mánudagur, maí 25, 2015

25. maí 2015 - Tími á áhafnarskipti á þjóðarskútunni?



Leiðréttingunni er lokið.  Allir sem eiga skilið að fá leiðrétt laun og bættan húsnæðiskostnaðinn hafa þegar fengið sitt, útgerðarmenn, bankastjórar, læknar, forstjórar og stjórnarformenn, fólkið sem hefur barist fyrir auðæfum þjóðarinnar í gegnum hina svokölluðu kreppu með bros á vör og þegið lítilræði í launahækkanir án þess að væla stöðugt yfir eigin gjaldþroti og rýrnun brýnustu nauðsynja eins gullbrydduðum steikum og skorti á einkaþotum.

Úti í þjóðfélaginu er fjöldi fólks sem aldrei leggja neitt til þjóðarauðsins, ómenntaðir verkamenn og sjómenn, öryrkjar og atvinnulausir, eintómir vesalingar sem kvarta og kveina yfir því sem þeir kalla skert kjör þótt vitað sé að meðaltals launatekjur hafa hækkað um ein 5% á meðan verðbólgan er nánast engin.  Að vísu hafa betri borgarar þessa lands fengið örlítið meira, en það er eðlilegt því þeir hafa lagt mest til þjóðarauðsins, hafa misst hluta af arðgreiðslum sínum og jafnvel þurft að greiða yfir 10% fjármagnstekjuskatt í tíð Jóhönnu og Steingríms og þeir þurfa að geta endurnýjað Rangeroverinn sinn sem nú er orðinn átta ára gamalt skrifli.

En það vantar iðnaðarmenn, vélfræðinga og hjúkrunarfræðinga.  Margir aumingjar af þeim stéttum fóru til Noregs í hinu svokallaða hruni og vilja ekki flytja aftur heim til landsins fagra þótt þeir fái allt að 60% af laununum í Noregi og mega að auki vinna allan sólarhringinn fyrir þessum tekjum og jafnvel fengið leigðan ódýran gám til að búa í.

Við höfum ekki efni á því lengur að útskrifa nýtt fólk af þessum stéttum sem auki er margt orðið háaldrað, jafnvel yfir 25 ára og svo fer það beint til Noregs eða Svíþjóðar eftir námið svo ekki er neitt á það að treysta.  Það er því ekki nema eitt að gera í málinu.  Úr því Íslendingarnir vilja ekki flytja heim aftur er því einfaldast að skipta um þjóð í landinu.  Það er til nóg af pólskum rafvirkjum og trésmiðum frá Litháen.  Þá munu indverskir og thailenskir hjúkrunarfræðingar ekki gefa þeim íslensku neitt eftir og þá er ekki verra að hafa dugmikla verkamenn frá Rúmeníu og Kína.  Það er til nóg af króatískum og rússneskum stýrimönnum á skipin, úkraínskum vélstjórum og hásetum frá Filipseyjum og það sem betra er, gera engar kröfur um hátt kaup og sætta sig við að búa margir saman í hverjum gám.

Kostirnir eru fleiri.  Við getum virkjað eins og við viljum og selt rafmagnið á spottprís til Skotlands og ekki er amalegt að vera með álver í hverjum firði og eina og eina olíuhreinsunarstöð á milli álveranna.  En það albesta er samt það að við losnum endanlega við þessa kvartandi og kveinandi Íslendinga sem heimta stöðugt hærra kaup, jafnvel svo hátt að þeir geti lifað af dagvinnunni einni saman.  Þvílíkar frekjur!

Svo lækkum við enn frekar örorkubæturnar og gerum lífeyrissjóðina upptæka til bættrar afkomu bláfátækrar ríkisstjórnar.  Þeir sem kvarta geta bara flutt aftur til fyrirheitna landsins í austri og ef þeir eiga ekki fyrir flugfari geta þeir slegið saman í gömul bátaskrifli og farið með þeim eins og forfeður þeirra sem komu hingað til lands undan ofríki Noregskónga fyrir rúmlega þúsund árum síðan.  

Jú, þetta er lausnin, skiptum um áhöfn á þjóðarskútunni!


mánudagur, maí 18, 2015

18. maí 2015 - Sítt hár eða karlmennska


Ein ágæt kona og vinur minn á Facebook birti á síðu sinni gamlan innsendara ásamt svari úr Fálkanum sáluga skömmu áður en hann fór á hausinn árið 1966.  Þetta fjallaði um sítt hár sem enginn unglingur gat hugsað sér að vera án á þessum fyrstu Bítlaárum og viðbrögð Fálkans voru eins og búast mátti við af miðaldra karlkyns ritstjórum enda skil ég vel að blaðið hafi farið á hausinn fáeinum mánuðum síðar.

Þegar haft er í huga hver viðbrögð karlasamfélagsins voru gagnvart síðu hári árið 1966 er auðvelt að ímynda sér af hverju ég þorði ekki að koma útúr skápnum á þessum tíma.  Hommar voru í besta falli sendir til geðlæknis en í versta falli á Klepp þegar hér var komið sögu, hvað þá transfólk sem langaði kannski til að vera aðeins kvenlegra en efni stóðu til.  Þarna var ég nýorðin 14 ára og á kafi í tilvistarkreppu vegna kynvitundar minnar og langaði helst til að koma mér í burtu frá öllu saman og hneykslunartónninn í svari blaðsins við því einu að piltur langaði til að safna hári eins og Bítlarnir var nóg til að ég gróf tilfinningar mínar enn neðar í sálarfylgsnin.

Rúmum tveimur áratugum síðar var ég komin af stað öðru sinni til að leita mér hjálpar við kynáttunarvanda mínum þar sem Sölvína Konráðs sálfræðingur vildi allt fyrir mig gera, meðal annars hafði hún rætt við nokkra geðlækna um vanda skjólstæðings síns. Tveir reyndust mér vel, en einn vildi fyrir alla muni leggja mig inn til greiningar.  Nafn hans skiptir ekki máli lengur, ég hafnaði boði hans og leit svo á að hann hefði ekki skilning á þörfum mínum og að þessi innlögn myndi einungis skaða mig persónulega þar sem ég þjáðist ekki af neinum hættulegum geðsjúkdómi.  Fyrir bragðið vildi hann ekki sinna mér frekar og ég fékk aðra og þess hæfari til að greina mig áður en ég fór loks úr landi árið 1989.

Nokkru áður en ég fór úr landi fékk ég skilaboð frá ungum transstrák sem hafði verið lokaður inni til greiningar á kynáttunarvanda hans.  Því miður tókst mér aldrei að svara honum þar sem hann hafði verið lokaður aftur inni áður en ég náði sambandi við hann og því náði ég ekki sambandi við hann fyrr en mörgum árum síðar.  Hann lauk síðar aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni á Íslandi. 

Þegar maður les þennan innsendara í Fálkanum fer ég að hugsa til þess hve Ísland var aftarlega á merinni í frjálsræðinu árið 1966 og meira en þremur áratugum áður en fyrsta aðgerðin til leiðréttingar á kyni var framkvæmd á Íslandi og var enn í gömlu sporunum tuttugu árum eftir greinina í Fálkanum.

Einasta leiðin fyrir okkur sem vorum fyrst var því að flýja land og sækja okkur líf og aðstoð erlendis.  Við vorum engar hetjur.  Hetjurnar dóu allar.  Þær féllu margar fyrir eigin hendi, en áður höfðu hetjurnar verið brenndar á báli eins og Jóhanna frá Örk.

Við komum bara fram opinberlega á réttum tíma eftir þrautagöngu í myrkviðum fáfræðinnar. 


laugardagur, maí 02, 2015

2. maí 2015 - Íbúðalán


Um helgina hafa verið talsverðar umræður á Facebook vegna nauðungarsölu á íbúð hjóna á Akureyri.  Ekki ætla ég að tjá mig mikið um þann fjölskylduharmleik sem nauðungaruppboð eru, enda fór ég ákaflega varlega er ég keypti íbúðina mína árið 2004 og hefi fyrir bragðið aldrei lent í vanskilum þótt afborganirnar hafi stundum verið mér erfiðar eftir hrunið 2008.  Þó er það lítið mál miðað við fjölda fólks sem missti vinnuna og jafnvel íbúðina í kjölfarið.  Ég fór samt að hugleiða málið og fór að reikna.

Ég keypti íbúðina mína haustið 2004 og fékk að láni í Landsbankanum 13.350.000 krónur í tveimur lánum, annarsvegar 10.680.000 krónur til 40 ára og hinsvegar 2.670.000 til fimmtán ára, hvorutveggja með 4,15% vöxtum auk verðbóta.  Nú er ég búin að greiða í nákvæmlega tíu ár af stóra láninu og rúmlega tíu ár af minna láninu og staðan er þessi:  Af stóra láninu sem var í upphafi 10.680.000 krónur hefi ég greitt 7.972.559 krónur en skulda í dag samtals 16.672.747 krónur. Af minna láninu sem var að upphafi 2.670.000 krónur hefi ég greitt samtals 2.861.892 krónur, en skulda nú 872.563 krónur.  Semsagt, ég skulda í dag 17.545.310 krónur af íbúð sem er sennilega metin á 23 til 25 milljónir króna þótt ég sé búin að greiða 10.834.451 krónu í afborganir og vexti  á þessum tíu árum.  Hún er þó ekki endilega til sölu, enda er ég einungis rúmar fimm mínútur að ganga í vinnuna og hér hefi ég allt til alls, útivistarparadís Elliðaárdalsins, Heiðrúnu, vinnuna og frábæra nágranna.

Ég hefði viljað sjá íbúðarlánin mín lækka hraðar en raun ber vitni.  En hefði ég verið eitthvað bættari með óverðtryggðum íbúðarlánum?  Þá hefðu vextirnir verið miklu hærri í samfélagi með mjög óstöðugt efnahagskerfi, einu því lélegasta í heimi.  Ekki get ég kennt bankanum um.  Öll þjónusta Landsbankans við mig hefur verið framúrskarandi og oft hefur starfsfólkið verið mér hjálplegt ef ég hefi lent í vandræðum og leyst úr vandræðum mínum áður en kom til vanskila.

Vissulega hefði ég viljað sjá þjónustugjöldin lægri, en þar er ekki við starfsfólk Landsbankans að sakast og þá er erfitt að sjá lægri fasta vexti en 4,15% í ónýtu hagkerfi og þar ber að hvessa augum á ónýtan Seðlabanka sem heldur stýrivöxtum alltof háum þótt verðbólgan sé lítil sem engin.

Þessi pistill er ekki ritaður til að réttlæta starfsfólk Landsbankans. Þau hafa bara staðið sig svona vel gagnvart mér og það ber að þakka!