sunnudagur, apríl 01, 2012

1. apríl 2012 - Um embættismenn og lagafrumvörp

Ég hefi stundum verið að velta fyrir mér vandamálinu sem felst í því að vandamálin safnast upp og verða oft illviðráðanleg. Gott dæmi um slíkt eru flóttamenn sem bíða afgreiðslu sinna mála í einhverjum hjalli suður í Njarðvíkum í marga mánuði og jafnvel svo árum skiptir. Þetta vandamál er mér óskiljanlegt, af hverju má ekki vinna í málinu hratt og vel og ljúka því ?

Ég er vön því að ef eitthvað fer úrskeiðis fer maður í samfestinginn og kastar sér í verkið og klárar það. Það eru vissulega til verkefni sem eru þess eðlis að gott er að láta tímann líða og gefa sér næði til að finna réttu lausnina, en oftast á það alls ekki við. Ef ég er úti á sjó og við erum að taka upp ljósavél þá ljúkum við verkinu ef það er hægt á skikkanlegum tíma. Ef verkinu er nánast lokið að loknum vinnudegi fer maður frekar í að ljúka verkinu að kvöldi en að geyma það til næsta dags því það gæti eitthvað skeð um nóttina sem veldur því að vélin þarf að komast í gang sem fyrst.

Á síðasta ári var ég beðin um að sitja í nefnd á vegum hins opinbera. Ég samþykkti erindið með ánægju og lengi vel gengu nefndarstörfin vel. Við áttum að ljúka störfum okkar í desember, en þegar fór að nálgast jól fór ég að ókyrrast, sá einfaldlega fram á að verkum okkar lyki ekki fyrir áramót. Ég vildi vinna hlutina hraðar, en embættismennirnir í nefndinni tóku slíkt ekki í mál. Þetta yrði að gerast í dagvinnutíma og þegar allir nefndarmenn gætu unnið verkið. Þetta skipti mig minna máli þar sem ég vann stærstan hluta minnar vinnu utan vinnutíma og ráðuneytið greiddi mér ekki neitt fyrir störf mín.

Áramótin liðu og nýtt ár rann í garð. Vinnunni var alls ekki lokið og allur janúar leið án þess að mikið bættist við störf okkar. Að einhverju leyti var það jákvætt því við breyttum álitsgerðum og frumvarpsdrögum í samræmi við nýjar upplýsingar í janúar 2012, en það var sama, við vorum að renna út á tíma því öll frumvörp vetrarins þurftu að vera komin inn fyrir 31. mars 2012. Ég kvartaði við nefndarformanninn sem sá ekkert að málinu og benti á að málið þyrfti ekki að komast inn á Alþingi fyrr en í lok marsmánaðar. Í febrúar fór mikill tími í að laga og fínpússa álitsgerðina og frumvarp því fylgjandi og loks snemma í mars gátum við lokið verkinu og skilað af okkur til ráðherra og ríkisstjórnar.

Það voru erfiðir tímar á Alþingi síðari hluta marsmánaðar. Í lok mars fóru dagar í að ræða stjórnarskrármál sem vissulega var mikilvægt, en mér var farið að líða virkilega illa. Kemst málið mitt inn? Það var samþykkt í ríkisstjórn en ekkert bólaði á því á Alþingi. Er ég leit inn á Alþingisvefinn að morgni laugardagsins 31. mars varð mér allri lokið. Frumvarpið ekki enn komið inn og búið að tilkynna frestun á fundum Alþingis þar til eftir páska. Fyrir mér var sem málið væri fallið og ekkert hægt að gera næsta hálfa árið og að ég yrði að sitja uppi með skömmina. Í huganum fór ég að semja varnarræður þar sem ég væri alsaklaus en embættismennirnir hinir seku, þeir sem fóru heim klukkan fjögur með hálfklárað verk sem mátti bíða til næsta vinnudags. Um leið vissi ég sök mína, ég hafði ekki verið nógu ákveðin að krefjast þess að vinnan gengi mun hraðar fyrir sig.

Um eftirmiðdaginn 31. mars fréttist að lögð hefðu verið fram nokkur lagafrumvörp á Alþingi, þar á meðal frumvarpið mitt. Mér létti stórlega, en samtímis var ég ekki sátt. Af hverju þurfti að draga mig og mína umbjóðendur á asnaeyrunum allan þennan tíma? Ég treysti ráðherranum og þingflokknum til að ljúka málinu með sóma fyrir sumarið, en ég er ósátt við að þurfa að klúðra geðheilsunni vegna þess að embættismennirnir vinna bara á milli klukkan átta og fjögur. Af hverju mega þeir ekki vinna eins og sjómenn og ljúka verkefninu hratt og vel og hvíla sig svo vel á eftir?

Mér verður hugsað til flóttamannanna sem hírast í kytrum suður í Njarðvíkum. Þeir bíða og bíða í örvæntingu á meðan embættismennirnir fara í sumarleyfi og helgarleyfi og guð má vita hvað því þeir sinna ekki manneskjum nema á milli átta og fjögur á virkum dögum.

Flóttamennirnir verða samt áfram manneskjur sem þurfa jákvæðni og góða vinnu embættismannanna.

http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=140&mnr=736







0 ummæli:







Skrifa ummæli