mánudagur, maí 23, 2016

23. maí 2016 Hvalveiðar eða hvalaskoðun?



Aldrei hefi ég verið neinn sérstakur andstæðingur hvalveiða við Ísland. Sem barn og unglingur var hvalkjöt oft á borðum, þó oftar hrefnukjöt en kjöt af stórhval sem endaði stöku sinnum einnig á borðum okkar. Uppáhaldsviðbit föður míns var súrt hvalrengi.

Fyrir fáeinum árum síðan fór ég fram við það við Kristján Loftsson að fá að fara túr með hvalbát. Á þeim tíma sá ég um greinaskrif fyrir tímarit Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna og langaði til að skrifa pistil um hvalbátana og gufuvélarnar í þeim auk lífsins um borð. Kristján harðneitaði, en er ég ítrekaði óskir mínar svaraði hann með leiðindum og skætingi.

Ég hefi ekki skipt um skoðun gagnvart hvalveiðum en eftir þessi samskipti velti ég fyrir mér hvort Kristján Loftsson væri rétti maðurinn til að halda úti kynningu á hvalveiðum við Íslandsstrendur. Það skiptir ekki máli úr þessu. Hvalveiðisinnar töpuðu áróðursstríðinu fyrir hvalaskoðunarsinnum og hvalveiðum hefur verið hætt að sinni.

Ástæða þess að ég nefni þetta nú er hugmynd sem Guðjón Jensson nefndi við mig á sínum tíma þar sem hann sagði mér frá því er hann sem hluthafi í HB-Granda viðraði við Kristján Loftsson nokkrum sinnum um að nýta hvalveiðibátana til hvalaskoðana, eða eins og Guðjón sagði sjálfur:
„Kristján tók góða vandlætingsyrpu yfir hugmynd sem þessari. Sennilega rakaði hann saman seðlum í dag gegnum ferðaþjónustuna en sitja uppi með kostnaðinn og skömmina af þessum hvalveiðiáhuga sínum.“

Þetta er nákvæmlega málið. Eða eins og einhver gáfaður aðili sagði:
„If you can´t beat them, join them“

Flest skip sem eru notuð til hvalaskoðana í dag eru með hávaðasamar dieselvélar, ekki gömlu hvalveiðiskipin. Þau eru með hljóðlátar gufuvélar sem fælir ekki hvalinn í burtu og þau eru útbúin til að leita uppi hvali. Þau eru nú verkefnalaus við bryggju og þeirra bíður ekkert annað en ný verkefni eða úrelding og síðan potturinn. Af hverju ekki að láta reyna á nýju verkefnin? Sjálf er ég sannfærð um að það sé miklu skemmtilegra að fara í hvalaskoðun með gömlum og gangmiklum hvalveiðibát en þessum bátum sem nú stunda hvalaskoðun.

Það er full ástæða til að skoða þennan möguleika. Ef að hvalveiðar verða mögulegar að nýju er lítið mál að breyta skipunum til baka ef ástæða þykir til slíks.

fimmtudagur, maí 12, 2016

12. maí 2016 - Ársfundur Veitna


Var á ársfundi Veitna í dag. Fyrir þá sem ekki vita hvað ársfundur Veitna er, þá fjallar það um samkomu sem haldin er einu sinni á ári þar sem pípulagningarmenn af Suðurlandi, rafvirkjar af Akranesi og allskyns sérfræðingar og vanvitar frá Reykjavík koma saman, ræða saman um vandamál liðins árs og leysa úr vandamálum dagsins í dag yfir glasi af öli og einu og öðru glasi af hvítu eða rauðu víni, en umfram allt gera sér glaðan dag saman.

Í dag var ársfundurinn haldinn í gamla Officeraklúbbnum á Keflavíkurflugvelli. Eftir morgunmat og umræður um verkefni liðins árs var rætt um hvernig við getum gert betur næsta ár, þjónað viðskiptavinum okkar enn betur og reynt að standa í lappirnar þegar neikvæð atriði koma á borð okkar og reynt að leysa úr þeim með jákvæðu hugarfari.

Fólkið sem hittist þarna er ekkert venjulegt fólk. Þetta er fólkið sem þú sérð uppi í ljósastaurum  að endurnýja ljósin, niðri í skurðum að skipta um frárennslisrör eða í dælustöðvunum að fylgjast með borholunum ásamt okkur sem sitjum í stjórnstöð og þeim sem skipuleggja vinnuna sem skapar flestum og nánast öllum áhyggjulausa daga á heimilum sínum. Kannski eru ekki allir pípulagningamenn á suðurlandi eða rafvirkjar á vesturlandi. Sumir eru rafvirkjar í Borgarnesi og vélfræðingar á suðurlandi, en allt er þetta fólk sem hefur yfirburða þekkingu á sínu sviði og á bakvaktinni þarf það stundum að aka yfir 500 kílómetra á einum degi við að þjónusta viðskiptavini Orkuveitunnar eða þann þátt hennar sem nú heitir Veitur.

Stærstur hluti samskipta okkar er í gegnum rekstrartruflunarskýrslur eða ef mikið liggur við eins og slæmar bilanir að nóttu til, í gegnum síma. Því er nauðsynlegt eins og í dag að hrista hópinn saman, t.d. í gegnum ársfund Veitna þar sem við fáum tækifæri til að hittast og gera eitthvað saman eins og að skoða stríðstól óvinarins eða virkjanir samkeppnisaðilans og enda daginn með því að drekka öl og skála saman fjarri vinnunni.

Umfram allt erum við öll í sama liði með viðskiptavinum okkar og reynum að gera morgundaginn enn betri en daginn í dag.

fimmtudagur, maí 05, 2016

5. maí 2016 - Guðni Thorlacius Jóhannesson




Ég viðurkenni fúslega að ég hefi aldrei verið hrifin af pólitískum forseta Íslands og skiptir þá engu hvort um er að ræða forseta sem kemur beint úr flokkspólitísku vafstri eða með ákveðin sjónarmið í huga, t.d. í náttúruvernd eða iðnaðarstefnu. Því féllu Kristján heitinn Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir ágætlega að hugmyndum mínum að forseta sem sameinar íslensku þjóðina, en sundrar henni ekki.

Í forsetakosningunum 1996 greiddi ég atkvæði með lækni sem vissulega hafði verið á Alþingi sem fulltrúi hugmynda um jafnrétti fremur en pólitískrar stefnu, en lengra finnst mér erfitt að ganga. Forseti Íslands á að geta sameinað þjóðina. Við eigum að geta horft upp til hans eða hennar sem fyrirmyndar fyrir okkur hin.

Á nýju ári í ársbyrjun 2016 og fráfarandi forseti hafði tilkynnt að hann ætlaði að hætta komu fyrst upp í hugann tvær konur sem ég hefði getað hugsað mér í embættið. Ragna Árnadóttir hafði vissulega verið ráðherra en skipuð í embættið vegna faglegrar þekkingar en ekki stjórnmálaskoðana sem ég veit ekki hverjar eru. Hin var Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands sem ég hafði einnig kynnst lítillega en báðar konur sem ég ber mikla virðingu fyrir. Hvorug þeirra gaf kost á sér til framboðs.

þegar allt sauð uppúr í íslensku samfélagi 4. apríl síðastliðinn var kallaður til sögunnar Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og ræddi hann í sjónvarpi á skemmtilegan og fræðandi hátt um embættisverk forseta Íslands, skyldur hans og embættisverk. Ég hafði verið á kynningu hans á bókinni Hrunið þegar hún kom út og þar sem Guðni sagði frá hruninu á alþýðumáli á sama fjörlega hátt og í sjónvarpinu 4. apríl síðastliðinn og þarna sá ég fyrir mér mann sem gæti orðið verðugur forseti. Ekki var verra að ég hafði lítillega kynnst afa hans, Guðna Thorlacius skipherra sem lengst var skipherra á vitaskipinu Árvakri og áður á Hermóði og lét aldrei bugast þrátt fyrir mikið mótlæti í seinni heimsstyrjöld þar sem hann var saklaus pyntaður til sagna í bresku herfangelsi við Kirkjusand í Reykjavík vegna stöðu sinnar sem stýrimaður á flutningaskipinu Arctic, hinn ágætasti maður en Guðni eldri lést árið 1975 þá einungis
67 ára að aldri.

Þann 4. apríl ákvað ég að taka þátt í hópi þeirra sem hvöttu Guðna Th. til forsetaframboðs. Á fundi á uppstigningadag, að sögn fróðra aðila á afmælisdegi eiginkonu sinnar, tilkynnti hann framboð sitt til embættis forseta Íslands og hann talaði ekki í neinum getgátum heldur kom sér beint að efninu eins og hans er von og vísa á góðri og kjarnyrtri íslensku.

Er Guðni flutti ávarp sitt og hvatti til heiðarlegrar kosningabaráttu fór ég að hugsa til Kristjáns Eldjárn. Þetta var eins og í hans anda sem og í anda Guðna heitins Thorlacius skipherra, eða eins og Guðni sagði sjálfur í framboðsræðunni, "forseti þarf að standa við orð sín og hafa ekkert að fela".
Ég mun að sjálfsögðu styðja framboð Guðna af fremsta megni en mun sjálf reyna eins og mér er unnt, fara að ráðum Guðna og hvetja til stuðnings honum af heiðarleika og jákvæðni og án þess að hnýta í aðra frambjóðendur og forðast að fara í skotgrafirnar.

Á undanförnum dögum hefi ég bæði heyrt Guðna kallaðan komma og íhald. Staðreyndin er samt sú að hann hefur ávallt forðast að tileinka sér pólitískar stefnur og ekki tekið þátt í pólitísku starfi svo mér sé kunnugt. Svona mann eiga allir Íslendingar að geta sameinast um.

Með jákvæðni að leiðarljósi tekst að finna Guðna Th. Jóhannessyni stað á Bessastöðum.