mánudagur, maí 23, 2011

23. maí 2011 - Um fola í fótboltaliði

Bloggarinn Þorbjörg Marinósdóttir skrifar bloggpistil á svæði sitt hjá DV undir fyrirsögninni:
ÞETTA ER NÝJI FOLINN HJÁ BLIKUM SEM ER AÐ GERA ALLT VITLAUST!
(Stafsetningarvillan er höfundar pistilsins)

http://www.dv.is/blogg/verold-tobbu/2011/5/23/thetta-er-nyji-folinn-hja-blikum-sem-er-ad-gera-allt-vitlaust/

Í mínum vinahópi á Facebook velti fólk því fyrir sér hvort ekki sé bannað að hafa hesta inni á vellinum í knattspyrnuleikjum, en aðrir velta því fyrir sér hvort Breiðablik sé hestamannafélag.

Ég vænti þess að næsti pistill hjá umræddri Þorbjörgu fjalli um hve folinn sé ógisslega flottur!

laugardagur, maí 21, 2011

21. maí 2011 - Landeyjahöfn

Landeyjahöfn var mörgum Eyjamönnum hausverkur vetrarins af eðlilegum orsökum. Eftir alla þá gagnrýni sem gerð Landeyjahafnar hafði orðið fyrir áður en hún var tekin í notkun var erfitt fyrir þá og aðra sem að hönnuninni stóðu, að kyngja mótlætinu og viðurkenna að þeir hefðu haft rangt fyrir sér og að Landeyjahöfn yrði langtíma vandræðabarn.

Sjálf var ég hikandi vegna þröngrar innsiglingar og aðkomu að höfninni utan frá sjó. Með gosinu í Eyjafjallajökli mátti búast við að hægt yrði að nota höfnina sem hestarétt yrði gosið langvarandi og mikil gosefni hlæðust upp við vestanverða suðurströndina. Um leið virtist hafnarstæði á þessum stað svo skemmtilegt og möguleikarnir miklir á bættum samgöngum við Eyjar með höfninni, en eftir fyrstu vikur velgengni kom alvarlegt bakslag í málið þegar höfnin nánast fyllt af aurburði frá Markarfljóti og hefur síðan verið til mikilla vandræða.

Ekki dettur mér til hugar að afskrifa Landeyjahöfn þrátt fyrir mikla erfiðleika fyrsta árið sem hún hefur verið í notkun. Það má reikna með að aurburðurinn úr Eyjafjallajökli minnki þegar á líður, en það er engan veginn nóg. Það þarf að tryggja á einhvern hátt sandurinn safnist ekki að hafnarmynninu og inn í höfnina. Að hluta til er það hægt með öðrum varnargarði austan við núverandi austurgarð og sem nær mun lengra út en það tryggir ekki lausn málsins um aldur og ævi.

Einhver sem ræddi Landeyjahöfn við mig velti fyrir sér þeim möguleika að leggja rör frá Markarfljóti og niður í höfnina og út í hafnarmynnið og fá þannig jektoráhrif í höfnina. Ég veit hinsvegar ekki hvort slíkt myndi nægja eitt sér til að framkalla nægileg jektoráhrif í hafnarkjaftinn eða hvort koma þyrfti til einhver dæling á vatninu til að auka þrýstinginn út í röropið, en þessi lausn er örugglega vel þess virði að skoða rækilega auk þess sem hún gæti orðið mjög ódýr í framkvæmd miðað við allan þann kostnað sem sífelldar dælingar með hálfónýtum dýpkunarprömmum hafa kostað hafnaryfirvöldin.

Allavega trúi ég því að einhver góð lausn finnist á endanum og að Landeyjahöfn eigi eftir að verða okkur öllum til ánægju í framtíðinni.

sunnudagur, maí 15, 2011

15. maí 2011 - Harpa

Ég var löngum hikandi gagnvart nýja tónlistarhúsinu sem reis ofan í Reykjavíkurhöfn. Í upphafi átti húsið ekki að kosta okkur neitt, en átti bara að rísa ofan í höfninni . Eftir að hafist var handa um bygginguna varð ég að láta af andstöðu minni, enda erfitt um vik að hætta við hafið verk þótt verkið yrði miklu dýrara en ef húsið yrði byggt á þurru landi.

