þriðjudagur, ágúst 25, 2015

25. ágúst 2015 - Hvalveiðar


Ég viðurkenni fúslega að ég er enginn aðdáandi hvalveiða, en ég er heldur enginn andstæðingur þeirra, er fyrst og fremst gagnrýnin vegna neikvæðrar afstöðu alþjóðasamfélagsins, en um leið geri ég mér fulla grein fyrir þeim takmörkunum sem veiðum á langreyði eru settar og get samþykkt þær. Ég geri mér einnig grein fyrir því að hrefnustofninn er fyrir löngu orðinn það stór að ekki er ástæða til að amast við takmörkuðum veiðum á hrefnu. Að auki finnst mér hrefnukjöt ágætt á bragðið sé það rétt matreitt og mun betra en langreyðarkjöt, en þótt ég sé ekkert sérstaklega hrifin af því hefi ég borðað það nokkrum sinnum.

Einnig bíð ég þess að flutningaskipið Winter Bay komi upp að ströndum Japan með hvalkjöt frá Íslandi eftir langa og kannski erfiða siglingu eftir norðausturleiðinni sem ætti að vera vel fær á þessum árstíma.

Fyrir nokkru síðan var ég með nokkra útlenda gesti hjá mér, en þau fóru meðal annars um suðurlandið og austur í Skaftafellssýslur en einnig fóru þau vestur á Snæfellsnes þar sem þau fóru í hvalaskoðun frá Ólafsvík. Þegar þau komu til baka fylgdi ég þeim í einn dag um Reykjavík og þegar ákveðið var að fara á veitingahús, könnuðu þau sérstaklega hvort umrætt veitingahús hefði hvalkjöt á boðstólnum og sniðgengu slík veitingahús. Ég vildi vita skýringuna og þá höfðu þau verið nánast heilaþvegin í hvalaskoðun frá Ólafsvík þar sem þeim hafði verið innrætt að hvalir væru myrtir á grimmilegan hátt og þeim hafði verið ráðlagt að forðast veitingahús sem buðu uppá hvalkjöt, hvort heldur var langreyðarkjöt eða hrefnukjöt. Ég sá reyndar hvergi boðið upp á langreyðarkjöt, en hrefnukjöt var víða á boðstólum. Svona neikvæður áróður á Snæfellsnesi finnst mér óþarfi og einungis til skaða.

Síðan þetta var hefi ég heyrt af fleiri dæmum svipuðum frá Snæfellsnesi þótt reykvískir leiðsögumenn neiti því að þeir taki svo djúpt í árinni. Sjálf get ég vel hugsað mér að hvalveiðar og hvalaskoðun fari vel saman, þó með þeim takmörkunum sem settar voru í tíð síðustu ríkisstjórnar, en voru verulega þrengdar með núverandi ríkisstjórn og blæs á áróður bandarísks ferðamanns sem þóttist hafa myndað hvalveiðar á langreyð þegar hann sá einungis hvalbát á siglingu með hræ af hvölum á leið í land. Langreyðar eru einfaldlega veiddar í úthafinu fjarri ströndum og þangað fara ekki hvalaskoðunarbátar.

Ég minnist þess er ég var á togara í slipp á Akureyri fyrir mörgum árum síðan og á meðan við vorum í slippnum, borðuðum við ávallt í hádeginu í mötuneyti Slippfélagsins. Einn daginn var hrossakjöt í matinn og þegar skipstjórinn okkar sem ekki borðaði hrossakjöt spurði um matseðilinn svöruðum við því til að það væri hvalkjöt í matinn og hann borðaði „hvalkjötið“ með bestu lyst og við sögðum honum ekkert fyrr en öruggt var að maturinn væri kominn alla leið í gegn. Eftir það kannaði hann sjálfur á morgnanna hvað væri í matinn í hádeginu og þegar boðið var upp á hvalkjöt nokkrum dögum síðar fussaði hann og sveiaði og harðneitaði að borða aftur þetta helvítis „hrossakjöt“. Okkur var skemmt!   

föstudagur, ágúst 21, 2015

21. ágúst 2015 - Um íbúðalán



Ég viðurkenni alveg að ég er andstæðingur núverandi ríkisstjórnar sem gert hefur næstum allt öfugt við það sem ég hefði viljað gera. Heimsmetið í formi svokallaðrar leiðréttinginar var til dæmis eitt stórt grín og kom þeim best sem áttu aurana áður, en var til lítillar hjálpar okkur aumingjunum sem áttum vart til hnífs og skeiðar.

Eitt skal ég þó játa að var jákvætt fyrir mig. Þegar samþykkt var að mega nota séreignarsparnaðinn til niðurgreiðslu íbúðarlána tók ég því fegins hendi og lét sparnaðinn eftir það renna til greiðslu annars íbúðarlánsins míns og eftir að hafa greitt af séreignarsparnaðinum mínum inn á lægra íbúðarlánið mitt sé ég fram á að geta greitt það lán að fullu á næsta ári, þ.e. 2016 í stað 2018. Það mun létta verulega á skuldbindingum mínum þótt stærra lánið muni halda áfram að hækka út í hið óendanlega í aldarfjórðung til viðbótar. Það verður samt þægilegra að greiða af því eftir að búið að ljúka greiðslum á lægra láninu og miðað við að áætlanir mínar miðist við að ég verði 180 ára mun ég ljúka því á endanum.

Það var samt betra að þurfa ekki að standa í umsóknarveseni í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar ég fékk 110% leiðréttinguna steinþegjandi og hljóðalaust án þess að hafa þurft að sækja um eitt né neitt enda ekki í neinum vanskilum. Ég mun því geta haldið áfram að greiða af stóra láninu eins og ekkert hafi í skorist þótt ég fái áfall í hvert sinn sem ég skoða stöðu þess og hve það hækkar í hverjum mánuði í furðuhagkerfinu Íslandi þar sem Seðlabankinn tekur kjarabætur af fólki með valdi ef það fær örlitlar launahækkanir.

Það er mikil Guðs mildi að ég ætla mér að fara að dæmi Sigga vinar míns Vídó sem ákvað strax á unga aldri að verða 180 ára en deyja ella.  Því á ég að ná því að greiða niður íbúðarlánið mitt á endanum. Því miður náði Siggi Vídó ekki ætlunarverki sínu að verða 180 ára, en ég ætla að gera það.