föstudagur, maí 11, 2018

11. maí 2018 - Íslendingar suður á Spáni


Um daginn var ég stödd á Spáni. Slíkt þykir vart tiltökumál fyrir aðra en mig sem var þarna í fyrsta sinn á ævinni, en ég kom við í garði einum í Playa Flamenca nærri Torrevieja ásamt vinafólki mínu íslensku en í garði þessum var heilmikill dansleikur á miðjum laugardegi og flutt tónlist frá hinum ýmsu löndum Evrópu. Þegar Ísland var svo kynnt til sögunnar og hið íslensk/ungverska lag   „Ég er kominn heim“ var flutt með íslenskum texta reyndust við ekki vera einustu Íslendingarnir á svæðinu, heldur tekið undir úr öllum hornum garðsins. Ég og vinafólk mitt vorum svo sannarlega ekki einustu Íslendingarnir á svæðinu. Kannski voru Íslendingar í meirihluta þeirra þjóða sem stödd voru í garðinum þennan dag.

Ég fór að velta þessu fyrir mér. Ég rakst á Íslendinga í Torrevieja, á förnum vegi, á markaðnum, í San Miguel de Salinas og uppi í Binjofar. Það var ekki þverfótað fyrir Íslendingum hvar sem ég fór og jafnvel afgreiðslustúlkan á barnum rétt hjá hótelinu hvar ég bjó talaði ágæta íslensku, reyndist vera gift íslenskum togarasjómanni sem því miður reyndist staddur á Íslandsmiðum þessa daga sem ég dvaldi á Spáni.

Upp fyrir mér rifjuðust ummæli úr fjölmiðlum frá því um kosningarnar 2016 þegar fulltrúi íslenska sendiráðsins í Madrid mætti á svæðið með örfá hundruð atkvæðaseðla svo Íslendingunum á svæðinu gæfist kostur að greiða atkvæði en atkvæðaseðlarnir runnu út og vantaði fleiri.

Ég fór að velta fyrir mér. Það búa margir Íslendingar á Spáni. Þeir skipta þúsundum. Fáir þeirra eru búsettir þarna með lögheimili. Margir fleiri eru með takmarkaða búsetu, eru skráðir með búsetu á Íslandi, en njóta búsetu á Spáni meirihluta ársins. Það væri gaman að vita raunveruleikann. Hversu margir Íslendingar eru með lögheimili á Spáni og hversu margir með takmarkaða búsetu? Miðað við fjöldann sem ég sá og hitti tel ég fjöldann skipta þúsundum til viðbótar við þá sem eru með lögheimili á sólarströnd.

Getur einhver svarað mér?


0 ummæli:







Skrifa ummæli