Í ljósi þessa þurfa ESB andstæðingar að búa við þær “hræðilegu” aðstæður að fá ekki dagpeninga meðan á dvölinni stendur, geta ekki dvalið á fínasta hóteli borgarinnar, þurfa að sætta sig við það að á hótelinu sé enginn opinn bar, ekkert gufubað, engin líkamsræktaraðstaða, þurfa að borga fyrir kvöldmáltíðir sínar sjálfur og geta ekki drukkið gott kampavín í boði ESB.
Ef ég væri Evrópusambandið myndi ég ekki einu sinni hleypa honum inn í Brussel, ekki einu sinni inn í Belgíu, en það er bara mín skoðun. Hann má þakka fyrir að Evrópusambandið sem slíkt er ákaflega umburðarlynt og lýðræðislegt og gefur öllum skoðunum tækifæri. Það er meira en hægt er að segja um Ásmund Einar Daðason. Skoðun mín á Evrópusambandinu er nefnilega allt önnur en Ásmundar Einars Daðasonar þótt við séum ættingjar langt aftur í miðaldir og vestur í Dali.
Sjálf var ég andstæðingur Evrópusambandsins á sínum tíma og greiddi meira að segja atkvæði gegn Evrópusambandsaðild Svíþjóðar árið 1994. Eftir að Svíþjóð gekk með í Evrópusambandið hófst mikill uppgangur í Svíþjóð, bjartsýni jókst og miklu auðveldara varð að koma ýmsum málum í gegn, betri vinnuaðbúnaði og bættum mannréttindum. Öfugt við verstu andstæðingana skipti ég um skoðun á Evrópusambandinu, viðurkenndi mistök mín og hefi síðan verið stuðningsmanneskja Evrópusambandsins.
Rúmum áratug síðar tók ég þátt í stofnun Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) á fundi í Vínarborg árið 2005. Ég sat þar í stjórn fyrstu þrjú árin sem við vorum að byggja upp samtökin en var síðan skoðunarmaður reikninga samtakanna næstu fjögur árin þar á eftir. Þessi fyrstu þrjú ár samtakanna voru okkur erfið. Samtökin áttu enga peninga og þessar fáu evrur sem komu inn í félagsgjöldum eyddust upp í bankakostnaði og ítrasta rekstri. Allar ferðir okkar á stjórnarfundi, hvort heldur var um að ræða flug eða hótel, voru greiddar úr eigin vasa. Við urðum sjálf að finna ódýrustu flugin og ódýrustu hótelin, ferðuðumst gjarnan með RyanAir eða EasyJet, bjuggum á farfuglaheimilum eða ódýrustu hótelum og þetta voru fjórar til fimm ferðir á ári.
Vorið 2008 gat ég ekki meir. Yfirdrátturinn minn í bankanum var að sliga mig og ég sá fram á að fara á hausinn ef ég héldi baráttunni áfram á eigin kostnað. Ég hætti því í stjórn samtakanna þótt ég héldi áfram trúnaðarstörfum fyrir þau að svo miklu leyti sem mér var unnt. Skömmu eftir að ég hafði tilkynnt um úrsögn mína úr stjórninni kom fyrsti styrkurinn og hann kom frá Evrópusambandinu. Barátta okkar þessi fyrstu þrjú ár var farin að skila árangri og valdastofnanir Evrópu og einstök vinveitt ríki voru farin að taka eftir góðu starfi TGEU og styrkirnir fóru að streyma inn. Sem skoðunarmaður reikninga næstu fjögur árin sá ég hvernig velta samtakanna jókst úr núlli í þriðjung milljónar í evrum talið og starfsfólkinu fjölgaði sömuleiðis úr engum í fimm manns í hlutastörfum og að sjálfsögðu eru allar ferðir stjórnar og annarra trúnaðarmanna greiddar úr sameiginlegum sjóði samtakanna.
Evrópsku transgendersamtökin eru mannréttindasamtök og við höldum áfram að horfa í hverja krónu. Við höldum áfram að búa á ódýrustu hótelum, farfuglaheimilum eða stúdentagörðum er við hittumst og förum ekki fram á neitt annað. Ef við viljum búa flott gerum við það á eigin kostnað.
Ég sé enga ástæðu til að vorkenna áður nefndum og fjarskyldum ættingja mínum og öðrum félögum hans í Heimssýn fyrir að búa á hóteli í Brussel án gufubaðs, ókeypis kvöldmatar og kampavíns. Hefi reyndar aldrei búið á svo fínu hóteli þrátt fyrir stuðning minn við Evrópusambandið enda er það tæplega í anda evrópskrar jafnaðarstefnu. Það skilur ekki Ásmundur Einar Daðason enda löngu búinn að segja skilið við vinstristefnu og orðinn hægrisinnaður Framsóknarmaður.