föstudagur, september 30, 2011

1. október 2011 - Um Alþingi Íslendinga

Meðal virtustu alþingismanna Íslands var Gils Guðmundsson fæddur á gamlársdag 1914 og látinn 29. apríl 2005. Ég man að einhverju sinni er hann bar á góma hélt einhver því fram að hann væri latur samanber hve sjaldan hann fór í pontu á þingfundum. Ég mótmælti þeim sem hélt þessu fram, því vitað var að Gils var einn alduglegasti þingmaður sem Ísland hafði átt, hann var mjög virkur í öllum nefndastörfum og þekktur fyrir að kynna sér öll mál í þaula áður en hann tjáði sig um þau. Þetta var honum í blóð borið, enda fæddur og uppalinn Vestfirðingur og sönn steingeit að auki, þótt hann væri alþingismaður fyrir Reykjaneskjördæmi.  Ævi hans bar líka öll merki mikils dugnaðar og þekkingar á grunnþörfum íslensku þjóðarinnar, heilu doðrantarnir skrifaðir um íslenskan sjávarútveg frá upphafi Íslandsbyggðar og fram á þennan dag, ritstjóri sjómannablaðsins Víkings í samvinnu við Gissur Ó. Erlingsson loftskeytamann og þýðanda (sem enn lifir 102 ára) í tæpan áratug, ritstjóri fyrstu bókanna um Aldirnar og höfundur fjölda annarra rita. Að auki var hann kennari og alþingismaður í tæpa tvo áratugi og friðarsinni af áhuga.

Ástæða þess að ég rifja upp minningu Gils Guðmundssonar er einfaldlega sú að hann var Alþingi til mikils sóma og dæmigerður fyrir marga alþingismenn sem vinna vel og skila sínu dagsverki, ekki aðeins eins og margir alþingismenn gerðu áður fyrr, heldur einnig í dag því þrátt fyrir nokkra gasprara á Alþingi vinnur meirihluti alþingismanna vinnuna sína möglunarlaust og leggur sig fram um að skila góðu verki.

Á undanförnum árum hefur borið mjög á málþófi í ýmsum málum á Alþingi sem hefur vissulega verið þinginu til vansa og þar ætla ég ekki að draga neinn einstakan flokk til ábyrgðar, þingmenn flestra flokka hafa gert sig seka um slíkt og reyndar náð fram breytingum á frumvörpum eftir margra daga málþóf, en það er engu að síður ákaflega neikvæður þáttur í starfi Alþingis, ekki síst eftir að hægt var að fylgjast með fundum Alþingis í beinni útsendingu sem er vissulega vel, en skapar um leið aðstöðu fyrir Morfísglaða unga alþingismenn til að láta ljós sitt skína.

Í dag verður Alþingi sett. Fjöldi fólks ætlar að mæta á Austurvöll og mótmæla, margir án þess að geta sagt hverju á að mótmæla, aðrir til að mótmæla ríkisstjórninni sem þeim finnst ekki hafa staðið sig. Aðrir til að kalla til menn á Alþingi sem eru búnir að koma íslensku þjóðinni á hausinn og eru sjálfir komnir í öruggt skjól fjarri pólitík.  Sjálf viðurkenni ég alveg að hafa tekið þátt í mótmælum við Alþingishúsið, t.d. haustið 2008 sem og í janúar 2009 þegar búsáhaldabyltingin náði hámarki sínu, en ég nenni ekki að mæta til að mótmæla ríkisstjórn sem er að vinna vinnuna sína án þess að hafa nokkurt fjármagn til að framkvæma allt sem þyrfti að framkvæma, því rétt eins og Albert Guðmundsson benti á í sífellu er hann var fjármálaráðherra, það eru ekki til neinir peningar! Steingrímur Jóhann mætti gjarnan einnig benda á hið sama er hann er að svara fyrir niðurskurð og höfnun á réttmætum kröfum fólks. Ég er ekki heldur alltaf sammála Jóhönnu Sigurðardóttur þótt ég styðji hana heilshugar í starfi sínu sem forsætisráðherra, en bæði eiga þau þakkir mínar skildar fyrir mikið og óeigingjarnt starf í ríkisstjórn við verstu aðstæður sem hugsast getur.

Jóhanna og Steingrímur hafa vissulega fengið marga ákúruna fyrir störf sín. En hvað er hægt að gera til að breyta þessu? Það má setja seðlaprentunina í gang og lina augnabliksþjáninguna með því að dæla fölsku fjármagni út í hagkerfið, en slíkt leiðir einungis af sér aukna verðbólgu sem veldur tapi fyrir alla á endanum. Á ég virkilega að ganga á torg og mótmæla góðum störfum þeirra? Af hverju?

Sumir kvarta yfir fjölda alþingismanna og háum launum þeirra. Ég ætla ekki að tjá mig um fjölda þeirra, hinsvegar get ég vel sett mig inn í kjör þeirra. Þingfararkaupið er 520.000 krónur á mánuði. Það er aðeins lægra en meðaltals heildarlaun lögregluþjóna eftir hækkunina sem fékkst með dómi gerðardóms miðað við launin 2010 með hækkun. Þetta eru ekki há laun og margir launamenn með verulega hærri laun. Það koma vissulega aukagreiðslur á launin, búsetustyrkur fyrir landsbyggðarþingmenn og frír sími auk ýmissa álagsgreiðslna. Ég er svosem ekki inni á gafli hjá neinum þingmönnum í dag, en rifja upp í huganum fyrstu ár Margrétar vinkonu minnar Frímannsdóttur á Alþingi og síminn hringdi hjá henni án afláts nánast allan sólarhringinn þá sjaldan hún kom heim af Alþingi.

Í dag verður Alþingi sett, væntanlega undir mótmælum og eggjakasti. Ég ætla ekki að taka þátt í því. Ég mun hinsvegar hugsa hlýlega til allra alþingismanna, líka pólitískra andstæðinga og óska þeim velfarnaðar á vetri komanda, en um leið óska ég þess að allir alþingismenn láti af málþófi um alla framtíð og tryggi að slíkt þurfi ekki að endurtaka sig framar með bætt traust á Alþingi sem eðlilegt framhald.  

fimmtudagur, september 29, 2011

29. september 2011 - Hafa Íslendingar ekki vit á pólitík?

Ég veit ekki hvort mér beri að hafa skoðun á forystumönnum stjórnmálaflokka, á gáfnafari þeirra, fitulagi eða hæfileikum til að gegna forystuhlutverki í stjórnmálum. Þá hefi ég reynt að gæta þess að fjalla ekki mikið um formann Sjálfstæðisflokksins, enda hefi ég talið hann að mörgu leyti hinn mætasta mann þótt hann sé vissulega andstæðingur í pólitík og ættarlaukur ónefndar valdaættar á Íslandi. Engu að síður get ég vart orða bundist þegar ég sé hvern afleikinn á fætur öðrum hjá blessuðum manninum og velti fyrir mér hvort hann meini hlutina af alvöru eða hvort hann sé búinn að mála sig út í horn í pólitíkinni.

Í gær hélt hann ræðu á fundi félags hatursmanna gegn evrópskri samvinnu sem kallar sig Heimssýn. Þar vildi hann draga umsókn um Evrópusambandsaðild til baka í stað þess að ljúka samningaferlinu og treysta íslensku þjóðinni til að greiða atkvæði um aðildina. Þegar haft er í huga að formaðurinn greiddi ekki atkvæði gegn aðildarviðræðum á sínum tíma og lýsti þar með yfir stuðningi sínum og Alþingis við aðildarviðræðurnar, verður að líta svo á að einhver hafi slegið á puttana á honum og verður að ætla að „bláa höndin“ hafi verið þar að verki frekar en hinn almenni flokksmaður, enda verður að telja að „bláa höndin“ sé enn ráðandi í Flokknum þótt hún hafi snúið sér að ritstörfum.

Öllu verri þóttu mér yfirlýsingar formannsins gagnvart hugsanlegri viðurkenningu Íslands á fullveldi Palestínu. Þar kom bersýnilega í ljós vantraust hans á íslenskri alþýðu og heilindum hennar á pólitíska sviðinu. Það má velta fyrir sér hvort hann hafi ekki sagt óbeint að íslenska þjóðin sé of heimsk til að geta samþykkt stuðning við fullveldi Palestínu. Öll vitum við hvílíkar hörmungar palestínska þjóðin hefur þurft að líða vegna ofsókna og fjöldamorða  hernámsliðs Ísraels. Formaður Sjálfstæðisflokksins gefur hinsvegar lítið fyrir slíkt, kannski til að slá pólitískar keilur. Um leið gleymir hann hve mikilvægur stuðningur Íslands getur haft í sjálfstæðisbaráttu lítillar þjóðar. Nægir þar að nefna stuðning Sjálfstæðismannsins Thor Thors fyrir hönd Íslands við stofnum Ísraelsríkis eftir seinni heimsstyrjöld og síðar afdráttarlaus viðurkenning ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks fyrir hönd Íslands á fullveldi Eystrasaltsþjóðanna árið 1991. Slíkar viðurkenningar binda vinarbönd þjóða og fólks á milli og sjálf eignaðist ég ævilanga vini frá Eystrasaltslöndum eftir þá viðurkenningu. Nú má ekki lengur viðurkenna þjóðir vegna skertra vitsmuna íslensku þjóðarinnar. Ég spyr bara, í hvaða forarpytt er formaður Sjálfstæðisflokksins kominn? Ekki er hann að koma í veg fyrir brottflutning hersins eins og mun hafa verið ósk þeirra félaga Halldórs og Davíðs árið 2003 er þeir drógu Ísland í viðbjóðslegt innrásarstríð í fjarlægt land.

Er ekki kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn finni sér nýja forystu?       

mánudagur, september 26, 2011

26. september 2011 - Um dauðarefsingar


Á dögunum var maður einn að nafni Troy Davis tekinn af lífi vestur í Bandaríkjunum. Aftökunni hafði verið mótmælt um allan heim, ekki einvörðungu vegna andstöðu við dauðarefsingar, heldur einnig vegna þess hve mikill vafi lék á um sekt mannsins og má velta því fyrir sér hvort ekki var um dómsmorð að ræða. Troy Davis neitaði alla tíð að hafa myrt lögreglumann fyrir um tveimur áratugum og hans síðustu orð voru á sömu leið, að hann væri saklaus af morðinu. Samt var hann tekinn af lífi eða einfaldlega myrtur af yfirvöldum. Daginn sem hann var tekinn af lífi tók ég þátt í mótmælastöðu við bandaríska sendiráðið í Reykjavík í þeirri veiku von að lífi troy Davis yrði þyrmt

Ástæða þess að ég rifja upp þennan sorgaratburð hér er að eftir að ég nefndi þessa aftöku á Facebook urðu fleiri manns til að mæla með dauðarefsingum, t.d. ef morð eru sérlega ógeðsleg, barnamorð og nauðganir, fjöldamorð og þess háttar, að slíkir menn eigi ekki rétt á því að lifa lengur og séu best teknir af lífi. Þá hafa menn nefnt aftökur fólks á borð við Saddam Hussein sem manns sem átti ekki skilið að lifa. Sjálf sé ég enga slíka undantekningu sem réttlætir dauðadóm og aftöku og bendi á að í ríkjum þar sem dauðarefsingar eru enn við lífi eru einnig til undantekningar.

Einn illræmdasti og ógeðfelldasti morðingi bandarískrar réttarsögu hét Ed Gein. Hann lést á sóttarsæng árið 1984, 77 ára gamall. Ógeðfelld saga Ed Gein varð kveikjan að nokkrum verstu hryllingsmyndum sem gerðar hafa verið í Hollywood, myndum á borð við Psycho, The Texas Chain Saw Massacre, Leatherface og The Silence of the Lambs. Hann var einungis sakfelldur fyrir tvö morð en talið að hann hafi myrt að minnsta kosti sex manns, var talinn náriðill og skreytti heimili sitt með líkamspörtum. Þegar hann var handtekinn árið 1957 var ljóst að hann var alvarlega geðveikur og því lokaður inni á geðveikrahæli til æviloka, því maður tekur ekki geðsjúkling af lífi og hið sama gilti um Bandaríkin á sjötta áratugnum. Eitthvað hefur siðferðið breyst eftir þetta, því í dag eru til fjöldi dæma um að unglingar og fólk sem mjög skertan þroska eða vitsmuni enda lífið á dauðadeild bandarískra fangelsa

Þeir aðilar sem mæltu með dauðarefsingum gerðu ekki ráð fyrir því að ógeðfelldustu morðin mætti rekja til alvarlegrar geðveiki. Reyndar má segja með nokkru sanni að fólk sem er alið upp í eðlilegri virðingu fyrir lífinu geti ekki framið morð nema í geðveilukasti og því sé flest slíkt fólk geðveikt og beri að umgangast sem slíkt. Í gamla Sovétinu voru morð talin á þennan hátt og leiddu oftar en ekki til vistunar á geðveikrahæli, en grófir auðgunarglæpir og glæpir gagnvart ríkinu enduðu gjarnan fyrir aftökusveit. Ónefndir útrásarræningjar mega því teljast heppnir að slíkt siðferði ríkir ekki hér á landi, en velta má því fyrir sér hvort ekki eigi að herða verulega refsingar fyrir hvítflibbaglæpi þótt menn verði ekki hengdir uppi í hæsta gálga.

Til að geta borið virðingu fyrir mannréttindum verðum við að bera virðingu fyrir lífinu!

mánudagur, september 12, 2011

12. september 2011 - Vankunnátta á sveitastjórnarmálum?

Í fréttum Ríkisútvarpsins á sunnudag var vitnað til orða Kjartans Magnússonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem sér hugsanlegri fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík allt til foráttu og bendir á að fjöldi borgarfulltrúa sé svipaður í öðrum norrænum höfuðborgum eins og t.d. Stokkhólmi, þ.e. einn borgarfulltrúi fyrir hverja átta þúsund íbúa.

Mér þóttu þetta mikil vísindi hjá borgarfulltrúanum og reyndar hárrétt ef einungis er horft á íbúafjölda á bakvið hvern borgarfulltrúa, en er þetta svona einfalt? Ef rétt væri mætti fækka bæjarfulltrúum í Garðabæ og á Seltjarnarnesi niður í einn og bæjarfulltrúinn á Álftanesi léti sér nægja stjórnunarstörf fyrir morgunkaffið.

Ég fór því að skoða fjölda kjörinna fulltrúa í sveitastjórnum í Svíþjóð. Það er vissulega rétt að í Stokkhólmi eru um 8000 íbúar á bakvið hvern borgarfulltrúa, en hafa ber í huga að borgarfulltrúarnir í Stokkhólmi eru 101, þ.e. nærri sjöfalt fleiri en í Reykjavík. Í Gautaborg eru 81 borgarfulltrúi eða 6370 íbúar á bakvið hvern borgarfulltrúa og í Malmö eru borgarfulltrúarnir 61 eða 4885 íbúar á bakvið hvern borgarfulltrúa. Fámennasta sveitafélag í Svíþjóð er Bjurholms kommun í Västerbotten, en þar eru kjörnir fulltrúar fólksins í sveitafélaginu einungis 31 en íbúarnir voru 2445 á miðju sumri 2011. Því eru 79 íbúar á bakvið hvern fulltrúa í sveitarstjórn. Þess má geta að flatarmál sveitarfélagsins er 1372 ferkílómetrar eða um fimmfalt stærra en Reykjavíkur. Sjálf bjó ég í Järfälla meðan á veru minni stóð í Svíþjóð og þar voru þá tæpir þúsund íbúar á bakvið hvern bæjarfulltrúa.

Ekki man ég hvenær ákvörðun var um að bæjarfulltrúar í Reykjavík skyldu vera fimmtán, en tel líklegt að það hafi verið árið 1908 þótt ég vilji ekki fullyrða neitt um það. Þá voru íbúar Reykjavíkur innan við tíu þúsund. Það þarf ákveðinn fjölda bæjarfulltrúa í hverju sveitarfélagi til að viðhalda lágmarksþjónustu við íbúana. Í Reykjavík hefur þetta verið leyst að nokkru leyti með því að varaborgarfulltrúar hafa verið í fullu starfi sem slíkir. Þetta veit borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og þá um leið að fimmtán manna hópur borgarfulltrúa er blekkingarleikur gagnvart íbúum Reykjavíkur. Það verður því að álykta að orð hans séu fremur blekking gagnvart Reykvíkingum en að hann þjáist svo illilega af vankunnáttu á stjórn Reykjavíkurborgar.