föstudagur, nóvember 29, 2013

29. nóvember 2013 - Didda


Það var sumarið 1996. Ég var atvinnulaus, nýflutt til Íslands og nagaði mig í neglurnar fyrir þá slæmu ákvörðun mína að hafa sagt upp góðu starfi mínu í Svíþjóð til þess eins að flytja til landsins sem hafði að geyma Esjuna og Mosfellsdalinn og fáeina ættingja og vini en fátt annað sem heillaði. 

Þetta voru erfiðir dagar. Sumir virtust leggja sig í líma um að sýna mér fyrirlitningu og enga fékk ég vinnuna þrátt fyrir fjölda umsókna um borg og bý. en ég gat þó þakkað fyrir að veðrið var gott á Íslandi fyrrihluta sumarsins 1996 og það var gaman  að rölta um bæinn þótt það ylli ákveðinni kvíðaröskun að sjá að fólk hafði vinnu þótt mér væri hafnað allsstaðar.

Það voru þó ljós í myrkrinu. Ég man eftir lítilli stelpu, kannski sjö ára gamalli sem kom til mín þar sem ég steig úr bíl heima hjá systur minni í Kópavogi og sagðist hafa séð mig í sjónvarpi og fallegt bros hennar var alveg fölskvalaust þegar hún lýsti því hve henni þætti vænt um að sjá mig. Bros hennar situr enn í hjarta mínu.

Annað atriði var mér einnig ógleymanlegt. Þar sem ég var að mæla göturnar í eirðarleysi atvinnuleysis og gekk eftir Austurstræti ók bíll framhjá. Allt í einu stöðvaði bíllinn, út úr honum kom bílstjórinn til mín, ung kona, og faðmaði mig og óskaði mér til hamingju með að vera ég sjálf. Síðan þurfti hún að flýta sér aftur inn í bílinn sinn og aka í burtu undan reiðum bílstjórum bílanna sem á eftir höfðu verið.

Síðar komst ég að því að þetta var Didda, Sigurlaug Didda Jónsdóttir, rithöfundur og leikkona með meiru, einhver fordómalausasta manneskja sem ég hefi á ævi minni fyrirhitt.

Þessi hugvekja er í tilefni þess að Sigurlaug Didda Jónsdóttir á afmæli í dag, 29. nóvember eða svo segir Facebook mér.  


fimmtudagur, nóvember 28, 2013

28. nóvember 2013 - Uppsagnir á RÚV


Ég viðurkenni alveg að ég hefi verið mjög gagnrýnin á Ríkisútvarpið á undanförnum árum. Ýmislegt hefur verið öðruvísi en ég hefi kosið að sjá í ríkisútvarpi, neyðarsendingar hafa brugðist hvað eftir annað sbr 17. júní 2000 og nóttina sem gosið byrjaði á Fimmvörðuhálsi. Hvað eftir annað hefur hefðbundnum dagskrárliðum verið fórnað fyrir boltaleiki og hundamyndirnar í sjónvarpinu hafa ekki verið beinlínis fagnaðarefni.

Þrátt fyrir þetta hefur margt verið gott við RÚV, margt frábært starfsfólk og skemmtilegir útvarpsþættir á báðum rásum sem hafa haldið mér svo við efnið að ég hefi ekki haft áhuga á að leita annað flesta daga, þó með vissum undantekningum þegar völ hefur verið á einstöku góðum dagskrárliðum á öðrum stöðvum, Bylgjunni, fréttum Stöðvar 2 og erlendum stöðvum. Þrátt fyrir þetta hafa 80% af notkun minni á ljósvakamiðlum verið dagskrár RÚV.
 

Miðvikudagurinn 27. nóvember var svartur dagur í sögu RÚV. Margt gott fólk sem ég hafði fengið að njóta í gegnum rásir útvarpsins og sjónvarpið fengu að fjúka þar á meðal þau bæði sem ég hefi ávallt talið uppáhaldsútvarpsfólkið mitt, Linda Blöndal og Guðni Már Henningsson jafn ólík sem þau eru. Þá má ekki gleyma mörgum öðrum sem eru eins og vinir mínir í gegnum ljósvakarásirnar, Margrét Erla og Jóhannes Kr. frá sjónvarpinu, Ingi Þór Ingibergsson, Guðfinnur Sigurvinsson, Lana Kolbrún Eddudóttir. Fyrir sumt af þessu fólki er uppsögnin sem endalok frábærs ferils, önnur sem nýtt upphaf, en fyrir okkur hlustendurna er þetta áfall. Skyndilega er ekkert lengur sem hægt er að hlusta á, engin Linda sem ég vaknaði við á morgnanna og engir Guðni Már né Ingi Þór sem skemmtu mér á helgarkvöldum.


Ég velti fyrir mér hvort einhver tengsl séu milli útvarpsstjórans og fyrrverandi vinnuveitanda hans sem er gamall útrásarbófi og á helsta keppinaut RÚV á fjölmiðlamarkaði? Hvað eru fulltrúar minnihlutans að gera í útvarpsráði? Það er óhugnanleg tilfinning að hugsa til þess að búið er að rústa frjálsri fjölmiðlun á Íslandi. Tvö stærstu dagblöðin í eigu LÍÚ og útrásarbófa, annar helstu ljósvakamiðlanna í eigu útrásarbófa, hinn  náttúrulaus eftir niðurskurð.


Ofan á allt er boðað að niðurskurðinum sé ekki lokið. Ég kvíði framtíðinni með leifunum af RÚV þar  sem einungis verða sagðar fréttatilkynningar frá ríkisstjórninni og LÍÚ, tónlist verður spiluð án kynninga og öll dagskrárgerð steingeld. Sem betur fer er ég enn með aðgang að norrænum sjónvarpsstöðvum  ef ég vil horfa á sjónvarp og eitthvað á ég af gæðatónlist á diskum sem ég get stytt mér stundir við þar til skipt verður um stjórnendur RÚV og ríkisstjórnina.