Ég
viðurkenni að það lýsir engri meðvirkni með björgunarsveitunum að lýsa því yfir
hér að ég hefi ekki keypt einn einasta flugeld í fjölda ára. En satt er það
samt og er ég þó full aðdáunar á starfi björgunarsveitanna og vil þeim allt hið
besta. Ég skal meira að segja sigla með björgunarskipinu eins oft og og mér er
unnt í sjálfboðavinnu ef þeir kæra sig nokkuð um aðstoð mína, bara svo lengi
sem ég þarf ekki að kaupa af þeim sprengjudót til að hræða kisurnar mínar. Ég
þoli bara ekki bengalblys og skottertur til skemmtunar án þess að um sé að ræða
neyðartilfelli.
Áður en ég flutti í Árbæjarhverfið bjó ég á sjöttu hæð í Hólunum með útsýni
yfir Elliðaárdalinn, Árbæjarhverfið og
Grafarvog. Um leið og Áramótaskaupinu lauk á gamlárskvöld hurfu Elliðaárdalur, Árbæjarhverfi
og Grafarvogur í reykjarmekki og tilheyrandi sprengjugnýr og mengun lögðust
yfir allt. Síðan sást ein og ein raketta koma upp úr reykjarmökknum og springa
með látum. Ef heppnin og vindurinn voru með mér sást glitta eilítið í
sprengjudótið en síðan ekki söguna meir. Mér þótti lítið í þetta varið og gat
ekki hugsað mér að taka þátt í hildarleiknum.
Ekki lagaðist ástandið eftir að ég flutti í Árbæjarhverfið og var allt í einu
komin ofan í reykjarkófið. Allt í einu var fjarlægðin frá jörðu ekki lengur
vörn fyrir mig og ég neyddist til að loka öllum gluggum og draga fyrir gardínur
til að minnka mengunina inn til mín. Ekki var það til að bæta úr skák að nú var
ég komin með tvær kisur sem áttu bágt með sig á svona kvöldum.
Ég viðurkenni alveg að það verður seint hægt að banna svona mengun á
gamlárskvöld, en er ekki hægt að breyta aðeins áherslunum? Má ekki fækka eitthvað
þessum mengunarblysum og skottertum, ýlum og „kínverjum“ en fjölga þess í stað
alvöru flugeldum og gömlu skipablysunum, jafnvel að nágrannar komi sér saman um
flugeldasýningar öllum til ánægju?
Meira að segja ég er tilbúin til að halda á eldspýtunum fyrir þá sem kaupa
flugeldana :o)
miðvikudagur, janúar 02, 2013
2. janúar 2013 - Blysmengun á gamlárskvöld
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:00
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli