laugardagur, mars 23, 2013

23. mars 2013 - Baráttan gegn Evrópusambandinu



Þessa dagana er Ásmundur Einar Daðason Evrópusambandsandstæðingur á ferð í Brussel að kynna neikvæða afstöðu sína fyrir Evrópusambandinu. Eitthvað finnst honum illa búið að sér eða eins og hann segir sjálfur þar sem hann kvartar sáran á Eyjunni/Pressunni og gerir samanburð á boðsferðum Evrópusambandsins og ferð Evrópusambandsandstæðinganna:

Í ljósi þessa þurfa ESB andstæðingar að búa við þær “hræðilegu” aðstæður að fá ekki dagpeninga meðan á dvölinni stendur, geta ekki dvalið á fínasta hóteli borgarinnar, þurfa að sætta sig við það að á hótelinu sé enginn opinn bar, ekkert gufubað, engin líkamsræktaraðstaða, þurfa að borga fyrir kvöldmáltíðir sínar sjálfur og geta ekki drukkið gott kampavín í boði ESB.

Ef ég væri Evrópusambandið myndi ég ekki einu sinni hleypa honum inn í Brussel, ekki einu sinni inn í Belgíu, en það er bara mín skoðun. Hann má þakka fyrir að Evrópusambandið sem slíkt er ákaflega umburðarlynt og lýðræðislegt og gefur öllum skoðunum tækifæri. Það er meira en hægt er að segja um Ásmund Einar Daðason.  Skoðun mín á Evrópusambandinu er nefnilega allt önnur en Ásmundar Einars Daðasonar þótt við séum ættingjar langt aftur í miðaldir og vestur í Dali.


Sjálf var ég andstæðingur Evrópusambandsins á sínum tíma og greiddi meira að segja atkvæði gegn Evrópusambandsaðild Svíþjóðar árið 1994. Eftir að Svíþjóð gekk með í Evrópusambandið hófst mikill uppgangur í Svíþjóð, bjartsýni jókst og miklu auðveldara varð að koma ýmsum málum í gegn, betri vinnuaðbúnaði og bættum mannréttindum. Öfugt við verstu andstæðingana skipti ég um skoðun á Evrópusambandinu, viðurkenndi mistök mín og hefi síðan verið stuðningsmanneskja Evrópusambandsins.  


Rúmum áratug síðar tók ég þátt í stofnun Evrópsku transgendersamtakanna (TGEU) á fundi í Vínarborg árið 2005. Ég sat þar í stjórn fyrstu þrjú árin sem við vorum að byggja upp samtökin en var síðan skoðunarmaður reikninga samtakanna næstu fjögur árin þar á eftir. Þessi fyrstu þrjú ár samtakanna voru okkur erfið. Samtökin áttu enga peninga og þessar fáu evrur sem komu inn í félagsgjöldum eyddust upp í bankakostnaði og ítrasta rekstri. Allar ferðir okkar á stjórnarfundi, hvort heldur var um að ræða flug eða hótel,  voru greiddar úr eigin vasa. Við urðum sjálf að finna ódýrustu flugin og ódýrustu hótelin, ferðuðumst gjarnan með RyanAir eða EasyJet, bjuggum á farfuglaheimilum eða ódýrustu hótelum og þetta voru fjórar til fimm ferðir á ári.


Vorið 2008 gat ég ekki meir. Yfirdrátturinn minn í bankanum var að sliga mig og ég sá fram á að fara á hausinn ef ég héldi baráttunni áfram á eigin kostnað.  Ég hætti því í stjórn samtakanna þótt ég héldi áfram trúnaðarstörfum fyrir þau að svo miklu leyti sem mér var unnt. Skömmu eftir að ég hafði tilkynnt um úrsögn mína úr stjórninni kom fyrsti styrkurinn og hann kom frá Evrópusambandinu. Barátta okkar þessi fyrstu þrjú ár var farin að skila árangri og valdastofnanir Evrópu og einstök vinveitt ríki voru farin að taka eftir góðu starfi TGEU og styrkirnir fóru að streyma inn. Sem skoðunarmaður reikninga næstu fjögur árin sá ég hvernig velta samtakanna jókst úr núlli í þriðjung milljónar í evrum talið og starfsfólkinu fjölgaði sömuleiðis úr engum í fimm manns í hlutastörfum og að sjálfsögðu eru allar ferðir stjórnar og annarra trúnaðarmanna greiddar  úr sameiginlegum sjóði samtakanna.


Evrópsku transgendersamtökin eru mannréttindasamtök og við höldum áfram að horfa í hverja krónu. Við höldum áfram að búa á ódýrustu hótelum, farfuglaheimilum eða stúdentagörðum er við hittumst og förum ekki fram á neitt annað. Ef við viljum búa flott gerum við það á eigin kostnað.


Ég sé enga ástæðu til að vorkenna áður nefndum og fjarskyldum ættingja mínum og öðrum félögum hans í Heimssýn fyrir að búa á hóteli í Brussel án gufubaðs, ókeypis kvöldmatar og kampavíns. Hefi reyndar aldrei búið á svo fínu hóteli þrátt fyrir stuðning minn við Evrópusambandið enda er það tæplega í anda evrópskrar jafnaðarstefnu. Það skilur ekki Ásmundur Einar Daðason enda löngu búinn að segja skilið við vinstristefnu og orðinn hægrisinnaður Framsóknarmaður.  

sunnudagur, mars 10, 2013

10. mars 2013 - Um regnbogann


Að frátöldum eðlisfræðilegum staðreyndum um regnboga hefur hann oft verið kenndur við brú á milli heima, sem merki um friðarboðskap á milli manna, brúna á milli manna og guða samanber brúna Bifröst á milli manna og heljar í goðafræðinni. Þá má ekki gleyma sögunni um samband Guðs og manna í fyrstu Mósebók þar sem Guð sendi mönnunum regnbogann sem merki þess að syndaflóðið kæmi aldrei aftur.

Á seinni árum hefur regnboginn verið notaður sem tákn um stolt hinsegin fólks, sem alþjóðlegt tákn sem tengir ólíkar manneskjur með svipaðar tilfinningar í ólíkum heimshlutum og sem friðarmerki á milli hinsegin fólks og annars fólks.

Í Evrópu hefur einn helsti bakhjarl og stuðningsaðili hinsegin fólks verið Evrópusambandið. Þaðan hefur komið talsvert fjármagn til evrópskra baráttusamtaka hinsegin fólks og mikil viðurkenning hefur komið þaðan til okkar sem hefur verið okkur sem hvatning um að halda baráttunni áfram til fulls jafnréttis við aðra samfélagsþegna.

Fyrir okkur sem höfum staðið í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks bæði heima og erlendis er það því sem háðung er nýtt framboð einangrunarsinna gegn Evrópu í komandi alþingiskosningum skuli kenna sig við regnbogann.  


mánudagur, mars 04, 2013

4. mars 2013 - Einkennileg viðbrögð


Þegar ég birti pistil minn um uppgjöf Árna Páls á blogginu í upphafi nýs dags 3. mars 2013 átti ég ekki von á miklum viðbrögðum enda eru bloggin mín löngu orðin að persónulegu spjalli sem fáir nenna að lesa nema þá helst nokkrir vina minna á Facebook og gamlir og forhertir bloggarar af guðs náð. Því til staðfestingar blogga ég orðið einungis endrum og eins og þá einvörðungu ef mér er mikið niðri fyrir.

Þess meira undrandi varð ég er bæði Smugan og Eyjan/Pressan sáu ástæðu til að birta bloggið mitt án þess að hafa samband við mig. Þetta minnir mig reyndar á stutt viðtal sem birtist við mig í DV fyrir mörgum árum, en sem var að öllu leyti tilbúningur blaðamanns, enda var ég fjarri landinu og ekki í símasambandi er blaðamaðurinn reyndi að ná sambandi við mig og því samdi hann viðtalið sjálfur. Af viðbrögðum við greininni í Pressunni virðist samt sem margir hafi einungis lesið greinina án þess að skoða bloggið mitt, en þar var mun ítarlegar farið í hlutina.

Best að taka fram hér og nú að ég er ekki á leiðinni að yfirgefa Samfylkinguna og alls ekki Samfylkingarfélagið í Reykjavík sem hefur verið sem klettur í ólgusjó jafnaðarmennskunnar.

Ég kom inn í Samfylkinguna árið 2006 frá vinstri. Áður hafði ég stutt Alþýðubandalagið og eftir uppstokkun stjórnmálanna árið 1999 gaf ég Vinstri hreyfingunni, grænu framboði atkvæði mitt um nokkurra ára skeið þótt aldrei væri ég meðlimur. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 ákvað VG að hætta samstarfinu um Reykjavíkurlistann. Ég var ekki sátt við þá ákvörðun. Áratug fyrr hafði ég skipt um skoðun gagnvart Evrópusambandinu. Ég bjó í Svíþjóð þegar Svíþjóð gekk með í Evrópusambandið 1994 og greiddi atkvæði gegn Evrópusambandsaðild. Fljótlega eftir inngönguna fór ég að sjá jákvæð áhrif Evrópusambandsins á mannlífið í Svíþjóð, lærði af mistökum mínum og hefi síðan þá verið Evrópusinni. Sú skoðun mín styrktist síðar er ég hóf að starfa alþjóðlega að mannréttindamálum hinsegin fólks og komst að því hve rækilega Evrópusambandið styður við baráttu minnihlutahópa fyrir réttindum sínum.

Með slitum á Reykjavíkurlistanum ákvað ég því að söðla um, hætti óopinberum stuðningi við VG og gekk með í Samfylkinguna og hefi starfað þar síðan.  Ég varð aldrei mikill bógur í Samfylkingunni, tók þó þátt í félagsstarfinu eftir því sem ég hafði tíma, mætti iðulega á félagsfundi og stolt viðurkenni ég að ég var með á frægum fundi í Þjóðleikhúskjallaranum sem samþykkti ályktun gegn ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 21. janúar 2009. Skömmu síðar var ég kosin inn í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og sat þar í tvö ár, en hætti í stjórn árið 2011 og hefi síðan þá verið lítt virk í Samfylkingunni. Það er því rangt sem segir í Pressunni að ég hafi verið áhrifamanneskja í Samfylkingunni, var og er frekar sem lítið peð í öflugri hreyfingu.

Starf Samfylkingarfélagsins í Reykjavík hefur löngum borið keim af jafnaðarmennsku til vinstri, friðarsjónarmiðum, feminisma, mannréttindabaráttu og náttúruvernd , atriði sem við fengum kannski í arf frá Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum auk Evrópusamvinnunnar. Fyrir bragðið hefur starf Samfylkingarfélagsins í Reykjavík oft verið litið hornauga af sumum öðrum félögum Samfylkingarinnar sem ekki hafa viljað skrifa jafnafdráttarlaust upp á þessi vinstrisinnuðu gildi og kallað okkur órólegu deildina. Sjálf hefi ég verið á þeirri línu sumra félaga minna sem hafa viljað læra af félögum okkar í Svíþjóð og Þýskalandi, til dæmis hvað varðar félagsgjöld og skipulag.

Þegar Árni Páll gaf út á föstudag að ekki væri hægt að koma stjórnarskrárfrumvarpinu í gegnum Alþingi á þessu þingi varð ég að mótmæla. Þótt einungis séu sex dagar eftir af þessu þingi þurfa þeir ekkert að vera sex. Það eru þrjátíu og sex dagar eða meira til kosninga og því nægur tími til að koma málinu í gegnum Alþingi ef viljinn er fyrir hendi. Því hljómuðu orð Árna Páls eins og útrétt sáttarhönd til andstæðinganna sem voru fljótir að slá vopnin úr höndum Árna eins og þeirra hefur verið vaninn þessi fjögur ár sem Samfylkingin og VG hafa verið í ríkisstjórn. Um leið hrundi fylgið af Samfylkingunni  samanber ummæli á Facebook í gær. Ég hélt að Samfylkingin mætti ekki við frekara fylgistapi.

Það getur vel verið að Árni Páll hafi rétt fyrir sér að ekki sé hægt lengur að afgreiða stjórnarskrármálið þótt ég sé honum ósammála í því efni. En það er ekki sæmandi flokksformanni að koma með yfirlýsingar um uppgjöf áður en orustan er hafin nema hann sé að búa sig undir samstarf með Sjálfstæðisflokknum í hægristjórn eftir kosningar, en þá verður líka ástæða til að stofna nýjan Evrópusinnaðan vinstriflokk.

Eins og gefur að skilja er ég ekkert brennimerkt einum flokki til lífstíðar.

sunnudagur, mars 03, 2013

3. mars 2013 - Að skjóta sig í fótinn.


Það hefur löngum þótt lélegt veiðibragð að skjóta sjálfan sig í fótinn. Þetta fékk einn skólafélagi minn að reyna er við vorum bekkjarfélagar í Vélskólanum og hann hélt til rjúpnaveiða. Hann gekk um óbyggðir í marga klukkutíma án árangurs þar sem rjúpurnar földu sig fyrir íturvaxinni hetjunni og kom loks til baka að bílnum, en um leið og hann ætlaði setjast inn í bílinn með hlaðna byssuna enn í höndunum, hljóp skot úr byssunni og tók af honum aðra stórutána. Skepnurnar sem voru með honum í bekk í Vélskólanum sáu alveg grínið í þessu slysi og hann var kallaður Tánus 9M eftir þetta eftir vinsælu þýsku bílategundinni Taunus 10M.


Ég er reið. Kortéri fyrir kosningar lætur formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins (Samfylkingin er stærsti stjórnmálaflokkur landsins miðað við kjörna alþingismenn) út úr sér að það sé í lagi að hætta að þrýsta á um nýja stjórnarskrá af því að það er svo stutt til kosninga. Þó eru nærri tveir mánuðir til alþingiskosninga 2013. Þessi orð formannsins verða til þess að ég velti fyrir mér hvort það sé í lagi að greiða flokknum atkvæði mitt?

Það á að greiða stjórnarskrárfrumvarpinu allan þann stuðning sem það getur fengið. Látum á það reyna hvort Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur séu reiðubúnir að standa fyrir málþófi á síðustu dögum þingsins. Hverjum verður það til minnkunar? Örugglega ekki Samfylkingunni. Hinsvegar mun það verða Samfylkingunni til minnkunnar að gefast upp án átaka á þessum síðustu dögum þingsins. Þjóðin vill nýja stjórnarskrá hvort sem Árna Páli og félögum hans í Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk líkar betur eða verr. Við Evrópu- og mannréttindasinnar vildum fá samning um Evrópusambandsaðild á kjörtímabilinu. Við fengum það ekki. Við sósíalistar vildum fá ný lög um stjórn fiskveiða þar sem auðlindin í hafinu er hluti af þjóðarauðnum, en það er að renna úr höndunum á okkur. Nú á að gefa eftir stjórnarskrána í þjónkun við íhaldið.

Það var margt gott gert á kjörtímabilinu. Við fengum lög um réttarstöðu transfólks sem eru til fyrirmyndar þótt bæta megi atriðum í þau, lög sem gefa samkynhneigðum jafnrétti á við annað fólk og ríkisstjórninni tókst að draga þjóðina upp úr þjóðargjaldþroti eftir hrunstjórnir Sjálfstæðis og Framsóknar. Það gekk þó ekki átakalaust og við þurfum að horfast í augu við að fórnir okkar við að rétta af þjóðarhag ætla að verða okkur dýrkeypt.

Þegar sjálfur formaður Samfylkingarinnar ákveður að skjóta sig í fótinn með heimskulegum ummælum um stjórnarskrárfrumvarpið í stað þess að berjast fyrir framgangi þess fram á síðustu stundu er ég ekki lengur með í liðinu.

Ég verð þó áfram meðlimur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík á meðan ég verð ekki rekin þaðan, annað en fölsku atkvæðin til Árna í formannsslagnum  og mun greiða mín félagsgjöld til að staðfesta jafnaðarhugsjónina, en hvort ég sé reiðubúin að lýsa yfir stuðningi við Samfylkinguna í kosningunum í vor er annað mál. Atkvæði mitt fer allavega ekki til pópúlista eða hægrimanna!

P.s. Umræddur Tánus 9M er af Akranesi eins og ónefndur formannsframbjóðandi sem hlaut ekki nægilegt fylgi.