Það var 17. júní árið 2000. Ég sat fyrir framan tölvuna mína þegar allt fór að hristast. Ég fann fyrir ótta þar sem ég var stödd uppi á sjöttu hæð, vitandi að lyftan var varasöm og hættulegt að fara niður stigana við þessar aðstæður, en þetta fór allt vel að frátalinni einni bókahillu sem féll fram með skemmd á einni bók. ég var með útvarpið í gangi en kveikti nú einnig á sjónvarpinu. Þar sáust 25 fullorðnir karlar sem hlupu í hræðslu sinni um grænt gras og fjöldi fólks sat á áhorfendapöllum og öskraði af hræðslu.. ég áttaði mig á að þetta fjallaði alls ekki um jarðskjálfta, heldur fótbolta sem gengur fyrir öllu öðru á Íslandi.
Laugardagskvöldið 20. mars og aðfararnótt sunnudagsins 21. mars var ég á næturvakt í vinnunni. Það var óvenjuróleg vakt, ekkert að ske. Einhver hundleiðinleg kvikmynd var í sjónvarpinu og í útvarpinu var óskalagaþáttur í gangi undir umsjón Snorra. Ég hafði Facebook opið og leit á það öðru hverju og skyndilega kom nýr status frá góðri skólasystur minni úr menntaskóla og síðar flokkssystur minni í Samfylkingunni. Hún hélt að það væri byrjað gos í Eyjafjallajökli. Klukkan var 00.34 skömmu eftir miðnættið. Mér brá! Ég renndi yfir fréttamiðlana og sá ekkert. Ég renndi aftur yfir fréttamiðlana og þá kom ný frétt hjá Doddsson.is um að hugsanlega væri hafið gos í Eyjafjallajökli. Í útvarpinu voru flutt óskalög hlustenda.
Ég skellti inn færslu um gosið sem status hjá mér. Einn þeirra fyrstu sem svöruðu með athugasemdum var einn ágætur kunningi minn og fréttamaður hjá RÚV: „Ertu ekki að djóka?“
Nei, ég var ekki að fíflast en fékk samt athugasemdir við færsluna varðandi geðheilbrigði mitt. Það liðu margar mínútur áður en einhver ræma kom í sjónvarpinu um hugsanlegt eldgos. Í útvarpinu voru spiluð óskalög af plötum. Það var ekki fyrr en klukkan eitt sem fréttir komu í útvarpinu um eldgos í Eyjafjallajökli.
Þarna brást RÚV gjörsamlega. Það leið rúmur klukkutími frá því hringt var í Neyðarlínuna uns fréttir komu í útvarpi. Þá voru bæði Facebook og Doddsson.is á undan, löngu á undan. Slíkt er ekki ásættanlegt. Ríkisútvarpið fær greitt fyrir neyðarþjónustu, hvorki Facebook né Mbl.is. Samt standa þessir fjölmiðlar sig miklu betur.
Með orðum mínum vil ég taka fram að þótt Ríkisútvarpið hafi brugðist rétt eins og 2000, þá stóðu fréttamenn þess sig með prýði eftir að á hólminn var komið.
þriðjudagur, mars 23, 2010
23. mars 2010 - Aftur brást Ríkisútvarpið!
sunnudagur, mars 07, 2010
7. mars 2010 - Léleg kosningaþátttaka
Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave samningana er ákaflega sérstök fyrir þá sök að kosningaþátttakan er sú lélegasta í þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 1919 eða um 62,51% og aðeins lægri en forsetakosningarnar 2004 þegar fjöldi Sjálfstæðismanna sameinaðist um að sitja heima í mótmælaskyni við synjun forseta Íslands á fjölmiðlalögunum frá sama vori. Þá var þátttakan tæp 63%.
Fyrstu þrennar kosningarnar frá því konur fengu kosningarétt árið 1915, var kosningaþátttaka þeirra ákaflega rýr eða innan við 40%. Á sama tíma var kosningaþátttaka karla miklu hærri og segir það sína sögu um misréttið sem þá var við líði á Íslandi. Síðan þá hefur kosningaþátttakan ávallt verið yfir 70% og sem hæst 98,4% í kosningunum um sambandsslitin við Dani í maí 1944, þó að undanskildum þeim tveimur kosningum sem markast af beinum afskiptum forseta Íslands af stjórnmálum, forsetakosningunum 2004 og nú, atkvæðagreiðslunni um Icesave.
Það væri gott fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson að skoða þessar tölur áður en hann fer að gaspra um góða kosningaþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010
Árið 2004 sammæltust margir Sjálfstæðismenn um að sitja heima eða skila auðu í forsetakosningunum í kjölfar neitunar Ólafs Ragnars Grímssonar á að staðfesta fjölmiðlalögin. Þá voru og uppi háværar raddir í þeirra röðum um að afnema bæri 26. grein stjórnarskrár. Þessir sömu Sjálfstæðismenn hylla þennan sama forseta í dag fyrir sama gjörning, að neita að undirrita lög sem samþykkt hafa verið frá Alþingi.
Forseti Íslands hefur haft uppi málflutning um að hann sé sameiningartákn íslensku þjóðarinnar. Þessi tvö dæmi um lélega kosningaþátttöku af hans völdum sanna hið gagnstæða.