Það er að verða ár síðan móðurborðið í gömlu IBM fartölvunni minni gafst
upp og ég neyddist til að leggja ættfræðina á hilluna um tíma, enda lokaðist
Espólin gamli inni í tölvunni og þar með stór hluti af ættfræðirannsóknum mínum
sem geymdar voru þar inni. Ég átti að vísu aðra fartölvu en hún var með Windows
7 og mér hafði verið tjáð að slíkt gengi ekki með gömlu DOS forriti eins og keyrt
er á Espólin gamla. Þegar ég keypti hana í ársbyrjun 2012 tókst starfsfólki
Friðriks Skúlasonar ekki að setja inn Espólín í tölvuna, en þess má geta að
helsti sérfræðingur fyrirtækisins var í leyfi í útlöndum þegar ég kom þangað
með tölvuna.
Vissulega tókst mér að ná út einhverjum gögnum úr gömlu tölvunni með ónýtt
móðurborð sem ég hafði verið að vinna með fyrir fólk af íslenskum ættum í
Kanada, en síðan gafst ég upp á ættfræðinni um sinn, enda Espólín forritið
þægilegra en flest önnur ættfræðiforrit um ættir Íslendinga enda á íslensku
þótt það hafi marga vankanta sem þriggja áratuga gamalt forrit sem gengur illa
í nútíma stýrikerfi.
Nokkru eftir þetta rakst ég á Þorgils Jónasson starfsmann Orkustofnunar og ættgreinir
í frístundum og tjáði hann mér að til væri forrit sem gerði fólki kleyft að
notast við nýrri útgáfur af Windows sem grunn fyrir Espólín og ég fylltist von um að geta
hugsanlega haldið áfram að notast við Espólín gamla þar til nýtt og betra
forrit gæti leyst hann af hólmi án þess að gögn glötuðust. Ég bar þetta vandamál
mitt upp við gamlan ircara og félaga sem er sérfræðingur í tölvumálum er hann
kom við hjá mér í haust og hann hélt að þetta væri ekki mikið mál og hélt á
brott með báðar fartölvurnar mínar, gömlu IBM tölvuna og einnig fartölvuna sem
ég hafði eignast í ársbyrjun 2012. Í fyrradag birtist Steingrímur Helgason hjá
mér að nýju með tölvurnar og eftir smávegis byrjunarörðugleika er ég farin að
vinna við Espólin gamla á fullu eins og ekkert hafi í skorist.
Takk Steingrímur!
föstudagur, október 30, 2015
30. október 2015 - Um ættfræði
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 21:53
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli