótt ýmsar grunsemdir fari um hugann. Ég óska þess bara að þeir tveir sem voru fluttir á slysadeild hafi ekki slasast alvarlega og hugsa til allra þeirra sem eiga um sárt að binda eftir umferðarslys,
hvort heldur er af eigin völdum eða annarra.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1298615

þriðjudagur, október 23, 2007

24. október 2007 - Eins og í gamla daga!

Ég átti leið um Snæfellsnesið fyrir skömmu ásamt hópi fólks. Þar sem ég sat í rútunni og við áttum leið framhjá afleggjaranum að Eiði, dáðist ég að brúsapallinum og í gegnum huga mér runnu minningar frá þeim tíma er brúsapallur var við hvern bæ. Ekki varð minningin samt svo sterk að ég gæti rifjað upp þá tíma er heimasætan beið við brúsapallinn eftir honum Bjössa sínum, enda komu kæligeymslur og tankbílar til sögunnar um svipað leyti og ég komst til fullorðinsára.

Í heimsku minni gerði ég mér enga grein fyrir því að brúsapallurinn væri einungis til skrauts, svo eðlilegur var hann og í sínu náttúrulega umhverfi, við afleggjarann að bænum Eiði.

Ég vona svo sannarlega að þjófurinn eða þjófarnir hafi vit á því að skila mjólkurbrúsanum aftur þangað sem hann á heima.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1298556

mánudagur, október 22, 2007

22. október 2007 - Ný Biblíuþýðing


Í fréttum sjónvarpsins á sunnudagskvöldið sá Gunnar Þorsteinsson safnaðarhirðir Krossins ástæðu til að gagnrýna harðlega nýja Biblíuþýðingu sem nú hefur komið fyrir augu fólks í prentuðu formi. Þessi mótmæli Gunnars virðast benda til að nýja Biblíuþýðingin sé góð þýðing og vel heppnuð og ástæða til að nálgast eintak af nýju útgáfunni.

Hin harkalegu viðbrögð gegn nýju Biblíuþýðingunni koma mér annars nokkuð á óvart. Þeim sem harðast mótmæla hefur löngum verið tíðrætt um nýyrðið “kynvillinga” og finnst það eðlilegt, en orðskrýpið kynvillingur kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1922 ef ég man rétt og er í dag einvörðungu notað af þeim sem vilja rægja og niðurlægja samkynhneigt fólk. Um þá sem ástunda rógburð af þessu tagi vil ég segja:

Drottinn, fyrirgef þeim því þeir vita eigi hvað þeir gjöra.

laugardagur, október 20, 2007

20. október 2007 - Baráttan í Dublin


Írland er eitt hið afturhaldssamasta land Evrópu þegar kemur að réttindum transgender fólks. Það er eitt þriggja landa Evrópu þar sem aðgerðir til leiðréttingar á kyni hafa verið bannaðar fram að þessu. Hin tvö eru Albanía og Andorra.

Á föstudagskvöldið fékk ég ánægjulegt bréf frá Philippu, írskri transgender vinkonu minni (sjá mynd) þar sem hún segir glænýjar fréttir frá Dublin.

Dr. Lydia Foy fór í gegnum aðgerð til leiðréttingar á kyni árið 1992. Henni var hinsvegar neitað um breytingu á persónuskrám sínum hjá hinu opinbera þar sem hún var áfram skráð sem karl. Hún fór í mál við írska ríkið og tapaði. Hún hélt áfram baráttu sinni og nú hefur verið dæmt í máli hennar fyrir æðri dómstólum sem segja írsk lög brjóta í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Þetta þýðir að írsk yfirvöld verða að breyta lögunum til hagsbóta fyrir transgender einstaklinga.

Nú bíðum við þess að írsk yfirvöld aflétti fáránlegu banni sínu gegn aðgerðum til leiðréttingar á kyni svo frænkur okkar og frændur þurfi ekki lengur að fara til Austur-Asíu til að fá aðgerðina framkvæmda.

fimmtudagur, október 18, 2007

18. október 2007 - Vestmannaey VE-54


Það var haustið 1974 sem mér var boðið að fara um borð í Vestmannaey. Skipið hafði komið nýtt til landsins frá Japan einu og hálfu ári áður, en nú átti að flytja útgerðina aftur til Eyja eftir gosið og einhverjir áhafnarmeðlimir ákváðu að fara ekki til Eyja með skipinu og þar losnaði pláss sem ég greip fegins hendi.

Ég var samtals um borð á fimmta ár, en hætti haustið 1980. Þarna öðlaðist ég þá starfsreynslu sem ég hefi búið að allar götur síðan. Nú hefur skipið verið selt til Argentínu og einungis minningin skilin eftir á Íslandi.

Megi gæfan fylgja þessu ágæta skipi áfram sem hingað til.

Sjá myndir:

http://public.fotki.com/annakk/ferir-og-vinna/vestmannaey-ve-54-/
http://public.fotki.com/annakk/ferir-og-vinna/skipamyndir/

18. október 2007 - Eiður Smári Gudjohnsen


Eiður Smári Gudjohnsen er snilldargóður knattspyrnumaður. Hann er svo frábær að hann er fetinu framar en sérhver hinna í landsliðinu hvað getu snertir. Þess vegna er hann fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Knattspyrna er hópíþrótt. Þar spila ellefu leikmenn í hvoru liði og með samhentu átaki tekst þeim að vinna leiki eða tapa ef þeir standa sig ekki nógu vel í leiknum. Þessu er ekki svona farið með íslenska landsliðið. Þar er einn leikmaður og tíu aðstoðarmenn. Þessir tíu berjast fyrir því að halda markinu sínu hreinu og ef þeir ná boltanum sparka þeir honum til leikmannsins eina sem einn á að sjá um að koma boltanum í net andstæðinganna. Þessi eini leikmaður heitir Eiður Smári Guðjohnsen.

Fyrir nokkru síðan var Eiður Smári Gudjohnsen frá keppni vegna meiðsla og þá gerði íslenska landsliðið eitt jafntefli og sigraði andstæðingana í öðrum leik. Því mætti ætla að Eiður Smári Gudjohnsen ætti sök á hrakförum íslenska landsliðsins í knattspyrnu.
Við vitum að það er rangt. Eiður Smári Gudjohnsen er bestur. Hann er einfaldlega of góður fyrir íslenska landsliðið.

Það er óþarfi að sparka Eyjólfi Sverrissyni landsliðsþjálfara. Það þarf bara að setja Eið Smára Gudjohnsen á bekkinn svo restin af liðinu hætti að spila aðstoðarmenn og gerist leikmenn íslenska landsliðsins í knattspyrnu

miðvikudagur, október 17, 2007

17. október 2007 - Henning Mankell


Það var daginn sem fréttir bárust til Íslands af því að Anna Lindh hefði látist af völdum árásar í NK við Hamngatan í Stokkhólmi.

Ég hafði verið að keyra vinkonu mína sem hefur lengi búið í Svíþjóð en bjó núna í Reykjavík og henni fannst ekki koma til greina annað en að koma við hjá sænska sendiherranum og rita nafn sitt í minningarbók Önnu Lindh sem þar lá frammi. Ekkert mál og við renndum heim til sendiherrans.

Inn komumst við og rituðum nöfn okkar eins og ætlunin hafði verið og ræddum nokkra stund við sendiherrann. Þá rekur vinkona mín augun í mann einn sem sat í stól inni í setustofu og tók hann tali, reyndar af svo miklum ákafa að mér hætti að standa á sama.

Það var ekki fyrr en við komum út aftur sem hún sagði mér að þarna hefði hún hitt uppáhaldsrithöfundinn sinn í fyrsta sinn, sjálfan Henning Mankell og það á Íslandi. Sjálf varð ég að viðurkenna heimsku mína því ég hafði aldrei lesið neitt eftir hann þótt vissulega hefði skemmtileg og alúðleg framkoma hans kveikt áhuga minn fyrir ritum hans.

Og enn kemur Henning Mankell skemmtilega á óvart.

http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1297279

þriðjudagur, október 16, 2007

16. október 2007 - Einkennilegt myndaval


Þegar frétt Morgunblaðsins um árekstur tveggja flugvéla á Heathrow flugvelli er lesin kemur fram að önnur vélin er frá British Airways en hin frá Sri Lankan Airlines. Samt er birt mynd með fréttinni af flugvélum frá EasyJet sem koma fréttinni ekkert við og nota ekki einu sinni Heathrow flugvöll.

EasyJet notar lággjaldaflugvelli á borð við Stansted, Luton og Gatwick og má ætla að myndin sé frá einhverjum þeirra. Því er þetta myndaval ákaflega óheppilegt því ætla má að verið sé að kasta rýrð á EasyJet með þessu myndefni þótt ég viti betur.

