þriðjudagur, desember 27, 2005

28. desember 2005 - Síðbúin jólasaga

Aðfangadagur jóla 1968. Bróðir minn, árinu eldri en ég hafði nokkru áður keypt sér gamlan Ford árgerð 1955 með úrbrædda vél og hafði verið að dunda sér við að gera upp vélina og komst bíllinn aftur á götuna á Þorláksmessu. Honum fannst tilvalið að prófa drusluna með því að fara austur á Hvolsvöll þar sem ein systir okkar bjó á þeim tíma og dvelja hjá henni og fjölskyldu hennar um jólin. Að sjálfsögðu var ég dregin með í ferðina austur þótt ég ætti að vera að lesa undir munnlega ökuprófið sem ég átti að fara í á þriðja í jólum.

Eftir að hafa tilkynnt að við værum að leggja af stað austur klukkan fjögur á aðfangadag og ætluðum að vera komin austur uppúr klukkan fimm, var lagt í hann og geyst austur Svínahraun og yfir Hellisheiðina í ljósaskiptunum og bíllinn dansaði af þrótti á ísuðum malarveginum. Það gekk vel niður gömlu Kambana og áfram til Selfoss. Umferðin var engin og stefndi í að við myndum ná austur á ætluðum komutíma.

Nokkru fyrir austan Selfoss komum við þar að sem bíll stóð kyrrstæður við vegarbrúnina og bílstjórinn með hausinn ofan í vélarrúminu að basla eitthvað. Þetta reyndist vera unglingsstrákur, á svipuðum aldri eða lítið eldri en við, á leið austur í Hreppa til foreldra sinna og hafði bíllinn byrjað að hiksta eftir að komið var í gegnum Selfoss og loks drepið á sér. Bróðir minn fór að basla við að hjálpa hinum að gera við ætlaða bensínstífluna, en ekkert gekk. Eftir að hafa átt við bíl drengsins í á annan klukkutíma gáfust þeir upp, settu spotta á milli bílanna og svo var hinn dreginn upp í Hreppa og alla leið heim til föðurhúsa félagans þar sem vel var tekið á móti honum. Við héldum hinsvegar áfram ferð okkar og var mágur okkar kominn á fremsta hlunn að kalla út lið til að leita okkar þegar við birtumst loksins á Hvolsvelli klukkan nærri níu á aðfangadagskvöld jóla.

Við eyddum svo jóladegi á Hvolsvelli og austur í Fljótshlíð, en á öðrum degi jóla var svo lagt af stað í átt til Reykjavíkur. Það var að sjálfsögðu ekið með sama hraða í átt til Reykjavíkur og á leiðinni austur. Vélin var að sjálfsögðu ennþá nýlega upptekin og var ekkert sérlega hrifin af meðferðinni á sér, enda fór það svo að á leiðinni upp Kambana skaut hún úr sér stimplum og lauk þar með ævi sinni. Það var ljóst að lengra yrði ekki haldið að sinni, bíllinn látinn renna niður uns komið var á öruggan stað og farið á puttanum til Reykjavíkur.

Bíllinn var svo sóttur austur daginn eftir og skipt um vél í honum eftir áramótin. Hvernig það ævintýri fór, er svo efni í aðra sögu sem verður ekki sögð hér. Ég mætti hinsvegar illa lesin í munnlega bílprófið að morgni þriðja í jólum og náði því ágætlega.


0 ummæli:







Skrifa ummæli