laugardagur, janúar 02, 2010

2. janúar 2009 - Ekki er sopið kálið þótt í ausuna sé komið

Það þýðir lítið að horfa einungis á fortíðina á áramótum. Þá er meira mál að horfa fram á veginn á þau tækifæri sem gefast.

Ég er bjartsýn. Ég trúi því að nýja árið verði betra en hið liðna, að fjárhagur minn verði enn betri en undanfarin ár þrátt fyrir skattahækkanir og kreppu, að heilsan verði ágæt að venju og að lífið brosi við mér á nýju ári, vonandi án argaþras og Icesavekjaftæðis Framsóknarflokksins.

Ég á frí í maí og júní. Mig langar til að hressa upp á gamla reynslu af sjónum og skreppa einn eða tvo túra á sjó, en um leið langar mig til að heimsækja Stokkhólm, Berlín og Austurríki á árinu, ganga á fjöll og njóta lífsins í hópi vina og ættingja. Þá mun ég fara til Malmö í september á þriðja þing Transgender Europe og ég er ákveðin í að ferðast meira um Ísland í sumar en oft áður, ganga meira og njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða.

Ég mun geta tekið þátt í Gay Pride þetta árið og jafnvel Gay Pride í Stokkhólmi helgina á undan ef áætlanir mínar ganga eftir, en ég á mér lítinn draum sem mig langar til að láta rætast á nýju ári, ef ekki á þessu nýja ári, þá á hinu næsta. En hver veit hvenær eða hvort draumarnir rætast?

Það er spurningin!


0 ummæli:







Skrifa ummæli