Ég fékk bréf frá Tollstjóranum í Reykjavík í gær og þar sem um gluggaumslag var að ræða þóttist ég vita að nú ætti að rukka mig fyrir aukastöðugjald eða þá fyrir að hafa ekið á 60 í gegnum Hvalfjarðargöngin. Titrandi höndum reif ég upp umslagið og við mér blasti greiðsla upp á 26 þúsund krónur. Hvaða fjandans gjald gátu þeir nú fundið upp á til að láta mig greiða, bláfátæka vélstýruna?
Ég fór að skoða tilkynninguna betur, áttaði mig ekkert á ruglingslegum textanum öðru en því að um væri að ræða þing og sveitasjóðsgjöld, en neðst kom fram að útborgaðar væru 13.482 krónur og hefði það verið sent bankanum. Nú, þarf ég þá ekkert að borga? Ég kíkti inn á heimabankann minn og það stóðst að 13.482 krónur höfðu verið lagðar inn á reikninginn minn.
Ja, það má nú segja að blessaður skatturinn er ávallt góður við okkur smælingjana. :)
-----oOo-----
Um daginn var ástæða fyrir Flugmálastjórn að kvarta yfir ljósabúnaði vinstrigræna ökutækisins míns. Það var von því framljósin lýstu meira í átt til himins en á götuna. Þó verður fyrst ástæða til að kvarta núna þegar ljósatyppi Yoko Ono er farið að skera ský himinsins svo að jafnvel færustu flugkappar blindast af ljósum jarðar, rétt eins og flugkappar seinni heimsstyrjaldar sem fengu kastljósin beint í augun um leið og loftvarnarbyssurnar byrjuðu að gelta.
-----oOo-----
Evrópuráðið sem og Evrópusambandið hafa lýst 10. október sem alþjóðlegan dag gegn dauðarefsingum. Þótt ég hefi ekki kynnt mér nákvæmlega hvað ég get gert í tilefni dagsins til að koma í veg fyrir að fólk verði tekið af lífi, langar mig samt til að minna á ársgamla fréttatilkynningu sem gefin var út af hálfu Evrópusambandsins í tilefni dagsins:
http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=IP/06/1346&f
miðvikudagur, október 10, 2007
10. október 2007 - Blessaður sé skatturinn!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:54
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli