þriðjudagur, desember 20, 2011

20. desember 2011 – Hvers eiga Mosfellingar að gjalda?

Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri DV er lítt hrifinn af skötu, ekki frekar en ég. Hann hefur nú lagt til að tjaldað verði yfir einhverja sandgryfju í Mosfellssveit og skatan verði elduð þar til að losa viðkvæm nef við fýluna sem fylgir skötunni. Ég er hrifin af hugmyndinni, en ekki staðsetningunni. Mosfellingar eiga lítið land að sjó og stunda ekki sjávarútveg frá heimabyggð og bera því sem slíkir enga ábyrgð á viðbjóði þeim sem kallast kæst skata. Því finnst mér óþarfi að leggja þessa refsingu á þá alsaklausa af skötunni.

Ef Jónas vill vera samkvæmur sjálfum sér, er nær fyrir kappann að senda skötuna suður með sjó. Þar blæs mikið og úr öllum áttum og miklar líkur á því að fnykinn leggi á haf út. Þar sitja og útgerðarmenn með vafasaman kvóta og bera viðbjóðinn í okkur með hjálp vestfirskra eiturbyrlara sem telja skötuna af hinu góða. Hvernig væri að tjalda yfir grunninn á álverinu í Helguvík og elda skötuna þar? Það mætti jafnvel koma fyrir langtjaldi svo þeir sem vilja leggja sér þennan viðbjóð til munns geti étið hann á staðnum án þess að kvelja okkur hin með fnyknum sem af þessu hlýst.


0 ummæli:







Skrifa ummæli