Ég
viðurkenni að það lýsir engri meðvirkni með björgunarsveitunum að lýsa því yfir
hér að ég hefi ekki keypt einn einasta flugeld í fjölda ára. En satt er það
samt og er ég þó full aðdáunar á starfi björgunarsveitanna og vil þeim allt hið
besta. Ég skal meira að segja sigla með björgunarskipinu eins oft og og mér er
unnt í sjálfboðavinnu ef þeir kæra sig nokkuð um aðstoð mína, bara svo lengi
sem ég þarf ekki að kaupa af þeim sprengjudót til að hræða kisurnar mínar. Ég
þoli bara ekki bengalblys og skottertur til skemmtunar án þess að um sé að ræða
neyðartilfelli.
Áður en ég flutti í Árbæjarhverfið bjó ég á sjöttu hæð í Hólunum með útsýni
yfir Elliðaárdalinn, Árbæjarhverfið og
Grafarvog. Um leið og Áramótaskaupinu lauk á gamlárskvöld hurfu Elliðaárdalur, Árbæjarhverfi
og Grafarvogur í reykjarmekki og tilheyrandi sprengjugnýr og mengun lögðust
yfir allt. Síðan sást ein og ein raketta koma upp úr reykjarmökknum og springa
með látum. Ef heppnin og vindurinn voru með mér sást glitta eilítið í
sprengjudótið en síðan ekki söguna meir. Mér þótti lítið í þetta varið og gat
ekki hugsað mér að taka þátt í hildarleiknum.
Ekki lagaðist ástandið eftir að ég flutti í Árbæjarhverfið og var allt í einu
komin ofan í reykjarkófið. Allt í einu var fjarlægðin frá jörðu ekki lengur
vörn fyrir mig og ég neyddist til að loka öllum gluggum og draga fyrir gardínur
til að minnka mengunina inn til mín. Ekki var það til að bæta úr skák að nú var
ég komin með tvær kisur sem áttu bágt með sig á svona kvöldum.
Ég viðurkenni alveg að það verður seint hægt að banna svona mengun á
gamlárskvöld, en er ekki hægt að breyta aðeins áherslunum? Má ekki fækka eitthvað
þessum mengunarblysum og skottertum, ýlum og „kínverjum“ en fjölga þess í stað
alvöru flugeldum og gömlu skipablysunum, jafnvel að nágrannar komi sér saman um
flugeldasýningar öllum til ánægju?
Meira að segja ég er tilbúin til að halda á eldspýtunum fyrir þá sem kaupa
flugeldana :o)
miðvikudagur, janúar 02, 2013
2. janúar 2013 - Blysmengun á gamlárskvöld
þriðjudagur, janúar 01, 2013
1. janúar 2013 - Hvernig verður árið 2013?
Það er
ávallt erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Ef að líkum lætur mun nýja
árið virðast einfalt og ódramatískt hjá mér þótt vissulega muni ýmislegt ganga
á í þjóðfélaginu. Þannig tel ég mjög líklegt að Eyjamenn muni halda upp á að
liðin verða 40 ára frá gosinu í Heimaey, en sömuleiðis að Morgunblaðið verði
hundrað ára ef það fer ekki á hausinn fyrir þann tíma. Það er þó ólíklegt enda
mikill hagnaður af fyrirtækjunum sem halda Morgunblaðinu gangandi. Líklegt er
að stjórnarskipti verði á árinu en ég er samt ekki viss um að ég muni styðja þá
stjórn ef hún ætlar að taka stórt skref til hægri. Úr því Katla sveik okkur á
síðasta ári hlýtur hún að láta vita af sér á þessu ári eða næsta.
Án þess að ég viti það get ég ekki fullyrt að ég verði starfandi á sama stað
næsta árið. Það getur verið en þarf ekki að vera svo. Það er þó ekki vegna
óánægju minnar, en ég veit ekki hvað fer fram í kollum þeirra sem öllu ráða á
efstu hæðum fyrirtækisins. Ef starfið bregst tekur bara sjórinn við rétt eins
og hann tók ávallt við öllu rusli fyrr á árum. Hvað sem því líður á ég frekar
von á betri afkomu á árinu 2013 en hinu síðasta. Ekki er það þó vegna betri launa
enda er ekkert launaskrið hjá mér, 3% kjararýrnun á síðasta ári og viðbúið að
það verði önnur kjararýrnun upp á 3% á þessu nýbyrjaða ári. Á móti kemur að ég
sé fram á lækkaða greiðslubyrði á árinu sem nemur öllu meiru en þessum 3% og
þetta byrjar að skila sér strax í maí.
Ég reikna með að endurnýja rafkerfi heimilins að einhverju leyti, koma fyrir
geislahitara á svölum með varanlegri tengingu og breyta rafkerfi eldhúss þannig
að það miðist við hugsanleg elliglöp. Ekki veitir af þegar komið er á
sjötugsaldurinn. Ýmislegt fleira þarf að bæta og spurningin hvort ekki þurfi að
endurnýja nærri 15 ára gamalt sjónvarpstæki heimilisins á árinu og endurnýja
svalahurðir og glugga.
Ég mun halda áfram formennsku í Ættfræðifélaginu nema að vantrausti verði lýst
á mig á aðalfundi í febrúar. Ég er nefnilega kosin til tveggja ára. Það eru
ekki mörg verkefni sem ég þarf að sinna erlendis vegna baráttu transfólks fyrir
réttindum sínum. Ég mun þurfa að hitta félaga mína á Norðurlöndunum að minnsta
kosti einu sinni snemma á árinu, en ekki á ég von á að mæta á aðrar skipulagðar
ráðstefnur á vegum TGEU á árinu.
Ég ætla að ná af mér 15 kílóum á árinu 2013. Ég veit að ég get það en það
krefst minniháttar fórna og slatta af svita. Úr því að stórreykingamanneskjan
ég gat hætt að reykja árið 2000 hlýt ég líka að geta hætt að éta með græðgi.
Einhverjar fjallgöngur verða farnar, kannski svipað margar og 2010 eða 2011 og
Elliðaárdalurinn verður farinn oftar en síðasta ár, en ég var líka sérstaklega
löt þegar leið fram á haustið.
Ýmislegt fleira er í bígerð, hlutir sem ég ætlaði að vera löngu búin að
framkvæma en lét bíða á hakanum allt árið 2012. Það er engin ástæða til að bíða
frekar. Ég hefi nægan tíma ef ég kæri mig um þótt aðilar sem ætluðu að aðstoða
mig hafi skorast úr leik, en ég lofa ekki að verkefninu verði lokið á árinu
2013. Ef alþjóð veit þetta ekki fyrir næstu jól má ýta á eftir mér um næstu
áramót.
Með þessu óska ég öllum gleðilegs árs og friðar.