Síðan ég var kosin í stjórn Samtakanna 78 í mars síðastliðnum hefur mér auðnast fyrir, hönd Samtakanna, að taka þátt í samstarfi þeirra við við hin geistlegu yfirvöld, þ.e. þjónandi presta sem flestir eru á okkar bandi. Upphaf þessa var með símtali Sr. Sigríðar Guðmarsdóttur í Guðríðarkirkju við mig er hún vildi kynna sér skoðanir Samtakanna fyrir prestastefnu í vor.
Þegar stjórn Samtakanna ræddi hverja ætti veita mannréttindaviðurkenningar Samtakanna, kom einhver með þá snilldarhugmynd að þakka þessum tæplega hundrað guðfræðingum fyrir baráttu þeirra og eðlilegt að sr. Sigríður Guðmarsdóttir tæki við fyrsta eintakinu á regnbogamessunni í Fríkirkjunni að kvöldi 27. júní. Það breytir ekki því að allir þeir sem hvöttu til þess að ein hjúskaparlög giltu í landinu áttu þessa viðurkenningu skilið og fá hver sitt eintak af viðurkenningunni.
Regnbogamessan var stórkostleg. Hreiðar Ingi, Bergþór, Páll Óskar, Sigga Beinteins, Lay Low, Maríus Hermann, Hörður Torfason og Andrea Gylfadóttir sungu, Ragna Árnadóttir dóms- og mannréttindaráðherra flutti ávarp. Svana flutti ritningalestur og veitti viðurkenningar og ekki má gleyma hetjum Fríkirkjunnar, þeim sr. Hirti Magna og sr. Bryndísi Valbjörnsdóttur.
Takk, þetta var ógleymanleg stund.
sunnudagur, júní 27, 2010
27. júní 2010 - Regnbogamessa í Fríkirkjunni
föstudagur, júní 25, 2010
26. júní 2010 - Íbúar Árbæjar treggáfaðri en aðrir?
„Hefurðu séð Fréttablaðið í dag? Formaður hverfaráðs Árbæjarhverfis býr ekki einu sinni í hverfinu“
Nágrannakona mín var óðamála er hún hóf upp raust sína.
„Þetta hefur maður upp úr því að kjósa ykkur í Samfylkingunni.“
Ég varð að benda konunni á að ég hefði ekki einu sinni verið í framboði, hvað þá að ég hefði nokkuð með hverfaráðs Árbæjarhverfis að gera, enn síður að hlustað væri á mig og umkvörtunarefni þau sem ég hefði lagt fram við borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, en benti henni á að það væri kominn nýr málefnasamningur Samfylkingarinnar og Besta flokksins þar sem ætti að auka valdið i hverfum borgarinnar.
(Sjálf vildi ég ekki viðurkenna að ég hefði ekki einu sinni séð þessa nýju tilhögun.)
Brátt bættist önnur nágrannakona í hópinn og var hún síst sáttari við hinn nýja formann hverfaráðsins en hin fyrri.
Fljótlega eftir að ég hafði lent í rimmunni við nágrannakonurnar náði ég í Fréttablaðið og þar stóð það svart á hvítu að formaður Hverfaráðs Árbæjarhverfis væri Þorleifur Gunnlaugsson trésmiður og búsettur í vesturbæ Reykjavíkur og fallkandidat í prófkjöri Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og síðan einnig í borgarstjórnarkosningunum í vor. Ég sendi fyrirspurn um þetta mál til stjórnar hverfafélags Samfylkingarinnar í Árbæjarhverfi, en þegar þessi orð eru rituð hefur ekkert svar borist mér nærri tveimur sólarhringum síðar.
Í samstarfssamning Samfylkingarinnar og Besta flokksins stendur eftirfarandi:
Hverfastefna
Aukin verkefni og fjárráð flytjist til hverfaráðanna.
Í samráði við íbúa og starfsfólk verði útfærðar tillögur um hvernig best sé að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði hverfanna með eflingu hverfaráða, hverfatengdrar þjónustu og forgangsröðun í rekstri innan hverfis.
Þetta var þá efndin á loforðunum sem ég tók þátt í að samþykkja einungis tíu dögum fyrr. Var virkilega enginn íbúi í Árbæjarhverfi með nægilegan félagsþroska til að geta tekið að sér stjórn þessa hverfaráðs? Eru Kjalnesingar virkilega svo treggáfaðir að sækja þarf fallkandidat úr Sjálfstæðisflokknum, búsettan í Skerjafirði til að stýra hverfaráði Kjalarness?
Það má vel vera að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar sem allir segjast vera aldir upp í Árbæjarhverfi, en sömuleiðis allir löngu búnir að koma sér í burtu úr hverfinu og tveir fluttir í þriðja minnsta hverfið með hinum borgarfulltrúunum, séu ánægðir með þessa tilhögun mála, en ég er ekki sátt fremur en nágrannar mínir sem hafa tjáð sig um þetta mál við mig. Þessi ákvörðun borgarstjórnar segir mér það að hún fyrirlíti íbúa Árbæjar og Kjalarness og telji þá treggáfaðri en aðra íbúa Reykjavíkur. Ég get ekki mætt þessu á annan hátt en þann að óska mér betri og faglegri forystu til að stjórna Reykjavík að fjórum árum liðnum en þá sem nú er komin til valda í Reykjavík.