fimmtudagur, maí 12, 2016

12. maí 2016 - Ársfundur Veitna


Var á ársfundi Veitna í dag. Fyrir þá sem ekki vita hvað ársfundur Veitna er, þá fjallar það um samkomu sem haldin er einu sinni á ári þar sem pípulagningarmenn af Suðurlandi, rafvirkjar af Akranesi og allskyns sérfræðingar og vanvitar frá Reykjavík koma saman, ræða saman um vandamál liðins árs og leysa úr vandamálum dagsins í dag yfir glasi af öli og einu og öðru glasi af hvítu eða rauðu víni, en umfram allt gera sér glaðan dag saman.

Í dag var ársfundurinn haldinn í gamla Officeraklúbbnum á Keflavíkurflugvelli. Eftir morgunmat og umræður um verkefni liðins árs var rætt um hvernig við getum gert betur næsta ár, þjónað viðskiptavinum okkar enn betur og reynt að standa í lappirnar þegar neikvæð atriði koma á borð okkar og reynt að leysa úr þeim með jákvæðu hugarfari.

Fólkið sem hittist þarna er ekkert venjulegt fólk. Þetta er fólkið sem þú sérð uppi í ljósastaurum  að endurnýja ljósin, niðri í skurðum að skipta um frárennslisrör eða í dælustöðvunum að fylgjast með borholunum ásamt okkur sem sitjum í stjórnstöð og þeim sem skipuleggja vinnuna sem skapar flestum og nánast öllum áhyggjulausa daga á heimilum sínum. Kannski eru ekki allir pípulagningamenn á suðurlandi eða rafvirkjar á vesturlandi. Sumir eru rafvirkjar í Borgarnesi og vélfræðingar á suðurlandi, en allt er þetta fólk sem hefur yfirburða þekkingu á sínu sviði og á bakvaktinni þarf það stundum að aka yfir 500 kílómetra á einum degi við að þjónusta viðskiptavini Orkuveitunnar eða þann þátt hennar sem nú heitir Veitur.

Stærstur hluti samskipta okkar er í gegnum rekstrartruflunarskýrslur eða ef mikið liggur við eins og slæmar bilanir að nóttu til, í gegnum síma. Því er nauðsynlegt eins og í dag að hrista hópinn saman, t.d. í gegnum ársfund Veitna þar sem við fáum tækifæri til að hittast og gera eitthvað saman eins og að skoða stríðstól óvinarins eða virkjanir samkeppnisaðilans og enda daginn með því að drekka öl og skála saman fjarri vinnunni.

Umfram allt erum við öll í sama liði með viðskiptavinum okkar og reynum að gera morgundaginn enn betri en daginn í dag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli