miðvikudagur, júní 22, 2016

22. júní 2016 - Hálf öld



Myndin er fengið að láni frá Tryggva Sigurðssyni. Myndin er tekin nokkru eftir mína tíð um borð.

Í dag, 22. júní 2016, er liðin hálf öld frá því ég byrjaði til sjós sem hálfdrættingur á gömlum nýsköpunartogara. Vissulega hefi ég ekki verið til sjós nema rúmlega helming þess tíma síðan ég byrjaði, en engu að síður eru þetta ákveðin tímamót.
Að minnsta kosti fékk ég bréf frá lífeyrissjóðnum þegar ég varð sextug þess efnis hve mikil skerðingin væri ef ég færi á eftirlaun við sextugt. Það voru nefnilega samþykkt lög frá Alþingi á sínum tíma sem gáfu sjómönnum sem haft höfðu sjómennsku að ævistarfi réttindi til að fara á eftirlaun við sextugt. Til að uppfylla þetta skilyrði þurftu viðkomandi að hafa verið til sjós aðalstarfi í minnst 25 almanaksár og ég var vel yfir þessum viðmiðum. Alþingi gleymdi bara að láta fjármagn fylgja þessum bættu lífeyrisréttindum og því eru þau lítils virði.

Jón Þorláksson RE-204 var gamall nýsköpunartogari, smíðaður 1949 og annar díeseltogari Íslendinga. Aðbúnaðurinn þótti fremur bágborinn um borð þótt hann hafi þótt ágætur er skipið kom nýtt árið 1949 enda mikil framför frá gömlu togurunum sem komu á árunum á milli heimsstyrjalda. Þarna þurfti fólk að hírast á frívöktum í sex manna klefa frammi í lúkar þar sem kojur voru fyrir á þriðja tug háseta í fjórum klefum og hver maður hafði sinn skáp til geymslu á persónulegum munum. (Til samanburðar má geta þess að síðar var ég sem vélstjóri á farskipum með eigið rými sem var allt að 35 fermetrum með setustofu, skrifstofu, svefnherbergi og baðhergi.) Það voru tvö vatnssalerni frammí og tvær sturtur auk lítillar setustofu þar sem hægt var að hafast við þegar lítið var um að vera á toginu. Samt var reynt að gera þetta eins vistlegt og mögulegt var og snyrtipinnarnir í brúnni voru duglegir að reka á eftir okkur að þrífa alla klefana og setustofuna vel og vandlega á heimstíminu.

Aftur í káetu voru svo minni klefar fyrir einn til tvo menn hver og aðeins betri aðbúnaður þar, en einnig voru þar borðsalur og eldhús. Miðskips voru svo herbergi skipstjóra undir brúnni og loftskeytamanns í loftskeytaklefanum aftan við brúna.

Fyrsta ferðin til sjós gekk með ágætum. Það var blíðskaparveður allan túrinn og við náðum fullfermi en mikið skelfing var erfitt að venjast vöktunum fyrir fjórtán ára gamalt barnið og fyrir bragðið virkaði hver sólarhringur sem tveir. Annað sem var til ama var stöðugt áreiti um að trekkja upp togklukkuna eða gefa kjölsvíninu, en ég hafði verið rækilega vöruð við slíku í upphafi ferðar og því þurftu menn að beita öðrum brögðum til að hrekkja hálfdrættinginn og menn hófu að benda á að póstbáturinn kæmi alltaf á sunnudögum með blöðin auk þess sem hægt væri að kaupa þar ýmislegt. Ég hafði aldrei heyrt um neinn póstbát á miðunum áður og tók ekkert mark á stríðnispúkunum, enda kom enginn póstbátur fyrri sunnudaginn sem við vorum í túrnum. Er ég kom aftur í á kvöldvaktina seinni sunnudaginn og kvöldið áður en við fórum í land voru allir á kafi að lesa nýjustu dagblöðin auk þess sem maður sem ég hafði aldrei séð áður sat í borðsalnum og lét lítið fara fyrir sér.
Ha, er það þá satt með póstbátinn?  
Auðvitað ekki, maðurinn hafði veikst á öðrum togara sem var nýkominn á miðin og þurfti að komast í land og undir læknishendur og hafði tekið blaðabunka með sér um leið og hann kom yfir til okkar.
Ég sjálf við stýrið á Jóni Þorlákssyni RE-204

