föstudagur, ágúst 21, 2015

21. ágúst 2015 - Um íbúðalán



Ég viðurkenni alveg að ég er andstæðingur núverandi ríkisstjórnar sem gert hefur næstum allt öfugt við það sem ég hefði viljað gera. Heimsmetið í formi svokallaðrar leiðréttinginar var til dæmis eitt stórt grín og kom þeim best sem áttu aurana áður, en var til lítillar hjálpar okkur aumingjunum sem áttum vart til hnífs og skeiðar.

Eitt skal ég þó játa að var jákvætt fyrir mig. Þegar samþykkt var að mega nota séreignarsparnaðinn til niðurgreiðslu íbúðarlána tók ég því fegins hendi og lét sparnaðinn eftir það renna til greiðslu annars íbúðarlánsins míns og eftir að hafa greitt af séreignarsparnaðinum mínum inn á lægra íbúðarlánið mitt sé ég fram á að geta greitt það lán að fullu á næsta ári, þ.e. 2016 í stað 2018. Það mun létta verulega á skuldbindingum mínum þótt stærra lánið muni halda áfram að hækka út í hið óendanlega í aldarfjórðung til viðbótar. Það verður samt þægilegra að greiða af því eftir að búið að ljúka greiðslum á lægra láninu og miðað við að áætlanir mínar miðist við að ég verði 180 ára mun ég ljúka því á endanum.

Það var samt betra að þurfa ekki að standa í umsóknarveseni í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar ég fékk 110% leiðréttinguna steinþegjandi og hljóðalaust án þess að hafa þurft að sækja um eitt né neitt enda ekki í neinum vanskilum. Ég mun því geta haldið áfram að greiða af stóra láninu eins og ekkert hafi í skorist þótt ég fái áfall í hvert sinn sem ég skoða stöðu þess og hve það hækkar í hverjum mánuði í furðuhagkerfinu Íslandi þar sem Seðlabankinn tekur kjarabætur af fólki með valdi ef það fær örlitlar launahækkanir.

Það er mikil Guðs mildi að ég ætla mér að fara að dæmi Sigga vinar míns Vídó sem ákvað strax á unga aldri að verða 180 ára en deyja ella.  Því á ég að ná því að greiða niður íbúðarlánið mitt á endanum. Því miður náði Siggi Vídó ekki ætlunarverki sínu að verða 180 ára, en ég ætla að gera það.


0 ummæli:







Skrifa ummæli