Ég er rasandi. Enn einu sinni hefur kynnir á vegum Ríkisútvarpsins gert sig sekan um fordóma gagnvart transfólki. Í þetta sinn var það Hrafnhildur Halldórsdóttir fyrrum dagskrárgerðarkona á Rás 2 og núna starfandi við aðrar deildir RÚV sem átti hlut að máli.
Ég hefi sjaldan eða aldrei talið mig mikla áhugamanneskju um Júróvisjón. Ég sleppti því að fylgjast með keppninni í fyrra, enda fá lög sem heilluðu mig og þar á meðal hvorki íslenska né sænska lagið. Núna horfði ég á fyrri hluta undanúrslitanna með semingi, aðallega til að sjá hvernig Vinum Sjonna tækist upp, en einnig vegna þess að ég hefi heillast nokkuð af þýska framlaginu í ár sem flutt er af sömu söngkonu og sigraði í fyrra. Því kom ég mér fyrir í sófanum á þriðjudagskvöldið er fyrri hluti undanúrslitanna fór fram. Hrafnhildur Halldórsdóttir sem lýsti fyrri hluta undanúrslita Evrópusöngvakeppninnar gerði sig seka um að tala ofan í þýsku kynnina svo að af varð eintómur óskiljanlegur kliður svo helst minnti á fyrstu þátttöku Íslands í Júróvisjón þar sem kynnirinn hóf að flytja viðtal í miðri atkvæðagreiðslu. Það varð því nokkur léttir fyrir mörg okkar þegar útsendingarbúnaður kynnis bilaði og einungis heyrðist í þýsku kynnunum sem töluðu ágæta ensku þótt brandarar þeirra væru óttalega þunnir. Því miður brást Hrafnhildur öðru sinni er kom að því að lesið yrði upp tíunda framlagið sem komst áfram, því hún öskraði svo hátt að ekkert heyrðist í þýska kynninum sem las nafn tíunda framlagsins. Því verður að ganga út frá því sem vísu að íslenski fáninn hafi verið merki þess að Ísland hafi komist áfram.
Á fimmtudagskvöldið þegar seinni undanúrslitaþátturinn fór fram hafði ég vaðið fyrir neðan mig og stillti á sænska sjónvarpið. Það gekk ljómandi vel framanaf. Sænsku kynnarnir töluðu ekki ofan í þýsku kynnana og ég gat notið þess að horfa á sýnishorn af þýskri menningu og rifjað upp gamlar minningar á milli þess sem lög voru flutt, en um leið voru þeir fordómafullir og hæddust að fortíð Dönu International, en það verður væntanlega mál fyrir Radionämnden. Þegar keppninni var að ljúka kveikti ég á tölvunni og opnaði Facebook. Þar logaði allt hjá hinsegin vinum mínum. Ástæðan var Hrafnhildur Halldórsdóttir sem hafði kynnt keppnina fyrir áhorfendum Ríkisútvarpsins og orð hennar gagnvart einum keppandanum Dönu International frá Israel sem vann þessa keppni 1998 og tók nú þátt í Júróvisjón öðru sinni.
Þegar kom að ísraelska atriðinu kynnti Hrafnhildur Dönu International á þessa leið:
“Dana heitir í raun Yaron Cohen og er tæplega fertugur karlmaður. Eftir kynskiptaaðgerð heitir hún Sharon Cohen”
Vissulega heitir Dana International Sharon Cohen. Hún hefur borið þetta nafn mun lengur en ég hefi fengið að bera nafnið Anna. Það eru til fordómafullir einstaklingar sem nota annað nafn um mig, en þeir aðilar gera sig seka um brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrár Íslands. Á sama hátt gerði Hrafnhildur Halldórsdóttir sig seka um brot á sömu mannréttindaákvæðum gagnvart Sharon Cohen alias Dönu International. Slíka manneskju á að senda heim með fyrstu ferð og í launalaust leyfi. Það er til nóg af heiðarlegu fólki þarna úti sem er reiðubúið að taka við hlutverki kynnis af Hrafnhildi þótt best væri auðvitað að Sigmar Guðmundsson færi út til Dusseldorf til að lýsa keppninni á laugardagskvöldið.
föstudagur, maí 13, 2011
13. maí 2011 – Um Sharon Cohen og Júróvisjón
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 16:56
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli