miðvikudagur, júlí 18, 2018

19. júlí 2018 - Um strandferðir við Ísland


Fyrir fáeinum árum, fljótlega eftir hrun var hálfgert neyðarástand í húsnæðismálum námsmanna. Allar íbúðir háskólastúdenta voru uppbókaðar og sömu sögu mátti segja um aðra námsmenn og það vantaði allsstaðar húsnæði.
Þótt ég sé ekki námsmanneskja fór ég að hugsa í lausnum, minnug unglingsáranna og Esjan fór sína hefðbundnu hringferðir um landið með túrista. Við vorum kannski að landa á Bíldudal sumarið 1968 og ég átti fullt í fangi með að útskýra fyrir túristunum af Esju gömlu hvað þessi fiskur héti og hvað hinn fiskurinn héti og hvað veiðarfærin hétu og hvar við notuðum þau og túristarnir voru sífellt tefjandi okkur frá löndun og svo var haldið til hafs á ný.

Nokkrum áratugum síðar fór ég að ræða hugmyndina um strandferðir við kunningjana. Hvernig væri að kaupa eða leigja skip, selja túristum hringferðir um landið á sumrin en láta skipin liggja í Reykjavíkurhöfn á veturna og nota þau sem námsmannaíbúðir? Allir fundu allt þessu til foráttu, þetta væri of dýrt, erfitt að fá túrista til að fara svona ferðir og námsmenn gætu ekki hugsað sér að búa um borð í skipi yfir veturinn og draumurinn dó.

Síðan eru liðin nokkur ár. Ástandið á húsnæðismarkaði í Reykjavík er ennþá slæmt, ekki aðeins meðal námsmanna, heldur einnig meðal almennings.  Það sem er þó verst að sumarið 2018 eru um 6 eða 7 skip sem fara með farþega í hringferðir um Ísland og skipta um farþega í Reykjavík eða Hafnarfirði.

Ég sit heima og naga mig í handarbökin fyrir að hafa ekki látið á þetta reyna með eitt skip í upphafi áður en Ocean Diamond kom hingað og hóf þessar ferðir.