Hér er örlítið betri mynd sem þó kemur þessum minnháttar árekstri ekkert við. Hún er þó tekin á Heathrow flugvelli og er af samskonar vél og annarri þeirra sem lentu í árekstrinum:




http://www.mbl.is/mm/frettir/erlent/frett.html?nid=1297124

mánudagur, október 15, 2007

15. október 2007 - Bílastæði

Bíllinn minn var geymdur á bílastæði vinnunnar alla helgina. Það kom ekki til að góðu því ég hafði skotist með hann í örlitla lagfæringu og gaf mér ekki tíma til að fara með hann heim. Fyrir bragðið var bílastæðið heima ónotað allan tímann.

Ég hefi það að reglu að ganga ávallt í vinnuna þótt ég hafi gert undantekningu síðustu dagana. Ég er ekki nema fáeinar mínútur að ganga á milli og get því með góðu móti skilið eftir autt bílastæði fyrir einhvern þeirra 4-500 aðila sem vinna í húsinu. Þar er ekki einungis um að ræða starfsfólk OR, heldur og starfsfólk ÍTR, Lauga og Byrs og hugsanlega fleiri fyrirtækja og stofnana auk viðskiptavina og fyrir bragðið er sífelldur skortur á bílastæðum þótt lagt hafi verið í mikinn kostnað við að fjölga þeim.

Af hverju ekki að snúa dæminu við, hætta að kasta peningum í fleiri bílastæði, en greiða starfsfólkinu launauppbót fyrir að ferðast til vinnu fótgangandi, á reiðhjólum eða með strætisvögnum. Ég get alveg þegið nokkrar krónur í kaupauka fyrir að koma labbandi í vinnuna. Ekki veitir af svo ég geti borgað hlutabréfin mín í Reykjavík Energy Invest.

-----oOo-----


Ég sé að kominn er nýr ofurbloggari til sögunnar. Sjálfur Jóhann Páll Símonarson sjómaður er byrjaður að blogga og vil ég bjóða hann velkominn. Við vorum saman til sjós á þremur skipum, síðast fyrir tveimur áratugum á Álafossi.

Við Jói verðum seint sammála og allra síst í pólitík. Engu að síður hefur hann löngum verið vinur vina sinna og heiðarlegur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur þótt hann hafi ekki alltaf farið hefðbundnar leiðir að markmiðum sínum.

Bloggið hans er: http://jp.blog.is/

sunnudagur, október 14, 2007

14. október 2007 - II - Það hafa engir ...



...rekið hitaveitur lengur en við, segir Ingvar Birgir Friðleifsson skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna í viðtali við Ríkisútvarpið í hádegisfréttum í dag.

Þessi flökkusaga um að Íslendingar hafi verið fyrstir til að nýta jarðhitann til hitaveitu er röng. Fyrsta nútímahitaveitan varð til í Boise í Idaho í Bandaríkjunum árið 1892. Þá og í nærri fjörtíu ár eftir það rann heita vatnið óbeislað til sjávar í Reykjavík ef frá er talið að heita vatnið var að einhverju leyti notað til þvotta og til að hita gömlu sundlaugarnar í Reykjavík. Það var svo snemma á tuttugustu öld sem einstöku bændur hófu að hita hús sín með heitu laugavatni en Austurbæjarskóli og Landsspítalinn fengu sína hitaveitu haustið 1930 þegar heitt vatn var leitt frá dælustöðinni við Þvottalaugarnar og til Reykjavíkurbæjar.

Það er svo aftur allt önnur saga að Íslendingar hafa verið þjóða duglegastir við að nýta sér jarðhitann til húsahitunar og rafmagnsframleiðslu.

http://www.idwr.state.id.us/energy/alternative_fuels/geothermal/detailed_district.htm

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item173397/

14. október 2007 - Beðið um slagsmál!

Þarna er verið að biðja um slagsmál sagði ég við vinnufélaga minn í gær þar sem hann var að horfa á útsendingu frá upphafi landsleikjar í knattspyrnu og sýnt var hvar lettneskur fáni stóð uppúr mannhafi fólks þrælmerktu í íslenska fánalitunum. Það var eðlilegt að ég segði þetta. Það hafa brotist út alvarleg hópslagsmál á knattspyrnuleikjum þar sem einfaldar griðingar skilja að áhangendur hinna ólíku liða, jafnvel svo alvarleg að tugir áhorfenda hafa farist í slagsmálunum.

Forráðamenn Laugardalsvallar og Knattspyrnusamband Íslands mega þakka fyrir að ekki fór verr.

Annars þykir mér það merkilegt hve ljósatyppi Yoko Ono í anda friðar hefur hleypt illu blóði í suma sbr. klögumál Heimdellinganna á hendur fráfarandi borgarstjóra og fall fyrrum meirihluta í framhaldinu og nú tilraun til hópslagsmála á Laugardalsvelli. Hvað næst?

http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1296835

föstudagur, október 12, 2007

13. október 2007 - Enid Blyton


Ég var að fylgjast með spurningaþættinum hvar kaupstaðirnir keppa í sjónvarpinu á föstudagskvöldum þegar fram kom spurning um nafnið á hundinum Tomma í Fimm-bókunum. Einhver sagðist bara muna eftir Georg sem hét í reynd Georgína en vildi alltaf vera strákur.

Þetta var auðvitað algjör fjarstæða þegar ég var að alast upp, því hvernig datt nokkurri heilvita stelpu til hugar að vilja vera strákur. Slíkt var eins fjarri mér og hugsast gat, að stelpa sem var svo heppin að vera fædd sem stelpa vildi vera strákur. En svo þroskaðist ég og komst svo smám saman að því að það var fleira undir sólinni en ég ein og mínar tilfinningar, jafnvel fólk með andstæðar tilfinningar sem þó átti mikið sameiginlegt með mér í baráttunni fyrir betra lífi.

Einhverju sinni þegar ég bjó í Svíþjóð, rakst ég á afar fróðlega grein um Enid Blyton í Dagens nyheter, en þar var því haldið fram fullum fetum, að Enid Blyton hefði í reynd verið að skrifa um sjálfa sig er hún lýsti Georg/Georgínu svona skemmtilega, að Enid Blyton sjálf hafi iðulega klætt sig sem strák er hún var að alast upp á fyrsta og öðrum áratug tuttugustu aldar, hafi gengið um snöggklippt og kynnt sig sem Richard.


Þegar Enid komst á fullorðinsár hafi hún verið skikkuð til að hegða sér sem konu sæmdi enda transgender verið óþekkt á þeim árum. Því fór sem fór að hún gerðist kennari og giftist og eignaðist tvær dætur. Í greininni sem ég las var það staðhæft eftir annarri dóttur Enid Blyton að hún hefði ávallt verið tilfinningaköld og barnauppeldi hafi ekki verið hennar sterka hlið.

Ef satt er, má fullyrða að andi Enid Blyton lifi enn með okkur í anda sögupersónunnar George/Georgínu í Fimm-bókunum. Þar sem ekkert er minnst á þennan þátt í fari Enid Blyton á Wikipedia, væri fróðlegt að vita hvort fleira fólk kannist við þennan hluta í ævi skáldkonunnar ensku sem heillaði íslensk börn um þriggja áratuga skeið frá og með sjötta áratugnum til áttunda áratugar síðustu aldar og kannski enn lengur.

fimmtudagur, október 11, 2007

11. október 2007 - II - Hver felldi hvern?


Þá er meirihluti Sjálfstæðisflokksins fallinn og Bingi kominn heim. Ég fagna nýjum borgarstjóra sem ég hefi einungis kynnst af góðu einu, en um leið horfi ég á eftir gamla góða Villa með söknuði. Hann hafði staðið sig ágætlega að mörgu leyti uns hann var tekinn og hirtaður af sínum eigin flokkssystkinum. Þá tel ég nauðsynlegt að hrist sé upp í valdastöðunum reglulega til að koma í veg fyrir spillingu og einhverjar af áherslum Sjálfstæðisflokksins voru þannig að ég gat auðveldlega samþykkt þær þótt ég væri ekki á línu Sjálfstæðisflokksins að öðru leyti.

Um leið er ég fylgjandi þeim samruna útrásarfyrirtækja sem Vilhjálmur studdi í upphafi en snérist öndverður gegn eftir hirtingu Gísla og félaga sem hálfpartinn lítillækkuðu hann með kröfum sínum um að Orkuveitan seldi hluta sinn í Reykjavík Energy Invest. Það má segja að með þessu hafi Sjálfstæðismenn sjálfir stuðlað að falli borgastjórnarmeirihlutans í Reykjavík og sýnt þar með sitt rétta andlit.

Ég ætla að bíða með stórar yfirlýsingar um nýja borgarstjórnarmeirihlutann þar til ég sé málefnasamninginn, en vil samt óska nýja borgarstjórnarmeirihlutanum til hamingju með samstarfið og þá sérstaklega nýja borgarstjóranum Degi B. Eggertssyni

11. október 2007 - Biluð stefnuljós?

Ég þurfti að skreppa vestur fyrir Elliðaár í gær og lét mig dreyma um allar milljónirnar sem ég fengi kannski ef allt gengi upp og ég græddi jafnmikið og sumir ímynda sér að væntanleg bréf mín í REI muni hækka á næstunni. Renndi þá þessi líka glæsibifreið framúr mér hægra megin (mín mistök að vera ekki lengst til hægri til að tefja fyrir aðreininni frá hægri).

Þetta var nýlegur og flottur Bimmi með númerinu MP-9xx sem skellti sér framfyrir mig og síðan yfir á akreinina lengst til vinstri, fór síðan aftur yfir á mína akrein svo mér mætti öðlast enn frekari sýn á dýrðina. Hann fór framfyrir hægfara bíl á vinstri akrein og fór svo aftur yfir á vinstri akrein en virðist svo hafa skipt um skoðun því hann fór skyndilega af vinstri akrein og yfir allar fjórar akreinarnar og inn á beygjuakreinina að Skeiðarvogi og hvarf sjónum mínum.

Þetta var vissulega glæsileg sýning á Bimmanum, en þó þótti mér eitt dálítið skrýtið. Stefnuljósin á þessu glæsilega farartæki voru biluð, allavega sáust aldrei nein stefnuljós.

Af hverju láta sumir eigendur dýrra bíla eins Benz og BMW aldrei gera við stefnuljósin á bílunum sínum þegar þau bila?

miðvikudagur, október 10, 2007

10. október 2007 - Blessaður sé skatturinn!

Ég fékk bréf frá Tollstjóranum í Reykjavík í gær og þar sem um gluggaumslag var að ræða þóttist ég vita að nú ætti að rukka mig fyrir aukastöðugjald eða þá fyrir að hafa ekið á 60 í gegnum Hvalfjarðargöngin. Titrandi höndum reif ég upp umslagið og við mér blasti greiðsla upp á 26 þúsund krónur. Hvaða fjandans gjald gátu þeir nú fundið upp á til að láta mig greiða, bláfátæka vélstýruna?

Ég fór að skoða tilkynninguna betur, áttaði mig ekkert á ruglingslegum textanum öðru en því að um væri að ræða þing og sveitasjóðsgjöld, en neðst kom fram að útborgaðar væru 13.482 krónur og hefði það verið sent bankanum. Nú, þarf ég þá ekkert að borga? Ég kíkti inn á heimabankann minn og það stóðst að 13.482 krónur höfðu verið lagðar inn á reikninginn minn.

Ja, það má nú segja að blessaður skatturinn er ávallt góður við okkur smælingjana. :)

-----oOo-----

Um daginn var ástæða fyrir Flugmálastjórn að kvarta yfir ljósabúnaði vinstrigræna ökutækisins míns. Það var von því framljósin lýstu meira í átt til himins en á götuna. Þó verður fyrst ástæða til að kvarta núna þegar ljósatyppi Yoko Ono er farið að skera ský himinsins svo að jafnvel færustu flugkappar blindast af ljósum jarðar, rétt eins og flugkappar seinni heimsstyrjaldar sem fengu kastljósin beint í augun um leið og loftvarnarbyssurnar byrjuðu að gelta.

-----oOo-----

Evrópuráðið sem og Evrópusambandið hafa lýst 10. október sem alþjóðlegan dag gegn dauðarefsingum. Þótt ég hefi ekki kynnt mér nákvæmlega hvað ég get gert í tilefni dagsins til að koma í veg fyrir að fólk verði tekið af lífi, langar mig samt til að minna á ársgamla fréttatilkynningu sem gefin var út af hálfu Evrópusambandsins í tilefni dagsins:

http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/06/1346&f

þriðjudagur, október 09, 2007

9. október 2007 - Já er svarið!

Þessa dagana hljómar rödd í auglýsingatímum í útvarpi þar sem kona segist vera frá Önundarfirði og spyr svo hvort þessi Önundur sé lifandi?

Í lok auglýsingarinnar fáum við niðurstöðuna því þá er sagt: Já er svarið.

Þá vitum við hversu mikið er að marka svörin hjá svarþjónustu símaskrárinnar.

-----oOo-----

Það verður kveikt á ljósatyppi Yoko Ono í Viðey í kvöld og að sjálfsögðu verður það í boði Orkuveitu Reykjavíkur þar sem peningar finnast til slíkra hluta þótt meirihluti borgarstjórnar vilji ekki beina aurunum til verkefna sem bæta umhverfismál úti í heimi.

mánudagur, október 08, 2007

8. október 2007 - II - Salerni!


Það voru fjögur eða fimm salerni um borð í fyrsta skipinu sem ég starfaði á til sjós sumarið 1966. Eitt var sérstaklega ætlað skipstjóranum en þau sem eftir voru, voru notuð af hinni þrjátíu manna áhöfn skipsins. Þegar nýsköpunartogararnir komu til landsins í lok fimmta áratugar tuttugustu aldar þótti þessi aðbúnaður hreinn lúxus frá því sem verið hafði fyrir stríð.

Á minni bátum voru engin salerni, einungis vatnsfata ef fólk þurfti að ganga örna sinna. Á einum bát sem ég var á hafði verið útbúið salerni þegar skipt var um stýrishús. Það þýddi að ef gera þurfti ítrustu þarfirnar var bara að biðja skipstjórann að koma sér út á dekk á meðan stýrishúsinu var breytt í gasklefa.

Síðasta skipið sem ég starfaði á um lengri tíma hafði fjórum baðherbergjum fleira en nam áhöfnarfjöldanum. Auk baðherbergis með hverju herbergi voru baðherbergi inn af brú, sjúkraklefa og vélarúmi auk eins sem tilheyrði saunabaðstofu.

Þessi færsla er ekki einungis rituð í tilefni af frétt um baðherbergisfjölda í íbúð Maríu Carey, heldur flöktir hugurinn og að meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur sem vill hindra aðgang Reykjavíkurborgar og almennings að eignarhaldi á útrásarfyrirtækinu Reykjavík Energy Invest.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1295721

http://www.mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1295729

8. október 2007 - Haust

Það er komið eitthvað haust í mig. Ekki svona haust lífsins, heldur raunverulegt haust þar sem kvöldin eru dimm og köld, laufin að miklu leyti fallin af trjánum og enginn snjór og nóttin er svört.

Ég finn að ég þarf að sofa miklu meir en á öðrum árstímum. Ef ég fer á fætur á hádegi eftir að hafa verið á næturvakt, finn ég fyrir þreytu allan eftirmiðdaginn og geri fátt af viti annað en að slæpast yfir engu. Ég nenni ekki einu sinni að blogga.

Um leið vaknar gamla tilhlökkunin aftur til lífsins, tilhlökkunin sem legið hefur í dvala síðan í janúar. Það eru jólin. Það eru ekki nema rúmlega tveir og hálfur mánuður til jóla og síðan koma áramót og tími nýrra fyrirheita.

Svo fer að birta á ný.

sunnudagur, október 07, 2007

7. október 2007 - Ég er að velta einu fyrir mér.

Um daginn birtust nöfn nokkurra aðila sem áttu að fá sérstök fyrirheit um hlutabréfakaup í fyrirtækinu Reykjavík Energy Invest. Nú hafa þessi kostakjör verið afturkölluð.

Það er langt um liðið síðan ég var að streytast við að lesa um réttarfar og samningalög. Því spyr ég. Ef þessir nafngreindu aðilar hafa fengið þessi hlutabréf á góðu verði sem launauppbót, þarf þá ekki að greiða þeim skaðabætur sem þessu nemur? Ég hefði haldið það. Ef satt er virðist það lítils virði að draga tilboðið til baka eftir að því hefur verið tekið, nema að skaðabætur verði greiddar.

Um leið má spyrja sig þess hvort það hafi ekki verið Svandís Svavarsdóttir sem olli skaðanum með upphlaupi sínu svo undir tók meðal stórs hluta þjóðarinnar? Sjálf sá ég ekkert rangt við þessa ákvörðun eða sameiningu REI og GGE þótt vissulega hefði mátt standa betur að boðun fundarins þar sem sameiningin var ákveðin jafnfram því sem að velja hefði mátt aðeins hljómfegurra nafn á nýja fyrirtækið.

