Mig minnir að það hafi verið árið 1991 sem Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra tók þá ákvörðun fyrir Íslands hönd að tilkynna Eystrasaltsþjóðunum að viðurkennig Danmerkur á sjálfstæði þjóðanna frá 1919 hefði aldrei verið felld úr gildi af Íslands hálfu við innlimun landanna í Sovétríkin árið 1944. Með þessu gilti sú staðreynd að Ísland varð fyrst allra til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna við hrun Sovétríkjanna.
Þessu var fagnað víða um Eystrasaltslöndin, einnig meðal meðlima í Lettneska ungdomsförbundet í Sverige sem hafði samband við Isländska föreningen í Stockholm og vildi koma á sameiginlegri fagnaðarhátíð í tilefni af sjálfstæði Lettlands. Stórnir félaganna þar sem ég var í stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi sátu nokkra fundi áður en kom að hátíðinni sem tókst vonum framar. Sjálf kynntist ég þarna nágranna mínum í Jakobsberg sem var í stjórn Lettneska ungdomsförbundet, snaggaralegri stelpu sem lét ekkert vaða ofan í sig.
Síðar rekur stelpuna aftur á fjörur mínar. Hún vill ekkert vera stelpa, heldur strákur og ég vil ekkert vera strákur heldur stelpa og við erum saman í litlu félagi sem kallast Föreningen Benjamin, óbreyttir meðlimir sem vegna óánægju með störf félagsins förum að kvarta og það endar með því að á næsta aðalfundi verð ég formaður félagsins og félaginn sem ekki vill vera stelpa, verður gjaldkeri.
Næstu árin berjumst við saman fyrir réttlætinu og fyrir okkur sjálf, vorum nágrannar að auki og skemmtum okkur oft saman. Förum saman á fundi í Svíþjóð og til Lettlands og ég lendi í að gerast sáttasemjari á milli D. og móður hans sem á erfitt með að sætta sig við að dóttirin vilji frekar vera strákur og kemst að því að móðirin býr yfir gamalli lífsreynslu.
Hún var þriggja eða fjögurra ára gömul þegar Rússar losuðu Letta frá ægivaldi Þýskalands og nasismans með enn verri kúgun. Faðir hennar var ungur lögreglumaður og var fljótlega handsamaður og myrtur af sovéskum innrásaröflum og unga ekkjan óttaðist að verða send til Síberíu eða eitthvað enn verra. Hún ákvað að flýja og ásamt fleirum var haldið út á Eystrasalt í opnum árabát.
Þótt ekki sé löng leið að fara yfir Eystrasaltið á ferjum nútímans, skipti þessi ferð með árarnar einar að drifkraft dögum og enn var flóttafólkið fjarri ströndum er sænskt skip kom að þeim og flutti til Svíþjóðar.
Litla stúlkan ólst upp í Stokkhólmi. Síðar kynntist hún eiginmanni sínum sem hafði komið til Svíþjóðar í gegnum Kanada eftir að hafa flúið skip sitt og settust þau að í Jakobsberg norðan við Stokkhólm þar sem þau eignuðust einasta barn sitt, en skildu þegar einkabarnið var á unglingsaldri.
Ég minnist margra símtala sem móðir D. átti við mig. Þrátt fyrir allt elskaði hún barn sitt og vildi því allt hið besta, en átti erfitt með hlutskipti sitt og barns síns sem nú var orðinn fullorðinn transgender karlmaður og ég átti í talsverðum erfiðleikum við að sætta ólík sjónarmið. Faðirinn var öllu jákvæðari og vildi allt fyrir barn sitt gera og ég naut þess í lokin á veru minni í Svíþjóð.
Árið var 1995 og ég fór í aðgerð í apríl. D. fór í aðgerð skömmu á undan mér, en í lagfæringaraðgerð sama dag og ég og við vöknum upp nokkurn veginn samtímis á vöknunardeildinni á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi/Solna. Ári síðar flyt ég heim og nokkru síðar lést faðir D. þá orðinn starfsmaður Lettneska sendiráðsins í Stokkhólmi.
D. kom nokkrum sinnum til Íslands, en smám saman urðu sætti á milli hans og móðurinar og hitti ég þau síðast í nóvember er ég kom til Svíþjóðar og mitt fyrsta verk að fara til fundar við minn gamla vin.
Móðir D. fékk heilablóðfall snemma í janúar og kom D. að henni á heimili sínu tveimur dögum síðar er hann kom til Stokkhólms frá Bretlandseyjum og kom henni á sjúkrahús. Það dugði þó ekki til og lést hún um síðustu helgi eftir erfiða ævi. Á Íslandi minnist ég hennar helst sem erfiðrar mömmu, en jafnframt sem konu sem vildi allt gera fyrir barn sitt um leið og hún hafði sjálf upplifað bernsku sem hlýtur að vera erfiðari bernsku annarra
laugardagur, janúar 30, 2010
30. janúar 2010 - Lettneskir vinir
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli