föstudagur, janúar 05, 2018

5. janúar 2018 - Umferðarslys


Ég var einu sinni á ferð norður í land. Þegar ég ók framhjá Hreðavatnsskála var smáhlykkur á veginum og skyndilega var ég komin á rangan vegarhelming, en það kom enginn vörubíll á móti og mér tókst með lagni að sveigja inn á réttan vegarhelming og halda för minni áfram. Eitt örlítið augnablik sem hefði getað kostað lífið hefði bíll komið á móti mér.

Ég fékk viðvörun og allt fór vel. Það hefur ekki alltaf farið svona vel. Ungur piltur lést eftir að bílstjórinn sem kom á móti sá piltinn gera eitthvað annað en að horfa fram á veginn, stilla útvarpið eða eitthvað álíka. (Hann var ekki að tala í símann).

Um daginn lést vinur minn í umferðarslysi á Kjalarnesi. Hann var á fertugsaldri og enginn glanni í umferðinni. Ég veit ekki hvað gerðist annað en samkvæmt fyrstu fréttum fór hann yfir á rangan vegarhelming og það varð hans síðasta augnablik í lífinu. Eftir situr móðir hans og syrgir einkason sinn.

Það er ávallt erfitt að tjá sig um dauðsföll í nálægðinni, en um leið er nauðsyn að vekja athygli á augnablikunum sem valda dauða, símtölum eða svefni undir stýri. Einum vinnufélaga mínum tókst með naumindum að forðast stórslys er maður sem hafði sofnað undir stýri fór utan í hliðina á hans bíl og vaknaði við brak og bresti og náði að stöðva bíl sinn áður en illa fór. Sjálf var ég einu sinni akandi á eftir bíl þar sem bílstjórinn var að tala í síma og missti stjórn á bílnum sem lenti utan í bílnum við hliðina.

Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í málinu?

2 ummæli:

  1. Það er öllum undurleitt sem að þekkja 'HarrÝ' að sonur hennar fórst í þessu slysi.
    Fólk verður agndofa, kví hann, kví þar. afhverju er ekki búðið að tvöfalda veginn fyrir lángri löngu ?

    En allt þetta eru bara orð.

    Góðir vættir geymi drenginn og verði hlýir móður hans, því það á nú öngvin það verskuldað að grafa barnúnga sína.

    Z.

    SvaraEyða
  2. Velkomin í bloggheima á ný!

    SvaraEyða