Ég var löngum hikandi gagnvart nýja tónlistarhúsinu sem reis ofan í Reykjavíkurhöfn. Í upphafi átti húsið ekki að kosta okkur neitt, en átti bara að rísa ofan í höfninni . Eftir að hafist var handa um bygginguna varð ég að láta af andstöðu minni, enda erfitt um vik að hætta við hafið verk þótt verkið yrði miklu dýrara en ef húsið yrði byggt á þurru landi.
Síðar komst ég að því að útbúnar yrðu sérstakar VIP-stofur fyrir snobbliðið í húsinu, atriði sem ég er mjög á móti því þar með verður slíkur snobbvettvangur aldrei aðsetur þjóðarinnar. Eftir hrunið var hætt við slíkt og VIP stofurnar ætlaðar til annarra nota. Það vil ég allavega vona að engum detti til hugar að endurvekja snobbið í húsinu.
Loks var ég mjög hikandi gagnvart ákvörðuninni um áframhald byggingarinnar eftir að nýir aðilar tóku við byggingunni fyrir hönd þjóðarinnar, enda velti ég því fyrir mér hvort ekki væri þarna kominn tilvalinn minnisvarði um efnahagsbrjálæði útrásarræningjanna, sukkið og svínaríið sem komu íslensku þjóðinni á hausinn.
Nú er Harpa risin með ærnum kostnaði skattgreiðenda og þótt hún sé ekki alveg tilbúin, má þegar eygja mikla möguleika á bættu menningarlífi með tilkomu hússins. Vissulega brá við snobbi við vígsluna, en það ætti ekki að rýra notagildið þótt svo hafi verið. Sjálf sá ég enga ástæðu til að útiloka það fólk frá vígslunni sem sannanlega hafði hvatt til byggingar hússins eins og margir kröfðust, því án þeirra hefði húsið aldrei risið og það að útiloka þetta fólk frá sögu hússins hefði á sama hátt orðið sem sögufölsun.
Úr því sem komið er vil ég horfa fram á veginn og njóta þess að sjá húsið risið og vonast til að geta átt sem flestar ánægjustundir í sölum hússins í framtíðinni. Eftir nokkur ár verður erfið byggingarsaga þess hvort eð er gleymd að mestu og einungis hægt að njóta þess sem orðið er.
sunnudagur, maí 15, 2011
15. maí 2011 - Harpa
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:22
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli