Eins og gefur að skilja er ég ekkert að tjá mig um síma.
Þótt ég eigi einn Samsung Trabant held ég að Samsung samsteypan sé færari í öðru
en farsímasmíðum.
Það eru ekki nema tíu dagar síðan ég tjáði mig á síðunni um hin nýju gámaskip þar sem hin stærstu eru nú orðin 19.224 gámaeiningar og ný í smíðum. Um helgina birtust fréttir af samningi OOCL í Hong Kong (Orient Overseas Container Lines) við Samsung um smíði á sex risagámaskipum sem á að afhenda fyrir nóvember 2017.
Nú hafa tölurnar verið gefnar upp og eins og á öðrum nýjum risagámaskipum eru lengd og breidd skipanna óbreytt eða tæplega 400 metrar á lengd og tæpir 60 metrar á breidd, en einungis bætt við dýptina og þar með bætt við enn einni gámahæðinni. Með þessu munu nýju skipin geta lestað 21.100 gámaeiningar (1 gámaeining = einn tuttugu feta gámur).
Það fer að verða spurning um hvenær siglingaleiðirnar verða of grunnar fyrir þessi nýju risagámaskip?
Skipasmíðastöðin Samsung Heavy Industries í Suður-Kóreu hefur reyndar smíðað fleiri risafarkosti og nægir þar að benda á gasvinnsluskipið Prelude FLNG sem enn er í smíðum í sömu skipasmíðastöð en það mun vera stærsti farkostur sem nokkru sinni hefur verið smíðaður, 488 metrar á lengd, 74 metrar á breidd og er 600.000 dwt. Það skip mun einnig verða tilbúið árið 2017 og fer þá á gasvinnslusvæðin vestur af Ástralíu og verður staðsett þar til lengri tíma við vinnslu á náttúrugasi.
0 ummæli:
Skrifa ummæli