Ég hefi aldrei gengið með þá þrá í hjarta að fá að henda forseta Íslands í sjóinn. Vissulega hefi ég verið ósátt við einstöku embættisfærslur forsetans, þá helst þess sem sat á Bessastöðum á undan núverandi forseta, en aldrei svo að ég óskaði honum dauða og djöfuls, þvert á móti.
Þegar kom að neyðarkallsdeginum 2017, þ.e. 112 deginum þurfti ég að vera með sem vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni og verkefnið var aðallega eitt, að henda forseta Íslands í sjóinn undir öruggum formerkjum. Þar sem við lágum utan á varðskipinu Þór og biðum forsetans læddust að mér illar grunsemdir um þá áhættu sem forseta getur beðið við slíkar aðstæður, en svo kom hann til okkar í viðurkenndum flotgalla og tilbúinn í hvað sem er.
Allt gekk eins og í sögu. Þegar kom að því að forseta yrði hent í sjóinn varð ég dálítið smeyk. Myndi Maggi átta sig á að skipið þyrfti að vera stopp áður en fólki yrði hent í sjóinn? Hann áttaði sig á slíku, stoppaði skipið og beið þess sem verða vildi. Fyrstur út var sigmaður frá Landhelgisgæslunni og síðan lét forseti Íslands vaða, stökk út á eftir sigmanninum með tilþrifum. Enn einu sinni staðfesti Guðni Th. Jóhannesson með verkum sínum af hverju ég kaus hann til forseta Íslands.
Hífingin í þyrluna gekk vel og við gátum haldið heim á leið ánægð í skapi eftir vel heppnaðan 112 dag.