Bíllinn minn var geymdur á bílastæði vinnunnar alla helgina. Það kom ekki til að góðu því ég hafði skotist með hann í örlitla lagfæringu og gaf mér ekki tíma til að fara með hann heim. Fyrir bragðið var bílastæðið heima ónotað allan tímann.
Ég hefi það að reglu að ganga ávallt í vinnuna þótt ég hafi gert undantekningu síðustu dagana. Ég er ekki nema fáeinar mínútur að ganga á milli og get því með góðu móti skilið eftir autt bílastæði fyrir einhvern þeirra 4-500 aðila sem vinna í húsinu. Þar er ekki einungis um að ræða starfsfólk OR, heldur og starfsfólk ÍTR, Lauga og Byrs og hugsanlega fleiri fyrirtækja og stofnana auk viðskiptavina og fyrir bragðið er sífelldur skortur á bílastæðum þótt lagt hafi verið í mikinn kostnað við að fjölga þeim.
Af hverju ekki að snúa dæminu við, hætta að kasta peningum í fleiri bílastæði, en greiða starfsfólkinu launauppbót fyrir að ferðast til vinnu fótgangandi, á reiðhjólum eða með strætisvögnum. Ég get alveg þegið nokkrar krónur í kaupauka fyrir að koma labbandi í vinnuna. Ekki veitir af svo ég geti borgað hlutabréfin mín í Reykjavík Energy Invest.
-----oOo-----
Ég sé að kominn er nýr ofurbloggari til sögunnar. Sjálfur Jóhann Páll Símonarson sjómaður er byrjaður að blogga og vil ég bjóða hann velkominn. Við vorum saman til sjós á þremur skipum, síðast fyrir tveimur áratugum á Álafossi.
Við Jói verðum seint sammála og allra síst í pólitík. Engu að síður hefur hann löngum verið vinur vina sinna og heiðarlegur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur þótt hann hafi ekki alltaf farið hefðbundnar leiðir að markmiðum sínum.
Bloggið hans er: http://jp.blog.is/
mánudagur, október 15, 2007
15. október 2007 - Bílastæði
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:47
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli