miðvikudagur, október 16, 2013

16. október 2013 - Eftirsjáin (Ångrarna)



Ég hugsa aftur í tímann. Við fengum nýjan gjaldkera í félagið Benjamin sem var félag transsexual fólks í Svíþjóð. Hún var miðaldra, bjó með móður sinni og hafði átt sér þann draum í mörg ár að verða kona.

Það var ekki sjálfsagt mál að verða kona í Svíþjóð í byrjun tíunda áratugs síðustu aldar. Ekki síst fyrir konur sem voru fæddar sem karlar og þar var vinkona mín engin undantekning.  Hún hafði sótt um að komast í aðgerð með breytingum á kyni og nafni í þjóðskrá en fengið neitun, einungis samþykkt breyting á nafni. Í allri kyrrð hélt hún áfram að berjast samtímis því sem hún gætti sjóða félagsins okkar af kostgæfni, var virk í litla félaginu okkar með rúmlega hundrað félaga og loks kom heimild og hún lagðist undir hnífinn og kom út sem kona.


Við ákváðum samtímis að stíga til hliðar, hún hætti sem gjaldkeri, ég sem formaður félagsins. Ég flutti til Íslands en hún hélt áfram að hjúkra aldraðri móður sinni sem lést ekki löngu síðar. Skömmu eftir þetta átti ég erindi til Stokkhólms og hitti vinkonu mína og hún tjáði mér að sér liði illa. Hún hefði vissulega fengið það sem hún sóttist eftir, en það var eitthvað sem var ekki sem hún hafði vænst.

Hún sá eftir öllu saman.

Mörgum árum síðar sá ég kvikmyndina Ångrarna þar sem vinkona mín og önnur manneskja tjáðu sig um mistökin sín í lífinu. Nú er myndin komin til Íslands og ég horfi á hana öðru sinni, finn til með báðum samtímis því sem ég horfi á eigið líf og angra einskis. Ég átti aldrei annan möguleika og gæti ekki hugsað mér að snúa til baka til karlkyns.

2 ummæli:

  1. ég horfði líka en vil óska þér til hamingju kv þóra

    SvaraEyða
  2. Þetta var merkileg mynd. Mér leist ekki of vel á í byrjun því ég hélt að þetta væri ekki gott innnlegg í réttindabaráttu transfólks, en ég gaf henni séns og að lokum sat ég eftir aðeins fróðari en fyrst og fremst með þá tilfinningu um að við leitum öll að lífsfyllingu og það að vera karl eða kona er bara hluti af því hver við erum.

    SvaraEyða