Því yrði seint haldið fram að niðurstaða Prestastefnu um hjúskaparmál samkynhneigðra kæmu mér á óvart. Þó vonaðist ég eftir jákvæðum viðbrögðum miðað við að meirihluti prestastéttarinnar virðist kominn á þá skoðun að best sé og heillavænlegast að sömu hjúskaparlög gildi fyrir alla í stað þess að flokka þau niður eftir því hverjum fólk sefur hjá. Því miður fór málið á annan veg og fjölmargir hlýddu kalli biskups um að svæfa málið í nefnd.
Einn helsti baráttumaðurinn gegn jafnrétti á Prestastefnu var Halldór Gunnarsson í Holti sem vitnaði til ónefnds sóknarbarns síns sem fannst núverandi hjúskaparlög ganga of langt. Þetta kom mér á óvart. Sem kennimaður og sérfræðingur í sálgæslu hefði hann átt að leiða sóknarbarnið af villu síns vegar og kenna því að við erum öll jöfn fyrir Guði. Þess í stað hóf hann upp raust sína á Prestastefnu og hóf að básúna út fordómafull orð sóknarbarnsins eins og væru þau hans eigin. Kannski er hann sjálfur sóknarbarnið sem hann vitnaði til, enda trúi ég því ekki að mörg sóknarbarna klerks séu jafn fordómafull og hann virðist vera, ef marka má orð hans á Prestastefnu.
Við getum þó huggað okkur við að Halldór Gunnarsson á einungis fáeina mánuði eftir í sjötugt og mun því láta af prestþjónustu áður en langt um líður. Með eftirlaunum hans mun svartstakkahópurinn innan prestastéttarinnar sem taldi um 15 manns við síðustu Prestastefnu vera kominn niður í tölu sem telja má á fingrum annarrar handar.
fimmtudagur, apríl 29, 2010
29. apríl 2010 - Um Prestastefnu 2010
laugardagur, apríl 24, 2010
24. apríl 2010 - Goodbye Cruel World
Það eru komin fimmtán ár síðan ég lá í sjúkrarúmi á leið niður á skurðstofu Karólinska sjúkrahússins í Solna (Stokkhólmi). Ég held að ég geti fullyrt að 24. apríl 1995 sé stærsta stund lífs míns, dagurinn sem mér tókst að verða ég sjálf með hjálp læknisfræðinnar og frábærra aðila sem studdu mig á örlagastundu. Enn er ég minnug þess er ég sönglaði fyrir hjúkkurnar lagstúfinn góða frá Pink Floyd, Goodbye Cruel World í þann mund sem svæfingarlyfin fóru að hafa áhrif, ég gleymdi gömlu lífi og nýtt líf tók við nokkrum stundum síðar.
Óhikað get ég sagt að árin á eftir voru erfið, fyrstu ár mín sem konu. Þau voru þó hátíð við hliðina á þeim árum sem þegar voru liðin.
Í dag er ég sátt við lífið og tilveruna. Ég hefi öðlast viðurkenningu á sjálfri mér frá samfélaginu og við erum eitt. Stundum brosi ég að tímabundnum erfiðleikum, en umfram allt er ég sáttari í dag en nokkru sinni fyrr.
sunnudagur, apríl 11, 2010
11. apríl 2010 - Er RÚV að hvetja til óeirða?
Á morgun verður „skýrslan“ gerð opinber. Það kemur ekki á óvart því hennar hefur verið beðið í marga mánuði. En breytir hún einhverju?
Ef marka má fréttatíma RÚV, þá reikna þeir fastlega með því að fólk ryðjist út á göturnar um leið og skýrslan verður birt og leggi undir sig opinberar stofnanir eða reynir að lemja á embættismönnumhvar sem til þeirra næst. Ég get ekki skilið málflutning fréttastofu RÚV á annan hátt. Hvernig er öðruvísi hægt að skilja heimskulegar spurningar þeirra til lögregluþjóna og dómsmálaráðherra?
Sjálf óttast ég ekkert að sinni. Útrásarræningjarnir ganga ennþá lausir og vaða í peningunum okkar og almenningur á Íslandi er ekki enn farinn að aflífa þá fáu sem enn búa hér á landi. Það bendir til óvenjulegrar stillingar almennings eða jafnvel þrælsótta þessa hins sama almennings.
Það sem helst er að óttast er að RÚV, sem brást öryggishlutverki sínu 17. júní 2000 og aftur aðfararnótt 20. mars s.l., bregðist þjóðinni einu sinni enn og geri sig að fíflum, en nú með því að blása upp loftbólur vegna skýrslunnar.
Það er kannski eðlilegt að Bláskjár óttist að missa sig í bræði sinni!
laugardagur, apríl 10, 2010
10. apríl 2010 - Glæpamenn í sókn
Stundum ofbýður mér hegðunin hjá þeim er síst skyldi. Einn slíkur er í hópi útrásarræningjanna sem settu íslensku þjóðina á hausinn og kunna ekki að skammast sín. Sá er nú búinn að stefna fréttamanni sjónvarpsins fyrir að hafa fjallað um þjófnaði hans frá íslensku þjóðinni.
Umræddur þjófur kemst kannski upp með hegðun sína því svo mjög tókst að afnema reglur um fjármálastarfsemi á gróðærisárunum að glæpamenn af hans tagi gátu stolið að vild án þess að eiga neinar refsingar á hættu. Þessi glæpamaður getur því flaggað í því skjólinu að hann hafi ekki brotið nein lög er hann setti íslensku þjóðina á hausinn ásamt örfáum öðrum glæpamönnum sem flestir lifa nú í vellystingum erlendis fyrir fé sem þeir stálu af íslensku þjóðinni.
Umræddur glæpamaður verður samt glæpamaður. Það er óþarfi að hylma yfir honum því hans rétti staður er gapastokkur á Lækjartorgi eða Austurvelli. Sjálf er ég hætt að versla við einasta fyrirtækið sem hann enn eftir á Íslandi þrátt fyrir virðingu mína fyrir starfsfólki fyrirtækisins og vona í lengstu lög að fyrirtækið verði tekið af honum sem fyrst.