Í þriðja túr um borð þótti ég heldur betur karl í krapinu er ég fékk fullan hásetahlut og var aldrei aftur hálfdrættingur. (Það má svo deila um hvort það var vegna eigin verðleika eða skyldleika við skipstjórann móðurbróður minn sem ég komst svo snemma á heilan hlut.) Það breytir ekki því að Pétur Þorbjörnsson skipstjóri reyndist mér ávallt mjög vel sem og Eyjólfur sonur hans sem var 2. stýrimaður um borð og síðar var ég í nokkur ár vélstjóri hjá Eyjólfi sem skipstjóra á Vestmannaey VE-54.

En sumarvinnan varð að nærri þremur áratugum til sjós og má nú deila um það hversu vel hálfrar aldar vinna þar af erfiðisvinna í mörg ár skilar miklu í lífeyristekjur.

Jón Þorláksson RE-204 var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur þar til í ársbyrjun 1974 er skipið var selt, fékk nafnið Bylgja RE-145 og sent út á loðnuveiðar með flottroll. Skipið sökk 14. febrúar 1974 og Salómon Loftsson vélstjóri fórst með því en hinir ellefu björguðust um borð í Þórunni Sveinsdóttur VE-401.

Hver vill ráða fjórtán ára gamalt barn til sjós í dag?

Ég var heppnari en sumir sem byrjuðu til sjós á eftir mér. Gott dæmi um slíkt er frásögn Þorsteins Gíslasonar loftskeytamanns:
Einn örfárra sk­ipverja á Þork­eli m­ána sem­ treystu sér til að halda áfram­ til sjós eftir Nýfundnalandsveðrið m­ik­la 1959 var Jóhann Ásgrím­ur Guðjónsson háseti (1923-1990) sem­ hélt áfram­ störfum­ á sjó í m­örg ár eftir þetta. Er hann lést árið 1990 ritaði Þorsteinn Gíslason loftsk­eytam­aður m­inningar- grein um­ Ásgrím­ þar sem­ hann k­om­st svo að orði um­ fyrstu sjóm­ennsk­u-reynslu sína sem­ háseti á Þork­eli m­ána:

Það hefur ek­k­i alltaf verið auðvelt líf fyrir unga m­enn að byrja sín fyrstu störf á sjó og þannig var það lík­a m­eð mig. Þegar búið var að senda m­ig niður til að gefa kjölsvínunum­ og sæk­ja lyk­ilinn að togk­luk­k­unni, var ég ófáanlegur til að gera nok­k­urn hlut. Þá k­om­ til m­ín einn af dek­k­inu og sagði: “Þú sk­alt ek­k­i vera að trúa þessum­ lygurum­. Trúðu m­ér.” Síðan var farið í k­affi og þegar inn í borðsal var k­om­ið k­úrði ég m­ig upp að m­ínu tryggðatrölli, Jóhanni Ásgrím­i Guðjónssyni. Þegar k­affitím­anum­ lauk­ var farið aftur út á dek­k­ og þá sagði Ási við m­ig: “Kom­du hérna, góði m­inn,” og teym­di m­ig fram­undir hvalbak­ og þar lét hann m­ig blóðga stórufsa, láta blóðið renna í fötu og tak­a frá lifrina, þar sem­ k­ok­k­urinn, Tóti Mey, ætlaði að búa til blóðm­ör og lifrarpylsu!
  


Ég að fíflast úti á dekki



0 ummæli:







Skrifa ummæli