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frett.html?nid=1295444

föstudagur, október 05, 2007

5. október 2007 - Of hægur akstur?

Á föstudagsmorguninn fór ég í ferð með langferðabifreið. Bílstjórinn er ákaflega varkár maður og sérstaklega valinn þegar þarf að flytja mjög viðkvæman farm eins og mig og hópinn góða sem fór í ferðina, fer aldrei yfir löglegan hámarkshraða og gætir þess að stoppa reglulega fyrir pissupásur, hleypir þeim sem vilja fara hraðar framúr sér og er fyrirmyndarökumaður í hvívetna.

Þegar erindum hópsins var lokið um eftirmiðdaginn og haldið áleiðis til Reykjavíkur var mikil umferð á Vesturlandsveginum. Þegar lokið var pissupásu í Borgarnesi lentum við aftan við jeppling með númerið EK-xxx sem fór nokkuð hægar en okkar bílstjóra þótti eðlilegt og héngum við aftan við drusluna þar til tekin var pissupása á Kjalarnesi. Var þá komin löng röð bíla fyrir aftan okkur sem komust ekki framúr vegna mikillar umferðar úr borginni.

Er ekki kominn tími til að lögreglan bendi sumum á að taka strætó í bæinn?

-----oOo-----

Plokkfiskurinn í Narfeyrarstofu sem er í fæðingarbæ föður míns rann ljúflega niður

fimmtudagur, október 04, 2007

4. október 2007 - Stærð skiptir máli!!!!

Þessi orð blöstu við yfir þvera forsíðu Morgunblaðsins í dag og sjá mátti að sumir karlar sem ég mætti á leið minni til vinnu voru öllu brosmildari en aðra daga, brostu alveg á milli eyrnasneplanna eftir þessa gleðifregn Morgunblaðsins á meðan aðrir voru öllu hnípnari. Brosið var þó fljótt að fara af þeim þegar fréttin var skoðuð nánar og í ljós kom að átt var við Hannes Smárason og Bjarna Ármannsson og sameiningu tveggja fyrirtækja með útlenskum nöfnum sem ég kann ekki að nefna.

Þegar málin voru svo skoðuð nánar reyndust margir smáfiskanna í tjörninni ekki hafa neitt undir sér. Þegar haft er í huga að ég er í hópi smásílanna í hópnum er best að þegja.

miðvikudagur, október 03, 2007

3. október 2007 - Senda KR-liðið til sálfræðings!!!

Í eina tíð var hægt að kenna þjálfaranum um ófarirnar og vitað að hluti af vandamálum KR á 31 árs eyðimerkurgöngunni var því að kenna að höfuðáherslan var lögð á varnarleikinn.

Nú er ljóst að eitthvað mikið er að liðinu þó ekki endilega varnarleiknum eins og á árum áður. Ekki er endalaust hægt að kenna þjálfaranum um eða markmanninum og ljóst að einstöku liðsmenn eru ákaflega góðir. Það er því eitthvað að liðsheildinni.

Er ekki bara kominn tími til að ráða sálfræðing til að hrista upp í liðinu?

http://www.mbl.is/mm/sport/frett.html?nid=1294726

þriðjudagur, október 02, 2007

2. október 2007 - Jarðarför


Ég fór í jarðarför í dag hjá Árna Eyjólfssyni sem drukknaði í Soginu á dögunum. Ég held að þetta hafi verið í fyrsta sinn á þessu ári sem ég fer í jarðarför sem er minna en hefur verið undanfarin ár.

Dómkirkjan var full af fólki. Athöfnin var að mörgu leyti hefðbundin jarðarför og þó. Tvennu hafði verið breytt sem boðar (vonandi) breyttar venjur við útfarir á Íslandi. Myndin á kynningarblaðinu var af gleðistund hjá hinum látna, Árna með nýveiddan lax í stað hefðbundinnar andlitsmyndar. Hitt atriðið var að ekki var leikinn hefðbundinn sorgarmars þegar kistan var borin úr kirkju, heldur var Stairway to Heaven leikið við útgönguna.

Sjálf er ég mjög sátt við slíka breytingu. Með slíkri breytingu verður athöfnin mun léttari en áður var og gefur kannski fremur til kynna að jarðarförin er ekki bara kveðja að eilífu heldur og nýtt upphaf fyrir hinn látna.

Ég vil votta Þórunni og börnum ásamt öðrum ættingjum og vinum mínar samúðarkveðjur.