Nú þegar ljóst er að lögreglan hefur orðið sér úti um vélbyssur til að
nota við skyldustörf má velta fyrir sér hvenær þær aðstæður verða sem krefjast notkunar á slíkum
drápstólum.
Reynum að ímynda okkur aðstæður. Það
gengur bjarndýr á land í Skutulsfirði og ætlar að gæða sér á leikskólabörnum í
Ísafjarðarbæ. Þá væri nú ekki amalegt að
lögreglan á Ísafirði væri vopnuð vélbyssu. Eða hvað? Hversu mörg leikskólabörn væru
þá fallin áður en bjarndýrið fellur? Nei, vélbyssan hentar ekki við slíkar aðstæður. Þá er öflugur riffill með góðu
miði miklu betri.
Ökumaður ekur á hest og særir hann alvarlega og lögreglan kemur á staðinn,
grípur vélbyssuna og veitir hrossinu náðarskot. Mörg slík til að tryggja
fljótan dauða dýrsins. Þarna gildir sama
og áður. Góður riffill er miklu
betri. En ef ökumaðurinn ekur á hóp
kinda og særir margar. Þá væri ekki amalegt að vera með góða vélbyssu og slátra
greyjunum öllum með einni skothríð. Ætli
kindabyssan væri ekki ódýrari og betri við slíkar aðstæður?
Sama gildir ef geðsjúkur brjálæðingur missir stjórn á sér. Hættan verður miklu
meiri sé vélbyssan með í för. Mun einfaldara og hreinlegra er að skjóta
vesalinginn með riffilskoti þótt ætla megi að nær væri að skjóta manninn með
deyfilyfi.
Það er nú ekki amalegt að vera með vélbyssu á rjúpnaveiðum þótt hún gagnist
ekki við hreindýraveiðar. Það væri hægt að ná mörgum rjúpum með einni skothríð
og þá ekki amalegt að vera með góða vélbyssu við fækkun máva á Tjörninni. Eða hvað?
Alltof róttæk aðferð.
En einhver not hljóta að vera fyrir 150 vélbyssur sem lögreglan keypti óvart af
lögreglunni í Noregi því sögur þess efnis að Norðmenn hafi gefið Íslendingum
þessi vopn eru ótrúverðugar. Reyndar má geta þess í leiðinni að þjóðtrúin segir að það fylgi böl því að gefa vopn hvort heldur um er að ræða hnífa eða vélbyssur.
Jú, það eru not fyrir vélbyssur á Íslandi, t.d. ef lögreglan þarf að sýna þeim
sem mótmæla ríkisstjórninni hver það er sem ræður eða ef einstakir lögreglumenn
ætla að fremja fjöldamorð. Þá er nú ekki amalegt að vera með vélbyssur svo hægt
sé að drepa sem flesta í einu.
Sem betur fer þekki ég engan lögreglumann sem er svo illa þenkjandi að verða
fyrstur til að skjóta við slíkar aðstæður.
miðvikudagur, október 22, 2014
22. október 2014 - Um vélbyssur
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)