Síðar komst ég að því að útbúnar yrðu sérstakar VIP-stofur fyrir snobbliðið í húsinu, atriði sem ég er mjög á móti því þar með verður slíkur snobbvettvangur aldrei aðsetur þjóðarinnar. Eftir hrunið var hætt við slíkt og VIP stofurnar ætlaðar til annarra nota. Það vil ég allavega vona að engum detti til hugar að endurvekja snobbið í húsinu.

Loks var ég mjög hikandi gagnvart ákvörðuninni um áframhald byggingarinnar eftir að nýir aðilar tóku við byggingunni fyrir hönd þjóðarinnar, enda velti ég því fyrir mér hvort ekki væri þarna kominn tilvalinn minnisvarði um efnahagsbrjálæði útrásarræningjanna, sukkið og svínaríið sem komu íslensku þjóðinni á hausinn.

Nú er Harpa risin með ærnum kostnaði skattgreiðenda og þótt hún sé ekki alveg tilbúin, má þegar eygja mikla möguleika á bættu menningarlífi með tilkomu hússins. Vissulega brá við snobbi við vígsluna, en það ætti ekki að rýra notagildið þótt svo hafi verið. Sjálf sá ég enga ástæðu til að útiloka það fólk frá vígslunni sem sannanlega hafði hvatt til byggingar hússins eins og margir kröfðust, því án þeirra hefði húsið aldrei risið og það að útiloka þetta fólk frá sögu hússins hefði á sama hátt orðið sem sögufölsun.

Úr því sem komið er vil ég horfa fram á veginn og njóta þess að sjá húsið risið og vonast til að geta átt sem flestar ánægjustundir í sölum hússins í framtíðinni. Eftir nokkur ár verður erfið byggingarsaga þess hvort eð er gleymd að mestu og einungis hægt að njóta þess sem orðið er.

föstudagur, maí 13, 2011

13. maí 2011 – Um Sharon Cohen og Júróvisjón

Ég er rasandi. Enn einu sinni hefur kynnir á vegum Ríkisútvarpsins gert sig sekan um fordóma gagnvart transfólki. Í þetta sinn var það Hrafnhildur Halldórsdóttir fyrrum dagskrárgerðarkona á Rás 2 og núna starfandi við aðrar deildir RÚV sem átti hlut að máli.

Ég hefi sjaldan eða aldrei talið mig mikla áhugamanneskju um Júróvisjón. Ég sleppti því að fylgjast með keppninni í fyrra, enda fá lög sem heilluðu mig og þar á meðal hvorki íslenska né sænska lagið. Núna horfði ég á fyrri hluta undanúrslitanna með semingi, aðallega til að sjá hvernig Vinum Sjonna tækist upp, en einnig vegna þess að ég hefi heillast nokkuð af þýska framlaginu í ár sem flutt er af sömu söngkonu og sigraði í fyrra. Því kom ég mér fyrir í sófanum á þriðjudagskvöldið er fyrri hluti undanúrslitanna fór fram. Hrafnhildur Halldórsdóttir sem lýsti fyrri hluta undanúrslita Evrópusöngvakeppninnar gerði sig seka um að tala ofan í þýsku kynnina svo að af varð eintómur óskiljanlegur kliður svo helst minnti á fyrstu þátttöku Íslands í Júróvisjón þar sem kynnirinn hóf að flytja viðtal í miðri atkvæðagreiðslu. Það varð því nokkur léttir fyrir mörg okkar þegar útsendingarbúnaður kynnis bilaði og einungis heyrðist í þýsku kynnunum sem töluðu ágæta ensku þótt brandarar þeirra væru óttalega þunnir. Því miður brást Hrafnhildur öðru sinni er kom að því að lesið yrði upp tíunda framlagið sem komst áfram, því hún öskraði svo hátt að ekkert heyrðist í þýska kynninum sem las nafn tíunda framlagsins. Því verður að ganga út frá því sem vísu að íslenski fáninn hafi verið merki þess að Ísland hafi komist áfram.

Á fimmtudagskvöldið þegar seinni undanúrslitaþátturinn fór fram hafði ég vaðið fyrir neðan mig og stillti á sænska sjónvarpið. Það gekk ljómandi vel framanaf. Sænsku kynnarnir töluðu ekki ofan í þýsku kynnana og ég gat notið þess að horfa á sýnishorn af þýskri menningu og rifjað upp gamlar minningar á milli þess sem lög voru flutt, en um leið voru þeir fordómafullir og hæddust að fortíð Dönu International, en það verður væntanlega mál fyrir Radionämnden. Þegar keppninni var að ljúka kveikti ég á tölvunni og opnaði Facebook. Þar logaði allt hjá hinsegin vinum mínum. Ástæðan var Hrafnhildur Halldórsdóttir sem hafði kynnt keppnina fyrir áhorfendum Ríkisútvarpsins og orð hennar gagnvart einum keppandanum Dönu International frá Israel sem vann þessa keppni 1998 og tók nú þátt í Júróvisjón öðru sinni.

Þegar kom að ísraelska atriðinu kynnti Hrafnhildur Dönu International á þessa leið:
“Dana heitir í raun Yaron Cohen og er tæplega fertugur karlmaður. Eftir kynskiptaaðgerð heitir hún Sharon Cohen”

Vissulega heitir Dana International Sharon Cohen. Hún hefur borið þetta nafn mun lengur en ég hefi fengið að bera nafnið Anna. Það eru til fordómafullir einstaklingar sem nota annað nafn um mig, en þeir aðilar gera sig seka um brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrár Íslands. Á sama hátt gerði Hrafnhildur Halldórsdóttir sig seka um brot á sömu mannréttindaákvæðum gagnvart Sharon Cohen alias Dönu International. Slíka manneskju á að senda heim með fyrstu ferð og í launalaust leyfi. Það er til nóg af heiðarlegu fólki þarna úti sem er reiðubúið að taka við hlutverki kynnis af Hrafnhildi þótt best væri auðvitað að Sigmar Guðmundsson færi út til Dusseldorf til að lýsa keppninni á laugardagskvöldið.

miðvikudagur, maí 04, 2011

4. maí 2011 - Launþegar?

Þessa dagana er stöðugt verið að tönnlast á því í fréttatímum á rúffinu eða hvað sem Ríkisútvarpið er farið að kalla sjálft sig, að launþegafélög séu að semja um laun, um lágmarkslaun launþega og verkfallsrétt launþega. Það er þá eitthvað annað þegar rætt er um vinnuveitendur.

Ég hefi aldrei þegið nein laun. Ég hefi orðið vinna hörðum höndum fyrir laununum mínum allt mitt líf og aldrei þegið neitt. Atvinnurekendur hafa heldur aldrei veitt mér neitt heldur hafa þeir keypt vinnu mína og vinnutíma til að hámarka gróða sinn. Þá hefi ég sjaldnast fengið þau laun sem ég hefi talið mig eiga skilið fyrir vinnu mína og í einhverjum tilfellum hefi ég ekki einu sinni fengið umsamin laun. Til að tryggja laun fyrir vinnu mína er ég meðlimur í verkalýðsfélagi, en ekki í launþegafélagi.

Er ekki kominn tími til að fólki fari að kalla hugtök verkalýðsbaráttunnar aftur sínum réttu nöfnum?

sunnudagur, maí 01, 2011

1. maí 2011 - Algjört rúff?

Þegar ég var til sjós var oft talað um gömul og léleg skip og báta sem rúff. „Uss, þessi bátur er algjört rúff,“ en umrætt orðalag hefur einnig heyrst um gamla hálfónýta bíla.

Útvarpsstjóri er gamall Eyjamaður og ætti því að vera vel kunnugt um þetta heiti á ónýtum skipum og bátum. Þess furðulegra er að hann skuli standa fyrir því að breyta heiti Ríkisútvarpsins í Rúff (eða Rúv, en það er varla marktækur munur þar á).

Þegar haft er í huga að útvarpsstjóri hefur væntanlega lagt blessun sína yfir þessa nafngift, sem og hinni hræðilegu dagskrá sjónvarpsins undanfarin ár, fær maður á tilfinninguna að eitthvað sé hæft í kjaftasögum þess efnis að hann sé kominn frá Stöð 2 í þeim tilgangi að rústa Ríkisútvarpinu og þá sérstaklega sjónvarpinu innanfrá og gera að algjöru rúffi. Ekki veit ég, en er búin að glata ofurtrú minni á manninum í embætti sínu sem útvarpsstjóri.