Á opnu svæði við Rofabæ á milli mín og Kópavogs standa nokkrar aspir í teinréttri röð. Ég er heldur ekki hrifin af öspum í íbúðahverfum þótt ég geti heillast af þeim úr fjarlægð og til sveita.
Frá því Turninn var reistur fyrir 2008 og blasti við mér þar sem ég bý við Hraunbæ í Árbæjarhverfi hefur gerst kraftaverk. Aspirnar við Rofabæ hafa vaxið Turninum yfir höfuð séð frá mér og nú verð ég að bíða haustsins til að sjá aftur til Turnsins og sakna hans ekki neitt, en vissulega sé ég hinn turninn aðeins til hægri við Turninn þegar blæs af norðri. Ég vonast til að hann hverfi einnig á bakvið trjágróður innan margra ára.
Út um gluggana í vinnunni blasti við mér gamalt einokunarfyrirtæki í vestri eftir að flutt var í nýja húsið. Skammt frá húsinu voru gróðursettar nokkrar bjarkir inn á milli bílastæða og voru þær óttalega ræfilslegar fyrstu árin, en nú hafa þær tekið við sér og hulið aðalstöðvar einokunarfyrirtækisins við Bitruháls svo ég þarf ekki lengur að ergja mig á sýn til Mjólkursamsölunnar. Verra var þó með nýja byggingu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar því hún tók af mér útsýnið til Sundahafnar frá vinnunni. Ég get þó huggað mig með því að trjágróðurinn er smám saman að hylja þessa hræðilega ljótu skemmu fyrir mér.
Það er yndislegt að sigla um finnska skerjagarðinn og njóta fegurðarinnar í trjágróðrinum sem nær víðast hvar niður að sjó. Þessu er ekki svona farið með Reykjavík þar sem ískaldir steinsteyputurnar blasa við þegar siglt er um Engeyjarsund að einu gömlu húsi frátöldu.
Var ég nokkuð búin að tjá mig um hrifningu mína á lúpínu?