mánudagur, janúar 08, 2018

8. janúar 2018 - Um herinn á Miðnesheiði

Ég er friðarsinni. Ég er mjög andvíg öllum hernaðarátökum og tel að slíkar deilur eigi að leysa við samningaborðið en aldrei með hernaði. Sem friðarsinni er ég einnig óvirkur meðlimur í Samtökum hernaðarandstæðinga sem ég styð þó í hjarta mínu þótt virknin felist einvörðungu í að greiða ársgjaldið og mæta við kertafleytinguna 6. eða 9. ágúst ár hvert og svo við friðargönguna á Þorláksmessu. Ég neyðist þó til að skrópa fyrir næstu jól þar sem ég verð á vakt þegar friðargangan verður farin.

Tvennt er þó til að rækta efa í hjarta mínu. Annað er þyrlubjörgunarsveit herstöðvar bandaríska sjóhersins sem lengi var starfrækt hjá herliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þyrlubjörgunarsveitin vann mörg frábær afrek þegar hún var með aðsetur hér á landi og hún var stolt herstöðvarinnar. Nokkrum árum áður en herinn hélt á brott með allt sitt hafurtask auðnaðist mér að heimsækja þyrlubjörgunarsveitina og mér til undrunar fékk ég að valsa um að vild með góðri leiðsögn hermanna sveitarinnar sem vildu allt fyrir okkur gera og voru ósparir á að sýna okkur nýjustu og flottustu tæknina í björgunarstörfum í sínum fimm þyrlum sem staðsettar voru á Keflavíkurflugvelli, en ég var þarna sem meðlimur í öryggisnefnd Orkuveitu Reykjavíkur.

Hitt dæmið um jákvæð áhrif hersins á Keflavíkurflugvelli er mun eldra og kannski viðkvæmara. Sem barn að aldri á barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellssveit komu hermenn frá Keflavíkurherstöðinni í heimsókn á hverju hausti nokkru fyrir jólin, færðu heimilinu gjafir og börnin fengu sömuleiðis persónulegar gjafir frá hernum og það voru gjafir af dýrari gerðinni, reiðhjól, snjósleðar, járnbrautarlest á teinum, skip knúin áfram af rafhlöðum og fleira sem margt er mér gleymt í dag. Í einn dag léku ungir hermenn við okkur börnin, sögðu okkur frá uppvaxtarstöðvum sínum vestur í Ameríkuhreppi og færðu okkur sælgæti og gjafir. Mig minnir þó að þessum heimsóknum hafi verið hætt fljótlega eftir 1960. Allavega man ég ekki eftir þeim á síðari hluta þess tíma sem ég dvaldi á barnaheimilinu, en góðar voru heimsóknirnar.

Það má svo deila um það hvort þessar heimsóknir á barnaheimilið hafi verið hluti af heilaþvotti, en fyrir börnin voru þær til gleði og þeim var fagnað.

Baráttan fyrir friði er ekki barátta gegn hermönnunum sem slíkum enda eru þeir einungis verkfæri yfirmanna sinna og pólitískra stjórnenda og sem persónur hafa þeir margir gengið langt í að bjarga mannslífum, stundum mun lengra en krafist er af þeim.

Þessi hugleiðing kom upp í hugann þegar ég sá fyrsta hlutann af þættinum um herstöðina á Miðnesheiði sem var í sjónvarpinu á sunnudagskvöldið.




0 ummæli:







Skrifa ummæli