Þegar ég bjó í Svíþjóð og var að berjast fyrir heimild fyrir að fara í gegnum aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni leið mér á tímabili eins og að ég væri píslarvottur. Allir voru svo vondir við mig og fordómafullir og vildu mér allt hið versta. Ein vinkona mín stríddi mér á þessu og kallaði þetta sjálfskipað píslarvætti. Ég lærði á því og fór að taka hlutunum á mun jákvæðari hátt en um leið fór ég að finna fyrir jákvæðum viðbrögðum frá samfélaginu og framhaldið varð miklu léttara. Það var því ekki fyrr en ég kom aftur til Íslands sem ég fór að finna virkilega fyrir fordómum, enda þurfti ég að byrja tilveru mína á Íslandi frá núllpunkti, annað en í Svíþjóð þar sem á annað hundrað manns höfðu farið í gegnum aðgerðarferli á undan mér, reyndar flest í skjóli nafnleyndar sem jók tilfinnanlega á fordómana sem voru enn allnokkrir á þessum árum. Sú aðferð að læðast með veggjum var því ekki mjög árangursrík, en með því að fjöldi fólks hefur komið úr skápnum og sagt sögu sína breyttist afstaða fólks og það reyndist unnt að miðla af þekkingu og reynslu úti í samfélaginu.
Á Íslandi höfðu fyrstu skrefin í átt til fordómaleysis gagnvart hinsegin fólki verið stigin með blaðaviðtali Harðar Torfasonar 1975 og stofnun Samtakanna 78 í maí 1978. Fyrsta breytingin á afstöðu almennings gagnvart samkynhneigðum varð hinsvegar frekar með útgáfu hljómplötunnar „Ný spor“ með Bubba Mortens vorið 1984 og laginu góða „Strákarnir á Borginni“. Með laginu um strákana fór fólk að velta fyrir sér stöðu samkynhneigðra og afstaðan til þeirra fór smám saman að breytast.
Fyrsta skrefið í jákvæðu viðhorfi yfirvalda gagnvart samkynhneigðum kom svo á síðari hluta níunda áratugarins þegar Davíð Oddsson þáverandi borgarstjóri beitti sér fyrir því að Samtökin 78 fengju húsið að Lindargötu 49 undir starfsemi sína til bráðabirgða, en það stóð til að rífa húsið, en það var ekki gert fyrr en rúmum áratug síðar. Með þessu komust Samtökin 78 í fast aðsetur og mættu margir félagar í Samtökunum minnast þess betur en gert var fyrir fáeinum árum þegar þeir hinir sömu gagnrýndu veitingu mannréttindaviðurkenningar til Morgunblaðsins eftir jákvæða umfjöllun um transfólk. Það sem gerðist næstu árin eftir að Samtökin 78 fengu inni á Lindargötu 49 er nánast eins og kraftaverk sem sýnir sig ágætlega í jákvæðri þátttöku almennings í gleðigöngunni, í fleiri jákvæðum löggjöfum til handa samkynhneigðum og almennri trú almennings á að samkynhneigðir eigi að njóta jafnréttis á borð við aðra.
Margir ungir hommar og lesbíur eiga þessum brautryðjendum baráttunnar mikið að þakka. Hvar væri t.d. Páll Óskar ef Hörður Torfason og Bubbi Morthens hefðu ekki rutt brautina fyrir hann, hvar væru margir pólitíkusar dagsins ef Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefðu ekki lagt brautina fyrir þá?
Mörgum samkynhneigðum er í nöp við Gylfa Ægisson. Ekki mér. Mér þykir meira að segja pínulítið vænt um karlfauskinn síðan ég kynntist honum er hann spilaði á hótelbarnum í Vestmannaeyjum eftir gos. Það breytir engu um að hann er fordómafullur eða kannski hræddur við að koma út úr skápnum. Ekki veit ég og veit þó að hann tók sér ýmislegt fyrir hendur á fyrri árum sem er ekki í fullu samræmi við fordómafullan gamlan karl.
Nú er nýlegt dæmi um samviskufrelsi presta. Samkvæmt könnun eru þeir tveir innan þjóðkirkjunnar. Málið er einfalt. Íslenska þjóðkirkjan er mannréttindastofnun. Þeir þjónar hennar sem brjóta á mannréttindum eru ekki hæfir sem þjónar þjóðkirkjunnar. Látum kirkjuna reka þá. Samviskufrelsi er hvort eð er bull. Ekki ætla ég að fara á límingunum vegna þessa.
-----
Ég reyni stundum að vitna í eigin reynslu. Þegar samkynhneigðir voru á fullu að fá almenning í lið með sér á Íslandi var ég í Svíþjóð, lengi vel píslarvottur eigin tilfinninga og fordóma og síðar eftir að flutt var heim á ný, „the only transperson in the village“. Á meðan ég var nánast ein varð ég vissulega fyrir miklum fordómum og iðulega á mörkum þess að flytja aftur úr landi. Þetta breyttist 2005-2006 þegar önnur transmanneskja kom fram í dagsljósið og við gátum barist saman gegn fordómunum og okkur varð mikið ágengt. Að auki voru fleiri transpersónur á hliðarlínunni sem vildu ekki láta á sér bera en voru þarna samt, þögular en virkar, þar fremst sú sem fyrst Íslendinga fór í gegnum aðgerðarferlið í Noregi og lauk því í febrúar 1989. Með fjölgun transfólks í sviðsljósinu minnkaði verulega álagið á mér og ég gat snúið mér að öðrum málum. Ég var ekki lengur „the only gay in the village“.
Vissulega var ákveðinn söknuður að því er fjölmiðlar smámsaman hættu að leita til mín, en léttirinn var samt miklu meiri með því að ég hefi aldrei kosið sviðsljósið sem slíkt þótt vissulega hafi athyglissýkin aðeins látið á sér kræla.
„Ég missti af því besta“ heitir grein Óttars Guðmundssonar. Það er heilmikið til í titlinum. Fyrir mig var það alls ekki hið besta, þvert á móti. Jamison Green vinur minn í Bandaríkjunum kemst ágætlega að orði í fyrirsögn kaflans um sig í nýrri bók um tíu þekktar transmanneskjur í Bandaríkjunum en hann er svohljóðandi:
„Transgender when transgender wasn´t cool“
Unglingarnir í dag líta kannski öðruvísi á málið, en það var ekki gaman að láta hæðast að sér eða lemja sig á níunda áratug síðustu aldar. Ég gerði þetta ekki fyrir spennuna heldur vegna tilfinninganna. Það var vissulega spenna fólgin í því að fara sem kona um götur Reykjavíkur á níunda áratugnum, en sú spenna var ekki jákvæð, þvert á móti, svo ekki sé talað um að láta hæðast að sér á brautarpalli T-banans í Stokkhólmi í upphafi hins níunda fyrir það eitt að vera með of mikil karlkyns einkenni en samt í kjól. Mig langar ekki til að upplifa slíka spennu aftur. Ekki tók betra við þegar grunur féll á alsaklausa transkonu að hún væri Lasermannen í Stokkhólmi 1992. (Lasermannen var alræmdur morðingi sem dundaði sér við að reyna að myrða þeldökka innflytjendur í Svíþjóð, en náðist og situr vonandi enn á bakvið lás og slá). Þótt Karen væri saklaus máttum við þola að verða fyrir ofsóknum og jafnvel barsmíðum af hálfu þeirra sem töldu sig eiga eitthvað sökótt við Lasermannen og sáu Lasermannen í sérhverju okkar. Þetta varð reyndar til þess að ég varð formaður föreningen Benjamin eftir að hafa gagnrýnt fyrri stjórn harkalega fyrir að hlaupast í felur í stað þess að koma fram opinberlega og leiðrétta slæman misskilning til að koma í veg fyrir ofsóknirnar.
Í dag er það kannski móðins að vera öðruvísi, hinsegin. Það er ekkert spennandi lengur að vera hommi eða lesbía, verum eitthvað meira. Það er öllum alveg sama. En hvað? Hvað um trans? Það var óplægður akur en ekki lengur. Það er verið að sætta sig við transfólkið í samfélaginu og það veldur vart forsíðufyrirsögnum lengur. Anna Kristjánsdóttir er búin að eyðileggja þann möguleikann. Hvað um að vera asexual og kynlaus? Prófum það næst. Það verður að vera eitthvað æsandi og kitlandi.
Eitt er þó ljóst. Hinsegin fólkið er í tilvistarkreppu. Það er ekki einu sinni spennandi lengur að vera hinsegin. En við getum þó huggað okkur við eitt:
„I‘m the only gay in the village“