miðvikudagur, október 24, 2007

25. október 2007 - Hver var hraðinn?


Góður vinur minn átti leið um Kringlumýrarbrautina á þriðjudagskvöldið og kom þar að því sem virtist vera mjög alvarlegt umferðarslys. Hann lýsti fyrir mér aðstæðum á slysstað í gegnum síma þannig að hann tryði því ekki að sá sem virtist vera bílstjórinn væri vappandi í kringum bílflakið.

Þar sem ég sat heima og var að hlusta á útvarpið hafði útsending verið rofin nokkru áður til að segja að Kringlumýrarbrautin væri lokuð vegna umferðarslyss. Þegar fréttin af slysinu náði Morgunblaðsvefnum setti ég stutta athugasemd inn á fréttabloggið þar sem ég gat mér þess til að um hugsanlegan kappakstur hefði verið að ræða þótt ég óskaði þess um leið að fólk slasaðist ekki alvarlega í þvílíku slysi. Svo fór ég að sofa.

Þegar ég vaknaði á miðvikudagsmorguninn mættu mér mjög neikvæðar athugasemdir á Moggabloggi, athugasemdir sem höfðu verið settar inn um nóttina, að dirfast að tala svona um fólk sem hugsanlega væri dáið eða stórslasað. Ég fékk nóg. Þótt ég hefði betri heimildir sem og fréttir í útvarpinu um miðnættið, viðurkenndi ég fyrir sjálfri mér að ég hefði brotið á mínum eigin siðareglum varðandi fréttablogg og þurrkaði út færsluna ásamt hinum mjög svo neikvæðu athugasemdum.

Það þarf svo ekkert að taka fram að grunsemdir mínar um vítaverðan ofsaakstur voru svo staðfestar í fréttum, bæði Morgunblaðsins sem og útvarpsins. Þær reyndust ekki bara staðfestar, heldur mun verri en ég hafði búist við eftir það sem ég hafði heyrt af slysinu. Eftir situr sært stolt vegna ljótra athugasemda sem ég varð fyrir á Moggabloggi.

Þótt ég sé löngu orðin háð Moggabloggi, er kominn tími til að hvíla sig og nota hvíldartímann í önnur og skemmtilegri ritstörf.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1298661


Þessi var pistillinn sem ég eyddi:


24. október 2007 – Hver var hraðinn?

Hver sá sem ekur norður Kringlumýrarbrautina verður að vanda sig sérstaklega mikið til að ná því að velta bílnum sínum yfir á akreinarnar sem liggja til suðurs. Á þessum stað eru þrjár akreinar í hvora átt og þarf býsna mikla lagni til að ná slíku. Í útvarpsfréttum er sagt frá því að bíllinn hafi lent á ljósastaur og kastast þaðan yfir á vitlausan hluta brautarinnar og oltið. Hvernig er það hægt? Hver var hraði bílsins?

Ég ætla ekki að halda því fram að bílstjórinn hafi verið í kappakstri þótt ýmsar grunsemdir fari um hugann. Ég óska þess bara að þeir tveir sem voru fluttir á slysadeild hafi ekki slasast alvarlega og hugsa til allra þeirra sem eiga um sárt að binda eftir umferðarslys,
hvort heldur er af eigin völdum eða annarra.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1298615


0 ummæli:







Skrifa ummæli