föstudagur, apríl 24, 2015

24. apríl 2015 - Ég er tvítug!




Í dag eru liðin tuttugu ár frá þeim degi er ég gekkst undir aðgerð til leiðréttingar á kyni, annar Íslendingurinn sem það gerir samkvæmt opinberum tölum og sá fyrsti sem tjáir sig opinberlega um málið.

Ég ætla ekki að tjá mig mikið um einstöku atriði í tengslum við aðgerðina enda margoft tjáð mig um hana, stundum nánast í smáatriðum þegar eftir því hefur verið leitað.  Ég var búin að berjast fyrir markmiðum mínum í mörg ár og þarna var komið að ákveðnum endapunkti en um leið nýju upphafi, endurfæðingunni.  Að kvöldi 23. apríl 1995  mætti ég á Karólinska sjúkrahúsið í Solna (Stokkhólmi) og var inni um nóttina og síðan flutt niður á aðgerðarstofu í bítið morguninn eftir þar sem aðgerðin var framkvæmd og vissi svo ekkert af mér fyrr en ég vaknaði á uppvakningunni um eftirmiðdaginn sama dag.  Ég lá svo á spítalanum í ellefu daga eftir aðgerðina en var frá vinnu í tvo mánuði á eftir.


Nokkrum mínútum fyrir aðgerðina
Ýmislegt hefur á daga mína drifið á þessum tveimur áratugum sem liðnir eru, bæði gott og slæmt, en spurningunni sem ég fæ oft um hvort ég sjái eftir þessu risastóra skrefi sem ég tók, verð ég enn og aftur að svara neitandi. Þetta er það jákvæðasta sem fyrir mig hefur komið og bjargaði kannski lífi mínu því allt hafði verið á niðurleið hjá mér árin áður en ég fékk samþykki fyrir því að hefja aðgerðarferlið.  Vissulega lauk erfiðleikunum ekki með aðgerðinni, þvert á móti jukust þeir vegna fordóma einstaklinga sem töldu mig betur dauða en lifandi, þar sem örfáir hafa fundið ástæðu til að lumbra á mér eða að niðurlægja mig á annan hátt, en sem betur fer eru þeir margfalt fleiri sem studdu mig og standa enn með mér og öðrum þeim sem ganga í gegnum aðgerðarferli til leiðréttingar.  Því hafa seinni tíma erfiðleikar verið léttvægir í samanburði við nánast ókleyfa erfiðleikana sem blöstu við mér árin áður en Gunnar Hambert prófessor og yfirlæknir við sjúkrahúsið í Uppsölum opnaði dyrnar fyrir mér í Svíþjóð.

Þegar ég hóf að berjast ákvað ég að taka létt á hlutunum, reyna að beita húmornum á vandamálin og hefur það gengið misjafnlega, oft valdið misskilningi og jafnvel vinslitum á Facebook, en síður í raunheimum, þó einhverjum.  Það sem gildir umfram allt er að vera jákvæð.  Nú er ég til dæmis orðin nógu gömul til að mega versla í Ríkinu og kom við í Heiðrúnu í fyrradag og fékk mér nokkrar öldósir til að neyta í tilefni þess að ég er komin með aldur til að drekka áfengi. Af sama toga voru póstkortin sem ég sendi til fjölskyldunnar í tilefni af breytingunni samanber myndina að ofan og að sjálfsögðu textanum sem ég sendi þeim:


2 ummæli: