sunnudagur, mars 07, 2010

7. mars 2010 - Léleg kosningaþátttaka

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave samningana er ákaflega sérstök fyrir þá sök að kosningaþátttakan er sú lélegasta í þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 1919 eða um 62,51% og aðeins lægri en forsetakosningarnar 2004 þegar fjöldi Sjálfstæðismanna sameinaðist um að sitja heima í mótmælaskyni við synjun forseta Íslands á fjölmiðlalögunum frá sama vori. Þá var þátttakan tæp 63%.

Fyrstu þrennar kosningarnar frá því konur fengu kosningarétt árið 1915, var kosningaþátttaka þeirra ákaflega rýr eða innan við 40%. Á sama tíma var kosningaþátttaka karla miklu hærri og segir það sína sögu um misréttið sem þá var við líði á Íslandi. Síðan þá hefur kosningaþátttakan ávallt verið yfir 70% og sem hæst 98,4% í kosningunum um sambandsslitin við Dani í maí 1944, þó að undanskildum þeim tveimur kosningum sem markast af beinum afskiptum forseta Íslands af stjórnmálum, forsetakosningunum 2004 og nú, atkvæðagreiðslunni um Icesave.

Það væri gott fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson að skoða þessar tölur áður en hann fer að gaspra um góða kosningaþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010

Árið 2004 sammæltust margir Sjálfstæðismenn um að sitja heima eða skila auðu í forsetakosningunum í kjölfar neitunar Ólafs Ragnars Grímssonar á að staðfesta fjölmiðlalögin. Þá voru og uppi háværar raddir í þeirra röðum um að afnema bæri 26. grein stjórnarskrár. Þessir sömu Sjálfstæðismenn hylla þennan sama forseta í dag fyrir sama gjörning, að neita að undirrita lög sem samþykkt hafa verið frá Alþingi.

Forseti Íslands hefur haft uppi málflutning um að hann sé sameiningartákn íslensku þjóðarinnar. Þessi tvö dæmi um lélega kosningaþátttöku af hans völdum sanna hið gagnstæða.


0 ummæli:







Skrifa ummæli