Úti í þjóðfélaginu er fjöldi fólks sem aldrei leggja neitt til þjóðarauðsins, ómenntaðir verkamenn og sjómenn, öryrkjar og atvinnulausir, eintómir vesalingar sem kvarta og kveina yfir því sem þeir kalla skert kjör þótt vitað sé að meðaltals launatekjur hafa hækkað um ein 5% á meðan verðbólgan er nánast engin. Að vísu hafa betri borgarar þessa lands fengið örlítið meira, en það er eðlilegt því þeir hafa lagt mest til þjóðarauðsins, hafa misst hluta af arðgreiðslum sínum og jafnvel þurft að greiða yfir 10% fjármagnstekjuskatt í tíð Jóhönnu og Steingríms og þeir þurfa að geta endurnýjað Rangeroverinn sinn sem nú er orðinn átta ára gamalt skrifli.
En það vantar iðnaðarmenn, vélfræðinga og hjúkrunarfræðinga. Margir aumingjar af þeim stéttum fóru til Noregs í hinu svokallaða hruni og vilja ekki flytja aftur heim til landsins fagra þótt þeir fái allt að 60% af laununum í Noregi og mega að auki vinna allan sólarhringinn fyrir þessum tekjum og jafnvel fengið leigðan ódýran gám til að búa í.
Við höfum ekki efni á því lengur að útskrifa nýtt fólk af þessum stéttum sem auki er margt orðið háaldrað, jafnvel yfir 25 ára og svo fer það beint til Noregs eða Svíþjóðar eftir námið svo ekki er neitt á það að treysta. Það er því ekki nema eitt að gera í málinu. Úr því Íslendingarnir vilja ekki flytja heim aftur er því einfaldast að skipta um þjóð í landinu. Það er til nóg af pólskum rafvirkjum og trésmiðum frá Litháen. Þá munu indverskir og thailenskir hjúkrunarfræðingar ekki gefa þeim íslensku neitt eftir og þá er ekki verra að hafa dugmikla verkamenn frá Rúmeníu og Kína. Það er til nóg af króatískum og rússneskum stýrimönnum á skipin, úkraínskum vélstjórum og hásetum frá Filipseyjum og það sem betra er, gera engar kröfur um hátt kaup og sætta sig við að búa margir saman í hverjum gám.
Kostirnir eru fleiri. Við getum virkjað eins og við viljum og selt rafmagnið á spottprís til Skotlands og ekki er amalegt að vera með álver í hverjum firði og eina og eina olíuhreinsunarstöð á milli álveranna. En það albesta er samt það að við losnum endanlega við þessa kvartandi og kveinandi Íslendinga sem heimta stöðugt hærra kaup, jafnvel svo hátt að þeir geti lifað af dagvinnunni einni saman. Þvílíkar frekjur!
Svo lækkum við enn frekar örorkubæturnar og gerum lífeyrissjóðina upptæka til bættrar afkomu bláfátækrar ríkisstjórnar. Þeir sem kvarta geta bara flutt aftur til fyrirheitna landsins í austri og ef þeir eiga ekki fyrir flugfari geta þeir slegið saman í gömul bátaskrifli og farið með þeim eins og forfeður þeirra sem komu hingað til lands undan ofríki Noregskónga fyrir rúmlega þúsund árum síðan.
Jú, þetta er lausnin, skiptum um áhöfn á þjóðarskútunni!