Aldrei hefi ég verið neinn sérstakur andstæðingur hvalveiða við Ísland. Sem barn og unglingur var hvalkjöt oft á borðum, þó oftar hrefnukjöt en kjöt af stórhval sem endaði stöku sinnum einnig á borðum okkar. Uppáhaldsviðbit föður míns var súrt hvalrengi.
Fyrir fáeinum árum síðan fór ég fram við það við Kristján Loftsson að fá að fara túr með hvalbát. Á þeim tíma sá ég um greinaskrif fyrir tímarit Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna og langaði til að skrifa pistil um hvalbátana og gufuvélarnar í þeim auk lífsins um borð. Kristján harðneitaði, en er ég ítrekaði óskir mínar svaraði hann með leiðindum og skætingi.
Ég hefi ekki skipt um skoðun gagnvart hvalveiðum en eftir þessi samskipti velti ég fyrir mér hvort Kristján Loftsson væri rétti maðurinn til að halda úti kynningu á hvalveiðum við Íslandsstrendur. Það skiptir ekki máli úr þessu. Hvalveiðisinnar töpuðu áróðursstríðinu fyrir hvalaskoðunarsinnum og hvalveiðum hefur verið hætt að sinni.
Ástæða þess að ég nefni þetta nú er hugmynd sem Guðjón Jensson nefndi við mig á sínum tíma þar sem hann sagði mér frá því er hann sem hluthafi í HB-Granda viðraði við Kristján Loftsson nokkrum sinnum um að nýta hvalveiðibátana til hvalaskoðana, eða eins og Guðjón sagði sjálfur:
„Kristján tók góða vandlætingsyrpu yfir hugmynd sem þessari. Sennilega rakaði hann saman seðlum í dag gegnum ferðaþjónustuna en sitja uppi með kostnaðinn og skömmina af þessum hvalveiðiáhuga sínum.“
Þetta er nákvæmlega málið. Eða eins og einhver gáfaður aðili sagði:
„If you can´t beat them, join them“
Flest skip sem eru notuð til hvalaskoðana í dag eru með hávaðasamar dieselvélar, ekki gömlu hvalveiðiskipin. Þau eru með hljóðlátar gufuvélar sem fælir ekki hvalinn í burtu og þau eru útbúin til að leita uppi hvali. Þau eru nú verkefnalaus við bryggju og þeirra bíður ekkert annað en ný verkefni eða úrelding og síðan potturinn. Af hverju ekki að láta reyna á nýju verkefnin? Sjálf er ég sannfærð um að það sé miklu skemmtilegra að fara í hvalaskoðun með gömlum og gangmiklum hvalveiðibát en þessum bátum sem nú stunda hvalaskoðun.
Það er full ástæða til að skoða þennan möguleika. Ef að hvalveiðar verða mögulegar að nýju er lítið mál að breyta skipunum til baka ef ástæða þykir til slíks.