mánudagur, júní 15, 2015

15. júní 2015 - Fjöldauppsagnir?




Þessa dagana eru hjúkrunarfræðingar og geislafræðingar að segja upp störfum á spítulum landsins eftir að sett voru lög á þá til að ljúka verkfalli þeirra. Fjöldauppsagnir hafa áður verið reyndar með góðum árangri.  Fyrr á árum nýttu ríkisstjórnir sér bráðabirgðalög af miklum móð og minnast nú margir þess er ráðherra beitti Vigdísi Finnbogadóttur hótunum til að stöðva verkfall flugfreyja á tíu ára afmæli kvennafrídagsins þann 24. október 1985.  Þar var hinsvegar ekki um að ræða bráðbirgðalög þar sem Alþingi starfaði, en lögin keyrð í gegn á næturfundi aðfararnótt 24. október.

Ekki ætla ég að fjalla sérstaklega um verkfall flugfreyja árið 1985, heldur önnur bráðabirgðalög frá árinu 1970.  Vorið 1970 logaði Ísland í verkföllum í kjölfar kreppunnar 1967-1969, en yfirmenn á farskipum (vélstjórar, stýrimenn, loftskeytamenn og brytar) sem löngum höfðu verið afskiptir í launum út frá reglunni að þeir gætu bara bætt kjörin með smygli, hófu verkfall 21. júní. Mörg skip stöðvuðust og þann 30. júní voru sett bráðabirgðalög á verkfall þeirra og gerðardómi gert að úrskurða um laun þeirra í síðasta lagi í september sama ár. Í kjölfar bráðabirgðalaganna ákvað mikill meirihluti yfirmanna á skipunum að segja upp störfum miðað við 11. október 1970, eða eins og Ólafur Valur Sigurðsson þáverandi formaður Stýrimannafélags Íslands benti á í viðtali við Morgunblaðið, vel yfir 90% félagsmanna hans tóku þátt í uppsögnunum. 

Með væntanlegan gerðardóm höfðu skipafélögin engan áhuga á að semja við starfsfólkið og því tóku uppsagnirnar gildi frá og með 11. október og skipin byrjuðu að stöðvast eitt af öðru.  Innan við fimm dögum síðar tókust samningar um verulegar kjarabætur og skipin komust af stað að nýju þann 16. október.

Þessi aðgerð yfirmanna á farskipum tókst einungis með samstöðu mikils meirihluta félagsmanna.  Það stefndi í auðn á farskipaflotanum vegna lélegra launa, en með baráttugleði manna eins og Ólafs Vals og Ingólfs Ingólfssonar sem þá var nýlega orðinn formaður Vélstjórafélagsins tókst að bæta kjörin verulega.

Með þessu sendi ég baráttukveðjur til hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga og annarra þeirra sem eiga um sárt að binda eftir nýsett lög gegn verkfalli þeirra.  

miðvikudagur, júní 10, 2015

10. júní 2015 - Hugleiðingar um heimilisofbeldi meðal sjómanna.



Ég skrapp til útlanda um daginn, einungis örfáa daga til að efna gamalt heiti við sjálfa mig og fleiri um Parísarferð ef ég næði markmiðum mínum og auðvitað fór ég á vitlausum tíma, sjálfa sjómannadagshelgina en það verður að hafa í huga að ég er ekki með hugann við sjómannadaginn í febrúar.  Þó fékk ég eitthvað af ákúrum fyrir að hlaupa í burtu þegar mín væri mest þörf, bæði að taka á móti gestum í Óðni og að vera á siglingu í fylgd með Sæbjörginni.  Ferðin var hinsvegar orðin mér nauðsyn til að bæta geðheilsuna eftir alla neikvæðu umræðuna í þjóðfélaginu og hrokann í valdamönnum í vetur.  Ég hafði því ekki áhuga á að breyta áætlunum mínum og naut þess út í ystu æsar að heyra ekkert af opinberri umræðu í fáeina daga, hvíla mig og stunda menningu og sumaryl og njóta þess að fá mér létta drykki á kaffihúsum Parísar í blíðskaparveðri allan tímann.

Svo kom ég heim í rokið og rigninguna, atið í vinnunni, hávaðann og stressið og neikvæðu umræðuna í þjóðfélaginu og það sem efst var á baugi, fáein orð sögð í fljótfærni í garð sjómanna sem fljótlega hafði verið eytt og stór hluti þjóðarinnar reif sig ofan í rassgat af hneykslan yfir orðum ungu konunnar sem misst hafði orðin út úr sér og eytt þeim.  Allt í einu var umburðarlyndið fyrir bí enda stúlkan þekkt fyrir háværa baráttu fyrir kvenréttindum og íslenska þjóðin jós yfir hana heilögum svívirðingum.

Ég reyndi að bera blak af henni á Facebook og samstundis skotin í kaf af reiðum körlum og kerlingum sem virtust eiga sér það eitt að áhugamáli að hata umrædda konu og grein í Fréttablaðinu var rituð af annarri konu sem vildi ekki lengur vera feministi vegna þessarar sömu ungu konu sem hafði misst orðin út úr sér og eytt þeim.  Það er kannski auðveldast að segja sig frá þessu aumingjaþjóðfélagi því ég veit um fjölmarga bjána á Íslandi sem kalla sig Íslendinga.

Ég fór að rifja upp fyrstu árin mín, fyrst í illa byggðum timburhúsum þar sem heyra mátti heimilisofbeldið í þarnæstu íbúð og jafnvel í íbúðum enn lengra í burtu, síðan fyrstu árin til sjós, á gömlum nýsköpunartogurum þar sem margir komu dauðadrukknir um borð þegar farið var út á sjó og til voru menn sem hældu sér af að hafa „tuskað til kjeddlinguna“ í inniverunni  Ekki var álitið mikið á þessum hetjum hafsins, komu kannski í land á mánudegi og flýttu sér í Ríkið til að kaupa sér bokku eða tvær sem voru svo teknar hvíldarlaust út áður en haldið var til hafs á ný. Margir kunnu sér ekki hóf og þessum inniverum fylgdi talsvert ofbeldi og inniverurnar urðu sem martröð fyrir börnin sem máttu horfa upp á þennan viðbjóð.

Nú er ég næstum farin að alhæfa eitthvað, að tengja saman sjómennsku, drykkju og ofbeldi.  Er það nema von?  Ég hlusta á gömul sjómannalög og mörg þeirra gefa í skyn að sjómenn séu drykkjusvolar, sumir enn verri, jafnvel hreinræktaðir perrar.  Hvað um timburblætið hjá Þórði sjóara sem elskaði þilför?  Heppni að hann fékk ekki flís í sig á viðkvæmum stað. Hann var svo slæmur að hann átti sér þann draum að öldurnar breyttust í vín.  Vesalings fiskarnir.  Eða „Gvendur á Eyrinni“ sem var gamall skútukarl?  Hvaða ánægju hafði hann af að hirða um átján gamlar ær?  Miðað við líferni mannsins velti ég fyrir mér annars konar blæti hjá Gvendi miðað við texta lagsins. Það væri gaman að skoða fleiri tvíræða texta þótt ég þekki ekki marga á borð við Þórð og Gvend.

Skipið er heimili sjómannsins.  Þetta er oft sagt á hátíðarstundum.  Hvað skal þá sagt um vesalings „kokkinn á kútter frá Sandi“ sem fær kjaftshögg hvern einasta dag og reyndar með öfugum formerkjum þegar komið er í land. Hreinn ofbeldistexti sem fólk elskar frá einum ástsælasta söngvara þjóðarinnar sem er þuklandi á stelpum og hlutgerir þær í textum sínum sbr „Manstu kvöldin okkar útí Hamborg“ og fleiri.  Hvað með íslensku útgáfuna af írska sjómannalaginu, „Hvað skal með sjómann sem er á því“ þar sem ofbeldið er takmarkalaust á borð við lífshættulegan kjöldrátt, en þar kemur einnig fyrir minniháttar ofbeldi eins og að leggja manninn á ís svo af honum renni og viðurkenni ég fúslega að hafa einu sinni tekið þátt í slíkri athöfn á vertíðarbát þegar vélstjórinn náðist ekki úr koju til að setja í gang vegna ofdrykkju kvöldið áður og hann því kældur niður með ís uns hann drattaðist á lappir. Textar Jónasar Árnasonar eru ein samfelld drykkjusaga enda gjörþekkti hann sjómannslífið og var sjómaður á yngri árum. Dæmin eru mýmörg, vissulega flest frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar en þó eitt og eitt seinnitíma dæmi eins og áhöfnin á Rosanum, en textinn við það lag er enginn fyrirmyndar texti, allavega svo slæmur að ég átti erfitt með að sætta mig við Bubba Mortens í fleiri ár eftir útgáfu plötunnar Ísbjarnarblús.

Með tímamótaplötunni Ísbjarnarblús var ekki lengur staðnæmst við áfengið í textum, en annað komið til sögunnar, dóp, ofbeldi og kynlíf, hugsanlega nauðganir en þetta var alls ekki til að bæta ásýnd sjómanna.  Ég var lengi vel ósátt við textana enda taldi ég vegið að heiðri sjómannastéttarinnar með mörgum laganna.  Það datt samt engum í hug að ata Bubba tjöru og fiðri og reka úr bænum, en hann heitir heldur ekki Hildur Lilliendahl.

Ég er löngu búin að fyrirgefa Bubba og ég fyrirgaf Hildi um leið og ég las um orð hennar, en vil áminna hana að lokum:

Hildur Lilliendahl, haltu þínu striki í baráttunni, en gættu samt orða þinna. Þú átt marga óvini þarna úti.