laugardagur, maí 02, 2015

2. maí 2015 - Íbúðalán


Um helgina hafa verið talsverðar umræður á Facebook vegna nauðungarsölu á íbúð hjóna á Akureyri.  Ekki ætla ég að tjá mig mikið um þann fjölskylduharmleik sem nauðungaruppboð eru, enda fór ég ákaflega varlega er ég keypti íbúðina mína árið 2004 og hefi fyrir bragðið aldrei lent í vanskilum þótt afborganirnar hafi stundum verið mér erfiðar eftir hrunið 2008.  Þó er það lítið mál miðað við fjölda fólks sem missti vinnuna og jafnvel íbúðina í kjölfarið.  Ég fór samt að hugleiða málið og fór að reikna.

Ég keypti íbúðina mína haustið 2004 og fékk að láni í Landsbankanum 13.350.000 krónur í tveimur lánum, annarsvegar 10.680.000 krónur til 40 ára og hinsvegar 2.670.000 til fimmtán ára, hvorutveggja með 4,15% vöxtum auk verðbóta.  Nú er ég búin að greiða í nákvæmlega tíu ár af stóra láninu og rúmlega tíu ár af minna láninu og staðan er þessi:  Af stóra láninu sem var í upphafi 10.680.000 krónur hefi ég greitt 7.972.559 krónur en skulda í dag samtals 16.672.747 krónur. Af minna láninu sem var að upphafi 2.670.000 krónur hefi ég greitt samtals 2.861.892 krónur, en skulda nú 872.563 krónur.  Semsagt, ég skulda í dag 17.545.310 krónur af íbúð sem er sennilega metin á 23 til 25 milljónir króna þótt ég sé búin að greiða 10.834.451 krónu í afborganir og vexti  á þessum tíu árum.  Hún er þó ekki endilega til sölu, enda er ég einungis rúmar fimm mínútur að ganga í vinnuna og hér hefi ég allt til alls, útivistarparadís Elliðaárdalsins, Heiðrúnu, vinnuna og frábæra nágranna.

Ég hefði viljað sjá íbúðarlánin mín lækka hraðar en raun ber vitni.  En hefði ég verið eitthvað bættari með óverðtryggðum íbúðarlánum?  Þá hefðu vextirnir verið miklu hærri í samfélagi með mjög óstöðugt efnahagskerfi, einu því lélegasta í heimi.  Ekki get ég kennt bankanum um.  Öll þjónusta Landsbankans við mig hefur verið framúrskarandi og oft hefur starfsfólkið verið mér hjálplegt ef ég hefi lent í vandræðum og leyst úr vandræðum mínum áður en kom til vanskila.

Vissulega hefði ég viljað sjá þjónustugjöldin lægri, en þar er ekki við starfsfólk Landsbankans að sakast og þá er erfitt að sjá lægri fasta vexti en 4,15% í ónýtu hagkerfi og þar ber að hvessa augum á ónýtan Seðlabanka sem heldur stýrivöxtum alltof háum þótt verðbólgan sé lítil sem engin.

Þessi pistill er ekki ritaður til að réttlæta starfsfólk Landsbankans. Þau hafa bara staðið sig svona vel gagnvart mér og það ber að þakka!


0 ummæli:







Skrifa ummæli